DR. MARO SONDAHL, RÆÐISMAÐUR ÍSLANDS Í CURITIBA Í BRASILÍU – MINNINGARGREIN

Einar Gústafsson, ferðamálafulltrúii í New York og frændi hans flutti okkur þá harmafregn, að Maro Sondahl, ræðismaður Íslands í Curitiba í Brasilíu, hefði farist í hörmulegu umferðarslysi í Norður- Brasilíu þann 10. Jan. s.l.. Maður sem geislaði af bjartsýni, atorku og lífsgleði væri allur. Mig setti hljóðan. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

Minningarnar um góðan dreng hrannast upp. Það var síðla vors árið 1999. Sendiherra-hjónin í Washington D.C. héldu til Brasilíu til að afhenda Cardosa forseta trúnaðarbréf fyrir sendiherra Íslands í Brasilíu. Ég átti í framhaldinu viðræður við utanríkisráðherra, þróunarmálaráðherra, sjávarútvegsráðherra, senatora og fylkisstjóra. En hafði samt allan tímann í huga að taka frá tvo daga til að heimsækja borgina Curitiba í Parana í Suður-Brasilíu. Af því að ég hafði haft spurnir af því, að þar væri marga af afkomendum Brasilíufaranna að finna.

Sú von brást ekki. Tugir manna tóku á móti okkur Bryndísi á flugvellinum. Svo tóku við samfelldir fagnaðarfundir. Nanna Magnúsdóttir, læknir og lífskúnstner, var í forsvari fyrir hópnum. Bróðursonur hennar Maro, doktor í lífeðlis- og erfðafræði, gegndi hlutverki túlksins. Undir hlöðnum veisluborðum, sem svignuðu undan krásum, (að ógleymdum pönnukökunum) var talað saman þindarlaust fram undir rauðamorgun. Það var frá mörgu að segja.

Þetta voru bara þrjár kynslóðir, sem áttu allar ættir að rekja til Vopnafjarðar og Þingeyjarsýslna. Magnús, faðir Nönnu, var á barnsaldri, þegar foreldrar hans fluttust frá Sunnudal í Vopnafirði til Brasilíu. Barnlaus hjón, sem heyrðu ljóshærðan dreng leika á flautu í farandsirkus, gengu honum í foreldrastað. Þau kostuðu hann til náms. Hann varð verkfræðingur og síðar yfirmaður járnbrautanna í Norður- Brasilíu.
Á upplausnarárum, um og eftir fyrra stríð, þegar stjórnleysi ríkti í landinu, tók hann að sér stjórn héraðs, sem var um það bil sjö sinnum stærra en Ísland. Til eru seðlar með mynd og undirskrift forstjóra járnbrautanna, sem voru gjaldmiðill svæðisins. Magnús Vopnfirðingur var sósíalisti og hugsjónamaður. Svo komu herforingjarnir, og allt féll aftur í sama farið: Harðstjórn og spillingu. Verkfræðingurinn sneri sér að málvísindum. Hann hannaði nýtt alþjóðatungumál, sem hann kallaði “Eining”. Það byggði á germönskum og latneskum orðstofnum og náði um skeið meiri útbreiðslu en esperanto. Ég gleymi seint, hvernig Nanna ljómaði, þegar hún sagði frá afreksmanninum, föður sínum og afa Maros.

Mér var það mikill heiður að hafa komið því til leiðar, að Maro Sondahl var skipaður ræðismaður Íslands í Curitiba. Curitiba er borg með um hálfa aðra milljón íbúa. Þar eru engin slömm. Yfirmaður borgarskipulagsins hafði nýlega þegið alþjóðleg verðlaun fyrir bestu lausn á almannasamgöngum sambærilegra borga. Skipulagsverkfræðingurinn var af ætt Sunndæla. Sjálfur var Maro þekktur vísindamaður. Hann átti einkaleyfi á ræktun kaffijurta, sem stóðust þurrka og ásókn skordýra betur en önnur afbrigði.Og annað á kaffijurt, sem hann hafði ræktað, þar sem hægt var að stýra kaffein-innihaldi baunanna.
Og hafði stofnað fyrirtæki um ræktun og dreifingu kaffis af þessari jurt, bæði í Brasilíu og Bandaríkjunum.
Allt sem hann snerti virtist vaxa og dafna. Nanna, og frændgarður Maros, var með réttu stolt af honum. Trúlega hefur Dr. Maro erft marga eðliskosti afa síns, Magnúsar Vopnfirðings. Hann vildi beita þekkingunni til að leysa sitt fólk úr fjötrum fátæktar eins og afi. Og hann var á réttri leið, þegar honum var kippt úr umferð fyrirvaralaust. Það er vandséð, hvað réttlætir slíka ráðstöfun.

Það er skarð fyrir skildi hjá frændgarðinum vopnfirska í Curitiba. Eftir lifir miningin um hrífandi hugsjónamann, sem lét verkin tala í þágu þeirra, sem neyta síns brauðs í sveita síns andlits. Þeir mættu vera fleiri. Við Bryndís flytjum ekkju Maros, Clemenzu, Eriku dóttur þeirra og frændgarðinum heima í Curitiba okkar dýpstu samúðarkveðjur. Það er huggun harmi gegn, að minning Maros mun lifa og verða öðrum fordæmi til eftirbreytni.

Helsinki, 17. jan. 2005