RÖGNVALDUR SIGURJÓNSSON, KONSERTPÍANISTI, MINNINGARGREIN

Það var vorið 1965, og ég var á gangi um Vesturgötuna í einhverjum gleymdum erindagerðum. Ég gekk framhjá fornfálegu, tvílyftu timburhúsi, sem stóð úti við gangstéttina. Þegar ég var kominn framhjá, sneri ég við og gekk til baka. Tók ég rétt eftir því, að það voru engin gluggatjöld á neðri hæðinni? Húsið skyldi þó ekki vera til sölu? Ég var nýkominn heim frá námi og hafði ströng fyrirmæli um að hafa augun opin fyrir húsnæði í gamla vesturbænum. Ég knúði dyra hálfhikandi. Og mikið rétt. Húsráðandi, frú Sigríður Siemsen, ekkja Páls Einarssonar, fyrsta borgarstjóra Reykjavíkur, sagðist vera að bíða eftir kaupanda. Og hér var hann kominn. Daginn eftir var gengið frá kaupunum. Þetta var ást við fyrstu sýn. Ég fann, að húsið hafði sál, og það tók hlýlega á móti mér. Hitt vissi ég ekki fyrr en Bryndís var flutt inn með allt sitt hafurtask og búin að glæða þetta gamla hús nýju lífi, að því fylgdi kaupbætir á efri hæðinni. Þar bjuggu Rögnvaldur og Helga ásamt sonum sínum Þór og Geir. Upp frá því var tónlist Rögnvaldar undirtóninn í lífi okkar allra næstu árin. Reyndar varð þetta sögufræga hús umgjörðin um líf okkar Bryndísar og barnanna í aldarfjórðung. Að vísu varð tæplega tíu ára hlé meðan við Bryndís skruppum vestur til að stofna menntaskólann. Þegar við snerum aftur, voru Rögnvaldur og Helga á braut. En sambandið rofnaði aldrei, heldur varð að vináttusambandi fyrir lífstíð.

Rögnvaldur og Helga voru ólík sem dagur og nótt. Hann lifði fyrir tónlistina, en hún lifði fyrir hann. Hann var hávær, stórkarlalegur, frásagnaglaður og hamhleypa við hljóðfærið. Hún var hljóðlát, hugulsöm, mild í dómum og hjartaprúð og sá um í smáu og stóru, að hann gæti sinnt köllun sinni. Til samans voru þau fullkomin, menningarheimili í hjarta þessa vaxandi þorps, sem hafði aðdráttarafl fyrir þá, sem leituðu út fyrir hversdagsleikann.

Rögnvaldur hafði að vísu komið við mína sögu áður. Hann var prófdómari, þegar ég þreytti mitt fyrsta og seinasta próf við tónlistarskólann í framúrstefnuverki eftir Béla Bartok, sem leiddi til þess, að ég snerti ekki hljóðfæri síðar á ævinni. En nú bætti hann mér þetta upp. Mér er minnistætt frá þessum tíma, að Rögnvaldur var að undirbúa af kappi tónleikaferð til Rúmeníu. Húsið var hljóðbært, svo að Chopin, Rachmaninov, Lizt og Katsjaturian endurómuðu um allt húsið og nágrennið, svo að undir tók uppi á Stýrimannastíg. Þarna kynntist ég því, hvernig einleikstónleikar mikils meistara verða til: Þrotlausar æfingar, endurtekningar ad nauseam, mistök sem eru leiðrétt, túlkun og blæbrigði breytast, og að lokum fengum við að heyra stórkostlega tónleika alskapaða fyrir ekki neitt. Þetta bætti mér upp hið endasleppa nám í tónlistarskólanum á menntaskólaárum. Við Bryndís þykjumst hafa búið að þessari reynslu alla tíð síðan. Þarna lærðum við að njóta tónlistar, að skynja galdurinn og að hrífast af orkunni og fegurðinni,sem á köflum er næstum ómennskt.

Þegar Rögnvaldur hélt upp á fimmtugsafmæli sitt, sem bar upp á 15. október 1968, var húsið allt undirlagt til að taka á móti vinum og aðdáendum Rögnvaldar, sem reyndust vera legio. Helga og Bryndís göldruðu fram stórkostleg veisluföng, kjallaranum var breytt með netadræsum og glimmerljósum í krá á la Manhattan eða Vínarborg, og langborðum raðað upp úti í garði, því að húsið rúmaði hvergi nærri allan þennan mannfjölda, þótt á þremur hæðum væri. Sjálfur var ég dubbaður upp í gervi dyravarðar og tók á móti gestum konsertmeistarans. Þarna tók ég í höndina á gervallri tónlistarelítu Íslands. M.a.s.Páll Ísólfsson og Jón Leifs létu sig hafa það að staldra við undir sama þaki og lýriskasti tenór Norðursins, sjálfur Íslandi, varð vinur minn fyrir lífstíð. Ég held ég hafi ekki enn í dag komið í gáskafyllri gleðskap.

Rögnvaldur Sigurjónsson var hámenntaður tónlistarmaður, sem helgaði líf sitt allt köllun sinni og kúnst. París, Vín og New York voru hans borgir. Það þurfti heila heimsyrjöld til að binda snöggan endi á vist hans hjá Ciampi í París með innrásinni í Frakkland. Þá færði Rögnvaldur sig um set og settist að á Manhattan á stríðsárunum, þar sem hann lauk prófum í píanóleik hjá hinum fræga Sacha Gorodnitzki, útlaga Rússa, og í hljómsveitarútsetningum hjá Vittorio Giannini við Juilliard tónlistarháskólann í New York. Það er til marks um meðfædda hæfileika Rögnvaldar og einbeitta ástundun, að honum var kornungum og nýútskrifuðum boðið að flytja einleikstónleika í Washington í tónleikasal, þar sem engum leyfðist að stíga fæti inn fyrir dyr nema höfuðsnillingum. Og nú stóð hann frammi fyrir hinu sígilda vali íslenskra afreksmanna fyrr og síðar: Átti hann að leggja á brattann, föðurlandslaus í alþóðlegum karríer eða snúa heim? Rögnvaldur valdi Ísland, eða valdi Ísland hann? Það var happ Íslands, en heimurinn veit minnst um það, hvers hann fór á mis. En Rögnvaldur lét aldrei deigan síga. Hann lagðist í víking út í hinn stóra heim frá Íslandi og fór í óteljandi tónleikaferðir til Austurríkis og Þýskalands, Bandaríkjanna og Kanada og í austurveg til Austur Evrópu og Rússlands. Hann gerði strangar kröfur til sjálfs sín og bar sig saman við hina bestu. Þeir sem til þekkja vita, að hann fékk frábæra dóma, enda bjó hann yfir mikilli tækni og yfir eigin stíl og túlkun, sem endurspeglaði karakter hans.

Fyrir utan einleikstónleika heima og erlendis kom hann fram víða með úrvals- hljómsveitum og lék inn á margar hljómplötur, sem halda munu nafni hans á loft. Ævistarf hans var hins vegar kennsla við Tónlistarskólann í Reykjavík í næstum hálfa öld. Þeir eru ófáir landar vorir af yngri kynslóð, sem getið hafa sér orð sem framúrskarandi tónlistarmenn, sem fengu það uppeldi sem dugði hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni. Þeirra á meðal er vinur minn Atli Heimir Sveinsson, sem verið hefur á sinni tíð eitt fremsta tónskáld Norðurlanda og víða hefur borið hróður íslenskrar tónlistar.

En Rögnvaldur var ekki einasta frábær tónlistarmaður. Hann kunni að fjalla um tónlist af innsæi og ástríðu hins innvígða, en á máli, sem allir gátu skilið og numið. Á árunum 1985-1988 fengu útvarpshlustendur beint í æð að njóta frásagnarlistar Rögnvalds í þáttum, sem hann kallaði “Túlkun í tónlist”. Þar lét hann frægustu snillinga konsertsalanna spila perlur tónbókmenntanna og talaði sjálfur af ástríðu, innlifum og orðheppni um blæbrigði í tón- og stílbrögðum og kvað upp dóma um tækni og túlkun og kom því þannig eftirminnilega til skila, hvernig kúltúr, kunnátta og karakter flytjandans gefur meistaraverkum líf og lit í óendanlegri fjölbreytni. Þetta voru stórkostlegir þættir. Ég minnist þess enn, úrvinda og aðþrengdur pólitíkus sem ég var í þá daga, að ég gat ekki fyrirgefið sjálfum mér, ef ég var ekki kominn heim af einhverjum fundinum í tæka tíð til að skemmta mér með Rögnvaldi á þessum fimmtudagskvöldum. Allt var þetta flutt blaðlaust og spontant, eins og snillingum einum er eiginlegt. Óviðjafnanleg frásagnarlist Rögnvaldar kom líka vel til skila í endurminningabókum hans, sem Guðrún Egilson, frænka Helgu, skrifaði eftir honum og hétu “Spilað og spaugað” (1978) og “Með lífið í lúkunum” (1979). Guðrún á þakkir skildar fyrir að hafa varðveitt frásagnargleði þessarar listelsku hamhleypu, sem Rögnvaldur var.

Þótt sambúð okkar Bryndísar og Rögnvaldar og Helgu á Vesturgötunni stæði skemur en hálfan áratug og oft hafi verið vík milli vina síðan, slitnuðu aldrei þau vináttubönd, sem við bundumst á þessum árum. Rögnvaldur og Helga voru miklir vinir vina sinna. Vinátta þeirra var gjöful og við munum njóta hennar enn um stund, þótt bæði séu þau nú horfin okkur sjónum. Minnig þeirra mun lifa í hjörtum þeirra, sem nutu.

Helsinki, 3.mars, 2004