Riga var þeirrar tíðar Hong Kong – alþjóðleg verslunarmiðstöð – sem flutti útflutningsafurðir hins mikla rússneska meginlands til markaða Hansaborganna: Lübeck, Kaupmannahafnar, Hamborgar og Amsterdam. Og þar sem eru líbbleg viðskipti, kviknar gjarnan blómleg menning. Það var þarna sem Richard Wagner tók út þroska sinn sem tónskáld og Eisenstein lagði löngu seinna grundvöllinn að sovéskri kvikmyndalist. Flestar borgir við Eystrasalt voru satt að segja lítið annað en útkjálkaþorp í samanburði við hina fjölþjóðlegu menningu sem blómstraði í Riga, þegar hún var á hátindi frægðar sinnar.
Það er skemmtilegt til þess að hugsa að Dr. Gísli Reynisson, ræðismaður Íslands í höfuðborg Lettlands, átti ósmáan hlut að því að reisa Rigu aftur til fornrar frægðar. Á bak við það er svolítil saga. Gísli hélt ungur maður af Íslandi til náms í vesturheimi í stærðfræði og fjármálafræðum. Hending réð því að sem hann var að ljúka meistarprófi í fjármálafræðum vestur á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna, fékk hann finnskan stærðfræðing sem leiðbeinanda. Þeim varð vel til vina, finnska meistaranum og hans íslenska lærisveini. Það hafði í för með sér að Gísli fylgdi meistara sínum til Tampere í Finnlandi, þaðan sem hann lauk Lícencíat-prófi í stærðfræði og doktorsprófi í fjármálastærðfræði. Þar með voru örlög hins unga Íslendings ráðin.
Eftir stuttan stans í St. Pétursborg á vegum finnsks fjármálafyrirtækis komst Gísli að raun um að það væri betra að ástunda einkaframtakið sjálfur en að kenna það öðrum. Hann færði sig um set og settist að í Riga. Réttur maður á réttum stað á réttum tíma. Riga var í rúst. Þar var allt falt. En það þurfti líka að taka til hendinni til að byggja upp á ný. Erlendir fjárfestar, sem vildu hasla sér þar völl, þurftu nútímalegar bækistöðvar og hátæknifjarskipti við umheiminn. Snilli Gísla var að hann var alltaf einu skrefi á undan samkeppninni. Þeir sem vildu setja upp sjoppu í Riga, hvort heldur það voru Microsoft, Statoil eða Pepsi Cola, svo að ekki sé minnst á minni spámenn, enduðu því sem leiguliðar Gísla. Hann kom upp nútímalegri hafnaraðstöðu. Hann byggði iðngarða með últratækni. Smám saman leiddi eitt af öðru. Að lokum var Gísli orðinn einn helsti athafnamaður hins endurreista Lettlands.
Hvað var það sem gerði Gísla að ríka manninum í Riga? Það var maðurinn sjálfur. Hann var vakinn og sofinn yfir verkefninu. Hann greindi stöðuna af köldu raunsæi og mikilli nákvæmni. Sumir sögðu hann ofvirkan. Óvirkur var hann alla vega ekki. En þrátt fyrir áræðnina, sýndi hann einatt ítrustu varfærni. Stöðumat stærðfræðingsins var þrælundirbúið. Hann greindi áhættuna skýrt, reyndi að sjá fyrir hið óorðna, en hafði ævinlega varaplan B og C til að bregðast við því óvænta. Þess vegna reyndist hann farsæll. Mikið vildi ég til þess gefa að forsjármenn íslenska lýðveldisins hefðu sýnt sambærilega árvekni, í bland við framsýni og varfærni.
Athafnaskáld með akademískan bakgrunn. Þeir eru ekki margir slíkir. Kannski var það það, sem gerði gæfumuninn. En hann féll frá allt of ungur. Það var svo margt ógert. En hann átti góða samverkamenn í Lettlandi, sem nú verða að halda merkinu á loft. Laima- klukkan verður að halda sínum hljóm. Við Bryndís sendum Önnu Margréti og allri fjölskyldunni samúðarkveðjur með þökk fyrir góðar samverustundir á bökkum Daugava.