KREPPAN OG EVRAN

Erum við ekki flest sammála um það, að við náum okkur seint á strik aftur, nema með því að fá afnot af gjaldmiðli sem dugar í viðskiptum, innan lands og utan? Er ekki lexían, sem við þurfum að læra af hruninu sú, að við komumst ekki af án þess að hafa starfhæft bankakerfi, stöðugt gengi, traustan gjaldmiðil og lága vexti? Er það ekki þetta sem rekur á eftir okkur að sækja um aðild að Evrópusambandinu og að taka upp evru? Við höfum fengið okkur fullsödd af því að vera leiksoppar í fjárhættuspili.

Þegar við lýsum væntingum af þessu tagi, fáum við venjulega það svar, að þetta séu draumórar um töfralausnir. Sjáið bara hvernig ástandið er í Austur-Evrópu: Samdráttur í þjóðarframleiðslu, þung skuldabyrði og vaxandi atvinnuleysi. Samt eru þessar þjóðir í Evrópusambandinu. Horfið á ástandið í Ungverjalandi sem dæmi. Ungverjaland samdi um inngöngu í Evrópusambandið árið 2004, en er eitt af ESB-ríkjunum, sem standa fyrir utan evrusvæðið.

Ungverjar hafa sinn eigin gjaldmiðil, sem er bundinn við evru, en með háum vikmörkum. Forintan getur því sveiflast og er auðvelt skotmark fyrir spákaupmenn, sérstaklega af því að Ungverjar eru skuldugir. Hagfræðingum ber saman um, að Ungverjum hafi heldur betur orðið á í hagstjórninni, rétt eins og okkur. Það er einkum tvennt sem farið hefur úrskeiðis: Í fyrsta lagi eru skuldir heimila og fyrirtækja að mestu leyti í erlendum gjaldeyri. Því sem næst öll húsnæðislán eru í svissneskum frönkum. Þeir hafa því brotið fyrsta boðorðið um aðgát í skuldsetningu með því að taka lán í öðrum gjaldmiðli en þeim sem skilar tekjunum. Gengisáhættan var mikil. Greiðslubyrði skulda hefur þyngst verulega.

Kreppan hefur kollvarpað forsendum

Í öðru lagi hafa Ungverjar misst tök á ríkisfjármálum og verðbólgan hefur farið úr böndunum. Af þessum ástæðum hafa þeir ekki getað uppfyllt skilyrðin um upptöku evru. Þessi mistök koma þeim nú í koll. Þeir leita nú helst samanburðar við grannríki sín, Slóvakíu og Slóveníu. Þessar tvær smáþjóðir njóta þess nú að hafa haldið uppi agaðri hagstjórn og uppfyllt skilyrðin um upptöku evru. Þessar þjóðir eru báðar varðar fyrir áhlaupi spákaupmanna. Þær hafa ekki orðið fyrir gjaldmiðilshruni. Þessar þjóðir eru miklu betur staddar en hinar, sem sitja uppi með hækkandi skuldir í erlendum gjaldmiðlum.

Það er svo lán í óláni, t.d. fyrir bæði Letta og Ungverja, að bankakerfið er að mestu í eigu útlendinga. Sem dæmi má nefna að velta austurrískra banka í Ungverjalandi er talin nema um 80% af landsframleiðslu Austurríkismanna. Ef gengisfall eigin gjaldmiðils veldur greiðslufalli ungverskra skuldunauta, gætu afleiðingarnar orðið bankahrun í Austurríki. Hvað segir þetta okkur? Þetta merkir að peninga- og gjaldmiðilsmál einstakra aðildaþjóða Evrópusambandsins, er ekki bara þeirra mál, heldur Evrópusambandsins í heild. Þetta er kerfisvandi. Það er aðeins ein lausn á þessum vanda. Hún er sú að allar aðildaþjóðir Evrópusambandsins taki upp evru.

Sannleikurinn er sá að heimskreppan hefur nú þegar kollvarpað þeim forsendum, sem hingað til hafa verið lagðar til grundvallar evrusamstarfinu. Hvaða skilyrðum hafa þjóðir hingað til þurft að fullnægja til að fá inngöngu í evrusvæðið? Skilyrðin snúast um trausta stöðu ríkisfjármála, takmarkaða skuldasöfnun, lága verðbólgu og vexti og gengisstöðugleika. Viðbrögð flestra þjóða við samdráttaráhrifum kreppunnar kollvarpa flestum ef ekki öllum þessum skilyrðum.

Lausnin: Útvíkkun evrusamstarfsins

Hver voru ráð Keynes gegn kreppunni? Fyrsta boðorð var að örva efnahagslífið með hallarekstri og skuldasöfnun. Það á að prenta peninga – auka peningamagn í umferð – og auka lánsfjárframboð með lækkun vaxta. Hættan sem blasir við þjóðum Evrópu jafnt sem öðrum í kreppunni er ekki verðbólga – heldur verðhjöðnun. Verðbólguskilyrðin eru því úrelt. Og það nær ekki lengur neinni átt að ætla að halda umsóknarþjóðum um aðild að evrusvæðinu í eins konar biðstöðu peningamálasamstarfsins (ERM-1), þar sem gjaldmiðlar þeirra eru hjálparvana skotmörk spekúlanta, í gengis- og vaxtamunarbraski, eins og tifandi tímasprengjur. Þetta gengur gegn grundvallarreglu peningamálasamstarfsins um verðstöðuleika.

Hver er lausnin? Hún er í því fólgin að endurskoða úrelta skilmála fyrir þátttöku í peningamálasamstarfi Evrópusambandsríkja. Tilgangurinn með evrusamstarfinu er að draga úr áhættu og festa stöðugleika í sessi. Heimskreppan ógnar nú hvoru tveggja markmiðinu. Þess vegna á að endurskoða skilyrðin í ljósi gerbreyttra aðstæðna.

Í ljósi alls þessa má ljóst vera að tafarlaus umsókn okkar Íslendinga um aðildarviðræður á líka, í ljósi gerbreyttra aðstæðna, að snúast um leiðir til að hraða þátttöku Íslands í evrusamstarfinu. Það er ekki síst þess vegna sem samningaviðræður við Evrópusambandið eru þýðingarmikill þáttur í leit að lausn á bráðavanda Íslendinga: Vöntun á gegngisstöðugleika og traustum gjaldmiðli. Þetta hvort tveggja er grundvallarforsenda fyrir endurreisn efnahagslífsins eftir hrun. Þetta eru sameiginlegir hagsmunir allra umsóknaríkja að evrusamstarfinu.