ELÍTAN?

Hverjum er mest í nöp við aðild Íslands að Evrópusambandinu? Er það ekki LÍÚ? Eða Framleiðsluráð landbúnaðarins? Eða er það Bláa höndin – það sem eftir er að Sjálfstæðisflokknum og Kolkrabbanum? Einhver í netheimum vakti athygli á því um daginn, að þeir sem fara hamförum gegn aðild Íslands að ESB, eru aðallega einstaklingar, sem fá borgað fyrir það. Þeir telja sig eiga beinna hagsmuna að gæta.

Gott dæmi um þetta er Framleiðsluráð landbúnaðarins. Hver heldur því apparati uppi? Skattgreiðendur. Seinast þegar ég vissi borguðu skattgreiðendur m.a.s. fyrir Búnaðarþing.Og hvað með LÍÚ? Þar er saman kominn sá forréttindahópur, sem í skjóli pólitískra ítaka í Sjálfstæðis- /Framsóknarflokknum, hefur fengið einkarétt á nýtingu sjávarauðlindarinnar – án afgjalds. Í markaðshagkerfi telst það grundvallarregla, að kapítalistarnir borgi fyrir afnot af eigum annarra. En ekki þessir hjá LÍÚ. Þeir eru á undanþágu.

En gjafakvótarnir hafa gert þeim kleift að kaupa keppinauta út úr greininni eða að gera þá ella að leiguliðum sínum. “Follow the money” – segja Kanarnir. Rekið slóðina, segi ég. Hverjir eru það, sem hagnast á óbreyttu ástandi? Hverjir eru það sem er haldið uppi af skattgreiðendum? Hverjir eru það, sem óttast að missa spón úr aski sínum við inngöngu í Evrópusambandið? Það eru þeir sem halda uppi hræðsluáróðrinum gegn Evrópusambandinu – á kostnað skattgreiðenda.

Nú er farið að gera þær kröfur til þingmanna, að þeir geri grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum; hlutabréfaeign eða styrktarvenslum vegna prófkjöra og kosninga. Er ekki rétt að krefjast þess, þegar framkvæmdastjóri LÍÚ og formaður Búnaðarfélags/framleiðsluráðs landbúnaðarins birtast næst í fjölmiðlum með hræðsluáróður sinn, að þá verði tekið fram, að áróðurinn er kostaður af skattgreiðendum?

Það hefur áður komið fram í mínum skrifum, að ég hef nokkrar mætur á bóndasyninum í Þistilfirði, formanni vinstri grænna, Steingrími J. Sigfússyni. Ég virði hann fyrir pólitíska þrautseigju – úthald á hinni pólitísku eyðimerkurgöngu stjórnarandstöðunnar. Hann hefur sýnt karlmennsku og kraft í sinni pólitísku útgerð, á tímum þegar hin kvenlegu gildi eru meira í tísku. Nú er komið að uppskerutíma hjá bóndasyninum.

Ég er eindreginn fylgismaður áframhaldandi stjórnarsamstarfs Vinstri grænna og Samfylkingar – að því tilskildu að þing- og þjóðarvilji í Evrópumálum nái fram að ganga. Ég er að vísu þeirrar skoðunar, að í ríkjandi neyðarástandi væri skynsamlegt að bjóða bæði Framsóknarflokknum og Borgarahreyfingunni tilsamstarfs um stjórn landsins. Það er engum samboðið að vera í stjórnarandstöðu með Sjálfstæðisflokknum. Hann á að vera þar einn og yfirgefinn, svo langan tíma sem það tekur að hreinsa til og byggja upp úr rústunum eftir hann.

Þetta var intermezzo. Því að ég get ekki að því gert, að mér var skemmt, þegar ég heyrði Skallagrím, daginn eftir kosningar, skella skuldinni af stuðningi við Evrópusambandsaðild á eitthvað, sem hann kallaði”Elítuna í 101.” Hvaða lið ætli það sé? Ætli þetta lið hafi beinna hagsmuna að gæta af að vera með ESB? Skyldi þetta lið vera niðurgreitt af skattgreiðendum? Hefur fjármálaráðherrann orðið var við það? Mér er nær að halda að þetta sé fólkið sem flykktist til að kjósa vinstri græn í seinustu kosningum. Að vísu, eins og Mósesdóttir sagði, með hálfum huga út af þvergirðingi þeirra út í Evrópu. Hvers á þetta fólk að gjalda, að formaður vinstri grænna hafi það að háði og spotti með því að kalla það sjálfskipaða elítu? Er formaðurinn eitthvað að fjarlægjast uppruna sinn?