Að því er varðar fiskveiðilögsögu Íslands verður samningsmarkmiðið að gera hana að sérstöku fiskveiðistjórnunarsvæði. Það þýðir sérlausn skv. fordæmi, en ekki undanþágu frá CFP. Þetta samningsmarkmið styðst við þau meginrök að hér sé um að ræða brýna þjóðarhagsmuni (e. vital national interest). Þessi tillaga er auðveld í framkvæmd, af því að íslenska fiskveiðilögsagan er algerlega aðskilin frá sameiginlegri fiskveiðilögsögu ESB ríkja. Um þetta er vandræðalaust að semja af því að með tillögunni er ekkert tekið af viðsemjandanum, né heldur sett fram krafa um aukin réttindi okkur til handa frá því sem er.
Sú staðreynd, að Evrópusambandsþjóðir hfa engan sögulegan rétt til veiða innan íslensku lögsögunnar auðveldar enn frekar þessa samningsniðurstöðu. Þrátt fyrir tilvitnun þína í “grænu bókina” eru engar líkur á, að við endurskoðun CFP, sem framundan er, verði fallið frá grundvallarreglunni um hlutfallslegan stöðugleika (e. relative stability). Þær þjóðir sem í hlut eiga, munu ekki fallast á það. Að því er okkur varðar, er reglan um hlutfallslegan stöðugleika eins konar varadekk. Á hana mun ekki reyna, einfaldlega vegna þess að aðrar þjóðir eiga engan sögulegan rétt til veiða innan lögsögunnar. Framkvæmd þessarar reglu, að því er varðar veiðar viðkomandi ESB þjóða úr sameiginlegum stofnum og af sameiginlegu hafsvæði, er þ.a.l. okkur óviðkomandi.
2.
Þú segir, að með aðild að EMU og upptöku evru muni vandi okkar birtast í miklu atvinnuleysi, í stað þess að birtast í himinháum vöxtum eða gengissveiflum – og spyrð, hvor kosturinn er betri? Af hverju segir þú “í stað þess”? Við höfum allt í senn: Himinháa vexti, gengissveiflur, fjöldagjaldþrot fyrirtækja og mikið atvinnuleysi. Sjálfstæð peningamálastjórn með eigin gjaldmiðli hefur ekki komið í veg fyrir það. Valið stendur því augljóslega ekki milli þess, annars vegar að hafa eigin peningamálastjórn og lítið atvinnuleysi, eða hins vegar taka upp evru og fá mikið atvinnuleysi. Spurningin er um það, hvort stöðugleiki og lágir vextir geti auðveldað fyrirtækjum á Íslandi að skapa ný (og verðmæt) störf í framtíðinni, fremur en óbreytt ástand með ófyrirsjáanlegum gengissveiflum og ofurvöxtum. Ætlum við ekkert að læra af hruninu?
3.
Þú slærð því föstu, að það sé = merki milli aðildar að ESB og atvinnuleysis. Þú gengur svo langt að segja, að evran sé “trygging fyrir verulegu atvinnuleysi á jaðarsvæðum”. Þetta kemur ekki heim og saman við staðreyndir. Norðurlöndin eru jaðarsvæði í ESB. Um miðjna síðasta áratug (1995) bjuggu þau öll við hátt atvinnuleysisstig. Árið 2007, seinasta heila árið fyrir heimskreppu, höfðu þau öll minnkað atvinnuleysi verulega. Tölurnar eru þessar: (1) Dan. úr 10.3% í 3.4%, (2) Fin úr 15.2% í 6.8%, (3) Sví úr 10.1% í 3.5%. Þessi dæmi duga til að sýna fram á, að jaðarríki í Evrópusambandinu hafa náð umtalsverðum árangri í sköpun starfa og útrýmingu atvinnuleysis. Þetta á m.a.s líka við um lönd eins og Spán og Ítalíu, sem báðum tókst að minnka atvinnuleysi um helming á árunum 1995-2007: Spánn úr 20.3% í 9.2%; Íalía úr 11.3% í 6.1%. Holland hefur náð eftirtektarverðum árangri í baráttunni gegn atvinnuleysi. Sömuleiðis smáþjóðir eins og Slóvakía og Slóvenía, sem ólíkt öðrum þjóðum í Mið- og Austur-Evrópu fullnægðu inntökuskilyrðum evrusamstarfsins. Fullyrðing þín: Evrusamstarf = atvinnuleysi stenst því ekki nánari skoðun.
4.
Allar þjóðir verða, þótt í mismunandi mæli sé, fyrir barðinu á heimskreppunni. Það er óhjákvæmileg afleiðing af samdrætti í eftirspurn, framleiðslu og fjárfestingum. Spurningarnar sem við stöndum frammi fyrir eru t.d.: Hvaða þjóðir fara verst út úr kreppunni? Hvort fara þær þjóðir betur út úr kreppunni, sem eru innan evrusvæðisins eða utan? Hvernig fara þær þjóðir út úr kreppunni, sem búa við eigin (veikburða) gjaldmiðil og eru um leið mjög skuldsettar? Þar sem botni kreppunnar er ekki náð, held ég að við ættum að bíða átekta með að kveða upp endanlega dóma. Einu getum við þó slegið föstu: Ísland hefur hingað til farið verst út úr þessu. Ekkert annað land hefur orðið jafnheiftarlega fyrir hvoru tveggja, bankahruni og gjaldmiðilshruni. Við höfum heldur ekki bitið úr nálinni með það, hvort við eigum jafnvel verra í vændum. Við skulum því bíða með endanlega dóma um sinn.
5.
Ég benti á þá þversögn, að gegnishrun er böl, en afleiðingin – lággengi – kann að reynast vera bónus, ef við komumst fyrr á lappirnar aftur fyrir vikið. Þegar við hugsum til framtíðar, sýnist mér hins vegar að veigameiri rök styðji það sjónarmið, að stöðugleikinn sem fylgir myntsamstarfi, vegi þyngra við uppbyggingu atvinnuskapandi fyrirtækja heldur en sveigjanleiki í gengi. Tíðar gengisfellingar í litlu hagkerfi, sem er háð innflutningi, hafa viðvarandi verðbólguáhrif (gengisfelling er í eðli sínu skammtímaaðgerð) og kippa grundvellinum undan uppbyggingu nýrra atvinnuvega, sem verða að vera samkeppnisfærir á alþjóðlegan mælikvarða til þess að skapa þau störf, sem við erum að mennta þjóðina fyrir. Ég gef lítið fyrir pólitík, sem er ekkert annað en skammtímareddingar. Pólitík þarf að byggja á framtíðarsýn til þess að skila árangri fyrir fólk. Gengisfellingaleiðin er úrelt, tilheyrir veröld sem var og samrýmist ekki langtíma vaxtarskilyrðum atvinnulífs í alþjóðlegu umhverfi.
Heimskreppan á millistríðsárum liðinnar aldar var harður skóli. Hún leiddi til nýrrar heimsstyrjaldar. Hún kollvarpaði ríkjandi rétttrúnaði í hagfræði og pólitík. Upp úr þeirri reynslu spratt mitt sósíaldemókratí og tilraunin með hið norræna og síðar meir hið evrópska velferðarríki. Hvað mun þessi kreppa kenna okkur? Hvað getum við af henni lært? Hugsum um það.