BILDTINGARMAÐUR?

Það virðist vera orðið samdóma álit almennings á Íslandi, að íslenskum athafna- og stjórnmálamönnum sé ekki hleypandi út fyrir landsteinana, án þess að þeir verði landi og þjóð til skaða og skammar. Úrásarvíkingarnir rómuðu reyndust, sem kunnugt er, vera fávísir flottræflar. Það sneri allt öfugt; þeir reyndust vera sauðir undir úlfshárum. Og stjórnmálaforystan, sem átti að standa vaktina, gæta hagsmuna almennings og hafa taumhald á dekurdrengjunum – hún svaf á vaktinni og brást þjóð sinni með hörmulegum afleiðingum fyrir samtíð og framtíð.

Það verður lengi í minnum haft, þegar Geir H. Haarde, hinn slétti og felldi formaður Flokksins og forsætisráðherra stóð á gati í Hard Talk (þrátt yfir tvær MA gráður í hagfræði) frammi fyrir spurningunni: “Hvað gerðuð þér, herra forsætisráðherra, til að forða þjóð yðar, sem var ein af ríkustu þjóðum heims, frá því að verða bónbjarga þjóð (“a failed economic state”)? Þegar Geir kvartaði undan harðýðgi Breta, sem beittu hryðjuverkalögum á íslenska hryðjuverkamenn, spurði spyrillinn: “Tókuð þér ekki málið upp við Gordon Brown, starfsbróður yðar?” Og svarið var: “No – but perhaps I should have.”

Þetta svar segir meira en mörg orð um stjórnmálaforystu Íslendinga á örlagastundu. Stjórnmálaforystan brást og þjóðinni var steypt í glötun. Hvernig ætli stjórnmálamenn af svona kalíber hafi komið kollegum sínum fyrir sjónir? Við getum rétt ímyndað okkur það. Auðvitað er ósanngjarnt að nefna Geir einan sem dæmi um þetta pólitíska lystarstol. Það væri synd að segja að fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hinn oddviti ríkisstjórnarinnar, hafi bætt Geir upp, þar sem hún sat í dyngju sinni og bruggaði seið, sem átti að koma Íslandi í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, með ærnum tilkostnaði; fullkomlega ómeðvituð um, að þjóðarbúskapurinn var að hruni kominn. Og hvar voru hin(ir)?

Með þessa sorgarsögu í huga kom það ánægjulega á óvart að fylgjast með frammistöðu utanríkisráðherra Íslands, Össurar Skarphéðinssonar, þegar hann afhenti sænska utanríkisráðherranum, Carli Bildt, umsókn Íslands um aðildarviðræður við Evrópusambandið, við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi. Frá því er skemmst að segja, að frammistaða íslenska utanríkisráðherrans var landi og þjóð til sóma. Carl Bildt er enginn aukvisi. Hann er af körfuboltastærð, eldklár og annálaður málafylgjumaður. Við upphaf athafnarinnar virtist hann gnæfa yfir félaga Össur, þar sem hann stóð fyrir forsæti Evrópusambandsins í krafti síns embættis sem utanríkisráðherra “minnsta stórveldis” í heimi. Þegar upp var staðið, var það hins vegar okkar maður, sem hafði vaxið gestgjafanum yfir höfuð.

Hvað var svona gott við þetta? Það var, að 500 milljónir Evrópubúa fengu þá mynd á sjónvarpsskjánum í kvöldfréttatíma sínum, að þetta fjarlæga umsóknarland í norðri gæti hugsanlega verið forvitnilegur félagsskapur. Hinn ypparlegi sérfræðingur okkar í kynlífi laxfiska frá háskólanum í East Anglia í Norwich á Englandi talaði fína ensku. Enskan hans var sýnu þjálli og bókmenntalegri að bragði en kanselíenska sænska aðalsmannsins. Það var fínt. Svona eiga Íslendingar að njóta þess í verki, að þetta opna eysamfélag sendir hlutfallslega fleiri stúdenda til náms og starfa í útlöndum en nokkur önnur þjóð í heiminum. Flestir hafa hingað til komið heim. Nú er það Össurar að sjá til þess, að það haldi áfram.

Ræða Össurar um það sem Ísland hefði fram að færa við þjóðir Evrópu var hógvær, en ísmeygilega sannfærandi. Hann var ekkert að monta sig eins og er sérgrein hins pólitíska uppeldisföður hans, bóndans á Bessastöðum. Hann talaði mannamál um hreina og endurnýjanlega orku við Evrópubúa, sem vita hvað það þýðir. Hann talaði um sjávarútveg af reynslu manns, sem sjálfur hefur staðið á dekkinu á íslenskum togara í víðáttu Atlantshafsins. Og hann talaði um landbúnað af skilningi manns, sem veit hvað bændamenning merkir. Tilvitnun í Íslendingasögur og Snorra og sögu Uppsalakonunga, sem Íslendingar varðveittu handa Svíum – henni var smeygt inn á réttum stað og stundu með brosi á vör. Fínt.

Og það stóð ekki á svörum við beinskeyttum spurningum vel undirbúinna blaðamanna. Össur tók spurningarnar alvarlega og notaði svörin til að koma gagnlegum upplýsingum á framfæri. Og sýndi þar með, að hann hefur engu gleymt sem ritstjóri og blaðamaður við Þjóðviljann og Alþýðublaðið og önnur minni háttar blöð. Hann notaði tækifærið og lagði inn inneign hjá Tyrkjum. Og kom þeim skilaboðum til Norðurlandabúa í leiðinni, að við Íslendingar værum ekki bara Norðmenn í útlegð, heldur sérstök þjóð með keltneskan móðurarf. Þetta var laglegt.

Löng leið byrjar með litlu skrefi, segja Kínverjar og hafa það eftir Konfúsíusi. Loksins erum við lögð af stað í Evrópuför til að ljúka því verki sem við Steingrímur Hermannsson hófum í Holmenkollen í mars 1989, en lauk með atkvæðagreiðslu á Alþingi Íslendinga, 13. janúar, 1993 – á afmælisdegi Hannibals – eftir lengstu umræðu á Alþingi Íslendinga eftir kristnitökuna árið 1000. Nú hillir undir lokaáfangann. Össur fór vel af stað. Ég óska honum fararheilla.