Í tilefni 40 ára afmælis Menntaskólans á Ísafirði: AÐ GJALDA FÓSTURGJÖLDIN

„Ég aftanskinið óttasleginn lít
ef ekki dagsins próf ég staðist get,
að mjakast hafi ennþá út um fet
þess akurlendis jarðar sem ég brýt.”

(Jón Helgason: Að morgni)

1.
Ef mér skjátlast ekki því meir, byrjaði þetta ævintýri fyrir 40 árum með því að kaupa skúringafötu og þvottalög – hvort hét hann ajax eða handyandy? – úti í Björnsbúð. Stebbi stórsmiður, fyrsti starfsmaður MÍ, fyrir utan sjálfan mig, og faðir verðandi stúdenta frá þessum skóla, hafði lagt sig í líma við að breyta gamla barnaskólahúsinu til að búa það undir nýtt hlutverk. Fram að þessu var þetta góða hús sniðið að þörfum smáfólksins. Nú stóð til að hleypa þar inn ögn fyrirferðarmeira fólki. Þess vegna þurfti að sópa upp og skrúbba eftir smiðinn, svo að allt liti þetta þokkalega út, þegar aðgangsharðir umsækjendur um skólavist færu að knýja dyra.

Þetta kom sér vel, þegar blómvöndurinn barst frá henni frú Hertu Schenk Leósson. Skúringafata getur nefnilega líka þénað sem blómavasi, þegar maður er fátækur og hamingjusamur, þ.e.a.s. nægjusamur. Frú Herta – blessuð sé minning hennar – hafði reyndar prívat og persónulega búið fjölda vestfirskra ungmenna undir súdentspróf í latínu og frönsku og í þýskum kúltúr í kaupbæti. Ég leit á blómvöndinn frá henni sem sýnilegt tákn um velþóknun forsjónarinnar á fyrirtækinu. Ég var svo sem ekki sá fyrsti, sem byrjaði með tvær hendur tómar. Og mér fannst vel við hæfi, að ég byrjaði sem hvort tveggja, kúltúrkommissar og ræstitæknir, við þetta verðandi lærdómssetur, sem á þessum tímapúnkti átti bara eina skúringafötu.

2.
Já – vel á minnst – umsækjendur um skólavist. Þegar hér var komið sögu var umsóknarfrestur um skólavist í framhaldsskólum að vísu löngu liðinn. Þið skuluð ekki byrla ykkur inn, að fyrirhyggju- og skipulagsleysi íslenskra stjórnvalda hafi verið fundið upp í gær. Sei, sei, nei. Móseslögmál mörlandans: „Þetta reddast einhvern veginn“ á sér langa sögu og eðlilegar skýringar. Forfeður okkar, landnemar Íslands, voru sæfarendur, sem hrepptu þau undarlegu örlög að verða strandaglópar í skóglausu landi. Þegar þeir gátu ekki smíðað sér skip lengur, komust þeir ekki framar lönd né strönd. Þegar svo er komið, verða menn að láta hverjum degi nægja sína þjáningu, eins og þar stendur, þótt óbreytt ástand í sjö hundruð ár megi kannski heita fullmikið af því góða.

Í meira en tvö þúsund ára gömlum þjóðsögum gyðinga, sem við lesum um í gamla testamentinu, stendur skrifað: „Ef fjallið vill ekki koma til Múhameðs, verður Múhameð að fara til fjallsins.“ Þessi vísdómsorð útlagði ég fyrir 40 árum á þann veg, að ef nemendur vildu ekki vitja mín, þá yrði ég að vitja þeirra. Á menntaskólaárum mínum hafði ég eitt sinn sumaratvinnu af því að viðhalda símalínum á Vestfjörðum. Nú kom sér vel, að síminn var í lagi. Ég lagðist í símhringingar. Ég hringdi í alla foreldra, sem áttu börn á framhaldsskólaaldri, vítt og breitt um Vestfirði. Ég hringdi jafnvel í brottflutta Vestfirðinga – og það var nóg af þeim – og foreldra í afskekktum byggðum norðanlands og austan.

Ég reyndi að bera mig mannalega, þrátt fyrir lítil efni. Aðspurður um kennara lét ég drýgindalega yfir því, að mikið mannval biði þess með óþreyju að fá að kenna þeim lánsömu ungmennum, sem þekktust boð mitt um skólavist. Nöfn þessara uppfræðara æskulýðsins væru að vísu að svo stöddu „hernaðarleyndarmál“, því að hið háa ráðuneyti heimilaði ekki ráðningu þeirra, fyrr en vitað væri um nemendafjölda. Enn í dag finnst mér það hafa gengið kraftaverki næst, að fæstir foreldranna sáu í gegnum þennan „non-sequitur”, eða þessa hringlaga rökleysu – og létu gott heita.

Sagan af þessari óprúttnu sölumennsku er reyndar staðfest í nýútkominni sögu Menntaskólans á Ísafirði, sem eftirmaður minn í embætti skólameistara, Björn magister Teitsson, hefur samansett af list og lærdómi – og ég vil nota tækifærið og óska okkur öllum til hamingju með það. Þar segir á bls. 34: „Með fortölum, skrúðmælgi, skrumi og skjalli tókst að smala saman alls 35 umgmennum, sem augljóslega létu sér fátt fyrir brjósti brenna.“

Einmitt þess vegna erum við hér saman komin á þessari stundu 40 árum síðar til þess að líta sameiginlega yfir farinn veg og til þess að samfagna afmælisbarninu, sem nú stendur í blóma lífs, þrátt fyrir að hafa þótt vart á vetur setjandi í frumbernsku. Á þeim erfiðu tímum, sem framundan eru, er það traustvekjandi að hafa ekki fæðst með silfurskeið í munninum.

3.
Þegar ég hugsa til baka til þessara ára, verð ég að segja eins og er, að það „kom vel á vondan” – nefnilega sjálfan mig – að vera dæmdur til að gerast tyftunarmeistari unglinga á uppreisnargjörnum aldri – rétt þrítugur og sjálfur enn uppfullur af uppreisnaranda. Það væri synd að segja, að ég hefði sjálfur rekist vel í skóla, þegar ég var á sama aldri og þessir unglingar, sem ég átti nú að berja til bókar. Í Tilhugalífi segir svo á einum stað:

„Ég fann það upp hjá sjálfum mér, að ég yrði að segja mig úr skóla, ef ég ætti ekki að deyja úr leiðindum. Ég gerði mér grein fyrir því, að vistin væri mestan part tímasóun og tími væri til kominn að gera eitthvað í því að mennta sig. Í upphafi vetrar, haustið 1956, gekk ég á fund Pálma rektors.
…Hann spurði, hvað mér væri á höndum. Ég sagði, að ég væri kominn til þess að segja mig úr skóla, af því að hér væri svo leiðinlegt. Hann rak upp skellilhlátur en grennslaðist ekki frekar fyrir um leiðindin, sem hrjáðu mig.”

Einhvers staðar á ég í fórum mínum handskrifaða áætlun mína frá vetrinum utanskóla. Á þeim blöðum var ekki að finna eina einustu skólabók. Námsskrá mín snerist um þrennt: Að æfa mig á píanó tvisvar sinnum tvo tíma á dag; að lesa um marxisma og pólítík, sem fékk svipaðan skammt á viku hverri. Þann tíma sem afgangs var, átti að nýta til að lesa það merkasta í íslenskum bókmenntum og skáldskap frá Snorra til Steins Steinarr. Ef ég á að bera saman skólahald mitt og Menntaskólans í Reykjavík, verð ég að segja eins og er, að ég er ekki frá því, að minn skóli hafi verið betri.

Píanónámið kom til vegna þess, að ég taldi í fullri alvöru, að óforsvaranlegt væri að reka menntaskóla, án þess að kennd væri tónlist. Ég sá mikið eftir því, borinn og barnfæddur Ísfirðingurinn, að hafa misst af skóla Ragnars H. Ragnar, vegna þess að karl faðir minn hafði verið á pólitískum faraldsfæti með fjölskylduna í eftirdragi.

Í Tilhugalífi segist ég hafa unað vel mínum hag í þessum einkaskóla, „þar sem námskráin var sniðin að þörfum þessa eina nemanda í skólanum. Agavandamál voru engin, því að sjálfsaginn nærðist á ósviknum áhuga á viðfangsefnunum.”

Kannski voru hugmyndir mínar um það, hvernig vekja ætti áhuga unglinga á sjálfsnámi – en það er það eina nám, sem skilar raunverulegum árangri – ekki síst sóttar í þessa lífsreynslu.

4.
Þegar áhyggjufullir foreldrar voru á sínum tíma að þýfga mig um nafn og númer á væntanlegum kennurum við MÍ, bauð mér satt að segja ekki í grun, að fáeinum árum síðar yrði þessi skóli best mannaði framhaldsskóli landsins – hvorki meira né minna. Hvað hef ég fyrir mér í því? – kynnuð þið að spyrja. Ég býð ykkur að fletta upp á bls. 434 – 444 í hinni nýútkomnu sögu menntaskólans, þar sem eru talin upp nöfn þeirra kennara, sem komið hafa við sögu skólans á þessu tímabili. Nefnið þið mér svo annan framhaldsskóla á þessum árum, sem getur státað af því, að af kennarastofu hans kæmu jafnmargir ungir menn og konur, sem áttu eftir að láta til sín taka á mörgum sviðum þjóðlífsins, svo að eftir yrði tekið.

Úr röðum starfsmanna MÍ áttu eftir að koma tveir formenn stjórnmálaflokka, tveir fjármálaráðherrar ríkisins, einn utanríkisráðherra, fjórir alþingismenn, ráðuneytisstjórar fjármála- og utanríkisráðuneyta, sjálfur sáttasemjari ríkisins og forstjóri Landsspítalans (stærsti atvinnurekandi landsins), þrír skólameistarar, sendiherrar lýðveldisins í Washington D.C., Beijing, Berlín og Suður Afríku, rektor Listaháskóla Íslands, höfundur rússnesk-íslenskrar orðabókar, helsti sérfræðingur „Slavisk-Baltisk Institut” í Olsó í slavneskum málum, afkastamesti rithöfundur samtímans í sagnfræði seinni tíma, aðgangsharðasti rannsóknarblaðamaður okkar, einn þekktasti útvarpsmaður samtímans og sjálfur forseti lýðveldisins, sem var prófdómari við skólann um árabil.

Býður nokkur betur? Getið þið nefnt mér annan framhaldsskóla, sem getur tilnefnt úr kennaraliði sínu jafnmarga einstaklinga, sem komið hafa við sögu lands og þjóðar með jafn afdráttarlausum hætti? Ég skora á þá að reyna, rektorana við sjálfan Lærða skólann, og menntaskólanna á Akureyri, í Hamrahlíð og hvað þeir nú heita allir saman framhaldsskólarnir, sem sprottið hafa upp á seinustu árum. Það er ekki endilega þar með sagt, að þessir einstaklingar hafi reynst vera öðrum betri sem kennarar. En það verður aldrei af þeim skafið, að þeir hafa látið að sér kveða, hver á sínu sviði.

5.
En ef kennararnir hafa lagt sitt af mörkum og sumir hverjir ríflega það, hvað má þá segja um nemendurna, sem ólust upp í þessum skóla og fengu frá honum sitt vegarnesti út í lífið? Munu þeir reynast „föðurbetrungar“, ef þannig má að orði komast? Ég velkist ekkert í vafa um það, að margir minna nemenda hafa ávaxtað vel sitt pund og goldið ríflega fósturlaunin. Í þeim hópi er að finna lækna í fremstu röð, sem bjargað hafa mörgum mannslífum, lærdómsmenn og uppalendur, sem á hvílir sú skylda að koma næstu kynslóð til manns.

Og ég veit ekki til þess, að neinn þeirra hafi átt hlut að máli við að koma óorði á land og þjóð vegna oflætis, fákunnáttu og siðblindu þotuliðsins, sem hneppt hefur þjóðina í skuldafangelsi næstu árin. En í samanburði við gamalgróin lærdómssetur grannþjóðanna er Menntaskólinn á Ísafirði ungur að árum og því ótímabært að kveða upp dóma um þá sem hann hefur fóstrað. Enn er því von til þess, að í þeim hópi leynist það manndómsfólk, sem Ísland þarf nú á að halda til að endurheimta orðstír sinn sem þjóð meðal þjóða.