Heiðursgestur þingsins við þessa athöfn verður Jón Baldvin Hannibalsson f.v. utanríkisráðherra Íslands, sem mun ávarpa þingið f.h. erlendra gesta. Athöfninni verður útvarpað og sjónvarpað.
Í byrjun janúar 1991 gerði sovéska hernámsliðið í Eystrasaltslöndunum þremur, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, tilraun til að brjóta sjálfstæðishreyfingar þjóðanna á bak aftur með hervaldi. Sent var út neyðarkall frá Sajudis, sjálfstæðishreyfingu Litháa, til utanríkisráðherra NATO-ríkja um að mæta á vettvang til að sýna samstöðu með sjálfstæðisbaráttu þjóðanna í verki og freista þess að firra ofbeldisverkum.
Utanríkisráðherra Íslands, Jón Baldvin Hannibalsson, var sá eini sem hlýddi kallinu. Í þakklætis og virðingarskyni tilnefndi borgarstjórn Vilníusar Jón Baldvin sem heiðursborgara árið 1995, og torgið fyrir framan utanríkisráðuneytið í Tallinn var skýrt Íslandstorg.
Tilraunir sovéska hersins til að stöðva með hervaldi þróunina í átt til sjálfstæðis einstakra þjóða frá sovéska ríkjasambandinu árið 1991, runnu út í sandinn. Í ágúst 1991, eftir misheppnaða valdaránstilraun harðlínumanna í Moskvu, var endurreist sjálfstæði ríkjanna viðurkennt.
Aftur tók Ísland frumkvæðið og varð fyrst ríkja heims til að staðfesta það við athöfn í Höfða í Reykjavík – að viðstöddum utanríkisráðherrum landanna þriggja, þeirra Lennarts Meri frá Eistlandi, Janis Jurkans frá Lettlandi og Algirdas Saudargas frá Litháen – auk Jóns Baldvins.
Margir telja, að sigur Eystrasaltsþjóða í báráttu þeirra fyrir að losna undan yfirráðum Rússa, hafi orðið upphafið að endalokum Sovétríkjanna.
Þessara atburða frá árinum 1991 verður minnst með margvíslegum hætti í höfðuborgum Eystrasaltsrikjanna, Vilníus, Riga og Tallinn, út allt árið 2011 og mun ljúka í ágústmánuði n.k., þegar endurheimt sjálfstæði þessara þjóða var endanlega viðurkennt.
Minningarathöfn á vegum Litháa, búsettra á Íslandi, verður haldin í Norræna húsinu þann 13. þ.m. og hefst klukkan 19:00. Á dagskrá verður m.a. sýnd kvikmynd um atburðina í Vilníus í janúar 1991.