BESSASTAÐABLÚS

Ef sú ákvörðun forseta Íslands, að vísa Icesave 3 í þjóðaratkvæði, er látin standa óhögguð, getur forsetinn, hver sem hann er, framvegis tekið hvaða þingmál sem ér úr höndum Alþingis og vísað því í þjóðaratkvæði.

Fyrir því væru engin takmörk. Um það gilda þá engar reglur. Geðþótti eins manns ræður. Ætlar þjóð, sem á hátíðarstundum stærir sig af Alþingi – elsta þjóðþingi í heimi – að sætta sig við svona skrípamynd af réttarríki?Hvorug fullyrðingin stenst skoðun, eins og nú verður sýnt fram á:

Röksemdirnar sem Ólafur Ragnar Grímsson bar fyrir sig til að réttlæta ákvörðun sína, fá ekki staðist gagnrýna skoðun, eins og hér verður sýnt fram á.

  1. Löggjafarvaldið er hjá þjóðinni, segir hann: Skv. bráðabirgðastjórnarskránni, sem vi búum enn við vegna vanrækslu Alþingis, er löggjafarvaldið hjá Alþingi og forseta. Undirskrift forsetans þarf til þess að lagafrumvörp frá Alþingi öðlist gildi. Skv. stjórnarskránni er forseti ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum, og lætur því ráðherra annast þær, eins og það er látið heita. Málskotsréttur forsetans er frávik – undantekning – frá þessari meginreglu – þingræðisreglunni – sem sjálf stjórnskipunin hvílir á. Um beitingu málskotsréttarins skortir hins vegar reglur. Um það getur Alþingi bara sjálfu sér um kennt.
  2. Af því að Icesave-málinu var vísað til þjóðarinnar á sínum tíma, verður það ekki aftur af henni tekið, segir hann. Þetta er rökleysa. Það er ekkert eitt Icesave-mál. Icesave 3 er nýr samningur, sem Ólafur Ragnar viðurkenndi sjálfur í leiksýningu sinni á Bessastöðum að væri “allt annarrar gerðar, með miklu minni skuldbindingum, svo næmi risavöxnum upphæðum”, enda deildu nú hinir erlendu samningsaðilar ábyrgð sinni með Íslendingum.
  3. Samstöðu skorti á Alþingi, sagði hann: Þetta er öfugmæli. Icesave 3 var samþykkt á Alþingi með 44 atkvæðum gegn 16, 3 sátu hjá. 70% þingheims, bæði stjórnarliðar ogstjórnarandstaða, samþykktu Icesave 3. Öfugt við ummæli forsetans er þetta óvenju víðtæk samstaða á Alþingi, eins og maður með þingreynslu forsetans ætti að vita manna best. Sjálfur ber forsetinn enga ábyrgð á stjórnarathöfnum skv. stjórnarskránni. Ákvörðun hans var því ábyrgðarlaus. Afleiðingarnar gætu bitnað á öðrum.

Forsetinn bar líka fyrir sig, að tillaga um þjóðaratkvæði hefði verið felld á Alþingi með naumum meirihluta. Þetta heitir að hafa endaskipti á hlutunum. Aðalatriðið er, að tillagan var felld. Það er ekki á valdi forseta að mæla fyrir um aukinn meirihluta við atkvæðagreiðslur á Alþingi. Það ákveður Alþingi sjálft í þingskaparlögum. Undirskriftasöfnun, sem skilar 20% atkvæðisbærra manna með kröfu um þjóðaratkvæði, staðfestir það eitt, að 80% kjósenda sáu ekki ástæðu til að styðja kröfuna.

Það er því ekki heil brú í þessari röksemdafærslu forsetans. Þetta var geðþóttaákvörðun, sem styðst ekki við nein gild stjórnskipuleg rök. Afleiðingin er sú, að framvegis getur forsetinn, hver sem hann er, tekið hvaða mál sem honum þóknast úr höndum Alþingis, og vísað til þjóðaratkvæðis. Einu gildir, þótt málið njóti víðtæks stuðning á Alþingi, eins og Icesave 3. Þar með er búið að afnema þingræði á Íslandi með einu pennastriki.Verði þetta fordæmi látið standa, verður forsetinn framvegis hvorki bundinn stjórnarskrá, lögum né reglum. Þessi niðurstaða er í hróplegu ósamræmi við þá grundvallarreglu réttarríkisins, að lögin standi mönnum ofar. Er þetta sæmandi þjóð, sem stærir sig af því að vera elsta þingræðisþjóð í heimi?

Hver svo sem verður niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave 3, er þessu máli ekki lokið. Málið er áfram í höndum Alþingis. Alþingi er löggjafinn. Alþingi stærir sig af þvi að vera stjórnarskrárgjafinn. Ætlar Alþingi að láta það yfir sig ganga, að einn einstaklingur taki sér vald, sem hann ekki hefur með neinum stjórnskipulegum rétti, til að afnema þingræði á Íslandi – rétt sisvona? Alþingi hefur vald til að setja forseta af fyrir embættisafglöp. Alþingi hefur frumkvæðisrétt til að skilgreina valdsvið forsetans í stjórnarskrá og setja reglur um það, við hvaða skilyrði hann geti beitt málskotsrétti sínum. Og Alþingi getur sett lög um þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem skilgreint er, hvaða mál eru til þess fallin að vera vísað til þjóðarinnar og hver ekki (t.d. skattar og sumir milliríkjasamningar).

Ef Alþingi bregst ekki við valdaráni Ólafs Ragnars Grímssonar, þá hefur það um leið brugðist stjórnarskrárbundnum skyldum sínum – og þar með þjóðinni. Hefur þessi elsta löggjafarsamkunda í heimi ekki sett nóg ofan nú þegar? Er ekki bara nóg komið?