DAGSHRÍÐAR SPOR SVÍÐA. Formáli að Fóstbræðrasögu

Ítalskur fræðimaður, Antonio Costanzo, bað mig að skrifa formála að væntanlegri ítalskri útgáfu á Fóstbræðrasögu, sem hann ritstýrir. Kolfinna dóttir mín hafði sagt honum, að ég væri eiginlega sveitungi Kolbrúnarskáldsins, þótt aldursmunur væri nokkur. Af þessum sökum fannst Sr. Constanzo, að mér hlyti að renna blóðið til skyldunnar að halda orðstír Kolbrúnarskáldsins á loft. Voilá!

FÓSTBRÆÐRASAGA – ein fjölmargra Íslendingasagna – var fyrst færð í letur á íslensku fyrir meira en 700 árum. Aðalsögupersónurnar – vígamaðurinn og skáldið – eru sagðar hafa verið uppi fyrir um 1000 árum, undir lok Víkingaaldar. Þá höfðu norrænir menn þegar numið lönd á Íslandi og Grænlandi og náð tímabundið fótfestu á ströndum N-Ameríku, hálfu árþúsundi á undan Kólumbusi. Sögusvið Fóstbræðrasögu er þessi heimur, sem víðátta Altlantshafsins aðskilur og tengir saman.

1.

Þrátt fyrir þessa firrð í tíma hefur Þormóður Kolbrúnarskáld – önnur aðalpersóna sögunnar – alltaf staðið mér nærri, bæði í tíma og rúmi. Að hluta til er það trúlega vegna þess, að við vorum sveitungar, næstum því nágrannar. Ögur hefur um aldir verið eitt helsta höfuðból við Djúp. Þetta fornfræga sveitarsetur er að mínu mati, bæði miðpunktur – og vendipunktur – sögunnar. Á þessum bæ ólst ég upp á sumrum á unglingsárum mínum um miðbik seinustu aldar. Laugaból, þar sem Þormóður ólst upp (að vísu einu árþúsundi fyrr) er svo til næsti bær. Við fórum þangað iðulega ríðandi frá Ögri. Bændum á Laugabóli og næstu bæjum er enn tíðförult í Ögur, sem er samgöngumiðstöð héraðsins, m.a. fyrir útskipun á afurðum bænda og fyrir aðdrætti alla.

Það var í Ögri, sem Þormóður leitaði fyrst eftir ástum Þórdísar, heimasætunnar á bænum. Henni yrkir hann þá mansöngva, sem hann síðar snýr til annarrar konu; og er grimmilega refsað fyrir fjöllyndi sitt og hviklyndi. Sannaðist á honum, að fátt er karlmanni hættulegra en reiði konu, sem hefur mátt þola, að ást hennar er smánuð. Fyrir vikið fær Þormóður nafnbótina Kolbrúnarskáld, sem festist við hann til æviloka. Þúsund árum síðar var minningin um ástir og örlög skáldsins svo sprelllifandi, að þegar ég var tólf vetra sveinn í unglingaskóla á Ísafirði, settum við saman dagskrá tileinkaða Kolbrúnarskáldinu á árshátíð skólans. Mér hlotnaðist sú upphefð að flytja texta og ljóð í orðastað skáldsins. Mikill er máttur skáldskaparins!

Önnur skýring á því, hvers vegna þessi saga á svo greiðan aðgang að lesendum í samtímanum, er sú, að mannlegt eðli er samt við sig, þótt aldir renni. Þar vegast enn á ágirnd, ofríki og kúgun í skjóli valds, annars vegar; og samúð með lítilmagnanum, fórnfýsi og veglyndi, sem ekki spyr um umbun, hins vegar. Hin karllægu gildi, sem hrinda mannskepnunni út í ofbeldi og stríð, og hin kvenlegu gildi, sem leitast við að hlú að því, sem er veikburða og verndar þurfi – þessir ólíku eðliskostir takast á í brjósti sérhverrar manneskju. Hér er ekki spurt um kynferði per se. Járnlafðin Thatcher var amazona af kvenkyni, en Gorbachev – friðarins maður – er karlmaður. Fjárglæframennirnir, sem settu Ísland á hausinn um árið, hegðuðu sér eins og víkingar fyrri tíðar, farandi ránshendi um eigur annarra, enda uppnefndir útrásarvíkingar fyrir vikið. Ætli Ítalir þekki ekki þetta hegðunarmynstur (syndrómu) í framferði mafíósa okkar daga?

Enn ein skýring á aðdráttarafli Fóstbræðrasögu er sjálfur frásagnarmátinn – stíllinn – sem er nútímalegur, svo furðu sætir. Einkenni hans eru understatement and irony – höfundurinn segir fremur van en of, og dulið háð um hetjuskap ribbaldanna leynist í stílbrögðunum. Reyndar hvarflar að manni á stundum, að hinn nafnlausi höfundur hafi haft í huga að semja kvikmyndahandrit. Satt best að segja er sagan allt í senn, villtur vestri, harðsoðinn krimmi og háðsk ádeila – allt með ljóðrænu ívafi. Handritið gæti líka hentað prýðilega fyrir sjónvarpsmyndaseríu handa táningsstúlkum, því að ekki skortir harðjaxla og hörkukvendi til að halda uppi fjörinu!

2.

Hafa ber í huga, að hugmyndaheimur og hegðun sögupersónanna mótast af ríkjandi tíðaranda. Annars vegar erum við stödd á mörkum hins ævaforna heiðna siðar, með sinni ófrávíkjanlegu kröfu um heiður ættarinnar og hefndarskyldu; hins vegar er hinn nýi siður, kenndur við hvíta Krist, að vísu nýlega í lög leiddur (árið 1000), en hefur lítt náð að festa rætur í hugarfari fólks og breytni. Svo er hitt, að þjóðveldið forna (930-1262 A.D.), sú þjóðfélagsskipan, sem landnámsmenn Íslands smíðuðu sér, var algert einsdæmi í þjóðfélagsgerð miðalda.

Kjarni þessa samfélagsforms var þjóðþingið, Alþingi (stofnað árið 930 og telst því vera elsta starfandi þjóðþing í heimi). Alþingi var hvort tveggja í senn, löggjafarsamkunda og dómstóll, þar sem reynt var að leita friðsamlegra lausna á deilumálum, oft með takmörkuðum árangri. Hins vegar var ekkert miðstjórnarvald, enginn konungur, og hvorki her né löggæsla, til að framfylgja dómum. Sú skylda hvíldi á herðum þeirra einstaklinga, sem reyndu að leita réttar síns. Þetta “fríríki” endurspeglaði annars vegar óhamda einstaklingshyggju landnemanna, sem höfðu flúið undan vaxandi konungs- og lénsveldi í heimahögum; hins vegar staðfesti þetta stjórnleysi ákveðna jafnaðarhugsjón, í þeim skilningi, að landnemarnir þoldu ekki yfir sér neitt yfirvald. Allir skyldu vera jafnréttháir frammi fyrir lögunum, a.m.k. að nafninu til.

Þess vegna úir og grúir í Íslendingasögum af frásögnum, þar sem dómstólar kveða á um fébætur fyrir mannvíg, til þess að hindra að hefndarskyldan leiði til linnulausra manndrápa og að lokum upplausnar samfélagsvefsins. Þessi þjóðfélagstilraun stóð í rúm 330 ár. Að lokum söfnuðust of mikil völd á hendur órfárra ættarhöfðingja, sem bárust á banaspjót. Afleiðingin var borgarastyrjöld, sem braust út á fyrri hluta 13du aldar. Henni lauk ekki fyrr en Noregskonungur sá sér leik á borði að skakka leikinn og stilla til friðar, gegn því að Íslendingar játuðust undir skattskyldu við hann. Eftir þessi afglöp tók það Íslendinga hátt í 7 aldir að endurheimta sjálfstæðið.

Halldór Kiljan Laxness, sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1955,var fundvís á forn söguefni, sem átt gátu brýnt erindi við samtíð hans (1902 – 98). Rétt fyrir miðbik seinustu aldar var hann að leggja drög að mikilli skáldsögu, þar sem hann beindi broddi ádeilunnar að vitfirrtu vígbúnaðarkapphlaupi stórveldanna (MAD – Mutually Assured Destruction) á dögum kalda stríðsins. Bókin kom út í þann mund sem Kóreustríðið braust út, undir heitinu Gerpla (“Happy Warriors”). Þessi saga er ein af hans allra bestu, sígild saga um stríð og frið, en hvort tveggja á það upphaf sitt í mannlegu eðli og hátterni. “Þar á ég úlfs von, er eyru sé ek, …”, segir í fornu kvæði.

Halldór sækir allan efniviðinn í Gerplu og sjálfar sögupersónurnar í Fóstbræðrasögu, þótt hann taki sér skáldaleyfi til að laga söguþráðinn í hendi sér. Þarna birtast þeir okkur aftur ljóslifandi á ný, fóstbræðurnir, Þorgeir vígamaður og Þormóður, hið vífna skáld, og syngja sín síðustu vers til lofs og dýrðar hinum herskáu gildum karlmennskunnar, um að láta ekki sinn hlut fyrir neinum, þótt það kosti, að þeir skilji eftir sig sviðna jörð. Ragnarök hét það í heimssýn hinnar fornu goðafræði; kjarnorkuvetur í heimssýn kalda stríðsins.

3.

Þegar Nóbelsskáldið var að heyja sér föng í Gerplu, leitaði það að sjálfsögðu á slóðir Fóstsbræðrasögu. Í þeim leiðangri kom Halldór heim í Ögur. Þar tók á móti honum fóstra mín, Ragnhildur Jakobsdóttir, dæmigerð íslensk bókmenntakelling, þá orðin nokkuð við aldur. Ég var þá tíu vetra sveinn. Það heyrði til skylduverka minna í Ögri að mala kaffi fyrir Ragnhildi um stundarfjórðung á hverjum morgni. Þá fór sú gamla með ljóð yfir mér. Hún kunni margt það besta úr íslenskum skáldskap þessar 11 aldir eða svo og fór með af vandfýsi. Þetta eru fínustu bókmenntaseminör, sem ég hef setið enn þann dag í dag, þar sem ég sat þarna við fótskör hinnar margvísu konu og malaði kaffi. Reyndar koma konur þessarar gerðar, ljóðelskar, forvitri og draumspakar, víða við sögu í Íslendingasögum – og kjósa mönnum örlög.

Ragnhildur var að eðli og uppeldi rammasta íhaldskelling og hafði óbeit á kommúnistum. Halldór Laxness hafði hins vegar verið um hríð eitt af hirðskáldum Stalíns á Íslandi (enn og aftur tilbrigði við sama stef – harðstjórinn og hirðskáldið – ekki satt?), þótt hann væri um þessar mundir að snúast frá villu síns vegar. Ragnhildur bar það því undir mig, lærisvein sinn, hvort veita bæri skáldinu áheyrn, þrátt fyrir villutrú hans. Ég var á þessum vordögum æsku minnar ástfanginn af sögupersónu í skáldsögu Halldórs, Sölku Völku, og leit því á Halldór sem eins konar tengdaföður minn. Ég tíundaði því ákaflega allar hugsanlegar málsbætur fyrir Halldór, nefnilega að hann væri mikið skáld, og skáldum væri ekki skylt aða hafa vit á pólitík.

Ragnhildur í Ögri féllst að lokum á þennan málflutning minn og veitti skáldinu áheyrn um Fóstbræðrasögu. Það bókmenntaseminar stóð lungann úr heilum degi. Þar með tel ég sjálfum mér það til tekna að hafa gefið þeim fóstbrærðrum – garpinum og skáldinu – nýtt líf í höfundarverki sjálfs Nóbelsskáldsins. Síðan höfum við rifist um það, landar mínir, hvor sé betri, frumgerðin eða eftirlíking Laxness. Sú þræta hefur enn ekki verið til lykta leidd.

*****
Eftir stendur Þormóður Kolbrúnarskáld og mælir til okkar af munni fram á banastundinni með örvarflein í hjarta eftir sína seinustu orrustu við Stiklastaði, þar sem Noregskonungur féll fyrir uppreisnarher bænda og orð hans berast til okkar handan yfir óminnistóm aldanna:

“Það veldur mér, en mæra
marglóðar nú tróða,
djúp og danskra vopna
Dagshríðar spor svíða.”

“Og er hann hafði þetta mælt, þá dó hann standandi við bálkinn og fell til jarðar dauður.”

Salobrena, (Granada)
27. mars, 2011