70 ára: “Heilög Jóhanna”

Þegar Jóhanna Sigurðadóttir beið lægri hlut í formannskjöri á flokksþingi Alþýðuflokksins 1994, sagði hún í kveðjuræðu sinni: „Minn tími mun koma“. Fáum bauð þá í grun, að þetta yrði að áhrínsorðum meira en áratug síðar. Enda þurfti heilt Hrun til, hvorki meira né minna. Þegar Jóhanna Sigurðadóttir beið lægri hlut í formannskjöri á flokksþingi Alþýðuflokksins 1994, sagði hún í kveðjuræðu sinni: „Minn tími mun koma“. Fáum bauð þá í grun, að þetta yrði að áhrínsorðum meira en áratug síðar. Enda þurfti heilt Hrun til, hvorki meira né minna.

Forverar Jóhönnu á stóli forsætisráðherra – þrír talsins – höfðu hver um sig lagt fram sinn ómælda skerf til að stefna þjóðfélaginu út í botnlausar ófærur á fyrsta áratug nýrrar aldar. Þegar þjóðin horfðist í augu við Hrunið í október 2008, blasti við, að það var ekki eitt, heldur allt, sem hafði brugðist. Fjármálakerfið hrundi. Gjaldmiðillinn var í frjálsu falli. Gjaldeyrisforðinn var uppurinn og lánstraustið þrotið. Ísland var í „ruslflokki“. Ríkið, sveitarfélög, fyrirtæki og heimili voru sokkin í skuldir. Atvinnuleysi og eignamissir varð hlutskipti fjölda fólks. Annarra beið landflótti. Stofnanir lýðveldisins – ekki síst Alþingi, vinnustaður Jóhönnu í 30 ár – voru rúnar trausti. Ísland var tekið í gjörgæslu AGS eins og hver annar þurfalingur á vonarvöl.

Þar með höfðu áhrínsorðin ræst: Tími Jóhönnu var kominn. Búsáhaldabyltingin sópaði út Hrunstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar. Fyrsta vinstristjórn lýðveldisins fékk það verkefni að þrífa upp óhroðann eftir svallveislu frjálshyggjudrengjanna, sem staðið hafði í áratug.

Jóhanna Sigurðardóttir þótti sjálfkjörin í verkstjórahlutverkið. Þrátt fyrir setu sína í Hrunstjórninni, þótti óvéfengjanlegt að hún byggi yfir þeim eðliskostum, sem á reynir, þegar taka þarf til hendinni og allt er komið í óefni: Heiðarleika, ósérhlífni, vinnusemi, seiglu – og það sem mestu máli skipti – óendanlegri þrjósku. Var það ekki þrjóska sauðkindarinnar, sem gerði þessari þjóð kleift að lifa af sjö langar hunguraldir?

Þetta var nánast ofurmannlegt verkefni . Að leggja þvílíkar byrðar á herðar konu, sem þá þegar hafði áunnið sér rétt til að njóta friðsæls ævikvölds, getur vart flokkast undir annað en skort á mannúð og meðlíðan. En það var enginn annar á svæðinu, sem treystandi var fyrir verkinu. Og pólitíkin er harður húsbóndi. Hafi Jóhanna búist við að uppskera þakklæti eða vinsældir fyrir fórnfýsina, þá fer hún villur vegar. Að leiðarlokum eru engir góðir pólitíkusar nema dauðir pólitíkusar. Þá fyrst mun sagan hefja sitt langdregna grisjunarverk – að skilja sauðina frá höfrunum.

Hvernig hefur til tekist? Þótt of snemmt sé að kveða upp lokadóminn, má samt með gildum rökum fullyrða tvennt: Björgunarstarfið hefur tekist betur en á horfðist í upphafi. Og það hefur tekist mun betur en hjá öðrum þjóðum, sem seinna lentu í ógöngum, engin þó í allsherjarhruni, eins og við Íslendingar.

Hallarekstur ríkisins hefur verið haminn. Það er farið að grynnka á skuldum og lánstraustið hefur endurheimtst. Þrátt fyrir óumflýjanlegan niðurskurð og skattahækkanir hefur tekist að forða velferðarkerfinu frá lömun. Það hefur engum öðrum tekist í yfirstandandi kreppu. Þetta er ekkert smáafrek – og verður metið að verðleikum, þótt seinna verði.

Niðurskurður einn og sér hefur aldrei vísað neinni þjóð veginn út úr kreppu. Það þarf jafnvægi milli niðurskurðar og hagvaxtarhvata, sem einkum felst í tekjujöfnunaráhrifum velferðarkerfisins. Þetta hefur tekist betur á Íslandi en annars staðar. Það kostaði blóð, svita og tár – en það bar árangur. Þann árangur á Jóhanna einkum að þakka Steingrími J. Sigfússyni, harðfylgi hans og málflutningsþrótti.

Eitt er það, sem farið hefur herfilega í handaskolum og mun skaða fylgisvonir stjórnarflokkanna meir en nokkuð annað í komandi kosningum: Það er að rétta hlut fórnarlamba ólöglegra gengistryggðra lána. Það er ekki boðlegt fjórum árum eftir hrun, að þúsundir heimila viti ekki, hver er höfuðstóll þessara lána, hvaða vextir skuli gilda, né heldur hver greiðslubyrðin er eða verður. Svona nokkuð líðst bara í bananalýðveldum. Þessi glundroði hefur skaðað orðstír „heilagrar Jóhönnu“ (var það ekki ég, sem á sínum tíma sæmdi hana þessari heiðursnafnbót?) meir en nokkuð annað. Hefur hún enn tíma til að reka af sér slyðruorðið? Það kemur í ljós.

Annað er svo óleyst, nú þegar lokavertíðin er hafin. Við erum enn í viðjum gjaldeyrishafta. Þrátt fyrir álagningu auðlindagjalds (sem er mikilvægur áfangasigur) er framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins enn í uppnámi. Ný stjórnarskrá – uppgjör við stjórnsýslufúsk og flokksræðisspillingu gamla lýðveldisins – er í mikilli tvísýnu. Þar gefst þó þjóðinni sjálfri kostur á að taka af skarið milliliðalaust um umbótavilja sinn, með mikilli þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október n.k.. Um samninga við Evrópusambandið er það helst að segja, að þeir munu fyrirsjáanlega dragast á langinn. Í því efni er ekki við okkur að sakast. Rás atburðanna hefur einfaldlega tekið völdin af veikburða stjórnmálaforystu í Evrópu og skapað óvissuástand um ófyrirsjáanlega tíð.

Nú þegar hillir undir lokin á löngum og ströngum stjórnmálaferli Jóhönnu Sigurðardóttur, getur hún – ein fárra stjórnmálamanna af hennar kynslóð – litið sátt yfir farinn veg. Þegar sonardóttir Jóhönnu Egilsdóttur, sem á kreppuárum var í fylkingarbrjósti íslenskra verkakvenna, tekur að lokum pokann sinn, getur hún gengið hnarreist frá borði.

Jóhanna hefur vissulega mátt þola sinn skammt af óvæginni gagnrýni í samtímanum. Öllum má ljóst vera, að hún býr hvorki yfir orðkyngi né sannfæringarkrafti spámannsins, sem leiðir þjóð sína fyrir mátt orðsins út úr eyðimörkinni á vit framtíðarlandsins. En hvað með það? Það var enginn Móses á staðnum, þegar þjóðin þurfti á honum að halda. Og þrátt fyrir allt var Jóhanna sú eina, sem þjóðin treysti, þegar aðrir höfðu brugðist. Niðurstaðan er, að Jóhanna var réttur maður á réttum stað á réttum tíma. Og hún brást ekki.

Salobrena, 3.október, 2012