Minning: Haraldur Helgason

Þau voru sérstök, Halli og Ninna. Hún var flott Akureyrardama, fín í tauinu, glaðvær, gestrisin og launfyndin. Hann var soldið upp með sér af að eiga svona fína konu. Ég hafði það strax á tilfinningunni, að hann vildi allt fyrir hana gera. Þau voru hrifin hvort af öðru, og það fór ekki milli mála. Það var í hundrað-funda ferðinni 1984-85, sem fundum okkar bar fyrst saman. Yfirskrift fundanna var: Hverjir eiga Ísland?

Á þessum fundum, vítt og breitt um landið, kviknaði aftur hugsjónaglóð gömlu kratanna, sem hafði verið við það að kulna. Á Akureyri var fullt út úr dyrum. Bragi Sigurjónsson – gamall baráttufélagi föður míns – stýrði fundi. Umræður voru með virðuleikablæ. Þetta var jú á Akureyri.

Að fundi loknum, undir miðnættið, var okkur Bryndísi boðið heim í Goðabyggð 2. Heim til Halla og Ninnu, til að eiga þar samverustund með kratakjarnanum í höfuðstað Norðurlands. Það var eftirminnileg kvöldstund. Bjartsýni og baráttugleði voru við völd, ótal sögur sagðar og sungið við raust. Við vorum þarna gestir á heimili manns, sem hafði heillast af jafnaðarstefnunni á unglingsárum, og gengið í Alþýðuflokkinn á tímum ríkisstjórnar „hinna vinnandi stétta“ – í miðri heimskreppunni.
Lífið hafði kennt Haraldi Helgasyni margt, og hann hafði engu gleymt. Tólf ára að aldri fór hann að vinna fyrir sér og sínum. Eftir það féll honum ekki verk úr hendi í tæp áttatíu ár. Hann var af þeirri kynslóð, sem gerði meiri kröfur til sjálfrar sín en annarra. Sameiginlega voru þau, Halli og Ninna, hinir örlátu veitendur: Hús þeirra var byggt við þjóðbraut þvera og stóð öllum opið, gestum og gangandi.
Ég hef ekki á því tölu, hversu oft ég gisti hjá Halla og Ninnu, á ferðum mínum um landið í erindum Alþýðuflokksins. Hvort heldur var í meðlæti eða mótlæti, var mér tekið af sömu gestrisninni og glaðværðinni. Samfagnað í meðlæti en hughreystur í mótlæti. En ævinlega voru þar fagnaðarfundir.
Nú er langt um liðið síðan fundum bar seinast saman. En minningin um bræðralag, undir merkjum róttækrar jafnaðarstefnu, lifir í minningunni. Nú er komið að kveðjustundinni. Far vel, félagi. Lengi lifi frelsi, jafnrétti og bræðralag!
Jón Baldvin Hannibalsson
f.v. formaður Alþýðuflokksins