„What´s wrong with Europe? And by the Way: Why don´t you Fix it?”

Dagana 8. – 9. nóv. s.l. var ég heiðursgestur á þingi Eystrasaltsþjóða (Baltic Assembly), sem haldið var í Vilnius, Litháen. Þing Eystrasaltsþjóða er sömu gerðar og Norðurlandaþing. Þar hittast þingmenn, ráðherrar, embættismenn, sérfræðingar og fjölmiðlungar til að ræða sameiginleg hagsmunamál. Aðalmál þingsins var Evrópumál og samstarf Eystrasaltsþjóða (og Norðurlanda) innan Evrópusambandsins. Ég flutti þarna svokallaða stefnuræðu (key-note speech) undir heitinu:

„What´s wrong with Europe? And by the Way: Why don´t you Fix it?“

Ræðan fer hér á eftir í slenskum búningi.

Fræðimenn, sem vandir eru að virðingu sinni, hafa fyrir sið að telja upp lykilorð í upphafi máls síns, til að skerpa athygli lesandans. Fari ég að þeirra fordæmi, þá ættu eftirfarandi lykilorð að brýna hugsunina:

Gjaldþrota bankar. Óbærilegar skuldir. Baneitruð lán. Ruslflokkun. Þjóðargjaldþrot. Bankabjörgun. Skattaparadísir. Markaðirnir gegn (velferðar)ríkinu. 1% gegn 99%. Freistnivandi. Samfélagssáttmáli. Auðræði gegn lýðræði. Kreppa lýðræðisins.

1. Hvernig á að bjarga kapitalismanum frá kapitalistunum?

Yfirstandandi tvíburakreppa gjaldþrota banka og ósjálfbærra skulda minnir okkur á, að bankar eru í eðli sínu hættulegir. Hættulegri en málaliðasveitir, að sögn Thomas Jefferson, sem sagt hefur verið um, að gáfnafarið í Hvíta húsinu hafi hækkað mælanlega, þegar hann snæddi einn með sjálfum sér.

Hvers vegna eru bankar hættulegir? Það er vegna þess, að þeir eru eiginlega eins konar Ponzi-brella. Þeir segjast varðveita sparifé okkar með fyrirheiti um ávöxtun. En þar sem þeir varðveita aðeins brotabrot af innlánum í varasjóði, geta þeir ekki endurgreitt lánardrottnum sínum (sparifjáreigendum), vilji þeir endurheimta fé sitt allir í einu. Þetta er nákvæmlega eins og Ponzi-brella, sem notar innlán hinna fyrstu til að borga háa ávöxtun, en getur ekki staðið við gefin fyrirheit gagnvart þeim, sem leggja inn síðar í röðinni. Munurinn á féflettingu á la Ponzi og bankastarfsemi er bara sá, að nú til dags segjast bankar tryggja lágmarksinnistæður (stundum með ríkisábyrgð).

Þetta er lexía, sem við lærðum af reynslunni í Kreppunni miklu 1930-1940 – þegar markaðsbrestur lamaði heimshagkerfið – og um sex þúsund bankar urðu gjaldþrota í Bandaríkjunum einum saman, í kjölfar taugaáfalls á kauphöllinni. Þetta var þegar hótelgestir á Manhattan voru spurðir við innritun: Ætlið þið að sofa eða stökkva? Síðan þá höfum við vitað – eða a.m.k. átt að vita – að bankar eru of hættulegir til að vera án eftirlits ríkisins. Ef sparifjáreigendur eiga að geta treyst bönkum, verða þeir a.m.k. að bjóða upp á tryggingu lágmarksinnistæðna, annað hvort sjálfir eða með atbeina ríkisins.

Þetta nálgast kjarna málsins varðandi orsakir fjármálakreppunnar, sem hefur heltekið Bandaríkin og Evrópu s.l. fimm ár. Sú hótun vofir yfir okkur, að heimshagkerfið lamist aftur – í eins konar endurgerð kreppunnar miklu. Við virðumst ekki aðeins hafa gleymt því, sem við lærðum af reynslunni í kreppunni. Við höfum líka látið blekkjast af einfeldningslegu trúboði um óskeikuleik markaðarins.

Þessu markaðstrúboði hefur verið tekið sem óbrigðulum sannleika í stjórnun fyrirtækja, á ríkisstjórnarfundum og í kennslustofum akademíunnar vítt og breitt um heiminn. Afleiðingarnar blasa við allra augum, nema þeirra sem blindast hafa af markaðstrúboðinu.Það má orða þetta svona: Of margir bankar lánuðu of mikla peninga, sem þeir ekki áttu, aðilum sem þeir vissu, að gætu ekki borgað til baka. Þegar bankar hætta að geta lánað er drifkraftur kerfisins þrotinn. Svoleiðis bankar eru eins og vatnsvirkjun án uppistöðulóns. Rafmagnið fer af. Og kapitalistarnir – eigendur fjármagnsins – hrópa nú hástöfum á ríkið að koma sér til bjargar. Allt, sem þeir hafa áður sagt um sjálfvirkni markaðanna og skaðsemi ríkisíhlutunar, er orðið að öfugmæli. Þjóðnýting – sjálft bannorðið – er kjörorð dagsins. Við erum að upplifa mestu ríkisvæðingu, sem sögur fara af – björgunarleiðangur á vegum ríkisins til þess að bjarga kapítalismanum frá kapítalistunum.

2. Auðræði gegn lýðræði: Samfélagssáttmálinn rofinn.

Rifjum upp helstu áfangana á þessari vegferð fram að brún hengiflugsins:

  • Lausbeislaðir bankar: Í Kreppunni miklu lærðist okkur, að það yrði að byggja einangrunarvegg milli smásölubanka, sem áttu að varðveita og ávaxta sparifjárinnistæður annars vegar og annarra fjarmálastofnana hins vegar (fjárfestingabanka, ávöxtunarsjóða, vogunarsjóða o.s.frv.). Hinir síðarnefndu sækjast eftir hámarksgróða og taka til þess takmarkalitla áhættu. Þessi einangrunarveggur var rifinn niður undir lok seinustu aldar. Þar með var venjulegum viðskiptabönkum breytt í fjárglæfrastofnanir með ófyrirséðum afleiðingum.
  • Ofvöxtur fjármálageirans: Þar með opnuðum við allar gáttir fyrir ofvexti fjármálageirans, sem á s.l. áratugum hefur vaxið raunhagkerfi heimsins gersamlega yfir höfuð. Hagfræðinga greinir á um, hvort fjármálageirinn er orðinn sjö eða tíu sinnum stærri en raunhagkerfi heimsins. Þetta áhættufjármagn er hvikult og laust í rásinni. Eigendur þess og aðrir fjárhirðar skyggnast um veröld alla í leit að skammtímagróða. Þeim er tamt að fá taugaveiklunarköst af minnsta tilefni. Þeir umkringja veikburða þjóðríki eins og rándýr fórnarlömb sín. Flest þjóðríki – svo ekki sé talað um þróunarríki – reynast auðveld bráð, eins og dæmin sýna.
  • Æ tíðari fjármálakreppur: Fjármálakreppur, sem lama heilu hagkerfin, eru að verða æ tíðari: Mexíkó árið 1994. Asíukreppan (S-Kórea, Thailand, Indónesía og Malasía) árið 1997. Árið 1999 var röðin komin að Rússlandi, Úkraínu, Brazilíu, Equador og Pakistan. Árið 2001 lenti Tyrkland í gjörgæslu og Argentína varð gjaldþrota. Nouriel Roubini, einn fárra afburðamanna í hópi hagfræðinga samtímans, vakti allsherjar fordæmingu markaðstrúboðsins, þegar hann spáði því þegar árið 2005, að þetta ofvaxna fjármálakerfi stefndi hraðfari í brotlendingu. Hann lýsti Asíukreppunni svona: „Þetta hvikula kapítal flæddi yfir löndin í sókn eftir hámarksskyndigróða. Við fyrstu viðvörunarmerki um greiðslubrest flæddi kapítalið út aftur og skildi eftir sig hrun gjaldmiðla; og hrinu gjaldþrota, fyrst fjármálafyrirtækja og síðar í öðrum geirum, sem lauk með greiðslufalli ríkisstjórna. Aðeins íhlutun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og seðlabanka viðkomandi ríkja, kom í veg fyrir, að hrunið næði um allan heim“. – Enn og aftur varð ríkið, og alþjóðastofnanir á vegum ríkja, að koma fjármagnseigendum – „mörkuðunum“ – til bjargar.
  • Fjárhagsleg gereyðingarvopn: Meðan fjármálabólan var að þenjast út, var ótrúlegu hugviti varið til að finna upp nýjar og ofur-áhættusamar fjármálaafurðir, sem prangað var inn á hrekklausa kaupendur vítt og breitt um heiminn. Skuggalega hátt hlutfall þessara fjármálaafurða reyndist byggja á vörusvikum, sem staðfesta glæpsamlegan brotavilja. Þetta er það sem Warren Buffett, annar helsti auðjöfur Bandaríkjanna, hafði í huga, þegar hann lýsti þessum fjármálaafurðum sem „fjárhagslegum gereyðingarvopnum“. Við lifum á öld hryðjuverka. Ef tilgangur hryðjuverkahópa í Muslimaheiminum er að ganga af vestrænu lýðræði dauðu, gætu þeir ugglaust lært eitt og annað af þessum fjárhagslegu hryðjuvekamönnum. Þeir eru nú þegar orðnir ógnun við lýðræðið.
  • Ört vaxandi ójöfnuður: Ójöfnuður í tekju- og eignaskiptingu, ekki bara milli ríkra þjóða og snauðra, heldur líka innan þróaðra þjóðfélaga, hefur farið ört vaxandi. Fyrir árið 1970 voru heildartekjur forstjóra amerískra stórfyrirtækja að jafnaði 130-faldar á við meðallaun launþega. Undir lok fyrsta áratugar nýrrar aldar voru forstjóralaunin orðin 400- sinnum hærri en meðallaun. Á sama tíma hefur kaupmáttur launþega í Bandaríkjunum staðnað, og reyndar farið lækkandi að raungildi, hjá hinum lægstlaunuðu. Öfugt við kenninguna um, að molar af borðum hinna ofurríku gagnist öllum, af því að hinir ríku fjárfesti og skapi störf, þá hefur dregið úr bæði fjárfestingum og hagvexti á þessu tímabili, og atvinnuleysi og fátækt farið hraðvaxandi.
  • Yfir 90% tekjuaukans, sem til féll í Bandaríkjunum 1989 – 2006, kom í hlut 10% hinna ríkustu; 60% heildartekjuaukans kom í hlut 1% hinna allra ríkustu. Kreppa – hvaða kreppa? Fyrir 1% hinna ofurríku er engin kreppa. Þetta eina prósent hinna ofurríku á, eða ræður yfir, auðlegð þjóðanna – og hefur aldrei verið ríkari. Hinir, þessir svokölluðu 99%, upplifa á sama tíma stöðnun lífskjara eða hnignun og sívaxandi öryggisleysi um atvinnu og afkomu. Í ljósi þessara staðreynda hlýtur það að vekja undrun, svo ekki sé meira sagt, að fulltrúar almennings í vestrænum lýðræðisþjóðfélögum skuli beita sér fyrir því að leggja hærri skatta á þessi 99% og skera niður almannaþjónustu, til þess að öngla saman fé til að borga skuldir hinna ofurríku. Aðspurðir um ástæðuna er eina svarið sem fæst þetta: „Bankarnir – fjármálageirinn – eru of stórir til þess að þeir megi falla“.
  • Veikleiki þjóðríkja – alræði markaða: Framsal fullveldis frá þjóðríkjum hefur á þessari öld ójafnaðarins ekki verið fyrst og fremst til yfirþjóðlegra stofnana eins og Evrópusambandsins; framsal fullveldis frá þjóðríkjunum hefur fyrst og fremst verið til „markaðanna“. Markaðirnir krefja skuldug ríki um áhættuálög við endurfjármögnun lána; markaðirnir sprengja upp lántökukostnaðinn og afborganabyrðina; markaðirnir gera kröfu um, að ríkið bjargi fjármálastofnunum frá hruni, undir hótun um að ella hrynji hagkerfið í heild. Yfirtaka ríkja á skuldum fjármálastofnana gerir þjóðarskuldina ósjálfbæra. Hinar alþjóðlegu matstofnanir sjá svo um afganginn með því að gefa hinum skuldsettu falleinkunn. Þá byrjar grátkórinn að heimta, að ríkið komi til bjargar. Þar með geta „fjárfestar“ farið að gera út á ríkissjóði (skattgreiðendur).
  • Standard & Poors, Moody´s og Fitch: Hverjir gera út þessi gróðafyrirtæki, sem hafa tekið sér vald til að vera refsivöndur ráðvendninnar í ríkisfjármálum? Sú staðreynd, að þessi fyrirtæki afla tekna sinna frá bönkum og fjármálafyrirtækjum, sem þau leggja mat á, hlýtur að valda massívum hagsmunaárekstrum. Voru ekki allir íslensku bankarnir með þrefalt A í hnappagatinu, þangað til nóttina áður en þeir féllu? Daginn eftir náðu þeir á listann yfir tíu stærstu gjaldþrot fjármálasögunnar. Þar að auki bjóða matsfyrirtækin upp á „ráðgjafarþjónustu“ við kúnnana, sem gefa út skuldabréfin. Þetta býður upp á enn frekari hagsmunaárekstur. Auðvitað eiga fjárfestarnir sjálfir að borga fyrir mat á skuldabyrði, ekki stofnanirnar, sem gefa út skuldabréfin. Fyrir utan augljósan hagsmunaárekstur býður kerfið upp á hvata til blekkinga. Sömu sögu er að segja um hina stóru, alþjóðlegu bókhaldshringi. Allar þessar lykilstofnanir hins alþjóðlega fjármálakerfis koma út úr kreppunni með laskað mannorð. En kerfið er ennþá óbreytt. Hvers vegna?
  • Moral hazard (freistnivandinn) er skilgreint sem viljinn til að taka (öfgvakennda) áhættu (sem viðkomandi mundi forðast venjulega), einfaldlega vegna þess, að hann treystir því, að aðrir (í þessu tilviki skattgreiðendur) muni bera tapið, ef illa fer. Þetta er það sem björgunarleiðangur ríkisins gagnvart bönkum og fjármálastofnunum snýst um. Eigendur og hirðar fjármagnsins rökuðu saman ofsagróða í uppsveiflunni (hvattir áfram af lægri sköttum, víðast hvar, á fyrirtæki og arð), eins og allar tölur um sívaxandi ójöfnuð staðfesta. En eigendur fjármagnsins bera enga ábyrgð. Aðskilnaður frelsis og ábyrgðar er alger. Eigendur fjármagnsins bera ekki lengur ábyrgð á sínum eigin óábyrgu og röngu fjárfestingarákvörðunum. Þeir ætlast til þess, að aðrir geri það.

Írland & Ísland: Að bjarga bönkum eða lýsa þá gjaldþrota?

Hrekkjalómar í Dyflinni sögðu á sínum tíma, að munurinn á eyþjóðunum tveimur væri einn stafur og ein vika. Í raun er munurinn annar: Í fyrra tilvikinu var bönkunum bjargað, í því seinna urðu þeir gjaldþrota. Lítum fyrst á Írland. Írsku ríkisstjórninni urðu á þau grafalvarlegu mistök að gefa út ríkisábyrgð á skuldum einkabanka, án þess svo mikið sem vita, hversu mikil baneitruð lán leyndust í hirslum þeirra. Þess vegna gátu Evrópusambandið og AGS gengið að írska ríkinu sem ábyrgðaraðila einkabanka. Síðar kom á daginn, að írska ríkið reis ekki undir þessum skuldum og þurfti að þiggja „bankabjörgun“ (bail-out) í formi lána að upphæð ca. 68 milljarða evra. Írland hefur nú farið fram úr Japan sem skuldugasta þjóð heims. Skuldir ríkisins, heimilanna og fyrirtækja utan fjármálageirans nema nú 524% af þjóðarframleiðslu. Miðað við 4.5% vexti mun það taka fjórðung þjóðarframleiðslunnar á ókomnum árum að standa undir þessum skuldbindingum. Það er ekki bara óréttmætt; það er óbærilegt. Og meðal annarra orða, hverjum er verið að bjarga? Samkvæmt tölum frá BIS (banka bankanna í Basel) eiga þýskir bankar kröfur á hendur fjármálastofnunum á Spáni og Írlandi, sem nema a.m.k. 300 milljörðum evra. Hverjir voru það sem fjármögnuðu fasteignabólurnar í þessum löndum? Hverjum er verið að bjarga frá afleiðingum þeirra eigin fjárfestingaákvarðana – þýskum bankamönnum eða írskum skattgreiðendum?

Lítum á Ísland til samanburðar. Þar breyttu ágjarnir, ábyrgðarlausir og vanhæfir fjárglæframenn nýeinkavæddum bönkum í alþjóðlega vogunarsjóði. Innan fimm ára höfðu þeir hlaðið upp skuldum í erlendum gjaldeyri, sem námu a.m.k tífaldri þjóðarframleiðslu Íslands. Það er langt umfram það sem gjaldeyrisforði Seðlabankans eða skattþol svo fámennrar þjóðar fékk undir risið. Þegar bresk stjórnvöld óttuðust, eftir fall Lehman´s bræðra, að íslensku bankarnir í London væru ekki aðeins greiðsluþrota heldur gjaldþrota, settu þeir ekki bara bankana, heldur Seðlabankann og íslensku ríkisstjórnina, á svartan lista yfir hryðjuverkasamtök við hliðina á Al-Qaeda. Þetta reyndist vera lán í óláni – þökk sé Gordon Brown! Þar með urðu bankarnir samstundis gjaldþrota. Seðlabankinn var þegar gjaldþrota (við að reyna að bjarga bönkunum fram á seinustu stundu), landið var metið í ruslflokk og aðgengi að fjármálamörkuðum var snarlega lokað. Öllum mátti ljóst vera, að íslenska ríkisstjórnin hafði enga getu til að“bjarga bönkunum“, eins og reynt var á Írlandi. Erlendir lánadrottnar – enn og aftur aðallega þýskir bankar – neyddust til að afskrifa töp sín (ca. 5 -7 falda þjóðarframleiðslu Íslands). Þessar skuldir voru fljótlega afskrifaðar sem glataðar í bókhaldi bankanna, en seldar fyrir slikk vogunarsjóðum o.fl. á eftirmörkuðum. Íslenska ríkisstjórnin keypti síðan „íslenskar“ eignir (innlán og útistandandi lán innan lands) með afslætti. (Hversu miklum hefur aldrei fengist upplýst). Endurfjármögnun Seðlabanka og innlenda bankakerfisins kom síðan skuldum ríkisins úr rúmlega 25% í ca. 100% af VLF. Þetta minnir á fleyg ummæli forstjóra amerísks flugfélags, sem sagði við gjaldþrot félagsins: „Kapítalismi án gjaldþrota er líkt og kristindómur án helvítis“.

Þetta er meginástæðan fyrir því, að Ísland, sem í upphafi mátti þola hvort tveggja, hrun bankakerfisins og gjaldmiðilsins, hefur að hluta til náð sér aftur á strik. Það má þakka gjaldþroti bankanna, sem útilokaði, að þeim væri viðbjargandi, og hruni gjaldmiðilsins. Gengisfelling er skammtímaaðgerð til að skera niður lífskjör þjóðar, sem var orðin vön því að lifa um efni fram. Hin hliðin á því máli er sú, að gengishrunið tvöfaldaði erlendar skuldir hinna skuldugu, einkum yngstu kynslóðarinnar, í einu vetfangi og svipti hana þar með eignum sínum og afkomu. Þrátt fyrir harmkvælin á evrusvæðinu, hefur ekkert þvílíkt gerst þar.

  • Samfélagssáttmálinn: Segja má, að í kapítalisku markaðshagkerfi gildi óskráð lögmál, sem halda verður í heiðri, ef almenningur á að geta borið traust til stofnana samfélagsins. Menn eru frjálsir að því að sækjast eftir hámarksgróða og uppskera ríkulega, svo lengi sem þeir taka áhættu fyrir eigið fé. Og svo lengi sem menn bera sjálfir tapið, ef illa fer, eins og þeir áður uppskáru gróðann. Gróði og tap eru nefnilega tvær hliðar á sömu mynt. Og svo er einu við að bæta: Þetta gildir svo lengi sem menn borga skatta og skyldur til samfélagsins, því að – þegar öllu er á botninn hvolft – var það þetta samfélag, sem gerði þig ríkan. Það er ekki út í hött, að Warren Buffett, sem áður var vitnað til, sagði um sjálfan sig og ríkidæmi sitt: „Hvað haldið þið, að hefði orðið úr mér, hefði ég fæðst í Bangladess?
  • Kreppa lýðræðisins: Þetta er ástæðan fyrir því, að almenningur sættir sig við ójöfnuð, innan vissra marka, sem réttmæta umbun fyrir dugnað, framtak, nýsköpun og vilja til að taka áhættu. En ef þessum boðorðum er öllum snúið öfugt – ef hagnaður góðærisins er einkavæddur (og jafnvel skotið undan skatti), en tapið í harðærinu er þjóðnýtt – þá er sjálfur tilverugrundvöllur hins kapitaliska markaðshagkerfis brostinn. Þá erum við ekki lengur bara að fást við afleiðingar fjármálakreppu. Þá hefur fjármálakreppan grafið undan sjálfum máttarstoðum hins kapítaliska hagkerfis. Þjóðfélagið sjálft er þar með í djúpri tilvistarkreppu.
  • Skattaparadísir: Og þegar hinir ofurríku – hin svokölluðu 1% – bæta gráu ofan á svart með því að fela uppsafnaðan auð sinn í svokölluðum „skattaparadísum“ – fyrst og fremst til að komast hjá að gjalda samfélaginu fósturlaunin – þá hafa þeir sett sjálfa sig fyrir ofan lög og rétt. Hafið þið leitt hugann að því, hversu stór hluti af auðlegð þjóðanna er falinn með þessum hætti, utan og ofan við leikreglur samfélagsins? Samkvæmt nýlegum niðurstöðum rannsóknarstofnunar í Wahington D.C. nemur upphæðin mörgum trilljónum dollara. Nánar tiltekið telst hún jafngild þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna og Japans til samans, stærsta og þriðja stærsta hagkerfi heims. Aðeins sá hluti þessarar upphæðar, sem nemur eðlilegri skattlagningu, mundi nægja til að leysa skuldakreppuna, sem nú hrjáir Evrópu og Ameríku, og gott betur. Aðeins brotabrot af þessum falda fjársjóði mundi nægja til að bjarga velferðarríki fólksins frá því að vera svelt til bana. Veruleikinn er hins vegar allur annar. Það eru skattgreiðendur í þessum löndum, sem eru krafðir um hærri skatta til að borga skuldir hinna ofurríku.

Þetta er, að mínu mati, alvarlegasta ögrunin við lýðræðislega stjórnahætti, allt frá valdaráni kommúnista í Rússlandi eftir fyrra stríð og valdatöku fasista og nasista í Evrópu á millistríðsárunum. Það var veikleiki þingræðisins í að fást við afleiðingar kreppunnar miklu, sem leiddi beint til mannfórna seinni heimstyrjaldarinnar. Erum við virkilega dæmd til að endurtaka sömu mistökin einu sinni enn? Ætlum við aldrei að kunna að læra af reynslunni?

3. Evrópuhugsjónin: Sigrar og ósigrar.

Ég er kominn á þann aldur, að ég get með sanni sagst hafa fylgst með þróun evrópskra stjórnmála í meira en hálfa öld. Ég er einlægur unnandi Evrópuhugsjónarinnar. Samrunaferlið í Evrópu eftir stríð er að mínu mati réttur lærdómur af sögu hinnar stríðshrjáðu Evrópu um árþúsund. Samrunaferlið í Evrópu er einstök tilraun í alþjóðasamvinnu. Hún snýst um það að leysa ágreiningsmál milli þjóðríkja með samningum, á grundvelli laga og réttar, í staðinn fyrir að beita valdi. Þess vegna var veiting friðarverðlauna Nóbels til Evrópusambandsins fyrr á þessu ári verðskulduð.

Fram undir það síðasta hefur samrunaferlið í Evrópu skilað miklum árangri. Það hefur reynst báðum í hag, hinum háþróuðu og vel stæðu og hinum fátæku og vanþróuðu. Það hefur reynst mörgum þjóðum lyftistöng til að brjótast undan oki einræðisstjórna, til að verða meðteknar í samfélag lýðræðisríkja. Mest hafa umskiptin orðið fyrir smáþjóðir Evrópu. Þær hafa í fortíðinni verið harðast leiknar sem fórnarlömb ofbeldis og styrjalda. Með aðild að Evrópusambandinu hafa þær tryggt sér málfrelsi, tillögu- og atkvæðisrétt í þeim stofnunum, sem mestu ráða um hagsmuni þeirra og örlög.

Innri markaðurinn og evrusamstarfið eru stærstu afrekin í samrunaferlinu hingað til. Hvort tveggja hefur reynst vel, bæði fyrir Þýskaland og Grikkland; bæði fyrir atvinnulífið og venjulegt fólk, sem hefur áunnið sér sama rétt og fjármagnið um frjálsa för yfir landamæri. Það er einstakt. Það er fordæmi fyrir afganginn af veröldinni. Í heild hefur Evrópusamruninn reynst vera öflugt tæki til að hjálpa hinum vanþróaðri þjóðum Evrópu til að nálgast hinar, sem lengra eru á veg komnar. Það er líka fordæmi til eftirbreytni fyrir aðra.

En það er ekki allt í sómanum í Evrópu. Draugar fortíðarinnar sækja enn að okkur. Peningamálasamstarf Evrópu (EMU) geldur þess, að hönnunin var gölluð strax í upphafi. Allir sem hafa tekið, þótt ekki sé nema byrjendanámskeið í peningamálahagfræði vita, að til þess að skila árangri þarf sameiginlegt myntsvæði að uppfylla a.m.k. þrjú grundvallarskilyrði. Seðlabankinn verður að hafa óskorað vald til að vera lánveitandi til þrautavara fyrir aðildaríkin. Seðlabankinn verður að hafa óskorað vald til að stjórna peningaframboðinu, þ.m.t. að kaupa ríkisskuldabréf aðildaríkja og að gefa út skuldabréf. Og miðstjórnarvald sameiginlegs myntsvæðis verður að hafa vald til að knýja fram samhæfingu ríkisfjármála- og peningastefnu til þess að tryggja jafnvægi og stöðugleika kerfisins.

Þetta er nauðsynlegt af mörgum ástæðum. Seðlabankinn verður á stundum að hafa burði til að vernda veikari aðildarríki frá markaðssveiflum. Seðlabankinn verður að geta haldið lántökukostnaði veikari ríkja í skefjum. Seðlabankinn verður, í samstarfi við miðstjórnarvald myntsvæðisins, að geta stöðvað umsátursástand um einstök ríki, áður en verra hlýst af. Þetta er t.d. nauðsynlegt til þess að ríki í skuldavanda fái tíma og svigrúm til að hrinda kerfisumbótum í framkvæmd, án þess að lama velferðarþjónustu við almenning, einmitt þegar hennar er mest þörf, bæði sem tæki til sveiflujöfnunar og hagvaxtarörvunar á samdráttartímum.

Sem kunnugt er, hefur Seðlabanki Evrópu ekkert af þessum völdum. Hvers vegna ekki? Vissi yfirhönnuðurinn, Jacques Delors, og hans menn á sínum tíma ekki, að þessir hönnunargallar gætu boðið hættunni heim síðar meir? Jú, þeir vissu það vel. En Þýskaland var einfaldlega ófáanlegt til að víkja hársbreidd frá sögulegri verðbólgufóbíu sinni. Þetta var sígilt dæmi um hið ómótstæðilega afl (Evrópusamrunans), sem rakst á hið óbifanlega hlass (fortíðardrauga Evrópu). Brautryðjendur evru-samstarfsins létu sér því nægja að vona hið besta; þeir vonuðu að með tíð og tíma myndu hin öflugu ríki og hin veikburða samhverfast í nægilega miklum mæli til þess, að það myndi ekki reyna á innbyggða hönnunargalla kerfisins.

Þetta voru alvarleg mistök, sem reynst hafa dýru verði keypt. Peningamálasamstarfið (EMU) er að þessu leyti eins og hálfköruð húsbygging, ófullburða og hvílir á veikum grunni. Þetta hús heldur hvorki veðrum né vindum, þegar náttúruöflin (markaðsöflin) eru í sínum versta ham. Þess vegna höfum við mátt horfa á leiðtoga Evrópu bregðast við atburðum – of lítið og of seint – með hálfkáki og skammtímalausnum. Enginn hefur haft pólitískan kjark til að viðurkenna hina innbyggðu hönnunargalla og nauðsyn þess að ráða bót á þeim. Haldi þeir áfram á sömu braut, mun þeim mistakast.

BNA og EMU: Samanburður.

Samanburður við Bandaríkin leiðir berlega í ljós umrædda hönnunargalla. Bandaríkin hafa á löngum tíma þróast upp í að vera starfhæft myntsvæði með hvorki meira né minna en fimmtíu gjörólík aðildarríki innanborðs. Sumir segja, að það sé einfaldlega ógerningur að starfrækja myntsvæði – þ.e. sameiginlegt gengi gjaldmiðils – með ríki innanborðs, sem eru í grundvallaratriðum jafn ólík og Grikkland og Þýskaland. En berum saman New York fylki og Alabama; eða Alaska í norðri og Louisiana í hinu djúpa suðri. Eða reynum að finna samnefnara milli áhættukapítalistanna í Silicon Valley annars vegar og rótgróinna bænda á sléttum Miðvestursins hins vegar. Að vísu eiga þeir eitt sameiginlegt umfram það sem Evrópa býður upp á: það er tungumálið – enska. En erum við ekki hér að tala saman á þessu lingua franca samtímans?

Eða berum saman Kaliforníu og Spán. Kalifornía stendur fyrir 12% af bandaríska hagkerfinu, sem er sambærilegt við hlut Spánar innan evrusvæðisins. Það er löngu vitað, að Kalifornía er „tæknilega“ gjaldþrota og hefur verið árum saman (rétt eins og Grikkland). Kaliforníuríki hefur með þjóðaratkvæði afsalað sér fullveldisrétti sínum til að hækka skatta, þótt útgjöld ríkisins haldi áfram að hrannast upp. Afleiðingin er sú, að ríkisfjármál eru í kaldakoli og stjórnmálakerfið er lamað. Hvers vegna hafa markaðirnir ekki setið um Kaliforníu (eins og Grikkland)? Hvers vegna hafa markaðirnir ekki sprengt upp lántökukostnað Kaliforníu og sökkt ríkinu í óbærilegt skuldafen? Hafa einhverjir í Washington D.C. eða í Chicago eða í Seattle lagt til, að Kalifornía verði rekin úr ríkjasambandinu? Nei, það hefur ekki hvarflað að nokkrum manni. Hvers vegna ekki? Vegna þess að alríkisstjórnin og bandaríski Seðlabankinn (Federal Reserve) standa við bakið á Kaliforníu með fullu afli, sem enginn véfengir. Enginn í öðrum fylkjum Bandaríkjanna hefur heyrst kvarta undan því, að þeir þurfi að borga skuldir hinna ráðdeildarlausu Kaliforníubúa, þar sem þeir baða sig á gullnum sólarströndum (rétt eins og Grikkir). Sameiginleg ábyrgð á skuldum er sine qua non sameiginlegs myntsvæðis, sem á að standa undir nafni. Annaðhvort erum við í þessu einn fyrir alla og allir fyrir einn, eða við hefðum aldrei átt að sverjast í þetta fóstbræðralag í upphafi.

Ef eitthvert fylki innan Bandaríkjanna er í fjárhagsvanda, er engin hætta á því, að það verði lagt í einelti af fjárhagslegum hrægömmum, vegna þess að þeir vita, að yfirþyrmandi afl alríkisstjórnarinnar og Seðlabankans stendur að baki fylkinu. Á því leikur heldur enginn vafi, að alríkisstjórnin og Seðlabankinn sameiginlega hafa til þess alla burði að reka slíkt umsátur af höndum sér. Þetta er það sem Evrópusambandið átti að gera strax í upphafi, að því er varðar Grikkland. Til þess höfum við alríkisstjórn og sameiginlegan Seðlabanka. Auðvitað geta þessir aðilar sett skilyrði fyrir stuðningi sínum, svo sem eins og t.d. að tilteknum kerfisbreytingum verði hrundið í framkvæmd. En yfirvöld, sem láta stjórnast af skynsemi en ekki kreddum, halda ekki til streitu niðurskurðarkröfum, sem kæfa hagvöxt í fæðingunni og svifta þannig þann, sem er aðstoðar þurfi, getunni til að borga skuldir sínar.

Það er margt hægt að læra af Bandaríkjamönnum – bæði um hvernig ekki á að hafa hlutina, og einnig um hvernig á að ná árangri. Evrópumenn hafa lært helst til mikið af því fyrrnefnda, en trassað það síðarnefnda.

4. Hvað er til ráða?

Vonandi hef ég þegar sagt nóg til að gefa til kynna, að við stöndum frammi fyrir vali: Annaðhvort komast eigendur fjármagnsins upp með fjárkúgun – nefnilega að skattgreiðendur greiði skuldir þeirra eða sæti efnahagslegum afarkostum ella; eða þið, lýðræðislega kjörnir fulltrúar fólksins, beitið valdi ríkisins, sem ykkur hefur verið falið að fara með, til að stöðva þessa uppivöðslusemi. Lýðræðislegt ríkisvald hefur bæði lögmætið og valdið – löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald – til þess að vísa á bug fjárkúgunarkröfum af þessu tagi. Og að setja hinum ofurríku stólinn fyrir dyrnar. Ef þið gerið þetta ekki, þá mun rás atburðanna veikja evrusamstarfið og jafnvel valda því að lokum, að það gliðni í sundur. Ég læt ykkur eftir að hugleiða afleiðingarnar. Þetta minnir mig á orðskvið, sem hafður er eftir einum merkasta umbótamanni liðinnar aldar, sem þjónaði á æviskeiði einnar kynslóðar sem forsætisráðherra Svía, Tage Erlander: „Markaðurinn er þarfur þjónn, en óþolandi húsbóndi“. Það hefur aldrei verið eins brýnt og nú, að fólkið – í krafti lýðræðisins – setjist aftur í húsbóndasætið og taki við stjórninni á þjóðarheimilinu. Sjálf framtíð mannkynsins á þessari plánetu er reyndar undir því komin, að stjórnlaus kapítalismi (auðræði) verði beislaður í þágu almannahagsmuna. Hafið þetta hugfast. Ef þið gerið skyldu ykkar – og endurreisið „Government of the people, by the people and for the people“ – með orðum Abrahams Lincoln – þá munið þið forða evru-samstarfinu frá upplausn og jafnvel veita því farsælt framhaldslíf.

Má ég gerast svo djarfur að nefna nokkur af þeim úrræðum, sem bíða þess, að þeim verði hrint í framkvæmd?

  • Fullmyndugur Seðlabanki: Veitið Seðlabanka Evrópu fullt vald til þess að verða lánveitandi ríkisstjórna til þrautavara; sem og vald til að gefa út „eurobonds“ og kaupa skuldabréf þjóðríkja – sem bakhjarl aðildarríkja, sem eru undir þrýstingi frá mörkuðum. Setjið skilyrði, ef þörf krefur, um það að þessar ríkisstjórnir hrindi í framkvæmd kerfisbreytingum, sem teljast nauðsynlegar til langs tíma. En gefið aðildarríkjum tíma til að framkvæma þessar umbætur. Þvingið ekki ríkisstjórnir til að limlesta velferðarríki fólksins, þegar þjónustu þess er mest þörf, á samdráttartímum, bæði sem hagvaxtar-hvata, til að örva eftirspurn, og sem móteitur gegn niðurskurði, sem kæfir hagvöxt í fæðingu.
  • Endurreisið einangrunarvegginn milli smásölubanka, sem eiga að varðveita og ávaxta sparnað almennings og bjóða þess vegna upp á tryggingu lágmarksinnistæðna – og hins vegar annarra fjármálastofnana, sem líta á það sem meginhlutverk sitt að hámarka skammtímagróða eigenda. Þar af leiðir, að þeir eiga sjálfir og einir að bera tapið, ef illa fer. Bindum í eitt skipti fyrir öll endi á það siðleysi, að gróðinn sé einkavæddur en tapið þjóðnýtt.
  • Samræmd ríkisfjármála- og peningamálastefna: Í þessu efni ber að byggja á stöðugleikasáttmálanum, en gera þær ráðstafanir, sem þarf til að tryggja, að hann haldi. The Economist Intelligence Unit hefur sett fram tillögur um, að skuldir þjóðríkja umfram 60% af VLF (hámark skv. stöðugleikasáttmálanum) verði yfirteknar af sameiginlegri stofnun og samið um framlengingu þessara skuldbindinga fram í tímann og á betri kjörum. Þetta mundi þvinga „markaðina“ til að axla hluta af þeirra eigin ábyrgð á ósjálfbæru bóluhagkerfi á uppsveifluárunum fyrir kreppu. Hlustum á viðvörunarorð fyrrverandi fjármálaráðherra Þýskalands og núverandi kanslarakandidat, Hr. Steinbrücker: „Við verðum að binda endi á það, að ríkið fallist á að taka á sig, þ.e. skattgreiðendur, skuldbindingar, sem eru afleiðingar rangra ákvarðana, vanmats á áhættu og ábyrgðarlausrar spákaupmennsku. Hvers vegna ættu fjármálastofnanir að vera undanþegnar þeirri kvöð að bera ábyrgð á afleiðingum eigin ákvarðana?
  • Sameiginleg bankastofnun Evrópusambandsins verði stofnuð í því skyni að framfylgja reglum og annast eftirlit með öllum bönkum og fjármálastofnunum, sem starfa þvert yfir landamæri, og tryggi, að lágmarkstrygging innistæðna standist, jafnvel kerfislæga kreppu.
  • Tobin-skatturinn á fjármálaviðskipti er handhægt tæki til að hafa stjórn á þeim öfgakenndu starfsháttum, sem leiddu til þess, að fjármálageirinn fór fram úr sjálfum sér á bólutímanum. Hann er til þess fallinn að gera hvort tveggja, að skila nauðsynlegum tekjum (til að draga úr líkum á að töp lendi á skattgreiðendum) og sem stjórntæki gegn óheilbrigðum viðskiptaháttum.
  • Matsfyrirtækin kalla á umbætur. Hér þarf hvort tveggja, lagabreytingar og öflugt eftirlit til að binda endi á innbyggða hagsmunaárekstra og hvata til að gefa mörkuðum villandi og síðbúnar upplýsingar.
  • Lokið þessum skattaparadísum: Ríkisstjórnum í lýðræðisríkjum ber skylda til að standa vörð um réttarríkið. Þeim ber skylda til að tryggja öllum ríkisborgurum sínum jafnrétti fyrir lögum. Alþjóðastofnanir, svo sem eins og G-20, Alþjóðabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið vilja láta líta svo á, að þessar stofnanir láti sér annt um að tryggja, að sameiginlegar leikreglur séu í heiðri hafðar í alþjóðaviðskiptum. Hvernig má það vera, að lýðræðislega kjörnar ríkisstjórnir taka því, þegjandi og aðgerðarlaust, að eigendur fjármagnsins, hinir ofurríku, þetta svokallaða 1%, taki lögin í eigin hendur og undanskilji auðlegð sína og ofurtekjur frá skattlagningu í þágu almannahagsmuna? Hvers vegna líðst það, að ríkisstjórnir í lýðræðisríkjum afhendi auðræðiselítu heimsins slík forréttindi? Hvernig getum við vænst þess, að löghlýðnir ríkisborgarar og fyrirtæki keppi á markaði við keppinauta, sem eru hafnir yfir lögin, og hafa skenkt sér fyrirfram, átölulaust, slíka markaðsyfirburði?
  • Stoppum þetta – og stoppum það strax.

Fyrir meira en heilli öld stóð bandarískur forseti frammi fyrir yfirþyrmandi, ábyrgðarlausu og spillandi valdi hinna svokölluðu „robber barons“ , sem í krafti auðs síns réðu lögum og lofum í bandarísku þjóðfélagi; og höfðu keypt bandaríska þingið að stórum hluta til þjónustu við sig og þannig gert hið unga bandaríska lýðræði að skrípamynd af sjálfu sér. Theodore Roosevelt réðst til atlögu við þá. Hann sagði eftirminnilega í ræðu, þar sem hann lýsti stríði á hendur ólígörkunum, að það væri tími til kominn að krefjast réttlátari skiptingar á arði stritsins „milli þeirra manna, sem eiga meira en þeir hafa unnið fyrir og þeirra manna, sem hafa unnið fyrir meiru en þeir eiga“. Roosevelt beitti valdi ríkisins til þess að stöðva ofríki ólígarkanna og tryggja hagsmuni almennings. Hann gekkst upp við því að vera kallaður „roughneck“, harður í horn að taka. Og það var hann sem sagði, að „when the going gets tough, the tough get going“.

Það eru áreiðanlega harðneskjulegir tímar framundan. En hvað heldur aftur af ykkur, fulltrúum fólksins? Er ekki kominn tími til að láta til skarar skríða?