Minning: SNÆFRÍÐUR BALDVINSDÓTTIR

Þegar hún leit fyrst ljós heimsins, kvaddi hún sér hljóðs, eftirminnilega. Það var hvorki vanmáttugt kjökur né síngjörn heimtufrekja. Það var sjálfstæðisyfirlýsing. Þannig var hún var allt sitt líf: Sjálfstæð og viljasterk.Þegar hún leit fyrst ljós heimsins, kvaddi hún sér hljóðs, eftirminnilega. Það var hvorki vanmáttugt kjökur né síngjörn heimtufrekja. Það var sjálfstæðisyfirlýsing. Þannig var hún var allt sitt líf: Sjálfstæð og viljasterk.

Uppvaxtarárin á Ísafirði settu á hana mark. Frá barnsaldri lagði hún stund á fiðluleik í Tónlistarskóla Ragnars H. Ragnar. Í þeim skóla var spilað á samæfingum hverja helgi. Tónleikar fyrir fullum sal voru þrisvar á ári: Um jól, páska og lokatónleikar að vori. Á öllum þessum tónleikum spilaði hún einleik af öryggi og ástríðu. Í fiðluleiknum birtust okkur aðrir eðliskostir hennar: Fegurðarþráin og vandvirknin.

Við eigum ennþá eintak af Faunu, karikatúr menntskælinga í MR af útskriftarnemum. Þar birtist hún í skólastofunni, fljúgandi utan úr heimi á töfrateppi fyrirsætunnar, og spyr: „Stelpur, hvað á að lesa til prófs?“. Myndin er raunsönn. Hún las á fáeinum vikum námsefni ársins. Hún stóðst öll sín próf með sóma. Og sýndi í því óvenjulegan sjálfsaga og einbeitingarhæfni.

Á þeim árum, þegar hún ferðaðist heimshorna á milli í starfi sínu sem fyrirsæta, lét hún það ekki trufla sig frá kröfuhörðu háskólanámi við ameríska háskóla, þaðan sem hún lauk bæði B.Sc – og meistaraprófi í fræðum sínum. Og uppgötvaði þá að stærðfræði lá létt fyrir henni eins og móðurömmu hennar, Aldísi, sem las stærðfræðipensúm menntaskóla að gamni sínu á efri árum, til að bæta fyrir glötuð tækifæri fátæktarinnar á uppvaxtarárum, mitt í heimskreppu. Í þessu birtist metnaður Snæfríðar og fyrirhyggja.

Kennsla er göfugt starf. Góður kennari er bæði gefandi og skapandi. Þannig reyndist Snæfríður nemendum sínum á Bifröst þann tæpa áratug, sem hennar naut þar við. Hún fór stöðugt vaxandi sem kennari og fræðimaður. Og lét sig ekki muna um að taka aðra meistaragráðu, með fullri kennslu, við Háskóla Íslands, í torskildustu greinum hagfræðinnar. Hún vildi dýpka skilning sinn á viðfangsefnunum til að geta betur miðlað öðrum. Þannig birtist okkur skyldurækni hennar og ábyrgðartilfinning.

Hún hreykti sér ekki. Aldrei heyrði ég hana stæra sig af verkum sínum. En ég gleymi ekki brosinu í augum hennar þegar hún sýndi mér nýlega bréf, þar sem tilkynnt var, að hún hefði verið valin í alþjóðlega nefnd til að semja grundvallarrit í þjóðhagfræði, sem væri sniðið að þörfum meistaranema í þróunarríkjum. Til slíkra verka veljast bara hinir bestu.

Undanfarin dægur höfum við Bryndís, systkini Snæfríðar, vinir og vandamenn, spurt hvert annað, skilningsvana frammi fyrir miskunnarleysi örlaganna – hvers vegna? Hvers vegna er hún hrifin brott frá okkur einmitt núna, þar sem hún stendur í blóma lífs – þegar sköpunarverkið bíður heillandi fram undan?

Hvers vegna spyrjum við, ráðþrota í örvilnan, – en fáum ekkert svar. Á slíkri stundu leitum við á náðir tónlistarinnar, sem kemst næst því að lyfta mannsandanum upp á æðra tilverustig sköpunarverksins. Með Svanavatn Tsjakovskís, herhvöt Verdis til hinnar fjötruðu og frelsisóð Beethovens ómandi innra með okkur, varðveitum við og vegsömum minningu þína í hjarta okkar. Í huga okkar og hjarta, ert þú, varst og verður alltaf, svo lengi sem við drögum lífsandann, okkar eina sanna Snæfríður Íslandssól.


Systurnar Snæfríður og Kolfinna Baldvinsdætur