Hvað sögðu nemendur um námskeið Jóns Baldvins?

Eins og vikið er að í greininni: Háskóli Íslands – Talíbanar í fílabeinsturni? hófst samstarf stjórnmálafræðideildar HÍ við mig haustið 2009. Efni námskeiðsins var: Geta smáþjóða til að gæta hagsmuna sinna og hafa áhrif í alþjóðakerfinu. – Prófessor við deildina fylgdi námskeiðinu úr hlaði með inngangserindi um ríkjandi kenningar um stöðu smáþjóða í alþjóðasamskiptum. Ég fylgdi þessu eftir með því að rekja dæmi um stöðu og áhrif smáþjóða í því kerfi alþjóðasamskipta, sem byggt hefur verið upp eftir Seinna stríð. Í mörgum tilfellum gat ég miðlað af eigin reynslu, eins og t.d.varðandi hafréttarmál og þorskastríð, samninga við Evrópusambandið (EES) og frumkvæði Íslands að stuðningi alþjóðasamfélagsins við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða.

Í ljósi þess, að forsvarskonur kynjafræðiskorar hafa knúið kennara við stjórnmálafræðadeildina til að afturkalla áður umbeðið námskeið í samstarfi við mig, er fróðlegt að rifja upp, hvað nemendur sjálfir höfðu að segja um reynslu sína af námskeiði mínu á haustmisseri 2009. Það mun vera regla við háskólann, að nemendum gefst kostur á að leggja kerfisbundið mat á frammistöðu kennara. Niðurstaðan varð sú, að JBH fékk hæstu einkunn kennara við deildina það misserið. Eina neikvæða umsögnin var, að hann væri ekki ínáanlegur utan kennslustunda (þ.e. ekki með fasta viðtalstíma). Þessi gagnrýni var rökstdd með því, að hér væri um að ræða „kennara sem væri gangandi námsefni. Hann bókstaflega framkvæmdi söguna, sem við lærum um í þessu námskeiði“. Aðrar umsagnir fylgja hér á eftir:

  • Jón Baldvin er góður sögumaður og er skipulagður í frásögn. Hann hefur greinilega reynslu í kennslu og því að draga fram aðalatriði.
  • Einstakt að fá innsýn atvinnumanns í fagið.
  • Góð blanda af lífsreynslu, pólitík og fræðimennsku.
  • Jón Baldvin er bara svo ansi skemmtilegur, að það er ekkert hægt að setja út á hann.
  • Kennara tekst vel að miðla þeirri miklu reynslu, sem hann býr yfir. Auk þess er hann áhugasamur um kennsluna, og fyrirlestar vel fluttir og áheyrilegir.
  • JBH hélt athygli nemenda með skemmtilegri framsögu, áhugaverðum tilvitnunum og dæmum um gang mála á alþjóðavettvangi.
  • Ljómandi góður kennari. Skipulagður.
  • Hann miðlar vel af reynslu sinni og það er mjög gaman að geta tengt námsefnið svona við raunveruleikann. Tímarnir eru skemmtilegir og sögurnar líka.
  • Lærdómsríkast var, hversu kennarinn hafði gaman af að kenna.
  • Þetta hefur verið sá allra skemmtilegasti og innihaldsríkasti kúrs, sem ég hef tekið.
  • Að fá frá krataforingjanum sjálfum lýsingar á mönnum og málefnum, ásamt skoðunum hans og visku, er eitthvað, sem ég á eftir að búa að alla ævi.
  • Ég fór í þennan kúrs með miklar væntingar, en þessi kúrs, og þá sérstaklega Jón Baldvin sjálfur, náði að toppa allt, sem ég hafði gert mér vonir um.
  • Þetta er búið að vera æðislegt í alla staði og er efni í margar sögur handa börnum manns í framtíðinni.
  • Ég vil bara þakka innilega fyrir mig. Takk fyrir EES… takk fyrir að gera Ísland að kyndilbera frelsis.