Er kalt stríð í uppsiglingu á ný? ÞEIR TRYGGJA EKKI EFTIR Á

Er innlimun Krímskagans – sem sjálfstjórnarhéraðs í Rússneska sambandsríkið bara fyrsta skrefið? Er áætlun Putins að fylgja þessu eftir í Suð-Austurhéruðum Úkraínu, þar sem rússneski þjóðernisminnihlutinn er öflugur? Hvað með Eystrasaltsþjóðirnar – Eistland og Lettland sér í lagi – þar sem rússneski þjóðernisminnihlutinn er hlutfallslega enn fjölmennari? Kenning Putins, um rétt móður Rússlands til að vernda rússneska þjóðernisminnihlutann í grannríkjunum, á ekki síður við þar. Heræfingar á landi og í lofti rétt handan landamæra Eistlands og Lettlands minna óþægilega á liðna tíð. En öfugt við Úkraínu hafa Eystrasaltsþjóðirnar þrjár nýtt tímann frá endurheimt sjálfstæðis (1991) með því að baktryggja nýfengið frelsi með aðild að bæði Evrópusambandinu og NATO. Dugar það?

Hér við háskólann í Tartu er sérstök stofnun (EURUS) – Euro-Russian Studies – sem fæst við að rannsaka og upplýsa um hræringar undir yfirborðinu handan landamæranna.
Þar leggja á ráðin útlaga Rússar og Hvítrússar með innfæddum og Austur-Evrópumönnum af ýmsum þjóðernum – sértaklega Pólverjum.

Af samtölum við hina sérfróðu að dæma, heyrist mér umræðan snúast einkum um þrennt: (1) Innri veikleika Úkraínu, (2) Vantrú á, að pólitísk forysta Vesturlanda þori, eða geti, þvingað fram fjárhagslegar refsiaðgerðir gegn rússneskum/úkraínskum rummungsþjófum (ólígörkum), nefnilega upptöku/frystingu eigna og bankareikninga. (3) Hið þriðja er, að öfugt við Úkraínu hafa Eystrasaltsþjóðirnar þrjár nýtt tímann frá endurheimt sjálfstæðis (1991) til að baktryggja það með aðild að Evrópusambandinu og NATO. Þjóðarsátt um Evrópusambandsaðild í upphafi, þvert á flokkadrætti, veitti stjórnmálamönnum aðhald og aga, sem þurfti til að byggja upp valddreift réttarríki og til að takast á við arfgenga spillingu.

Forsætisráðherra Úkraínu þrábiður um, að forystumenn Vesturlanda grípi til aðgerða, sem hitti Rússland í hjartastað – nefnilega í pyngjuna. Þarna er ekki verið að tala um smáupphæðir. Þessir ólígarkar treysta hvorki stjórnvöldum í Moskvu né Kyiv né gjaldmiðlum þeirra. Þeir ryksuga arðinn af auðlindum þessara þjóða og koma honum úr landi í skattaskjól undir vernd Wall Street, City of London og Evrópusambandsins. Þýfið er metið á 60-100 millljarða dala árlega frá Rússlandi. Við þetta bætist, að viðskiptatengsl rússnesku ólígarkanna og Þýskalands eru sérstaklega náin.

Ef Þýskaland mundi stöðva tækniútflutning sinn til Rússlands, mundi það gera rússneska hagkerfið óstarfhæft á skömmum tíma. Það hefur enginn trú á, að Þýskaland geri það til að styðja við bakið á veikburða bráðabirgðastjórn í Ukraínu. Hana skortir pólitískt bakland, hún er fjárhagslega gjaldþrota og hernaðarlega getulaus. Þeir sem best þekkja til segja, að stjórnarfar í Úkraínu sé rotið í innsta kjarna, stjórnmála- og viðskiptaforystan sé ræningjabæli. Stórtækustu arðræningjarnir eru af ýmsum ástæðum háðari Moskvu en Kyiv.

Ungur Úkraínumaður, nemandi minn, lýsir reynslu sinni af herskyldu í Úkraínu svona: “Við fengum hvorki vopn né vistir, hvað þá heldur herklæði við hæfi. Yfirmennirnir stálu fjárveitingunum, sem áttu að fara í það. Vopnabúnaður var úrelt drasl. Liðsforingjarnir nenntu ekki einu sinni að stýra þjálfun í herbúðum, því að allt sem til þurfti, skorti. Aðalatriðið var að eiga nægar birgðir af vodka til að lifa þetta af”.

Það er sagt, að sérsveitir innanríkisráðuneytisins (aðallega mannaðar Rússum – skytturnar sem myrtu mótmælendur á Maidan) hafi verið einu hersveitirnar í úkraínska hernum, sem höfðu fengið vopnabúnað og þjálfun sem gæti dugað í stríðsátökum. Þessar sérsveitir voru leystar upp eftir Maidan. Innlimum Krím í Rússland er orðinn hlutur – svo ekki verður aftur snúið. Það eina sem Kyiv getur gert – ef hún getur það – er að semja um afvopnun og brottför úkraínska setuliðsins þar. Margir efast um, að bráðabirgðastjórnin í Kyiv hafi pólitíkst bakland og stjórnskipulega burði til að tryggja, að þing- og forsetakosningarnar í maí geti farið fram friðsamlega og án blóðsúthellinga.

Eru Eystrasaltsþjóðir hræddar? Það er ekki langt héðan til Leningrad. Það hafa verið sérstakar heræfingar á landi og í lofti, rétt handan landamæranna. Rússneski minnihlutinn í Eistlandi og Lettlandi er hlutfallslega fjölmennari en í héruðunum sjö í Suðaustur-Úkraínu. Í Eistlandi 35%. Narva er 95% rússnesk borg. Savisaar er borgarstjóri í Tallinn í krafti oddaaðstöðu, sem hann fær við að rækta rússneska minnihlutann. Rússar hafa atkvæðisrétt í sveitastjórnakosningum en fá ekki ríkisborgararétt og þar með atkvæðisrétt í þing- og forsetakosningum, nema þeir standist lágmarkskröfur um eistneskukunnáttu. Í Riga, höfðuborg Lettlands – helstu viðskiptaborg við Eystrasalt – eru Rússar í meirihluta. – Spurningin er: Að hve miklu leyti hefur það tekist á þessum tuttugu árum frá sjálfstæði að aðlaga rússneska minnihlutann að hinum nýju þjóðfélögum og að tryggja hollustu þeirra við gistiríkið – fremur en Moskvu?

Um þetta eru skiptar skoðanir. En eitt er ljóst: Það er auðvelt fyrir Rússa að hanna atburðarás, sem er ætluð til að réttlæta kenninguna um “rétt Moskvu til að vernda Rússa”, sem sæta mismunun, í grannríkjum. Krím var upphaflega heimkynni tyrknesk-ættaðra Tartara. Stalín flutti þá nauðungarflutningum í þræla- og dauðabúðir sínar í Síberíu á stríðsárunum. Í staðinn voru fluttir inn Rússar, sem eru orðnir meirihluti í Krím. Á sjónvarpsskjánum sjáum við brosmildar rússneskar ljóskur og syngjand kósakka, sem fagna því að sameinast aftur í faðmi móður Rússlands.

Við sjálfstæði Eystrasaltsþjóða munaði minnstu, að Rússar væru orðnir í meirihluta þar. Forystulið Eystrasaltsþjóða hafði sætt nauðungarflutningum til Síberíu. Í staðinn voru fluttir inn Rússar, rétt eins og í Krím. Það voru seinustu forvöð að bjarga tungu, þjóðerni og menningararfi Eystrasaltsþjóða, í nafni þess að sameinast aftur fjölskyldu evrópskra lýðræðisríkja.

Er allt þetta í hættu? Ég heyri ekki betur en að menn taki því sem að höndum ber með æðruleysi. Það er engin taugaveiklun. Það er engin örvænting. En það er heldur engin afneitun á þeirri staðreynd, að við lifum í hættulegu umhverfi.

En menn benda á eftirfarandi staðreyndir: Öfugt við Úkraínu hafa allar Eystarsaltsþjóðir notað tímann vel til að festa endurheimt sjálfstæðis í sessi og baktryggja það í bandalögum lýðræðisríkja. Allir, þvert yfir pólitískar víglínur – m.a.s. uppgjafakommúnistar – voru frá upphafi sammála um meginmarkmið að fengnu sjálfstæði: að ganga í Evrópusambandið; að ganga í NATO; og að byggja upp lýðræðisþjóðfélag og réttarríki.

Þetta hefur þeim tekist furðuvel, þrátt fyrir allt. Það er mikið afrek á skömmum tíma. Hér varð að byggja allt frá grunni. Viðurkenningu á einkaeignarrétti. Frjálsa verðmyndun. Opnun þjóðfélagsins. Aðlöðun erlendra fjárfestinga. Umskautun utanríkisverslunar frá austri til vesturs. Nýjar stjórnaskrár, sem byggðu á grunngildum vestrænnar menningar um einstaklingsfrelsi og mannréttindi. Síðast en ekki síst: upptöku stöðugs gjaldmiðils – sem var fyrst bundinn við þýskt mark – en síðan við evru. Eistland og Lettland hafa nú stigið skrefið til fulls með því að fullnægja settum skilyrðum um upptöku evru.

Það var traust gjaldmiðilsins og fjárhagslegur stuðningur Evrópusambandsins og Seðlabanka Evrópu (og í Lettlandi, stuðningur IMF), sem bjargaði því sem bjargað varð hjá þessum þjóðum í hinni alþjóðlegu banka- og fjármálakreppu. Í ljósi þessarar reynslu er ekki undarlegt, að stuðningur við Evrópusambandsaðild, þvert á flokkslínur, er yfirgnæfandi (nema hjá hluta rússneska minnihlutans, sem deilir heimssýn Evrópuvaktarinnar).

Niðurstaðan: Forystumenn Eystrasaltsþjóða tóku alvarlega, við endurheimt sjálfstæðis, slagorðið um, að þú tryggir ekki eftir á. Allur almenningur virðist bera traust til þess, að Evrópusambands- og NATO-aðild tryggi sjálfstæði þeirra, öryggi og efnahagslega afkomu.