Minning: Ólafur Björnsson

Það hefur ekki farið fram hjá okkur, vinum Ólafs, hvað Elli kerling fór lengi vel halloka í glímunni við hann. Það var svo sem eins og við var að búast. Ólafur var ekki vanur því að láta sinn hlut fyrir neinum – fyrr en í fulla hnefana. En að lokum má enginn sköpum renna.

Við sem þekktum Ólaf vel, þóttumst kunna skil á þessu harðfylgi til hinztu stundar. Sumir lifa samkvæmt þeirri kenningu, að allt eyðist sem af er tekið. Og spara kraftana fram í andlátið. Aðrir hafa fyrir satt, að allt eflist sem á reynir. Og hlífa sér því hvergi. Slíkir menn bera fúslega annarra byrðar. Og eflast við hverja raun. Þannig reyndum við Ólaf Björnsson í blíðu og stríðu.

Hann fór fyrst til sjós um fermingaraldurinn. Karlmennskan efldist við keipinn, þar sem óharðnaður unglingurinn mátti leggja sig allan fram til að halda sínum hlut við fíleflda harðjaxla. Sú lífsreynsla „meitlaði svip og stældi kjark“.

En þessi lífsreynsla kenndi honum líka ungum örlæti í garð þeirra, sem minna mega sín. Hann þurfti ungur fyrir öðrum að sjá og aðrir að treysta á hann. Og hann hefur reynst öðrum stoð og stytta, þegar á hefur reynt í sviptivindum mannlífsins. Hugsjón Ólafs – jafnaðarstefnan – var af þessum rótum runnin. Hún var runnin honum í merg og bein.

Sá sem á ungum aldri velst til að bera ábyrgð á lífi og limum annarra í áhöfninni í tvísýnni baráttu við óblíð náttúruöfl, þroskar með sér ríka ábyrgðarkennd. Þannig var jafnaðarstefna Ólafs. Hún var ekki bara kröfugerð á hendur öðrum, heldur krafa um sameiginlega ábyrgð. Suðurnesjakratar af kynslóð Ólafs vou margir steyptir í það mótið. Þeir hugsuðu eins og meirihlutamenn. Og undu því lítt, ef þeir voru það ekki. Þess vegna áttum við vel skap saman.

Það er sama, hvar Ólafur tók til hendinni: Á dekkinu, í brúnni, við verkstjórn eða útflutning, í eigin rekstri eða við uppbyggingu heimabyggðar – alls staðar munaði um hann. Það er hverju orði sannara, sem Kjartan Jóhannsson sagði um Ólaf sextugan: „enginn verður af því svikinn að fela þér verk eða trúnað“. Að ávinna sér traust samferðarmanna af verkum sínum – hver getur kosið sér betri eftirmæli?

Þeir eru ófáir samferðarmennirnir, sem eiga Ólafi Björnssyni gott að gjalda, og munu hugsa hlýlega til hans á kveðjustundinni. Það heitir héraðsbrestur, þegar slíkir menn kveðja. Við Bryndís kveðjum vin okkar með djúpri virðingu og þökk fyrir mannbætandi kynni.