Í tilefni heiðursdoktors-nafnbótar GRATIAS AGIMUS PER HONOREM (íslensk þýðing)

Heiðraði rektor, forseti senatsins, virðulegu fræðimenn, háttvirtu gestir, dömur mínar og herrar:

Þegar rektor Lærða skólans í Reykjavík – skóla sem rekur rætur sínar til prestaskóla allt aftur á 11. öld – ávarpaði seinasta útskriftarárganginn, sem var fullnuma í bæði latínu og grísku, sagði hann m.a.:

„Mér þykir það leitt, en hér með brautskrái ég seinasta árgang menntaðra manna – (það var engin kona í hópnum) – í sögu þjóðar vorrar“.

Hálfri öld síðar, þegar ég var brautskráður frá þessum sama skóla, hafði fátt, ef nokkuð, breyst. Ég hafði, hrokafullur beturvitringur sem ég var í þá daga, fordæmt úrelta námsskrá og fylgt því eftir með því að segja mig úr skóla. Þann veturinn stundaði ég fátt annað en að lesa Marx, íslenskan skáldskap, tefla skák og spila á píanó.

19 vetra gamall hafði ég ákveðið að verða forsætisráðherra. Vinur minn, sem kenndi keltnesk og norræn fræði við Edinborgarháskóla, hafði gaukað því að mér, að Edinborgarháskóli væri vænleg uppeldisstöð fyrir verðandi forsætisráðherra.

Það kom á daginn, að fjöldi annarra þjóðfrelsismanna héðan og þaðan úr nýlendum breska heimsveldisins – þar sem sagt var að sólin settist aldrei – og stunduðu þarna nám, gengu með sömu grillu og ég. Við vorum flestir að læra til forsætisráðherra. Sumir náðu því, aðrir ekki – eins og gengur.

Þegar ég hugsa til baka til námsáranna í Edinborg finnst mér ég hafi lært meira af rökræðum við þessa uppreisnarmenn gegn breska nýlenduveldinu heldur en af hinum ráðsettu lærisveinum Adams Smith, sem fóru með faðirvor meistarans í fyrirlestrum sínum – með fullri virðingu fyrir þeim.

Þegar gagnrýni mín á hugmyndafræði auðræðisins, sem þarna var kennd undir yfirskini vísinda, hafði náð óbærilegu hitastigi, ákvað ég að láta gott heita og hélt til Stokkhólms, þar sem er mekka okkar lýðræðisjafnaðarmanna, til að rétta af kúrsinn.

Um miðjan áttunda áratuginn gafst mér kostur á að brjóta heilann um samanburð hagkerfa sem Fulbright-styrkþegi við Harvard. Þar komst ég að því, m.a. undir áhrifum frá hinum rússnesk-þýska hagspekingi, Wassily Leontief, að hagvaxtarvél sovétkerfisins hefði brætt úr sér – væri ónýt og ekki viðgerðarhæf.

Hér með er nóg sagt, að ég hygg, til að gefa til kynna, að vistun mín innan veggja akademíunnar hingað til hefur markast nokkuð af meðfæddum mótþróa við venjuvisku og rétttrúnað.

Er það ekki einmitt þess vegna sem ég er hér?

Ber svo að skilja, að með því að sæma mig heiðursdoktorsnafnbót, hafi vörslumenn akademíunnar ákveðið að fyrirgefa fornar væringar – og láta gott heita?

GRATIAS AGIMUS PER HONOREM
Vér þökkum heiðurinn.