MANNRÉTTINDABARÁTTA Í 100 ÁR

Um aldamótin 1900 var Ísland eitt fátækasta land Evrópu. Skv. hagtölum fyrir árið 2015 eru Íslendingar nú í hópi tíu auðugustu þjóða heims. Sagan af því, hvernig við brutumst úr örbirgð til bjargálna, er saga 20stu aldar.

Það var einkum þrennt, sem gerði Íslendingum kleift að varpa af sér örbirgðarokinu og að brjótast inn í nútímann. Í fyrsta lagi heimastjórn 1904 – að fá framkvæmdavaldið inn í landið. Í öðru lagi aðgangur að erlendu fjármagni – framkvæmdafé – sem fékkst með stofnun dansks hlutafjárbanka undir heitinu Íslandsbanki upp úr aldamótunum 1900. Og í þriðja lagi tollfrjáls aðgangur að erlendum mörkuðum – ekki síst fyrir saltfisk í Miðjarðarhafslöndum – áður en vendartollar torvelduðu milliríkjaviðskipti upp úr Fyrra stríði og í kjölfar heimskreppunnar miklu, sem skall á 1929.

Þessar breytingar gerðu okkur kleift að taka innflutta tækni í okkar þjónustu og að nýta sjávarauðlindina – ekki bara í sjálfsþurftarbúskap – heldur til útflutnings. Sú staðreynd, að þjóðin var eiginlega aldrei svo aum í örbirgð sinni, að almenningur væri ekki að stórum hluta læs og skrifandi, átti stóran þátt í, hversu umskiptin gengu hratt fyrir sig.

Tæknibyltingin – vélvæðing bátaflotans – hófst á Ísafirði árið 1902. Fyrir upphaf fyrri heimsstyrjaldar gerðu Íslendingar út meira en 20 togara, sem Bretar gerðu að hluta upptæka í stríðsrekstur sinn. Þessi fyrsti áfangi í byltingu atvinnuhátta á Íslandi, á fyrsta hálfum öðrum áratug 20stu aldar, gekk hraðar fyrir sig en víðast hvar annars staðar. Getum við þakkað það smæðinni? Í kjölfarið tók þjóðlífið allt stakkaskiptum. Staðnað landbúnaðarsamfélag í sjálfsþurftarbúskap breyttist eins og hendi væri veifað í sjávarútvegssamfélag, sem lifði á útflutningi; og flutti inn flest það sem þurfti til að halda uppi lífskjörum frá orku(kolum) til byggingarefna (timbur) og samgöngutækja.

„Fólk í fjötrum“

Í kjölfarið fylgdu þjóðflutningar úr sveitum og frá hinum dreifðu byggðum í þorp og bæi við sjávarsíðuna. Þetta fólk var að heita mátti réttlaust utangarðsfólk í hinu nýja samfélagi. Það átti ekkert nema vinnuaflið að selja, til að sjá fyrir sér og sínum. Vinnuveitandinn áskildi sér réttinn til að verðleggja vinnuaflið. Vinnutíminn var ótakmarkaður. Þrældómurinn var oft myrkranna á milli, meðan vinnu var að fá.

Reykjavík, hinn rísandi höfuðstaður, hafði verið aðsetur embættismanna í þjónustu dönsku nýlendustjórnarinnar, ásamt fáeinum niðursetningum og áhangendum. Þetta lið hafði ekki einu sinni þá fyrirhyggju að byggja höfn fyrir þessa rísandi verlsunarmiðstöð þjóðarinnar. Til eru ljósmyndir, sem sýna konur við kola- og saltburð. Þessi þungavara var ferjuð á árabátum frá skipshlið upp í fjöru, þar sem konurnar tóku við. Meðan karlmennirnir þræluðu nótt sem nýtan dag um borð í togurunum, önnuðust konurnar fiskverkunina í landi, einatt við vosbúð og kulda.

Húsakynnin voru saggakjallarar, berklagildrur eða gisnir hanabjálkar við okurleigu. Kannist þið við þetta úr fréttum? Botnlaus þrældómur, heilsuspillandi húsnæði og réttleysi á öllum sviðum. Þrælsóttinn var ristur í andlitsdrætti margra og undirgefnin leyndist ekki í göngulaginu. Biðraðir atvinnuleysingjanna, sem hímdu undir húsgafli verkstjórans, og biðu þess náðarsamlegast að fá vinnu, voru daglegt brauð margra. Endurminningar Tryggva Emilssonar< b>„Fátækt fólk“, lýsir kjörum sveitarómagans; og öndvegisrit Gylfa Gröndal, „Fólk í fjötrum“, lýsir hlutskipti „Grimsbylýðsins“ á mölinni.

Það er upp úr þessum jarðvegi, sem verkalýðshreyfingin og flokkurinn, sem kenndi sig við alþýðu – flokkur íslenskra jafnaðarmanna – er sprottinn. Þetta var mannréttindahreyfing fátæks fólks. Þetta var fyrsta aldarfjórðunginn ein og sama hreyfingin, svo sem vera bar. Verkalýðsfélögin þurftu fyrst að berjast fyrir sjálfum tilverurétti sínum. Kröfu þeirra um réttinn til að semja um verðlagningu vinnuaflsins var harðlega neitað. Það kostaði verkföll og aftur verkföll. Samningsrétturinn – og rétturinn til að beita verkfallsvopninu í kjarabaráttu – var ekki löghelgaður fyrr en rúmum tveimur áratugum eftir stofnun ASÍ. Og ekkert af helstu mannréttindum þessa fátæka fólks fékkst baráttulaust.

Umbótamálin

Hver voru stóru málin? Samingsrétturinn. Vinnutíminn. Aðbúnaður og öryggi á vinnustöðum. Mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegum kjörum – verkamannabústaðir. Almannatryggingar: sjúkra-, slysa- og örorkutryggingar. Ellilífeyrir. Atvinnuleysistryggingar. Jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu vinnu. Lífeyrissjóðir. Jafn kosningaréttur – hvort heldur var í þéttbýli eða dreifbýli.

Þetta síðasttalda, sem telst vera grundvallarregla lýðræðis, hefur reyndar ekki áunnist enn í dag. Hér til hliðar eru birtar „stiklur úr sögu Alþýðuflokksins“ í 100 ár. Með því að renna augum yfir stiklurnar, skynjum við samhengið í mannréttindabaráttu fólks í heila öld. Saga þín er saga vor. Öll stóru umbótamálin, sem hafa breytt þjóðfélaginu til hins betra, hafa náðst fram fyrir baráttu þessarar mannréttindahreyfingar.

Hvers vegna varð þessi mannréttindahreyfing – Alþýðuflokkur/Alþýðusamband – aldrei ráðandi fjöldaflokkur á vinstrivæng íslenskra stjórnmála eins og annars staðar á Norðurlöndum? Á því eru ýmsar skýringar. Þessi hreyfing var 20-30 árum yngri en systurhreyfingarnar á Norðurlöndum. Við höfðum ekki fyrr stofnað ASÍ/Alþýðuflokk en rússneska byltingin braust út 1917. Hreyfingin hafði því ekki fest sig í sessi né mótað sér traustan hugmyndagrundvöll, þegar taka þurfti afstöðu til grundvallarspurninga: Hægfara umbætur – skref fyrir skref – á grundvelli lýðræðis? Eða stóra stökkið með byltingu inn í draumalendur framtíðarinnar?

Margir – einkum menntamenn – létu glepjast af draumsýn framtíðarlandsins. Þeir klufu hreyfinguna fyrst með því að stofna Kommúnistaflokk (deild úr Alþjóðasambandi kommúnista – KOMINTERN) 1930 og síðar Sósíalistaflokkinn 1938. Þar með var eining verkalýðshreyfingarinnar rofin. Íhaldið sá sér leik á borði að deila og drottna. Fyrst studdi það kommúnista til valda í verkalýðshreyfingunni. Seinna hraktist Alþýðuflokkurinn, veiklaður og rótarslitinn, til samstarfs við flokk atvinnurekenda í verkalýðshreyfingunni. Án er ills gengis, nema heiman hafi.

Önnur ástæða er sú, að hinir uppflosnuðu sveitamenn – Grimsbylýðurinn á mölinni, eins og Jónas frá Hriflu uppnefndi öreigana í sjávarplássunum einhvern tíma í ergelsi – hefur aldrei notið atkvæðisréttar til jafns við þá, sem eftir sátu í sveitinni og studdu ýmist Framsóknar- eða Sjálfstæðisflokkinn. Þegar verst gegndi, var misvægi atkvæðisréttar einn á móti fimm, sveitunum í hag. Þetta skýrir lykilstöðu Framsóknarflokksins í íslenska valdakerfinu.

Enn ein skýringin er sú, sem hendir gjarnan umbótahreyfingar, að þær verða fórnarlömb eigin árangurs. Gott dæmi um þetta er, að með Alþýðutryggingunum 1936 tókst að afnema illræmd fátækralög. Samkvæmt þeim þurfti fólk sem hafði „þegið af sveit“ að sæta hreppaflutningum og var svipt mannréttindum, eins og t.d. kosningarétti. Ári seinna, í sveitarstjórnarkosningum 1937, vann Sjálfstæðisflokkurinnn stórsigur. Til eru frásagnir af því, þegar fátækt fólk í „Pólunum“ (slömm í Reykjavík), þar sem margir voru á framfæri Reykjavíkurborgar, kom prúðbúið á kjörstað, smalað í bíla atvinnurekenda – og kaus íhaldið.

Mistökin?

Þegar Alþýðuflokkurinn fagnaði 70 ára afmæli sínu 1986, gerði Bryndís heimildamynd með viðtölum við marga brautryðjendur, þ.á. m. Guðmund Jónsson, skósmið á Selfossi, sem þá var einn eftirlifandi þeirra, sem sátu stofnfund Alþýðuflokks/ Alþýðusambands í Bárubúð við tjörnina í Reykjavík 1916. Aðspurður, hvers vegna Alþýðuflokkurinn hefði aldrei náð því að verða ráðandi fjöldaflokkur jafnaðarmanna eins og annars staðar á Norðurlöndum, svaraði hann: „Veistu það ekki, væna mín? Það er af því að við gerðum þau mistök að kenna hreyfinguna við alþýðuna. Íslendingar eru svo snobbaðir, að um leið og þeir hafa komist í álnir, eignast eitthvað, vilja þeir gleyma uppruna sínum. Þeir vilja ekki tilheyra alþýðunni. Þeir líta stærra á sig en svo!

Þetta er klassisk skýring. Hún er partur af bágbornu gengi jafnaðarmannaflokka í Evrópu á tímabili ný-frjálshyggjunnar s.l. tvo áratugi. Stéttastjórnmálin tilheyra fortíðinni, að sögn. Einstaklingshyggjan hefur orðið alls ráðandi. „Það er ekkert til sem heitir þjóðfélag – bara einstaklingar“, sagði Járnlafðin Thatcher. Og lýsir vel sýn ný-frjálshyggjunnar á mann og þjóðfélag. Samstaða þeirra, sem eiga undir högg að sækja, er ekki lengur sú sem hún var.

En á þá jafnaðarstefnan ekkert erindi lengur við það fólk, sem leitar ekki framar stuðnings af afli samstöðunnar – þar sem hver er sjálfum sér næstur? Hafa ekki grunngildi jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag (samstöðu) sigrað? Höfum við kannski þegar útrýmt fátækt og ójöfnuði? Sér ekki velferðarríkið fyrir þörfum þeirra, sem minna mega sín og á þurfa að halda?

Ef við svipumst um í heiminum og í okkar eigin samfélagi, er fátt sem bendir til þess , að við getum með góðri samvisku svarað þessum spurningum játandi. Ójöfnuðurinn milli ríkra og fátækra innan hinna þróuðu þjóðfélaga á Vesturlöndum hefur ekki verið meiri frá því áður en áhrifa jafnaðarstefnu og verkalýðshreyfingar fór að gæta snemma á seinustu öld. Samkvæmt nýlegri skýrslu frá Alþjóðabankanum er nú svo komið, að rúmlega 60 auðjöfrar ráða yfir meiri eignum en fátækari helmingur mannkyns, þrír og hálfur milljarður manna.

Ójafnaðarþjóðfélagið

Í forysturíki lýðræðisins, Bandaríkjunum, er svo komið, að erfingjar einnar fyrirtækjasamsteypu munu fá í arf meiri eignir en 40% hinna efnaminni landa þeirra. Helmingur af öllum fjármagnstekjum kemur í hlut 1% íbúanna. Bandaríkin – helsta tilraunastöð ný-frjálshyggjunnar – er orðið mesta ójafnaðarríkið í hinum þróaða heimshluta. Og eftir höfðinu dansa limirnir.

Á tímum bóluhagkerfisins fyrir Hrun upplifðu Íslendingar það, að örfámennur hópur, sem réði yfir nýeinkavæddum bönkum og fjármálastofnunum, gat stofnað til skulda, sem námu tífaldri þjóðarframleiðslu Íslendinga. Þegar kom að skuldadögum eftir Hrun, báru þeir enga ábyrgð. Gróðinn hafði verið einkavæddur, en skuldirnar átti að þjóðnýta. Skattgreiðendur báru skaðann.

Þar með hefur sjálfur þjóðfélagssáttmálinn, sem á að heita að gildi um markaðskerfi í lýðræðisþjóðfélagi, verið rofinn. Sá óorðaði sáttmáli felst í því, að hverjum og einum er frjálst að auðgast af eigin rammleik fyrir eigið fé, að því tilskyldu, að viðkomandi greiði skatta og skyldur til þess samfélags, sem skapar verðmætin. Við hvorugt hefur verið staðið. Þjóðin bar skaðann. Og nú, þegar við erum að byrja að jafna okkur eftir áfallið, m.a. vegna hagstæðra ytri aðstæðna, bendir flest til, að það eigi að endurtaka sama leikinn.

Hópur vildarvina fær að kaupa hlutabréf á sérkjörum í Símanum, sem var einu sinni þjóðareign. Allt bak við byrgða glugga. Greiðslukortafyrirtæki, sem er sérstök auðsuppspretta í rafrænu bankakerfi, er selt á gjafvirði hópi fjárfesta, þar sem föðurbróðir fjármálaráðherrans fer fremstur í flokki. Tryggingarfélög, sem hafa oftekið iðgjöld af viðskiptavinum, greiða örfámennum hópi eigenda arð, sem er sóttur í tjónasjóðinn og nemur hærri upphæðum en hagnaður fyrirtækjanna á ári. Þetta eru bara nýjustu tíðindin af vettvangi dagsins. Löglegt en siðlaust var einu sinni sagt. En í virku lýðræðisþjóðfélagi, þar sem löggjafarsamkoman á að gæta almannahagsmuna, væri löggjafarvaldinu beitt til að uppræta siðleysið.

Lausnir

Því hugarástandi, sem nú ríkir meðal þorra almennings, er best lýst með einu orði: VANTRAUSTI. Sjálft Alþingi er rúið trausti, stjórnmálaflokkar, stjórnmálamenn, forystumenn í atvinnulífi, jafnvel vörslumenn lífeyrissjóða, fjölmiðlar – flestir eru þessir aðilar rúnir trausti eftir Hrun. Hvað er til ráða? Það er ár til kosninga. Það gætu orðið þýðingarmestu kosningar í sögu lýðveldisins. Allir vita, að nú þarf að ná samstöðu um stóru umbótamálin – kerfisbreytingu til frambúðar.

Við vitum öll, hver stóru málin eru: Ný stjórnarskrá, sem tryggir þjóðinni virkt lýðræði. Málskotsréttinn til þjóðarinnar um að leggja stórmál undir í þjóðaratkvæðagreiðslu, þegar stjórnmálaforystan á Aþingi bregst. Jafn atkvæðisréttur, einn maður – eitt atkvæði. Sameign þjóðarinnar á auðlindum innsigluð í stjórnarskrá, sem og krafan um, að þjóðin fái réttmætan arð af auðlindum sínum. Húsnæði á viðráðanlegum kjörum handa nýrri kynslóð, sem hefur verið úthýst. Þetta eru næg verkefni til að sameinast um á nýju kjörtímabili.

Renniði yfir stiklurnar um stóru málin, sem Alþýðuflokkurinn, með atbeina verkalýðshreyfingarinnar, náði fram almenningi til hagsbóta á s.l. hundrað árum. Hvernig fórum við að því? Með því að beita afli samstöðunnar – þrátt fyrir allt sundurlyndið. Með því að beita lýðræðinu gegn auðræðinu. Við þurfum að gera það aftur. Við getum það. Vilji er allt sem þarf.