Þetta er bæði synd og skömm af ástæðum, sem ég tíunda hér á eftir. Einhvern tíma hefði ég látið segja mér það tvisvar, að Ólafur gæfist upp fyrirfram við það eitt að sjá framan í manninn, sem hann sagði einhvern tíma í ræðustól á Alþingi, að væri haldinn „skítlegu eðli“.
Af hverju er þetta bæði synd og skömm? Það er af því að það hefði verið hollt fyrir lýðræðið og hið pólitíska andrúmsloft með þjóðinni – rétt eins og löngu tímabær hreingerning – ef þjóðin hefði fengið tækifæri til að gera upp reikningana við arfleifð þessara manna beggja í einu. Heitir það ekki að slá tvær flugur í einu höggi?
Annars vegar hefði verið þrifnaður af því að gera upp við arfleifð Davíðs Oddssonar, úr því að Alþingi klúðraði því að fylgja eftir niðurstöðum Rannsóknarnefndar Alþingis. Sú niðurstaða var, að sem forsætisráðherra hefði Davíð verið hinn pólitíski höfuðpaur bóluhagkerfisins, sem leiddi efnahagslegt hrun yfir þjóðina; og sem seðlabankastjóri hefði hann brugðist skyldum sínum um að verja „fjárhagslegan stöðugleika“ hagkerfisins.
Viðbárur hans við nefndina, nefnilega að hann hefði varað aðra við, væru ómarktækar; hann hefði ekki verið álitsgjafi úti í bæ, heldur valdamaður, sem hefði vanrækt þá skyldu sína að verja stöðugleikann með tiltækum ráðum. Upplýst væri, að hann hefði haft aðgang að haldgóðum upplýsingum um yfirvofandi Hrun, sem og fengið tillögur í tæka tíð um nauðsyn aðgerða.
Þær aðgerðir hefðu getað dregið umtalsvert úr yfirvofandi tjóni, t.d. með því að breyta Icesave-reikningum Landsbanka erlendis úr útibúum í dótturfyrirtæki á ábyrgð gistilandsins, sem og að flytja höfuðstöðvar bankanna úr landi. Eins og lesendum Morgunblaðsins – þeim sem eftir eru – má vera kunnugt, lifir Davíð í fullkominni afneitun og kennir öllum um, öðrum en sjálfum sér. Í þessu viðviki þarf hann á hjálp þjóðarinnar að halda til að ná áttum.
Þótt Ólafur Ragnar hafi framan af unað við upphefð forsetaembættisins, breyttist það brátt til hins verra. Fyrr en varði, var hann orðinn forsöngvari og veislustjóri þeirra útrásarvíkinga, sem í bóluhagkerfinu breyttu Íslandi í smækkaða mynd af gerspilltu auðræðisríki á la Rus. Lofræður forsetans, innan lands og utan, um þessa gerspilltu fjárglæframenn, sem nú afplána sumir hverjir verðskuldaða dóma, lýsa alvarlegum dómgreindarbresti. Þær voru og eru forsetanum til skammar.
Sú útbreidda skoðun, að með því að vísa Icesave-samningum í þjóðaratkvæðagreiðslu, hafi forsetinn gerst bjargvættur þjóðarinnar og forðað henni frá skuldafangelsi, er í besta falli misskilningur, en í versta falli blekking. Nú liggur lokauppgjör á Icesave-reikningnum loksins fyrir.
Niðurstaðan er sú, að þrotabú Landsbankans og tryggingasjóður innistæðna hafa greitt Bretum og Hollendingum upphæð, sem er rúmlega 50 milljörðum hærri en lágmarkstrygging innistæðueigenda kvað á um. Þessi upphæð er, ef eitthvað er, hærri en Bucheit-samningurinn fól í sér.
Þjóðaratkvæðagreiðslurnar breyttu m.ö.o. engu um það, að Íslendingar – við eigum jú Landsbankann og tryggingasjóðinn – hafa greitt þær skuldir, sem samið var um. Þessi Icesave-reikningur er að öllu leyti á ábyrgð þeirra, sem einkavinavæddu Landsbankann fyrir gjafvirði, eigenda hans og stjórnenda (þ.e.a.s. formanns Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóra) og seðlabankastjóra, sem öfugt við norska seðlabankann, brást þeirri skyldu að koma Icesave í dótturfélag á ábyrgð gistilanda.
Það má ljóst vera, að íslensku þjóðinni er það sáluhjálparatriði í framtíðinni að gera upp við þessa arfleifð. Alþingi Íslendinga klúðraði tækifærinu, þegar því bauðst að fylgja eftir faglegri greiningu og afdráttarlausum niðurstöðum í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir Hrunsins, helstu ábyrgðarmenn þess og aðgerðir til úrbóta. Í stað þess að hin pólitíska forysta virðurkenndi mistök sín og axlaði ábyrgð gagnvart þjóðinni – sem og aðrir sem gegndu helstu trúnaðarstörfum í stjórnsýslunni – var allri sök varpað á einn mann. Bakari hengdur fyrir smið.
Með forsetaframboði fjandvinanna Ólafs Ragnars Grímssonar og Davíðs Oddssonar á þessu vori hefði þjóðinni gefist kjörið tækifæri til að efna til löngu tímabærrar vorhreingerningar í íslenskum stjórnmálum. Annars vegar er Davíð Oddsson, höfuðpaur bóluhagkerfisins og Hrunsins – sá sem ber meir ábyrgð en aðrir menn á einkavæðingu sjávarauðlindarinnar og fjármálakerfisins – og leitar nú eftir uppreisn æru.
Hins vegar er Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins (sem flestir eru nú búnir að gleyma), sem endaði feril sinn í einkaþotum auðkýfinganna og með vel falda sjóði eiginkonunnar í skattaskjólum undir vernd bresku krúnunnar.
Sá er munur á, að Davíð ritstjóri sér fátt aðfinnsluvert við skattasniðgöngu auðkýfinganna, sem gera út málgagn hans, en Ólafur Ragnar ber við fáfræði í fyrsta sinn á ævinni. Og er þá fokið í flest skjól, ekki satt? Báðir eiga þeir það sameiginlegt að vera – að eigin áliti – ómissandi. Við því er víst ekki til neitt læknisráð. En þjóðin hefði kannski getað haft vit fyrir þeim – vísað þeim til vegar að lokinni samfylgd.
Ég endurtek hér með áskorun mína á Ólaf Ragnar að halda forsetaframboði sínu til streitu. Ekki flýja, Ólafur.