Spurning: Hvernig skilgreinir þú helstu auðkenni nýfrjálshyggju-trúboðsins?
Svar: Það fyrsta, sem um þetta er að segja er að, þrátt fyrir nafngiftina, er nýfrjálshyggjan hvorki ný né á hún nokkuð skylt við fresisbaráttu fjöldans. Þetta er uppvakningur ríkjandi laissez-faire hagfræðikenninga aftan úr 19du öld. Kjarni þeirra er bernsk trú á óskeikulleik markaða og eðlislæga getu þeirra til að leiðrétta sjálfa sig. Báðar þessar trúarsetningar hafa reynst rangar. Kerfisbrestur óbeislaðs kapítalisma í kreppunni miklu milli 1930 og 1940 á seinustu öld staðfesti skipbrot þessarar hugmyndafræði.
Það tók heilan áratug með íhlutun ríkisins („New-Deal“ Roosevelts í Bandaríkjunum og norræna módelið í Skandinavíu) og reyndar heila heimsstyrjöld að vekja kapítalismann til lífsins á ný. Aldarfjórðungurinn eftir seinna stríð (1945-1970) reyndist vera gullöld hins sósíal-demókratiska velferðarríkis. Árangur þess er óumdeilanlegur. Þetta var tímabil öflugs hagvaxtar, sem einkenndist af vaxandi jöfnuði lífsgæðanna – mikið framfaratímabil, sem var laust við kreppur. Árangurinn byggðist á því að hafna sjálfum forsendum nýfrjálshyggjunnar um alræði markaða og böl ríkisafskipta. Þess í stað viðurkenndu menn mikilvægt hlutverk lýðræðislegs ríkisvalds til að setja mörkuðum skýrar leikreglur og til að fyrirbyggja eðlislægar tilhneigingar óbeislaðs markaðskerfis til óviðundandi misskiptingar auðs og tekna.
Nýfrjálshyggjutímabilið, sem nú er í andaslitrunum, byrjaði með uppreisn gegn velferðarríkinu – með því að vekja upp aftur trúna á óskeikulleik markaða og skaðsemi ríkisafskipta. Þetta minnir um margt á spilavítis-kapítalismann, sem hrundi í Kreppunni miklu 1930. Gjaldþrot Lehmans´Brothers í september 2008 táknar endalok þessarar nýfrjálshyggju-tilraunar. Enn á ný endaði þessi tilraun með óbeislaðan kapítalisma í hruni. Það sem við tók var stærsti björgunaleiðangur ríkisins í sögunni til að forða okkur frá nýrri heimskreppu. Aðgerðir ríkisins austan hafs og vestan með massívri ríkisfjármögnun og bankabjörgun forðaði okkur á seinustu stundu frá nýrri heimskreppu.
Með aðgerðum ríkisvaldsins tókst að koma í veg fyrir algera lömun kerfisins. Í staðinn upplifum við nú samdráttarskeið („ a great recession“), sem ekki sér fyrir endann á. Hver er munurinn á heimskreppunni á seinustu öld, sem í Evrópu reyndist vera frjór jarðvegur fyrir fasisma og leiddi til nýrrar heimsstyrjaldar – og samdráttarskeiðsins, sem við nú upplifum? Munurinn er sá, að núna kom ríkið til bjargar og forðaði kerfinu frá algerri lömun. Enn einu sinni þurfti ríkið að bjarga kapítalismanum frá kapítalistunum.
Þetta hefur afhjúpað ný-frjálshyggjuna endanlega. Þetta eru gervivísindi í þjónustu hinna ofurríku. Það er margt líkt með ný-frjálshyggjumönnum og kommúnistum. Hvort tveggja eru öfga-kenningar. Báðir trúa á „Stóra-sannleik“. Hvorug kreddan á nokkuð skylt við vísindi. Nýfrjálshyggjan er í reynd í fullkominni andstöðu við frelsishugsjónina. Auðvald hinna fáu þýðir helsi hinna mörgu. Og að svo miklu leyti sem þetta er hugmyndafræði í þjónustu hinna ofurríku og hafnar hlutverki lýðræðislegs ríkisvalds, er kenningin andlýðræðisleg. Og hún á fátt sameiginlegt með frjálslyndisstefnu 19du aldar (John Stuart Mill), sem studdi lýðræðislegar umbótahreyfingar fyrir atbeina lýðræðislegs ríkisvalds í nafni mannúðarstefnu.
Spurning: „Hlutverk ríkisvaldsins“ virðist hér var stóra ágreiningsmálið. Er það ekki frumskylda lýðræðislegs ríkisvalds að vernda „réttarríkið“ (rule of law) og, að „allir sé jafnir fyrir lögunum“?
Svar: Þetta er kjarni málsins. Auðsöfnun í höndum fárra fylgir gríðarlegt pólitískt vald. Þetta forréttindavald hinna fáu er orðið ógnun við lýðræðið. Hinir ofurríku öðlast vald til að breyta helstu leikreglum samfélagsins sér í hag. Lýðræðið verður þá fórnarlamb auðræðis. Markaðir lúta ekki neinum náttúrulögmálum. Markaðir eru gerðir af mannahöndum. Markaðir eru í reynd ekkert annað en lög og reglur, sem stjórnvöld setja – það ræðst allt af pólitík. Ef þessar reglur eru hannaðar í þágu hinna ofurríku, eins og t.d. er þegar í vaxandi mæli í Bandaríkjunum (og um of innan Evrópusambandsins), er það ekki einungis ógnun við lýðræðið, heldur líka grundvallarreglur réttarríkisins. Við erum ekki lengur jöfn fyrir lögunum. Tökum nokkur dæmi:
Sjúkt fjármálakerfi: Á tímabili frjálshyggjunnar upp úr 1980 hefur fjármálakerfið vaxið raunhagkerfinu gjörsamlega yfir höfuð. Sívaxandi hluti hagnaðar auðhringa og hinna ofurríku á uppruna sinn í kauphallar- og fasteignabraski, sem hvort tveggja stjórnast af skammtímagróðavon, fremur en af langtímafjárfestingum í framleiðsluferlum, sem skapa atvinnu. Örfáir alþjóðlegir risabankar eru markaðsráðandi, svo stórir, að þeir teljast geta dregið hagkerfi heimsins með sér í fallinu, ef á reynir. Eldvarnarveggurinn milli venjulegra viðskiptabanka og áhættusækinna „skuggabanka“ (ávöxtunarsjóðir), sem var reistur að fenginni reynslu í Kreppunni miklu, var rifinn niður fyrir seinustu aldamót. Síðan þá hefur skuggabankakerfið tútnað út. Innistæðutryggingar á vegum ríkisins – sem eru nauðsynlegar til að tryggja venjulegan sparnað – var látinn ná yfir áhættusamt fjármálabrask.
Þar með er siðferðileg bjögun („moral hazard“), að taka blinda áhættu með annarra fé í von um ofurgróða, en í trausti þess, að aðrir beri skaðann, ef illa fer, orðin kerfislæg. Þetta er örhvikt áhættufjármagn, sem leitar um allan hnöttinn að skammtímagróða, en fælist og flýr við fyrstu merki um vandræði. Þegar það flýr, skilur það eftir sig sviðna jörð, sem getur lýst sér í föllnum gjaldmiðlum, bankahruni og ofurskuldsettum ríkjum. Aðeins íhlutun ríkisstjórna, seðlabanka og alþjóðastofnana, hafa hvað eftir annað komið í veg fyrir hrun fjölda ríkja á tímabili nýfrjálshyggjunnar. Það er orðin regla fremur en undantekning, að ríki verði að koma fjármálamörkuðum til bjargar.
Frelsi án ábyrgðar: Ein af kenningum frjálshyggjunnar er sú, að forstjórum fyrirtækja beri aðeins skylda til að hámarka verð hlutabréfa og ársfjórðungslegan hagnað hluthafa. Engu skiptir, að hlutafé gengur kaupum og sölum og eignarhaldið er þar með breytilegt frá degi til dags. Í krafti þessarar kenningar eru forstjórar sagðir þurfa innbyggða hvata til að hámarka gróða. Forstjóralaun með kaupaukum eru orðin mörg hundruðföld á við meðallaun starfsmanna fyrirtækjanna. Engu breytir þótt þessir sömu forstjórar keyri fyrirtækin í þrot. Þeir hirða samt umbunina. Kostuleg „árangursstjórnun“ það, eða hitt þó heldur.
Þarna er að finna hluta skýringarinnar á því, hvers vegna tekjur og eignir safnast hraðvaxandi á fárra hendur, á sama tíma og raunlaun standa í stað. Þetta skýrir líka, hvers vegna langtímafjárfestingar eru vanræktar, það dregur úr sköpun nýrra starfa, langtímaatvinnuleysi festir sig í sessi og starfsöryggi og réttindi launþega láta undan síga. Í þessari gróðamyndunarmaskínu eru innbyggðir hvatar til að stunda markaðsmisnotkun, innherjaviðskipti, bókhaldshagræðingu og aðra fjármálaglæpi. Hin siðferðilega bjögun er innbyggð í kerfið. Kerfið er fársjúkt. Mikil áhætta gefur af sér háar hagnaðartölur (þær hafa aldrei verið hærri en eftir hrun). En þegar gróðinn snýst upp í tap, bera skattgreiðendur tapið. Þannig hefur þjóðfélagssáttmálinn verið rofinn. Frelsi hinna fáu til að græða er án nokkurrar þjóðfélagslegrar ábyrgðar.
Ísland er gott dæmi um þetta. Ný-einkavæddir bankar hlóðu upp skuldum í erlendum gjaldmiðum, sem námu meira en tífaldri þjóðarframleiðslu okkar, áður en skuldafjallið hrundi. Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu, að margir af eigendum/stjórnendum bankanna hefðu gert sig seka um glæpsamlega hegðun, skv. mottóinu: „Besta leiðin til að ræna banka er að eiga banka“. Nefndin komst líka að þeirri niðurstöðu, að pólitíska forystan og eftirlitsstofnanir væru uppvís að vanrækslu og hefðu brugðist skyldum sínum. Niðurstaðan af þessu frjálshyggjuævintýri, í hverju landinu á fætur öðru, er víðast hvar sú sama: Öllu er snúið á haus: Hagnaðurinn er einkavæddur en skuldirnar eru þjóðnýttar. Hvað segir þetta okkur um jafnræðið frammi fyrir lögunum og stöðu réttarríkisins?
Skattasamkeppni niður á við: Næstum helmingur allra alþjóðaviðskipta fer fram innan vébanda fjölþjóðlegra auðhringa. Þeir hafa oftar en ekki tryggt sér yfirráð yfir auðlindum og framleiðsluferlum með markaðsráðandi stöðu. Það er þeirra einkamál, hvernig þeir haga verðlagningu í ferlinu frá hráefni til sölu yfir búðarborðið. Þessir auðhringar ráða því með verðlagningarstefnu sinni, hvar þeir bóka hagnað og greiða út arð til hluthafa. Í vaxandi mæli gera þeir það í skattaskjólum eða í löndum, þar sem þeir njóta skattfríðinda. Einstök þjóðríki standa frammi fyrir því að vera þvinguð til að taka þátt í „skattasamkeppni niður á við“. Eitt af mörgum dæmum um, að fjármagnið er alþjóðlegt, en pólitíkin er staðbundin ( „lokal“).
Þessi fjölþjóðafyrirtæki taka sér þannig vald til að ákveða það sjálf, hvort – og þá hvar – þau greiða skatta. Pólitísk áhrif þeirra eru iðulega margföld á við styrk þeirra þjóðríkja, sem þau fást við. Íslendingar þekkja þetta vel af eigin reynslu. Við seljum okkar dýrmætu hreinu og endurnýjanlegu orku á undirverði. Á næstu árum koma þessir áratuga gömlu samningar til endurskoðunar. Þá reynir á samningstöðu þjóðríkisins. Geta auðhringarnir haldið áfram að hefja sig upp yfir lögin? Þetta hefur ekkert að gera með frjálsa markaði. Raunverulegir samkeppnismarkaðir eru undantekning fremur en regla. Reglurnar sem stýra hegðun á markaði, eru yfirleitt settar af forstjóraveldi auðhringanna – eða stjórnmálamönnum í þeirra þjónustu. Veikleiki fjölmargra þjóðríkja neyðir þau iðulega til að taka þátt í skattasamkeppninni niður á við. Það þarf alþjóðasamstarf til að ráða við hið alþjóðlega kapital.
Skattaskjólin: Frumskylda lýðræðislegra stjórnvalda er að tryggja jafnræði allra frammi fyrir lögum. Hvers vegna eiga lýðræðislegar ríkisstjórnir, fulltrúar almannavaldsins, að láta bjóða sér, að eigendur fjarmagnsins, hinir ofurríku (þetta eina prósent, sem á eða ræður meirihluta jarðneskra gæða) taki lögin í eigin hendur og undanskilji tekjur sínar og eignir frá skattlagningu í almannaþágu? Hvað réttlætir, að lýðræðislegar ríkisstjórnir framselji slík forréttindi í hendur auðklíkunnar? Hvernig getum við vænst þess, að löghlýðnir borgarar og fyrirtæki keppi á markaði við samkeppnisaðila, sem eru hafin yfir lögin – sem ríkið lætur líðast að njóti slíks forskots, áður en samkeppnin byrjar? Alþjóðastofnanir, eins og t.d. G-20, Alþjóðabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) – og sjálft Evrópusambandið – kynna sig gjarnan til leiks sem verndarengla samræmdra reglna, sem eigi að gilda í alþjóðaviðskiptum. Hvernig stendur þá á því, að þessar alþjóðastofnanir láta síkt ójafnræði líðast árum og áratugum saman?
Sívaxandi ójöfnuður: Þetta fársjúka og stjórnlausa fjármálakerfi, sem hefur þanist út á tímabili nýfrjálshyggjunnar, hefur leitt af sér sívaxandi ójöfnuð auðs og tekna. Þessi ójöfnuður er orðinn meiri en var, áður en áhrifa velferðarríkis jafnaðarmanna fór að gæta eftir seinna stríð. Samkvæmt nýlegri skýrslu Oxfam á 1% hinna ofurríku meiri auð en 99% mannkyns. Samkvæmt Alþjóðabankanum eiga 64 einstaklingar meiri auð en hinn fátækari helmingur mannkynsins. Meira en helmingur allra fjármagnstekna (arður, vextir, leiga o.s. frv.) rennur til innan við 1% mannkyns.
Á sama tíma hafa laun launþega í Bandaríkjunum staðnað að raungildi s.l. 30 ár. Hlutur launa í þjóðartekjum heimsins í samanburði við arð af fjármagni hefur lækkað svo nemur risavöxnum upphæðum. Fátækt hefur farið vaxandi í hinum þróuðu ríkjum heimsins, ekki síst vegna langvarandi atvinnuleysis og vaxandi réttleysis vinnandi fólks í samskiptum við atvinnurekendur. Ein skýringin er sú, að verkalýðshreyfingin er víðast hvar á undanhaldi. Þessar þróunartilhneigingar eru innbyrðis tengdar. Sóknin eftir skammtímagróða gegnum kauphallar- eða fasteignabrask þýðir minni langtímafjárfestingu í innviðum þjóðfélagsins og í raunhagkerfinu og þ.a.l. færri vel borgandi störf og meira atvinnuleysi.
Spurning: Ertu að segja, að vald hinnar alþjóðlegu fjármálaelítu hafi vaxið bæði lýðræðinu og réttarríkinu yfir höfuð?
Svar: Í kapítalísku markaðshagkerfi hefur verið óskráður en viðurkenndur þjóðfélagssáttmáli, sem verður að halda í heiðri, ef við eigum að gera okkur vonir um að viðhalda félagslegri samheldni og trausti almennings á stofnunum þjóðfélagsins. Ein grundvallarreglan er þessi: Þú ert frjáls að því að keppa eftir hámarksarði og uppskera ríkulegan ávinning, svo lengi sem þú tekur áhættu með eigið fé og spilar samkvæmt settum leikreglum. Svo lengi sem þú samþykkir, að þú berir tapið sjálfur, ef illa fer. Hagnaður og tap eru tvær hliðar á sömu mynt. Og svo lengi sem þú greiðir skatta og skyldur til samfélagsins, sem gerði þig ríkan. Ljáum eyra Warren Buffet, sem er einn af örfáum ríkustu mönnum heims, sem sagði um stöðu sína sem margmilljarðamærings: „Hvað ætli hefði orðið úr mér, hefði ég verið fæddur í Bangladesh?“
Það er á grundvelli þessa óskráða þjóðfélagssáttmála, sem flestir samþykkja ójöfnuð upp á vissu marki, sem réttmæta umbun fyrir frumkvæði, dugnað, vilja til að taka áhættu – og sköpunarkraft. En ef þessum grundvallarreglum er öllum snúið á haus; ef ofurarður bóluhagkerfisins er allur einkavæddur (og jafnvel skattsvikinn) en tapið í niðursveiflunni er þjóðnýtt – þá er þessi óskráði þjóðfélagssáttmáli þar með rofinn. Þá erum við ekki bara að fást við afleiðingar fjármálakreppu. Fjármálakreppan er þá að grafa undan burðarstoðum hins kapítalíska markaðskerfis sjálfs. Þá erum við stödd í miðri þjóðfélagskreppu.
Þegar hinir ofurríku – þetta svokallaða 1% – bíta höfuðið af skömminni með því að fela uppsafnaðan auð sinn í svokölluðu skattaparadísum, til þess að forðast að leggja sitt af mörkum til samfélagsins, þá hafa þeir tekið lögin í eigin hendur – sagt sig úr lögum við samfélagið. Hinn skattskyldi hluti einn og sér af þeim auði, sem falinn hefur verið í skattaskjólum utan við lög og rétt, mundi duga til að leysa skuldakreppuna, sem nú hrjáir þjóðríkin eftir hrunið 2008. Lítill hluti þessara földu fjársjóða hinna fáu mundi duga til að endurreisa velferðarríkin, sem sum eru að hruni komin. Veruleikinn er hins vegar sá, að skattgreiðendur í þeim löndum, sem harðast hafa orðið úti í fjármálakreppunni, eru nú neyddir til að greiða hærri skatta og þola harkalegan niðurskurð á samfélagslegri þjónustu (í heilbrigðis- og menntamálum) – í því skyni að bjarga fjármálakerfi hinna ofurríku.
Þetta er harkalegasta ógnin við lýðræðislegt stjórnarfar, allt frá því að kommúnistar brutust til valda í Rússlandi eftir fyrra stríð, og fasistar náðu völdum í Evrópu á millistríðsárunum. Það var veikleiki lýðræðislegra ríkisstjórna í að fást við afleiðingar heimskreppunnar milli 1930-40, sem skapaði frjóan jarðveg fyrir fasismann, sem síðan leiddi af sér seinni heimsstyrjöldina. Þekkjum við ekki sjúkdómseinkennin? Erum við dæmd til að endurtaka öll þessi mistök enn og aftur? Hvenær ætlum við að læra af reynslunni?
Stiklur með viðtali við JBH – fyrri hluti:
- „Það er margt líkt með nýfrjálshyggjutrúboðum og kommúnistum. Hvort tveggja eru öfgakenningar. Báðir trúa á Stórasannleik. Hvorug kreddan á nokkuð skylt við vísindi. Nýfrjálshyggjan er í reynd í fullkominni andstöðu við frelsishugsjónina. Auðvald hinna fáu þýðir helsi hinna mörgu“
- „Í þessari gróðamyndunarmarskínu eru innbyggðir hvatar til að stunda markaðsmisnotkun, innherjaviðsskipti, bókhaldshagræðingu og aðra fjármálaglæpi. Hin siðferðilega bjögun er innbyggð í kerfið. Kerfið er fársjúkt.“
- „Samkvæmt nýlegri skýrslu Oxfam á 1% hinna ofurríku meiri auð en 99% mannkyns. Samkvæmt Alþjóðabandanum eiga 64 einstaklingar meiri auð en hinn fátækari helmingur mannkynsins. Meira en helmingur allra fjármagnstekna (arður, vextir, leigutekjur o.s. frv.) rennur til innan við 1% mannkyns.“