JAFNAÐARSTEFNAN: FÓRNARLAMB EIGIN ÁRANGURS? Viðtal í tvennu lagi, sem birtist í ritinu “Social-democratas” í Litáen og var tekið í tilefni af 120 ára afmæli flokks jafnaðarmanna þar í landi. Seinni hluti.

Viðtal Mörtu Vidunaité við Jón Baldvin Hannibalsson. Viðtalið birtist í júní í málgagni litáiska Sósíal-demókrataflokksins, í tilefni af 120 ára afmæli flokksins.

„Sú var tíð, að sósíal-demókratar í Evrópu og“new-dealers“ í Bandaríkjunum vissu, hvað til þeirra pólitíska friðar heyrði. Þeir vissu, að til þess að siðvæða kapitalismann þurfti að skattleggja drjúgan hluta af arði fjármagnseigenda til þess að fjármagna verkefni eins og sjúkrahús, skóla, atvinnuleysistryggingar og – gleymum því ekki – menninguna. Willy Brandt, Bruno Kreisky og Olof Palme vissu allir, að þetta var þeirra verkefni…… En þegar fjármálakerfið var leyst úr læðingi …. á árunum upp úr 1980, breyttist allt. (Yanis Varoufakis, fv. fjármálaráðherra Grikkja: Europe, Austerity and the Threat to Global Stability, 2016) .

Spurning: Þú hefur lýst sjálfum þér sem afsprengi þriðju kynslóðar norrænna sósíal-demókrata. Norræna módelið hefur staðið af sér árás nýfrjálshyggjunnar betur en flestir aðrir. Hver er galdurinn, sem skýrir þennan árangur?

Svar: Það sem greinir norræna módelið frá öðrum, tók á sig mynd í hinum harðvítugu þjóðfélagsátökum í heimskreppunni á millistríðsárunum á seinustu öld. Í Vestri blasti við kerfisbrestur hins óbeislaða kapítalisma í Bandaríkjunum, sem gat af sér heimskreppuna. Í Austri fylgdumst við með tilrauninni með Sovét-kommúnismann (afnámi einkaeignaréttar og þjóðnýtingu á framleiðslutækjunum); þar gat að líta miðstýrðan áætlunarbúskap, sem umhverfðist pólitískt í lögregluríki, þar sem mannréttindum, lýðræði og réttarríkinu var rutt úr vegi.

Norrænir sósíal-demókratar höfnuðu báðum þessum kostum. Þeir fóru „þriðju leiðina“. Við viðurkenndum nytsemi samkeppni á markaði, þar sem hún átti við, fyrir hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta og auðsköpun. En við lögðum markaðinn undir stjórn og eftirlit ríkisins, til þess að koma í veg fyrir markaðsbrest (einokun, fákeppni og samþjöppun auðs) til að gæta almannahagsmuna. Þegar kom að menntun, heilsugæslu og grunnþjónustu (orka, vatn, almannaþjónusta o.s.frv.), höfnuðum við gróðasjónarmiði einkareksturs og buðum í staðinn upp á almannaþjónustu á forræði ríkis og sveitarfélaga. Við nýttum lýðræðislega fengið vald ríkisins sem tæki til að halda sérhagmunum í skefjum og til að tryggja meiri jöfnuð í eigna- og tekjuskiptingu en markaðurinn hefði ella leitt til.

Í óbeisluðu markaðskerfi er vald eigenda framleiðslutækja og fjármagns gríðarlegt. Atvinnurekendavaldinu fylgir mikið pólitískt vald. Fjármagnseigendur eru bakhjarlar hægri flokka, sem þeir gera út til að gæta hagsmuna sinna. Ef þeir ná hinu pólitíska valdi undir sig líka, býður það hættunni heim á forræði sérhagsmuna (hegemoní). Það sem einkennir norræna módelið er, að hægri flokkar (hagsmunagæsluaðilar sérhagsmuna) hafa lengst af verið þar í minnihluta; og að hinn pólitíski armur launþegahreyfingarinnar – jafnaðarmannaflokkarnir – hafa verið í meirihluta áratugum saman. Almannahagsmunir hafa því verið ráðandi. Þetta hefur hvergi gerst annars staðar. Þótt bandalag hægriflokka hafi einstaka sinnum komist til valda, hafa þeir ekki notið stuðnings til að limlesta velferðarkerfi fólksins. Jafnaðarstefnan – sósíal-demókratí – hefur verið ráðandi hugmyndafræði í þessum þjóðfélögum.

Tækin sem við notum eru nú orðið kunnugleg: almannatryggingar (sjúkra-, slysa-, örorku-, elli-, og atvinnuleysistryggingar), frjáls aðgangur að hágæða heilsugæslu- og menntakerfi, sem greitt er fyrir með stighækkandi sköttum; virk vinnumarkaðsstefna til að uppræta atvinnuleysi; og aðgangur að húsnæði á viðráðanlegum kjörum fyrir alla. Mikil áhersla er lögð á jafnrétti kynja og stuðning við barnafjölskyldur. Öll eru þessi réttindi flokkuð sem mannréttindi – en ekki ölmusur.

Afleiðingin er þjóðfélag, þar sem jöfnuður í eigna- og tekjuskiptingu er meiri en annars staðar. Frelsi einstaklingsins nýtur virks stuðnings í reynd. Félagslegur hreyfanleiki – getan til að vinna sig frá fátækt til bjargálna – er meiri en annars staðar. Þjóðfélag jafnaðarstefnunnar hefur því í reynd leyst Bandaríkin af hólmi sem land tækifæranna.

Norræna módelið er eina þjóðfélagsmódelið, sem mótað var á öldinni sem leið, sem hefur staðist dóm reynslunnar á krefjandi tímum hnattvæddrar samkeppni á 21stu öldinni. Kommúnisminn er huslaður á öskuhaugum sögunnar, og óbeislaður kapítalismi skv. forskrift nýfrjálshyggjunnar – hrekst úr einni kreppunni í aðra. Hann er ekki bara manneskjufjandsamlegur – heldur beinlínis ógnun við lífríki jarðar.

Eins og fyrr var sagt, byrjaði nýfrjálshyggjan sem uppreisn gegn velferðarríkinu. Samkvæmt kenningum nýfrjálshyggjunnar er velferðarríkið, með sínum háu sköttum og öfluga ríkisvaldi, ósjálfbært. Það á að vera dæmt til að dragast aftur úr í alþjóðlegri samkeppni vegna lamandi íhlutunar ríkisvaldsins gegn einkaframtaki og tækninýjungum. Kerfið er sagt vera í eðli sínu ósamkeppnishæft. Íhlutun ríkisins dragi úr hagkvæmni markaðslausna og hamli vexti. Kerfið eyði öllum hvötum til sjálfsbjargarviðleitni. Í staðinn fyrir hugarfar frumkvöðulsins verði hugarfar þiggjandans alls ráðandi. Það vanti alla „dínamík“ (sköpunarkraft). Það hljóti að enda í stöðnun. Og möppudýr kerfisins muni að lokum kæfa frelsi einstaklingsins og enda í alræðisríki (Hayek).

Gallinn við þessa dómadagsspá er sá, að reynslan hefur einfaldlega afsannað hana. Það er ekkert hæft í þessu. Sovétríkin eru ekki lengur til. Óbeislaður kapítalismi hrekst úr einni tilvistarkreppunni í aðra. En norræna módelið hefur staðist dóm reynslunnar betur en báðir þessir trúboðar Stórasannleiks. Staðreyndirnar eru óhrekjandi. Óteljandi skýrslur um frammistöðu þjóðríkja í harðri samkeppni á öld alþjóðavæðingar tala sínu máli. Það er sama hvaða mælikvarða við notum: Norrænu ríkin eru óbrigðult í fremstu röð.

Þetta á ekki síður við um hagræna mælikvarða en aðra: Hagvöxt, framleiðni pr vinnustund, rannsóknir og þróun, tækninýjungar og útbreiðslu þeirra, sköpun starfa, þátttöku á vinnumarkaði (sérstaklega þátttöku kvenna), jafnræði kynjanna, menntunarstig og starfsþjálfun, félagslegan hreyfanleika, heilbrigði og langlífi, gæði innviða, útrýmingu fátæktar, aðgang að óspilltri náttúru, almenn lífsgæði. Og miklu minni ójöfnuð en víðast hvar annars staðar. Rótgróið og vakandi lýðræði. Hvað viltu meir?

Hvers vegna hafa frjálshyggjutrúboðarnir farið svona gersamlega villur vega? Í grundvallaratriðum vegna þess að mannskilningur þeirra, sóttur í sósíal-Darwinisma aftan úr 19du öld, er vafasamt veganesti. Mannskepnan er vissulega sjálfselsk og gráðug. En hún er ekki gersneydd samhygð og getunni til samstöðu. Menn þrífast ekki í einangrun. Þeir þrífast bara í samfélagi. Við þurfum hvert á öðru að halda. Verkamenn eru fúsari að sætta sig við úreldingu starfa þeirra vegna tækninýjunga, ef þeir vita, að þeir geta reitt sig á atvinnuleysistryggingar og stuðning við starfsþjálfun fyrir ný störf; ef þeir vita, að þeir muni hvorki glata heilbrigðistryggingunni eða íbúðinni, hvað þá heldur lífeyristryggingunni með gamla starfinu.

Frjálshyggjutrúboðar trúa því allir, að kapítalistar þurfi sérstakar skattaívilnanir til þess að leggja það á sig að græða. Jafnframt trúa þeir því, að atvinnuleysistryggingar geri verkamenn lata. Þeir hafa rangt fyrir sér. Þátttaka á vinnumarkaðnum eru hvergi hærri en á Norðurlöndum. Við þurfum ekki að borga forstjórum 400 sinnum hærri laun en launþegum að meðaltali til að fá þá til að mæta í vinnuna. Reynslan sýnir, að þessi ruslapoki, stútfullur af nýfrjálshyggjukreddum, er samsafn af goðsögnum, hræðsluáróðri og heilaþvotti í þjónustu hinna ofurríku, sem hversdagsleg reynsla okkar hefur ekki undan að afsanna.

Spurning: Í ljósi þess, sem þú hefur þegar sagt um árangur jafnaðarmanna á Norðurlöndum, hvernig útskýrir þú þá, að jafnaðarmannaflokkarnir í Evrópu – einnig á Norðurlöndum – eru víðast hvar í tilvistarkreppu og stjórnarandstöðu?

Svar: Ætli meginástæðan sé ekki sú, að jafnaðarmenn séu fórnarlömb eigin árangurs? Batnandi lífskjör, greiður aðgangur að menntun og bætt eignastaða opnar fyrir félagslegan hreyfanleika upp á við. Fjöldinn allur af afkomendum verkafólks, sem verkalýðshreyfingin og flokkar jafnaðarmanna ruddu brautina fyrir , hafa klifrað upp þjóðfélagsstigann og tilheyra nú millistétt. Eigið húsnæði, einstaklingsbundnir starfssamningar og fjölgun sérfræðinga af öllu tagi í þjónustugeirum samfélagsins, allt ýtir þetta undir einhvers konar einstaklingshyggju. Þetta dregur úr stéttarvitund og félagslegri samstöðu. „Það er ekkert til, sem heitir þjóðfélag – bara einstaklingar“ sagði járn-frúin Maggie Thatcher.

Þetta endurspeglar þjóðfélagsbreytingar, sem við höfum öðrum fremur beitt okkur fyrir.Hvernig eigum við að bregðast við? Sumar ástæður þess arna eru sjálfum okkur að kenna. Frjálshyggjutrúboðið byrjaði sem uppreisn gegn velferðarríkinu, sem er holdgerving okkar eigin hugmyndafræði. Hlutverk okkar er að verja hagsmuni vinnandi fólks gegn fjármagnseigendum, almannahagsmuni gegn rótgrónum sérhagsmunum, mannréttindi verkafólks gegn ráðningarvaldi atvinnurekenda. Við freistum þess að hagnýta lögmætt vald lýðræðislegs ríkisvalds gegn sjálfgefnu valdi auðræðisins. Þetta er beinlínis pólitískt hlutverk okkar jafnaðarmanna. Við brugðumst við kerfisbresti bóluhagkerfis hins óhefta kapítalisma, sem endaði í heimskreppu, með því að koma böndum á skepnuna; með því að beisla ofurgræðgi kapitalisma, sem lét ekki lengur að stjórn. Þetta er það, sem við þurfum að gera á ný, eftir að nýfrjálshyggjan hefur skorið aftur á böndin og hleypt græðgisskepnunni á varnarlausan almenning, einu sinni enn.

Og það er nákvæmlega í þessum punkti, sem jafnaðarmannahreyfingin í Evrópu hefur brugðist í kjölfar fjármálakreppunnar 2008. Við höfum látið það líðast, að grundvallarreglur þjóðfélagssáttmálans hafi verið rofnar. Gróðinn var allur einkavæddur, en skuldirnar hafa verið þjóðnýttar. Skattgreiðendur hafa verið þvingaðir til að bjarga bönkunum – eigendum fjármagnsins – með því að greiða hærri skatta og þola harðneskjulegan niðurskurð í félagslegum útgjöldum og sívaxandi atvinnuleysi. Niðurskurðarpólitíkinni – „austerity“ – lækning, sem er verri en sjúkdómurinn, sem hún á að lækna – hefur verið þröngvað upp á almenning, með hörmulegum afleiðingum.

Í mörgum löndum – þ.á.m. Íslandi – brást jafnaðarmannaflokkunum bogalistin við að sjá fyrir kreppuna, þrátt fyrir sýnilegar viðvaranir. Þegar á reyndi, brugðust þeir skyldum sínum að standa með fólkinu gegn fjarmagninu við að taka á afleiðingum kreppunnar. Auðvitað eru fleiri ástæður, sem taka þarf tillit til. Sumar þeirra má rekja til þjóðfélagsbreytinga (hnattvæðingin) sem við ráðum ekki við. Sambland tækninýjunga og hnattvæðingar hefur valdið því, að okkar hefðbundni kjósendahópur hefur skroppið saman. Á tímaskeiði iðnvæðingarinnar voru jafnaðarmannaflokkarnir hinn pólitíski armur verkalýðshreyfingar, sem þá var trúverðug mannréttindahreyfing fátæks fólks. Flestir verkamenn störfuðu í verksmiðjum, þar sem þeir stóðu hlið við hlið við færiböndin. Félagsleg samstaða var sjálfsprottin og eðlislæg.

Þetta var á þeim tíma, þegar fjöldaframleiðsla iðnvarnings var megin uppspretta starfa í hinum iðnvædda hluta heimsins. Það er ekki lengur svo. Fjöldaframleiðslan hefur flutt úr landi, til þróunarlanda. Uppgangur Kína, Indlands og annarra þróunarríkja þýðir, að hundruð milljóna ófaglærðra verkamanna hafa haldið innreið sína í alþjóðahagkerfið. Ótaldar milljónir starfa hafa flust til Kína, Suð-Austur Asíu, Mexíkó o.s. frv. – burt frá hinum hefðbundnu iðnríkjum. Kína er orðið að „verksmiðju heimsins“, eins og Bretlandi var einu sinni lýst. Þetta hefur veikt samningsstöðu hefðbundins verkafólks í Evrópu og Ameríku.

Þetta er hluti af skýringunni á því, hvers vegna grunnlaun hafa staðnað; hvers vegna hlutur launa í þjóðartekjum heimsins í samanburði við hlut fjármagnsins, hefur snarminnkað; hvers vegna atvinnuleysi hefur farið vaxandi; hvers vegna atvinnurekendur hafa styrkt stöðu sína gagnvart verkafólki, sem hefur orðið að sætta sig við versnandi kjör. Hvers vegna styrkur mótvægisafla („counterveiling powers“, með orðum Johns Kenneth Galbraith), hefur veikst, og það á bæði við um verkalýðshreyfinguna og flokka hennar, víðast hvar.

Þetta er að hluta til vegna þess, að fjármagnið er hnattvætt – það fer hindrunarlaust fram og til baka yfir landamæri – en pólitíkin í hverju þjóðríki er staðbundin, innikróuð (lokal) af landamærum þjóðríkja. Við þurfum alþjóðlegt samstarf þjóðríkja til þess að loka skattaskjólunum; til þess að stöðva samkeppni þjóðríkjanna um „skattalækkanir niður á við“; og til þess að koma á „Tobin-skattinum“, skattlagningu á fjármálagjörninga yfir landamæri, bæði sem stjórntæki varðandi fjármagnshreyfingar yfir landamæri og til tekjuöflunar. Þetta er ein meginástæðan fyrir því, að sósíal-demókratar verða að taka höndum saman innan Evrópusambandsins. Þeir þurfa að taka höndum saman um að losa Evrópusambandið undan áhrifum nýfrjálshyggjunnar og taka til öflugra varna fyrir almannahagsmuni gegn ofurvaldi hinna ofurríku. Þetta er eina leiðin til að bjarga Evrópusambandinu undan sívaxandi sundurvirkni þjóðernissinna og nýfasista.

Spurning: Hvernig sérðu fyrir þér sóknarfæri sósíaldemókrata við ríkjandi aðstæður í Evrópu og heiminum?

Svar: Hugleiðum það sem er að gerast í forsetakosningunum í Bandaríkjunum þetta misserið. Aldurhniginn herramaður, Bernie Sanders, brýst fram á sjónarsviðið með sígildan sósíal-demókratískan boðskap. Honum er tekið nærri því eins og mannkynsfrelsara, sem lengi hefur verið beðið eftir. Unga kynslóðin í Bandaríkjunum var við það að glata allri trú á getu bandarísks lýðræðis til að færa völdin aftur frá auðklíkunni til fólksins. Jafnvel þótt hann hafi ekki náð því að verða forsetaframbjóðandi demókrata, hefur hann breytt hinu pólitíska landslagi í þessari háborg nýfrjálshyggjunnar. Og uppreisnin gegn auðklíkunni, sem öllu ræður, er orðin svo mögnuð, að repúblikana-flokkurinn, sem hingað til hefur verið helsta valdatæki auðklíkunnar, frá Reagan til Bush, er nú genginn þeim úr greipum. Þar fer nú fremstur í flokki þjóðernissinnaður populisti, sem reynir að virkja reiði og vonbrigði almennings gegn elítunni.

Hvað er að gerast í Bandaríkjunum? Það sem einu sinni hét „land tækifæranna“ er nú, eftir þriggja áratuga stjórnarfar í anda nýfrjálshyggju orðið að mesta ójafnaðarþjóðfélagi meðal þróaðra ríkja. Stéttaskiptingin er orðin svo harðsvíruð, að það tekur jafnvel fram gömlu evrópsku nýlenduveldunum. Þetta er þjóðfélagið, þar sem hinir ofurríku búa í víggirtum villuhverfum undir hervernd, víðsfjarri afganginum af þjóðfélaginu. Hinir snauðu lifa í vanræktum og niðurníddum slömmum, þar sem gæði skólastarfs eru slík, að vonin um að vinna sig upp er gleymd og grafin.

Það eru margar vísbendingar um, að bandarískt lýðræði rísi ekki lengur undir væntingum almennings. Þegar meira en 60% kosningabærra manna telja það ekki ómaksins vert að mæta á kjörstað (og upp undir 80% í yngsta aldurshópnum), bendir margt til þess, að Bandaríkjamenn hafi glatað trúnni á lýðræðið. Hverjir eru það sem ráða ríkjum í Washington D.C.? Fáein hundruð þingmanna, sem eiga pólitískt framhaldslíf sitt undir framlögum hinna ofurríku, eða næstum 40 þúsund „lobbyistar“ helstu auðhringanna, sem hafa vanist því að eiga síðasta orðið um lög landsins? Samkvæmt ítrekuðum skoðanakönnunum undanfarinna ára fer því víðs fjarri, að Bandaríkjaþing endurspegli meirihlutavilja kjósenda. Hvað segir það okkur um heilsufar lýðræðisins?

Hver er boðskapur hins lýðræðislega sósíalista, Bernie Sanders? Hann hefur skorið upp herör gegn Wall Street. Hann hefur vakið vonir fólks, sem var við að það gefa upp vonina, um að enn sé hægt að endurvekja amerískt lýðræði; endurheimta það úr klóm eina prósentsins, sem öllu ræður. Skattleggja hina ofurríku. Loka skattaskjólunum. Frjálsan aðgang að heilsugæslu án tillits til efnahags. Frjálsan aðgang að skólum. Lágmarkslaun, sem duga til framfærslu fjölskyldu. Langtímafjárfestingar í innviðum samfélagsins. Sígild sósíal-demokratisk stefnuskrá. Ég legg til, að evrópskir sósíal-demókratar pikki nokkrar blaðsíður út úr stefnuskrá Sanders:

Bregðumst við áheiti hans heilagleika páfans um að koma böndum á sjúkt fjármálakerfi. Virkjum lýðræðið í þágu almannahagsmuna. Lýsum óbrigðulli samstöðu með æskulýð Evrópu, sem hefur verið skilinn eftir utangarðs í biðröðum atvinnuleysingja, fyrsta kynslóðin eftir stríð, sem trúlega mun búa við verri lífskjör en foreldrarnir. Og tökum upp innblásna baráttu fyrir verndun náttúrunnar og sameiginlegri framtíð okkar á þessari plánetu. Við höfum enga aðra, ef við fordjörfum þessa.

Okkar bíða þrjú meginverkefni í samtíð og náinni framtíð:

Fyrsta verkefni er að koma böndum á sjúkt og stjórnlaust fjármálakerfi; og að koma því aftur undir stjórn og eftirlit lýðræðislegs ríkisvalds.

Annað verkefni kallar á langtíma opinberar fjárfestingar í hreinni og endurnýjanlegri orku, sem komi í stað jarðefnaeldsneytis sem drifkraftur hagkerfis framtíðarinnar. Þetta, ásamt alþjoðlegu átaki um hreinsun hafsins, er brýnasta verkefni okkar til þess að draga úr fyrirsjáanlegum hörmulegum afleiðingum loftslagsbreytinga af mannavöldum. Um þetta eiga jafnaðarmenn og umhverfisverndarsinnar að sameinast.

Þriðja verkefni er að undirbúa nú þegar, hvernig við ætlum að taka á afleiðingum þeirrar tæknibyltingar, sem er á fullu allt í kringum okkur (upplýsingabyltingin, stafræna byltingin og sjálfvirknin), sem mun á næstu árum og áratugum breyta með byltingarkenndum hætti eðli vinnunnar í mannlegu samfélagi.

Í náinni framtíð eru allar horfur á, að við stöndum frammi fyrir gríðarlegu og kerfislægu atvinnuleysi sem afleiðingu þessarar tæknibyltingar. Þetta kallar á róttæka hugsun um tekjuskiptinguna og um hlutverk lýðræðislegs ríkisvalds við að skipuleggja þjóðfélagsleg viðbrögð. Róttækar hugmyndir um „grunntekjur“ fyrir alla, eða lágmarks erfðafé fyrir alla við upphaf starfsferils, eiga að vera þegar á dagskrá. Reyndar eru flestar þessara hugmynda ekki eins róttækar og þær hljóma við fyrstu kynni. Sem dæmi má nefna, að hugmyndin um neikvæðan tekjuskatt – lágmarkstryggingu til viðbótar launum, er fyrir löngu komin til framkvæmda og naut meira að segja stuðnings Miltons Freedman, helsta spámanns nýfrjálshyggjunnar.

Þessi þrjú vandamál og lausnir á þeim, eru öll innbyrðis tengd. Lausninrnar kalla á vandlega hannaðar lausnir í anda jafnaðarstefnu, sem og pólitíska aðferðafræði við að vinna þeim fylgi. Pólitískar fosendur fyrir árangri eru að ná málefnalegri samstöðu verkalýðshreyfingar, jafnaðarmannaflokka, umverfisverndarsinna og róttækra vinstrisinna í Evrópu, sem eru fulltrúar ungrar kynslóðar, sem hefur verið skilin eftir utangarðs.

Vegvísarnir eru þegar þarna. Munum vísdómsorð Erlanders, sem vitnað var til í upphafi þessa viðtals: “Markaðurinn er þarfur þjónn, en óþolandi húsbóndi“. Hinn andlegi leiðtogi kaþólsku kirkjunnar er sammála og bætir við: „Peningarnir eiga að þjóna manninum, ekki að stjórna honum“.

Afgangurinn er bara framkvæmdaatriði. Þekkingin er til staðar.

Vilji er allt sem þarf.

Stiklur með seinni hluta viðtals við JBH:

  • „Norræna módelið er eina þjóðfélagsmódelið, sem mótað var á öldinni sem leið og hefur staðist dóm reynslunnar á krefjandi tímum hnattvæddrar samkeppni á 21du öldinni.“
  • „Sovétríkin eru ekki lengur til. Óbeislaður kapitalismi hrekst úr einni tilvistarkreppunni í aðra. En norræna módelið hefur staðist dóm reynslunnar betur en báðir þessir trúboðar Stórasannleiks.“
  • „Verkafólk er fúsara að sætta sig við úreldingu starfa þeirra vegna tækninýjunga, ef það veit, að það getur reitt sig á atvinnuleysistryggingar og stuðning við starfsþjálfun fyrir ný störf; ef það getur treyst því, að það muni hvorki glata heilsutryggingunni né íbúðinni, hvað þá heldur lífeyrisréttindunum, með gamla starfinu.“
  • Það er nákvæmlega í þessum punkti, sem jafnaðarmannahreyfingin í Evrópu hefur brugðist í kjölfar fjármálakreppunnar 2008. Hún hefur látið það líðast, að grundvallarreglur þjóðfélagssáttmálans hafa verið rofnar. Gróðinn var allur einkavæddur, en skuldirnar þjóðnýttar.“
  • „Veikleikinn er þessi: Fjármagnið er hnattvætt – það fer hindrunarlaust fram og til baka yfir landamæri – en pólitíkin í hverju þjóðríki er innikróuð og staðbundin (lokal).“
  • „Þegar meira en 60% kosningabærra manna telja það ekki ómaksins verk að mæta á kjörstað (og upp undir 80% í yngsta aldurshópnum), bendir margt til þess, að Bandaríkjamenn hafi glatað trúnni á lýðræðið.“