Kosningarnar: FRAMTÍÐIN ER Í ÞÍNUM HÖNDUM

VERSTU MISTÖK Íslendinga eftir Hrun voru að endurreisa óbreytt kerfi. Óbreytt kerfi er þess eðlis, að það malar fjármagnseigendum gull; gerir meirihluta þjóðarinnar að skuldaþrælum fyrir lífstíð; og leiðir til ójafnaðar, sem er umfram þolmark þessa fámenna samfélags. Þess vegna snúast komandi kosningar bara um eina spurningu: Hvaða stjórnmálaöfl eru reiðubúin að taka höndum saman eftir kosningar um að ná fram róttækum kerfisbreytingum.

VIÐ VITUM, hvar við höfum kerfisflokkana, sem hafa stjórnað landinu á s.l. kjörtímabili. Þeir eru gerðir út af forréttindahópum til að standa vörð um óbreytt ástand. Þeir sem tilheyra forréttindahópunum, þurfa bara að gera upp við sig, hvorum þeir treysta betur fyrir fjársjóðum sínum í (skatta)paradís.

EF NIÐURSTAÐAN verður sú fyrir kosningar, að fjórir flokkar – Píratar, Samfylking, Vinstri-græn og Björt framtíð – sammælast um atfylgi við róttækar kerfisbreytingar á næsta kjörtímabili, þá verðskulda þeir traust. Við hljótum að stuðla að því með atkvæðum okkar, að þeir komi allir að ríkisstjórnarborðinu.

ÞETTA ÞÝÐIR, að við höfum ekki efni á því að kasta atkvæðum okkar á glæ á þau framboð, sem engar líkur benda til að nái upp í 5% þröskuldinn. Fyrir jafnaðarmenn þýðir þetta, að við verðum að sjá til þess, að Samfylkingin – þrátt fyrir öll hennar mistök í fortíðinni – geti náð saman með öðrum umbótaöflum um lífsnauðsynlega kerfisbreytingu.

VIÐREISN er um margt virðingarverð tilraun til þess að losna undan agavaldi sérhagsmunanna, sem hafa tröllriðið Sjálfstæðisflokknum hingað til. Stefnumótunarvinna Viðreisnar þykir vönduð og skírskotar því til gamalla Alþýðuflokksmanna. En nái Samfylkingin ekki landi – eins og sumar seinustu kannanir gefa til kynna – aukast líkur á því, að Viðreisn telji sig ekki eiga annarra kosta völ en að semja við kerfisflokkana um málamiðlanir. Jafnaðarmenn geta ekki leyft sér að taka þá áhættu.

Hvað meinum við með róttækri kerfisbreytingu? Aðalatriðin eru þessi:

  • FAST GENGI með vikmörkum og takmörkunum á fjármagnsflutningum; þetta stuðlar að vaxtalækkun og dregur úr vægi verðtryggingar; niðurskurður á ofvöxnu og rándýru bankakerfi; samfélagsbanki og endurreisn sparisjóða að þýskri fyrirmynd.
  • UPPBOÐ á markaði ákvarði verð veiðiheimilda; allur fiskur fari á markað; hámarkseign kvóta takmarki samþjöppun auðvalds; auðlindaarður til þjóðarinnar kosti endurreisn heilbrigðis- og menntakerfis.
  • ÞJÓÐAREIGN á auðlindum verð fest í stjórnarskrá; landið verði eitt kjördæmi með jöfnum atkvæðisrétti og fækkun þingmanna; tiltekinn fjöldi kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis; ráðherrar sitji ekki á þingi; strangt eftirlit verði með því, að mannaráðningar á vegum hins opinbera ráðist af hæfni en ekki flokkshollustu.

Þessi róttæka kerfisbreyting verði innsigluð í nýrri stjórnarskrá.

FJÖLGUN FRAMBOÐA endurspeglar djúpstæða óánægju Íslendinga með óbreytt ástand. En það er ekki nóg að lýsa óánægju með ástandið. Kjósendur verða með atkvæði sínu að stuðla að því, að á Alþingi verði til starfhæfur meirihluti um lífsnauðsynlegar kerfisbreytingar. Til þess þarf að vanda valið. Beitum útilokunaraðferðinni. Mætum öll á kjörstað. Tryggjum umbótaöflunum starfhæfan meirihluta á Alþingi.