Ríkharður Jónsson, minning

Ríkharður ljónshjarta- það hét hann alla vega meðal okkar, aðdáenda hans fyrir vestan. Stundum Rikki hinn ósigrandi. Það leikur enn ljómi um nafnið, 66 árum eftir að hann – nánast einn síns liðs – sigraði ólympíumeistara Svía í landsleik í knattspyrnu árið 1951 – 4:3.

Loksins höfðu Íslendingar sannað, þar sem á reyndi, að þeir væru engir eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða. En af því að knattspyrna á að heita hópíþrótt, var þetta einstaklingsafrek þeim mun ótrúlegra. Hvílíkur galdramaður. Óviðjafnanlegur. Á þessum 90 mínútum skráði Ríkharður nafn sitt óafmáanlega á spjöld Íslandssögunnar. Hafi nokkur einstaklingur gerst fyrirmynd og átrúnaðargoð heillar kynslóðar hins unga lýðveldis, þá var það hann: Skagamaðurinn frækni.

Seinna – löngu seinna – átti ég eftir að kynnast honum sem bæjarfulltrúa og forystumanni okkar jafnaðarmanna á Akranesi, og síðar í Vesturlandsskjördæmi. Við vorum óneitanlega stoltir af því – jafnaðarmenn – að eiga slíkan afreksmann í okkar röðum. Ég gantaðist stundum við hann, að það hefði komið úr hörðustu átt, að hann – erkikratinn – hefði leikið stjörnulið fyrirmyndarríkis jafnaðarstefnunnar svona grátt. Gott ef það þyrfti ekki að efna til sérstaks sáttafundar í Alþjóðasambandinu fyrir vikið.

Ríkharður Jónsson var gegnheill drengskaparmaður, sem kvað að, hvar sem hann haslaði sér völl. Hann unni sinni heimabyggð og lagði fram krafta sína óskerta til að gera hennar hlut sem mestan. Enda bar hann hróður hennar hvert sem hann fór.
Við, íslenskir jafnaðarmenn, kveðjum afreksmanninn með eftirsjá, aðdáun og djúpri virðingu. Við vottum fjölskyldu hans og vinum okkar dýpstu samúð.