Útilokunaraðferðin: Samstarf um kerfisbreytingar

ÚTSPIL Pírata er ekki tilboð um stjórnarmyndunarviðræður fyrir kosningar. Þett er tilraun til að fá svar við einfaldri spurningu: Hverjir eru fúsir til að starfa saman að róttækri kerfisbreytingu á íslensku þjóðfélagi eftir næstu konsingar, fái þeir umboð til. Þetta á ekkert skylt við klækjastjórnmál. Þetta er í anda gagnsæis að norrænni fyrirmynd – skref fram á við í lýðræðisátt.

Píratar spyrja: Eruð þið sammála okkur um, að það þurfi kerfisbreytingu? Nýja stjórnarskrá? Gjaldtöku fyrir auðlindanýtingu? Gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu? Bætta aðkomu almennings að ákvarðanatöku? Úrræði gegn spillingu? Þeir beina þessu til VG, BF, SF og Viðreisnar. Væntanlega hafa viðmælendur eitthvað til málanna að leggja (húsnæðismál?, menntakerfi?, alþjóðsamstarf?). En kjarni málsins er þessi: Hverjir eru fúsir til að starfa saman að róttækri kerfisbreytingu á íslensku þjóðfélagi?

Ójöfnuður

Það er nefnilega að koma æ betur í ljós, að óbreytt kerfi (fjármálakerfi í eigu fjármagnseigenda, stutt af stjórnmálaflokkum, sem þeir gera út) malar gull fámennum forréttindahópi fjármagnseigenda, á sama tíma og þorri almennings er skuldugur upp fyrir haus – þ.e.a.s., er í nauðungarvinnu í þágu fjármagnseigenda. Þrátt fyrir töp sumra efnamanna af völdum Hrunsins, er það samt sem áður staðreynd, að misskipting eigna er meiri nú en fyrir Hrun. Meira en 77% alls eigin fjár er í eigu 10% landsmanna. Næstum 80% er með neikvætt eigið fé (skulda meira en þeir eiga). Í raun er misskiptingin mun meiri en opinbera tölfræðin segir til um. Fyrir því eru tvennar ástæður: Verðbréfaeign er talin á nafnverði (fullkomlega óraunsætt), en 86% allra verðbréfa er í eigu 10% landsmanna. Svo vantar allar upplýsingar um erlendar eignir (skattaskjólin).

Hverjum malar kerfið gull? Skjólstæðingum kerfisins í formi auðlindarentu af auðlindum (hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja 242 milljarðar, á sama tíma og veiðigjöld eru lækkuð úr 12.8 milljörðum í 4.8 milljarða. Tengslanet kerfisins er óbreytt.: Frá einkavinavæðingu bankanna 2003, sem leiddi af sér Hrunið, til einkavinavæðingar á símanum og Landsbankans á Borgun. Dæmin eru legio: Eignir og arður safnast á fáar hendur í skjóli fyrirgreiðsluspillingar kerfisflokka.

Um hvað er kosið?

Næstu kosningar eiga að snúast bara um eitt mál: Viltu breyta þessu kerfi eða ekki? Ef þú ert partur af þessu kerfi, þarf ekki að spyrja – þá kýstu kerfisflokkana – Sjálfstæðisframsóknarflokkinn. Ef þú vilt kerfisbreytingu, beitir þú þínu atkvæði, þar sem það nýtist best, til að vísa kerfisflokkunum á dyr út úr stjórnarráðinu. Píratar, VG, SF, BF – og það var rétt hjá Pírötum að kalla líka á Viðreisn til viðræðna. Þá svara þessir aðilar því – fyrir kosningar – hvort þeir eru reiðubúnir að styðja þá kerfisbreytingu, sem þarf til að stöðva áframhaldandi misskiptingu og snúa þeirri þróun við.

Ég hef á öðrum stað rökstutt rækilega nauðsyn róttækra kerfisbreytinga. Það gerði ég í erindi, sem nefnist: „Erindisbréf handa jafnaðarmönnum á nýrri öld“: Að því er varðar framkvæmdina, vísa ég til fylgiskjals með erindi mínu, þar sem taldar eru upp 15 breytingatillögur varðandi banka og fjármálakerfið (sjá jbh.is, pressan.is og stundin.is) Ég minni líka á skýrslu Frosta Sigurjóssonar, fv. þingmanns Framsóknar, til frekari rökstuðnings með þessum tillögum. Frosti er hættur, enda gerði Framsókn ekkert með tillögur hans.

Fjármálakerfi fyrir fármagnseigendur

Um verðtrygginguna, sem getur orðið að ásteytingarsteini: Verðtryggingin var á sínum tíma neyðarúrræði til að forða lífeyrissjóðum vinnandi fólks frá því að fuðra upp á verðbólgubáli; og til þess að skapa hvata fyrir sparnað, sem er undirstaða fjárfestinga og framfara. Neyðarúrræði, sagði ég, af því að gjaldmiðill okkar var, og er, gersamlega ónýtur. En verðryggingin var hugsuð sem ekki bara neyðarúrræði heldur bráðabirgðaúrræði. Til að kveða niður verbólgu. Hún átti að gilda þangað til við gætum tekið upp nothæfan gjaldmiðil. Það hefur ekki gengið eftir.

Það mun að öllum líkindum ekki gerast í náinni framtíð. Það þýðir, að við sitjum uppi með ófyrirséðar, neikvæðar, afleiðingar verðtryggingar: Öll áhætta af ytri áföllum og innra ójafnvægi í efnahagslífinu hefur færst frá fjármagnseigendum yfir á herðar skuldunauta (launþega). Gengisfelling veldur verðbólgu. Lánveitendur fá það tryggt (gegnum verðtryggingu), en lántakendur bera skaðann. Sveiflukennt hagkerfi plús verðtrygging til langs tíma er því eitraður kokteill fyrir launþega – en björgunarvesti fyrir fjármagnseigendur. Þessu verður að breyta.

Hvernig? Þar til við getum tekið upp nothæfan gjaldmiðil, sé ég ekki aðra lausn en sveigjanlega fastgengisstefnu – sem kallar á að viðhalda höftum á fjármagnsflutninga – og minnka verulega vægi verðtryggingar í leiðinni. Myntráð, eins og Viðreisn boðar – hefur víðast hvar reynst illa. Þetta er lykilatriði varðandi kerfisbreytingu, sem stjórnarandstaðan verður að ná samstöðu um.

Harmkvæli unga fólksins í húsnæðismálum er lykilatriði, sem kallar á trúverðugar lausnir. Byggingaáætlun Dags, borgarstjóra, vekur vonir. Aukið framboð á ódýru íbúðahúsnæði á viðráðanlegum kjörum hefur mest áhrif til að lækka fasteignaverð. Við eigum ekki að finna upp hjólið. Við eigum að bjóða upp á vel útfærða valkosti milli eignaríbúða, leiguíbúða, íbúða í félagslegri eigu, samvinnufélaga og íbúða í eigu sveitarfélaga. Fyrirmyndirnar eru að finna í nágrannalöndum okkar. Þar hafa lausnir á þessum frumþörfum fólks verið í boði áratugum saman. Lykillinn að lausnum er að bjóða upp á fjölbreytt val undir félagslegri stjórn. Það sem ber að forðast, er stjórnleysi markaðarins í höndum byggingarverktaka í leit að skyndigróða.

Ný stjórnarskrá – kerfisbreyting

Svo er það þetta með stjórnarskrána. Davíð Oddsson tönnlaðist á því fyrir forsetakosningarnar, að stjórnarskráin hefði ekki valdið Hruninu. Það var rétt hjá honum. Hann var sjálfur miklu meiri orsakavaldur Hrunsins en gamla stjórnarskráin per se. En Hrunið afhjúpaði stjórnarfarslega veikleika lýðveldisins: Misvægi atkvæðisréttar, ráðherraræði, fyrirgreiðsluspillinguna, ofríki framkvæmdavalds gagnvart Alþingi, vanmátt stjórnkerfis og eftirlitsstofnana o. fl. Þjóðfélög, sem verða fyrir áföllum (ósigur í styrjöldum, efnahagshrun), reyna að byrja upp á nýtt. Við þurfum kerfisbreytingu, sem yrði innsigluð með nýrri stjórnarskrá. Nýja byrjun. Látum ekki lögfræðingaklíkuna, sem hefur makað krókinn eftir Hrun, villa okkur sýn um þetta umbótamál.

Stjórnmálaflokkar eru tæki í höndum okkar til þess að hafa áhrif á það – í nafni lýðræðis – í hvers konar þjóðfélagi við viljum lifa. Sumir stjórnmálaflokkar eru kerfisflokkar. Þeir einfaldlega þjóna hagsmunum ríkjandi kerfis. Þeirra hlutverk er að viðhalda óbreyttu ástandi. Þessir flokkar heita Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur.
………………………………………………..
Núverandi stjórnarandstöðuflokkar – innan þings og utan – eru , sögulega séð, nýgræðingar. M.a.s. Samfylkingin, sem var stofnuð við samruna Alþýðuflokks, hluta Alþýðubandalags og Kvennalista, er bara táningur. En foreldrarnir, Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Kvennalisti, voru, hver með sínum hætti, stjórnmálahreyfingar í þágu almannahagsmuna. Þær voru ekki gerðar út af sérhagsmunaöflum.

Fylgisaukning Pírata endurspeglar hvort tveggja, vantraust stórs hluta þjóðarinnar á ríkjandi kerfi, þ.m.t. á þeim stjórnmálaflokkum, sem fyrir voru. Björt framtíð endurspeglar óbeit yngri kynslóðar á ofríkisstjórnmálum gamla flokkakerfisins (eins og það birtist á Alþingi). Hvað er Viðreisn? Það er frjálslyndari parturinn af Sjálfstæðisflokknum, sem hefur hrökklast þaðan út undan ofríki og einelti Davíðs-klíkunnar. Stefnan er eiginlega sótt til Alþýðuflokksins gamla – en það vantar sýnilegan stuðning launþega í farmbjóðendahjörð Samtaka atvinnulífsins.

Niðurstaðan er þessi: Kosningarnar snúast um það, að vísa kerfisflokkunum á dyr út úr stjórnarráðinu. Við viljum ekki bara ný andlit. Við viljum kerfisbreytingu. Útspil Pírata um stjórnarmyndunarviðræður fyrir kosningar, sem leiði í ljós, hvort stjórnarandstöðuflokkarnir vilji lofa kjósendum því fyrir kosningar að stuðla að kerfisbreytingu eða ekki, verður vonandi leiðarvísir fyrir mig og þig um, hvar eigi að setja krossinn. Að vera – eða vera ekki – það er spurningin. Það er okkar að svara þeirri spurningu á kjördag.