AMERÍSKT ÓJAFNAÐARÞJÓÐFÉLAG EÐA NORRÆNT VELFERÐARRÍKI?

Viðtal við Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formann Alþýðuflokksins, um erindisbréf jafnaðarmanna á öld hins hnattvædda kapitalisma, og sitthvað fleira. Viðtal við Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formann Alþýðuflokksins, um erindisbréf jafnaðarmanna á öld hins hnattvædda kapitalisma, og sitthvað fleira.

Þá sem styðja aðild Íslands að Evrópusambandinu rak í rogastans um daginn, þegar þú sagðir, að aðild Íslands væri ekki í sjónmáli. Ert þú á móti ESB-aðild?

Nei, ég leyfði mér bara að benda á staðreyndir, sem ættu að liggja öllum í augum uppi. Burtséð frá því, hvort við styðjum aðild eða ekki, getur ekki af henni orðið í bráð. Fyrir því eru tvær ástæður. Sú fyrri er, að við uppfyllum ekki inntökuskilyrðin. Hin síðari er sú, að ESB er í tilvistarkreppu og mun ekki veita viðtöku nýjum aðildarríkjum a.m.k. næsta hálfa áratuginn. Þetta er bara svona, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Okkur væri því nær að reyna að taka til hendinni í eigin ranni, svo að við getum uppfyllt inntökuskilyrðin, ef og þegar þar að kemur.

Í hverju lýsir sér þessi tilvistarkreppa ESB?

Evrópusambandið þjáist af langvarandi banka- og skuldakreppu, sem pólitíska forystan hefur reynst ófær um að lækna. Skuldakreppan er því orðin að stjórnmálakreppu, sem er farin að reyna á sjálfa innviði sambandsins. Það sem er að er, að stjórnlaust fjármálakerfi hefur vaxið raunhagkerfinu yfir höfuð. Völd og áhrif fjármagnseigenda eru orðin svo mikil, að lýðræðinu stafar ógn af.

Besta dæmið um þetta er laumuhagkerfið í skattaskjólum heimsins. Meginið af heimsviðskiptunum er nú í höndum tiltölulega fárra risavaxinna fjölþjóðafyrirækja. Þessar auðhringasamsteypur skrá móðurfélög sín einhvers staðar í útnárum heimsins, þar sem skattar eru ýmist engir eða smáþóknun til málamynda. Rannsóknarstofnun í Washington D.C. telur, að þetta laumuhagkerfi, sem er utan við lög og rétt, sé nú orðið á stærð við hagkerfi Bandaríkjanna og Japans til samans. Svipað og stærsta og þriðja stærsta hagkerfi heimsins. Allt utan við lög og rétt. Stjórnlaust og ábyrgðarlaust.

Þetta fjármagn fer um heiminn með hraða rafboða í tölvukerfum, í leit að skyndigróða handa eigendum sínum. Það hefur vaxið raunhagkerfi heimsins yfir höfuð. Þjóðríki heimsins fá ekki rönd við reist á eigin spýtur. Þetta kerfi þandist út, þegar lög og reglur um starfsemi banka- og fjármálastofnana voru afnumdar, síðla á seinustu öld. Við það varð til „skuggabankakerfi“ utan við lög og rétt – sem er orðið óviðráðanlegt. Það er til marks um völd og áhrif þessara skuggabaldra, að maðurinn sem gerði Luxemborg að skattaparadís í hjarta Evrópusambandsins og heldur yfir því verndarhendi, var gerður að forseta framkvæmdastjórnar ESB. Þetta er svona eins og Al Capone hefði verið gerður að dómsmálaráðherra eða yfirmanni alríkislögreglunnar í Bandaríkjunum á sinni tíð.

Er þetta þá dæmigert bóluhagkerfi?

Skilin milli venjulegra viðskiptabanka og þessa „skuggahagkerfis“ hafa verið rofin. Við það bætist, að seðlabankar þjóðríkja ráða nú orðið litlu um peningamagn í umferð. Það vald hefur færst til einkabanka og fjármálastofnana, sem bera enga ábyrgð. Einkabankar búa til peninga og stýra ráðstöfun þeirra. Þetta peningamagn er allt skuldsett. Bankarnir skulda innistæðueigendum, og lántakendur skulda bönkunum. Eftirsóknin eftir skammtímagróða er svo stríð, að meginið af þessu fé leitar í fasteigna- og verðbréfabrask. Þetta er í eðli sínu bóluhagkerfi. Þegar skuldirnar eru orðnar óbærilegar, springur blaðran. Þá er skattgreiðendum gert að borga brúsann; þeim er gert að borga skuldir „óreiðumanna“. Það er réttlætt með því, að fjármálakerfið sé orðið svo stórt, að ef það falli, þá hrynji hagkerfið. Þetta er það sem gerðist 2008 í Bandaríkjunum, í Evrópu og hér á landi. Og af því að við höfum ekkert lært af hruninu og sömu öfl eru enn að verki, stefnir allt í, að sagan verið endurtekin.

Eiga stjórnmálamenn ekki að vera vörslumenn almannahagsmuna? Hvers vegna beita þeir ekki lagasetningarvaldi þjóðríkja til að koma í veg fyrir, að almenningur – skattgreiðendur – borgi skuldir einkaaðila?

Fyrir því eru ýmsar ástæður. Ein er sú, að ráðandi hugmyndafræði á Vesturlöndum s.l. þrjá áratugi – nýfrjálshyggjan – er beinlínis í þjónustu þessara afla. Nýfrjálshyggjumenn eru af sama sauðahúsi og kommúnistar voru í gamla daga – bara með öfugu formerki. Báðir trúa á Stóra sannleik. Stóri sannleikur nýfrjálshyggjumanna rúmast í tveimur orðum: Alræði markaðarins. Samkvæmt þessu trúboði er íhlutun ríkisins – fyrir atbeina lýðræðislegra kjörinna stjórnvalda – ævinlega af hinu vonda. Nýfrjálshyggjan er því í innsta eðli sínu andlýðræðisleg.

Önnur ástæða er sú, að þetta sjálfráða auðvald hefur vaxið almannavaldinu – stjórnmálavaldinu – yfir höfuð. Þótt lýðræði sé enn ríkjandi að nafninu til, t.d. í Bandaríkjunum, er það meira í orði en á borði. Stjórnmálavald í Bandaríkjunum er eins og hver önnur markaðsvara. Hún er keypt og seld. Þingmenn eiga endurkjör sitt undir þessu valdi. Auðvaldið ræður ekki bara vinnu og afkomu fólks. Það á ekki bara fjölmiðlana og áróðursstofnanirnar, sem aftur ráða umræðu og skoðanamyndun. Það á stjórnmálamennina og jafnvel heilu stjórnmálaflokkana. Lobbýistar þeirra ráða löggjöfinni. Kjósendur eru í stórum stíl að glata trausti á lýðræðinu og stofnunum þess. Meira en helmingur kjósenda kýs ekki. Stóru flokkarnir í Bandaríkjunum eru í reynd 20% flokkar.

Er svipuð þróun að eiga sér stað á Íslandi?

Þetta gerðist á Íslandi í aðdraganda Hrunsins. Fáeinir auðkýfingar eignuðust Ísland, m.a. í krafti eignaraðildar á bönkum og fjármálastofnunum. Þeir eignuðust fjölmiðlana og eiga þá enn. Þeir keyptu einstaka stjórnmálamenn og jafnvel stjórnmálaflokkana. Á Íslandi skiptir einkaréttur á nýtingu sjávarauðlindarinnar sköpum. LÍÚ mótar ekki bara stefnu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum. Vald þeirra í landsbyggðakjördæmunum er orðið slíkt, að þar má heita vonlaust að ná kjöri, án þess að vera í náðinni hjá sægreifunum. Á árunum fyrir Hrun tóku peningarnir völdin af stjórnmálunum. Og af því að stjórnmálaforystan á Alþingi eftir Hrun forklúðraði því að fylgja eftir niðurstöðum Rannsóknarnefndar Alþingis um að draga rétta aðila til ábyrgðar og um að gera grundvallarbreytingar á stjórnarskrá og stjórnskipun – búum við enn við sama kerfið.

Niðurstaðan er sú, að Ísland er orðið að ójafnaðarþjóðfélagi í amrískum stíl. Einkaleyfi á nýtingu sjávarauðlindarinnar er í höndum fáeinna forréttindaaðila. Á fiskveiðiárinu 2012/13 fengu handhafar kvótans í sinn hlut um 60 milljarða króna í hreinan hagnað, umfram rekstrargjöld, afskriftir og fjármagnskostnað. Þessar fjárhæðir renna til tiltölulegra fárra landsmanna. 50 fyrirtæki í sjávarútvegi fara með meira en 85% alls kvótans. Á bak við þessi fyrirtæki eru fáein hundruð manna.

Með öðrum orðum, fjármagnið er að færast á æ færri hendur. Hafa menn tekið eftir því, að eignarhaldið á höfuðborg Íslands er jafnt og þétt að færast í hendurnar á nokkrum eignarhaldsfélögum? Bóluhagkerfið, sem er í uppsiglingu, er að sprengja upp fasteignaverðið enn á ný. Á sama tíma getur unga fólkið hvorki keypt né leigt. Í samanburði við grannþjóðir okkar er Ísland orðið að láglaunalandi. Munurinn á hinum ríku og hinum fátæku stingur í augu. Það er kraumandi óánægja undir yfirborðinu. Spurningin er, hvort leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafi burði til að virkja þessa óánægju og beita henni sem afli til að knýja fram aðkallandi umbætur.

Er það ekki hið hefðbundna hlutverk lýðræðisjafnaðarmanna, í samstarfi við verkalýðshreyfingu, að vinna gegn misskiptingu auðs og tekna og fyrir þjóðfélagslegu réttlæti – án byltingar – eftir lýðræðislegum leiðum?

Orðin eiga það stundum til að glata merkingu sinni – verða valdi vanans að bráð. Orðið social-democrat merkir á íslensku að vera lýðræðis-jafnaðarmaður. Þessi orð segja allt sem segja þarf um hið pólitíska erindisbréf jafnaðarmanna. Þeirra hlutverk er að virkja lýðræðið til þess að draga úr þeim efnahagslega og félagslega ójöfnuði, sem óbeislaður kapitalismi ella veldur. Og við viljum gera þetta með því að virkja lýðræðið, beita stjórnmálavaldinu með umboði fólksins gegn ofríki fjármálavalds hinna fáu. Reynslan sýnir, að þetta getum við því aðeins gert, að við njótum stuðnings öflugrar verkalýðshreyfingar. Hið norræna velferðarríki er sköpunarverk jafnaðarmannaflokka, sem með atbeina öflugrar verkalýðshreyfingar komu böndum á hið óbeislaða skrímsli frumkapítalismans.

Öfugt við kommúnista eum við ekki byltingarsinnar. Við erum lýðræðisjafnaðarmenn. Stundum vorum við kallaðir hægfara umbótamenn. Það merkir, að við byggjum ekki okkar pólitík á skyndilausnum, heldur á þaulhugsaðri og skipulagðri umbótaáætlun. Tækin sem við beitum til að draga úr misrétti og stuðla að auknum jöfnuði, eru skattkerfið og velferðarkerfið. Stighækkandi tekjuskattur – að skattleggja einstaklinga eftir efnum og ástæðum – er lykilatriði.

Almannatryggingar – sjúkratryggingar, slysa- og örorkutryggingar og atvinnuleysistryggingar, ásamt skylduaðild að lífeyrissjóðum, eru annað tæki. Jafnrétti til náms, án tillits til efnahags eða þjóðfélagsstöðu, er enn eitt tækið. Þetta eru stofnanir velferðarríkisins. Til samans hafa þær dregið úr ójöfnuði, misskiptingu og óréttlæti frumkapitalismans. Ekkert af þessu – þessum stofnunum velferðarríkisins, sem hafa smám saman gert þjóðfélag okkar manneskjulegra – hefði orðið til nema fyrir atbeina lýðræðisjafnaðarmanna með stuðningi öflugrar verkalýðshreyfingar.

Þessi þjóðfélagsgerð – hið norræna velferðarríki – er eina þjóðfélagstilraun seinustu aldar, sem staðist hefur dóm reynslunnar. Kommúnisminn er fyrir löngu huslaður á öskuhaugum sögunnar, og frumkapitalisminn – óbeislað markaðskerfi í anda nýfrjálshyggju – er að hruni komið. Það þurfti atbeina ríkisvaldsins til að forða því frá allsherjar hruni – nýrri heimskreppu árið 2008. Þessi kreppa hefur aðhjúpað siðferðilegt gjaldþrot nýfrjálshyggjunnar. Það birtist okkur í því, að gróðinn er einkavæddur en skuldirnar þjóðnýttar. Ríkisvaldið verður að koma til bjargar, af því að óbeislaður kapitalismi stenst ekki til lengdar.

Er þá markaðskerfið sjálft undirrót vaxandi ójafnaðar?

Það hefur ekki hvarflað að jafnaðarmönnum á Norðurlöndum að afnema markaðskerfið. Það er gagnlegt til síns brúks, þar sem það á við, eins og Tage Erlander, hinn farsæli leiðtogi sænskra jafnaðarmanna, sagði um það. „Markaðskerfið er þarfur þjónn, en óþolandi húsbóndi“. Þetta varðar kjarna málsins. Það sem gerst hefur á s.l. áratugum er, að óbeislað markaðskerfi í anda nýfrjálshyggju hefur sest í húsbóndasætið: Auðvaldið hefur tekið völdin af almannavaldinu. Þetta hefur gerst í Bandaríkjunum og víða í Evrópu. Þetta hefur gerst með afdrifaríkum afleiðingum hér á landi. Þetta hefur gerst alls staðar, þar sem jafnaðarmannaflokkar og verkalýðshreyfing hafa verið of veikburða til að veita öflugt viðnám. En þetta hefur ekki gerst á Norðurlöndum. Þar hefur norræna módelið haldið velli og reyndar gert gott betur. Það hefur sannað yfirburði sína í hörðum heimi hnattvædds kapítalisma.

Gagnrýni nýfrjálshyggjutrúboðsins á norræna velferðarríkið hefur reynst vera á sandi byggð. Það er alveg sama á hvaða mælikvarða árangurinn er veginn: hagvöxtur, framleiðni, rannsóknir og þróun, tækninýjungar, atvinnuþátttaka – ekki síst kvenna – atvinnusköpun, gæði menntunar, heilbrigði, langlífi, vernd náttúru og almenn lífsgæði – allt er þetta í fremstu röð á Norðurlöndum í alþjóðlegum samanburði.

Við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir vali. Viljum við verða að amerísku ójafnaðarþjóðfélagi í anda nýfrjálshyggju, eða viljum við endurreisa hér velferðarsamfélag að norrænni fyrirmynd?

Íslenskir jafnaðarmenn munu minnast þess í mars 2016, að þá er heil öld liðin frá stofnun Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins, sem fyrstu áratugina voru ein og sama hreyfingin. Þetta er sú hreyfing, sem lagði grunninn að velferðarríki á Íslandi. Af sögu þessarar hreyfingar má margt læra, bæði um það sem vel hefur til tekist og hitt sem miður fór; um sigra jafnt sem beiska ósigra – ekki síst vegna sundurlyndis í eigin röðum. Upprifjun þessarar sögu er tilvalið tækifæri til að hefja frjóa umræðu um grunngildi lýðræðislegrar jafnaðarstefnu – um erindisbréf jafnaðarmanna á vegferð þeirra á nýrri öld.

Jón Baldvin viðtal: TILVITNANIR

  • Einkabankar búa til peninga og stýra ráðstöfun þeirra. Þetta peningamagn er allt skuldsett. Bankarnir skulda innistæðueigendum, og lántakendur skulda bönkum. Meginið af þessu fé leitar í fasteigna- og verðbréfabrask. Þetta er í eðli sínu bóluhagkerfi.
  • Nýfrjálshyggjumenn eru af sama sauðahúsi og kommúnistar voru í gamla daga – bara með öfugu formerki. Báðir trúa á Stóra sannleik.
  • LÍÚ mótar ekki bara stefnu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum. Vald þeirra í landsbyggðarkjördæmum er slíkt, að þar má heita vonlaust að ná kjöri, án þess að vera í náðinni hjá sægreifunum.
  • Á fiskveiðiárinu 2012/13 fengu handhafar kvótans í sinn hlut um 60 milljarða króna í hreinan hagnað, umfram rekstrargjöld, afskriftir og fjármagnskostnað. Þessar fjárhæðir renna til tiltölulega fárra.
  • Bóluhagkerfi, sem er í uppsiglingu, er að sprengja upp fasteignaverðið enn á ný. Á sama tíma getur unga fólkið hvorki keypt né leigt. Í samanburði við grannþjóðir er Ísland orðið að láglaunalandi.
  • Þessi þjóðfélagsgerð – hið norræna velferðarríki – er eina þjóðfélagstilraun seinustu aldar, sem staðist hefur dóm reynslunnar.
  • Íslenskir jafnaðarmenn munu minnast þess í mars 2016, að þá er heil öld liðin frá stofnun Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins, sem fyrstu áratugina voru ein og sama hreyfingin.