Vonarglæta í myrkrinu

Allt í einu skýtur upp í kollinum löngu gleymdri frétt. Þetta var viðtal við erlendan ferðalang, sem hafði skilið rándýra ljósmyndavél eftir í aftursæti á rútu. Daginn eftir var bankað upp á hjá honum á hótelherberginu, þar sem hann gisti. Úti fyrir stóð maður með myndavélina dýru og spurði, hvort hann kannaðist við hana. Fundarlaun voru kurteislega afþökkuð. Ferðalangurinn, sem var Ameríkani, hélt því fram, að svona nokkuð gæti ekki hafa gerst annars staðar í heiminum. Og fór viðeigandi fögrum orðum um meðfæddan heiðarleika Íslendinga.

Þetta var á þeim árum, þegar okkur þótti sjálfsagt að hafa útidyrahurðina ólæsta og skilja bíllykilinn eftir í svissinum. Samt fór ekki mörgum sögum af innbrotum eða bílstuldum. Við treystum hvert öðru. Frásögn ferðalangsins, sem vitnað var til hér að framan styrkti þá sjálfsímynd okkar Íslendinga, að við værum heiðarlegt fólk. Það hvarflaði ekki að okkur að halda, að það væri bara eftir svo litlu að slægjast. Fátæk, kannski, en heiðarleg. Það var sjálfsmyndin. Hluti af sameiginlegri sjálfsmynd Norðurlandaþjóða.

Á undanförnum árum höfum við Bryndís búið hluta úr árinu í litlu þorpi í Andalúsíu. Þorpið er ævafornt. Þeir sem hér búa uppi á háum kletti við sjóinn í Salobrena eru afkomendur fiskimanna, bænda og geitahirða. Alþjóðatúrisminn hefur enn ekki náð að breyta þeim. Þeir eru samir við sig. Þegar við erum í burtu, löngum stundum, skiljum við litla peugot eftir í bílastæðinu hér fyrir utan. Það hefur engum dottið í hug að stela honum hingað til. Að vísu verður að viðurkenna, að hann er nokkuð við aldur og ber þess óneitanlega merki. Þetta er bara eins og í þá gömlu, góðu daga, þegar við treystum hvert öðru.

En þegar við lesum El País – besta dagblað Spánverja – með morgunkaffinu, blasir við allt önnur mynd af spænsku þjóðfélagi. Daglega lesum við fréttir og fréttaskýringar um það, að spænskt þjóðfélag er, að því er virðist, óforbetranlegt ræningjabæli. Stjórnmálamenn og viðskiptajöfrar virðast vera í samsæri um það að stela öllu steini léttara, sem þeir koma höndum yfir. Það líður vart sá dagur, að einhver þjófurinn sé ekki tekinn til bæna í blaðinu. En bíðum við. Það er þó alla vega virðingarvert, að helsta dagblað þjóðarinnar dregur ekki af sér að upplýsa almenning um spillinguna. Það stundar ekki þöggun (eða sögufölsun, eins og sum blöð, sem við þekkjum frá gamalli tíð og eru gerð út af sægreifum og hrunverjum). Ef ekki væri fyrir El País og einstaka aðra fjölmiðla (ekki síst á vefnum), væri sannleikanum um spillinguna haldið leyndum fyrir þjóðinni. Og þar með væri öll von úti.

Hvað með dómskerfið? Er því treystandi? Er það laust undan kúgunarvaldi spilltra stjórnmálamanna? Það er umdeilanlegt. Hinir grunuðu eru alla vega leiddir fyrir rétt. En óneitanlega virðist það oft taka hálfa aðra eilífð að leiða mál til lykta. Og stundum gerist það, að dómsvaldið klikkar líka. Garcón, víðfrægasti lögmaður og saksóknari Spánverja í seinni tíð, sá sem lét harðstjórann, Pinochet í Chile, svara til saka fyrir glæpi sína í London, var flæmdur úr landi af gömlum falangistum í Hæstarétti og dómsmálaráðuneyti. Og þeir eiga í miklum vandræðum með dóttur kóngsins. Hún var gift frægri handboltastjörnu. Sameiginlega nýttu þau sér völd þjóðhöfðingjaembættisins og frægð íþróttastjörnunnar til að raka saman fé í meinta góðgerðarstarfsemi. Fyirliggjandi gögn sýna, að lítið varð af góðgerðunum. Eftir margra ára rannsókn setti saksóknari fram ákæru í málinu. En nú er búið að færa hann til í kerfinu. Eftir það hefur lítið spurst til málsins.

Bandarísk skattayfirvöld hafa verið að þrengja að alþjóðlegum svissneskum bönkum af margvíslegum tilefnum. Fremur en að missa starfsleyfi sín á bandarískum peningamörkuðum hafa hinir svissnesku bankajöfrar neyðst til að afnema bankaleynd, ef um sakamál er að ræða í dómskerfum annarra landa. Þetta hefur leitt til þess, að hvert spillingarmálið öðru stærra hér á Spáni hefur verið afhjúpað skv. upplýsingum frá svissneskum bönkum eða fjármálaeftirliti.

Fyrir nokkrum árum var gervöll forysta spænska íhaldsflokksins ( PP) í Valencíahéraði ákærð fyrir stórfellda fjármálamisnotkun.Þegar Valencía hýsti heimssýninguna um árið, var mikið um dýrðir hjá sameinuðum aðalverktökum. Og svo ekkert smápartí skömmu seinna, þegar hans heilagleiki, páfinn, kom í opinbera heimsókn. Hvort tveggja kostaði gríðarleg opinber útgjöld. Stjarnfræðilegar upphæðir runnu í vasa stjórnmálamannanna í þakklætisskyni fyrir úthlutun verksamninga á vildarkjörum.

Það skal tekið fram til skýringar, að hér á Spáni er kaþólska kirkjan í íhaldsflokknum. Fyrir seinustu kosningar reyndi erkibiskupinn í Madrid að bannfæra leiðtoga krataflokksins fyrir að hafa lögleitt rétt kvenna til fóstureyðinga að uppfylltum lágmarksskilyrðum. Þetta var nú útúrdúr, en vert að hafa í huga, samt sem áður.

Eftir margra ára rannsóknir voru birtar þúsundir blaðsíðna af opinberum gögnum,s em sýndu, að íhaldsflokkurinn í Valencía var þjófagengi. Þeir höfðu stolið öllu steini léttara, sem þeir komu höndum yfir, úr opinberum sjóðum. Skrifuðu bara reikninga á almannasjóði fyrir öllu, m.a.s. fötunum, sem þeir huldu nekt sína í, veislunum sem þeir efndu til og snekkjunum, sem þeir sigldu á um Miðjarðarhafinu. Þetta voru engar smáupphæðir. Á seinni stigum málsins kom það til kasta Garcóns, saksóknara. Áður en hann gat leitt málið til lykta, var hann sem fyrr sagði flæmdur úr landi. Málið er enn að þvælast í kerfinu. En það er vert að halda því til haga, að framboðslisti íhaldsflokksins í Valencíu fyrir seinustu héraðs- og þingkosningar var nokkurn veginn óbreyttur listi sakborninga. Þeir unnu stórsigur, enda ekki fjár vant í kosningabaráttunni.

Einn angi þessa máls leiddi til þess, að upp komst um leynilega bankareikninga framkvæmdatjóra íhaldsflokksins, Barcenas að nafni, í Sviss. Þetta voru engar smáupphæðir – tugir miljóna evra. Barcenas hafði gegn embætti í um aldarfjórðung (næstum því jafnlengi og starfsbróðir hans, Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og bankaráðsmaður í Landsbankanum). Þegar Barcenas var ákærður um margvíslegt fjármálamisferli á löngum starfsferli, brá svo við, að flokkurinn sneri við honum baki. Reyndi að þvo hendur sínar af öllum sakargiftum.

Þeim tókst að láta hengja bakarann fyrir smiðinn, sem var fyrrverandi leiðtogi íhaldsflokksins, Aznar (ættarlaukur þekktrar falangistafjölskyldu) og arftaki hans, núverandi forsætisráðherra, Mariano Rajoy. Hafandi verið svikinn í tryggðum af yfirmönnum og samstarfsmönnum hefur Barcenas verið iðinn við að leka í blöðin urmul gagna um langvarandi og þaulskipulagt fjármálamisferli á vegum flokksins. Þ.á.m. hefur hann birt gögn, sem sýna, að báðir fyrrverandi formenn flokksins, Aznar og Rajoy, höfðu beinan aðgang að svartamarkaðssjóðum, bæði til eigin afnota og til að fjármagna pólitísk skítverk. Mál Barcenas silast áfram í kerfinu með hraða snigilsins.

Um daginn var upplýst, að fjöldinn allur af helstu valdamönnum íhaldsflokksins í landsstjórninni og í héraðs- og borgarstjórn Madrid, sem voru trúnaðarmenn flokksins í stjórnum banka og fjármálafyrirtækja, höfðu árum saman fengið til afnota sérstök greiðslukort, sem þeim var heimilt að nota að vild. Á hverjum degi birti El País nýjar upplýsingar um lífsstíl og eyðslugleði þessara skúrka á kostnað almennings. Það er sama sagan. Þeir kaupa ekki einu sinni fötin utan á sjálfa sig, hvað þá heldur, að þeir bjóði gestum á veitingastað á eigin kostnað. Það er ekki verið að tala um smáupphæðir, og allt var þetta rækilega falið í svarta hagkerfinu, hvergi að finna í framtölum og falið fyrir hnýsni skattayfirvalda. Þetta er sérlega athyglisvert í landi, þar sem skattgreiðendur urðu fyrir skömmu að reiða fram stjarnfræðilegar upphæðir til að bjarga eigendum bankanna frá gjaldþroti. Og þar sem fjórði hver maður telst vera atvinnulaus samkvæmt opinberum tölum.

Þegar þetta er skrifað, hefur skattalögreglan hrint af stað stærstu rassíu í sögu Spánar til að reyna að grafast fyrir um þéttriðið net fjármálamisferlis í samskiptum héraðs- og borgarstjórna og viðskiptaforkólfa (einkum verktaka, orku- og fjármálafyrirtækja). Rannsóknin nær til stjórnmála- og embættismanna í Madrid, Valencíu, Murciu og Castiliu y León – allt saman héraðstjórna, þar sem íhaldsflokkurinn hefur lengi farið með völd. Hvers vegna lögreglan kennir þessa herferð sína við Púnverja hina fornu (operación Punica), er mér hulin ráðgáta. Fjölmennir flokkar lögreglumanna fóru við sólarupprás eins og engisprettufaraldur um skrifstofur héraðs- og borgarstjórna, bækistöðvar helstu fyrirtækja og heimili forkólfanna, í leit að sönnunargögnum og til að fyrirbyggja förgun þeirra. Meira en 400 bankareikningar voru frystir. Eignarhald á 259 stóreignum var numið úr gildi hjá sýslumönnum til að hindra óheimila sölu. Um 30 lúxusbifreiðar voru teknar eignarnámi.

Og ákærurnar – upp á hvað hljóða þær? Það er langur listi, sem minnir um margt á niðurstöður Rannsóknarnefndar Alþingis á orsökum Hrunsins á Íslandi: Peningaþvætti, skjalafals, skattsvik, mútur, atkvæðakaup,fjárdráttur úr opinberum sjóðum, markaðsmisnotkun, innherjaviðskipti, umboðssvik og aðild að alþjóðlegum glæpahringum.

Og hvað segir eymingja forsætisráðherrann? Eftir langa þögn birtist hann loks á skjánum, þar sem hann sagði, að sér þætti leitt, að einstaka menn, sem hefði óverðugum verið veittur mikill trúnaður, væru að koma óorði á flokk hans og stjórnmálin almennt. Spánverjar mættu undir engum kringumstæðum halda, að kerfið sjálft væri spillt. Ég horfði á þessa frammistöðu í forundran. Af mörgum léttavigtarmönnum og liðleskjum, sem ég þurft að horfa upp á á langri ævi á stóli forsætisráðherra víða um lönd, er þessi einhver sá óburðugasti. Hann er bókhaldari að iðn og ætti því að vita, um hvað hann er að tala, en lætur eins og hann komi af annarri stjörnu.

En Spánverjar geta sjálfum sér um kennt. Yfirleitt fá þjóðir þá stjórnmálamenn til valda, sem þeir verðskulda. Það er kannski ekki nema von, að Katalónar vilji segja sig úr lögum við sambandsríkið – losna undan fjármálasukkinu í Madrid. En þeir hafa ekki fyrr reist sjálfstæðisfánann og krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði, en upplýst er, að hinn ástsæli leiðtogi þeirra í heil fjögur kjörtímabil eftir fall Francos, sjálfur leiðtogi Þjóðfrelsisflokksins, Jordi Pujol, er uppvís að því að hafa verið rummungsþjófur.

Er þá hvergi vonarglæta? Jú, svo má brýna deigt járn, að bíti að lokum. Í dag birtist sú frétt, að uppreisnarhreyfing almennings (upphaflega kennd við Los Indignados, sem yfirtóku torg höfuðborgarinnar, Madrid í fjármálakreppunni) gegn þessu rotna spillingarkerfi, væri nú orðin næststærsti flokkur þjóðarinnar með 24% atkvæða. Leiðtogi flokksins Podemos (Við getum), Pablo Iglesias, háskólakennari í hagfræði, er eini stjórnmálaleiðtoginn, sem nýtur trausts almennings langt út fyrir eigin raðir. Hann hefur skorið upp herör gegn alræði fjármagnsins og sívaxandi ójöfnuði.

Fyrir nokkrum mánuðum hélt hann fund hérna í þorpinu okkar. Þarna stóð hann á sviðinu, gekk um fram og til baka og talaði yfir hausamótunum á okkur í heilan klukkutíma, linnulaust af eldmóði og sannfæringarkrafti. Þetta minnti mig á hundrað funda ferðina forðum daga, þegar spurt var: „Hverjir eiga Ísland?“ – Hvernig skyldi honum vegna, þegar á reynir? Getum við kannski eitthvað af þessu lært?