HAFA SKAL ÞAÐ SEM SANNARA REYNIST

Mér þykir leitt til þess að vita, hvað athugasemd Jóns Ólafssonar við grein mína í Stundinni (30.03.17) var ólundarleg – og eiginlega út í hött, þegar að er gáð. Grein mín fjallaði um stríðsglæpi sovétkommúnista og þýskra nazista í Eystrasaltslöndum undir hernámi þeirra. Prófessorinn ávítar mig fyrir að ýkja tölu fórnarlambanna. Annað hefur hann ekki til málanna að leggja. Um hvað snýst málið?

1.
Um útrýmingu Gyðinga í Eistlandi: Skv. upplýsingum frá Gyðingasamfélaginu eistneska bjuggu 4500 Gyðingar í Eistlandi fyrir stríð. Um helmingur þeirra flúði land.12% voru þvingaðir til herþjónustu í Rauða hernum. Um 500 voru fluttir nauðungarflutningum í gúlagið. Um 200 voru skotnir af NKVD (forvera KGB).Um 900 voru líflátnir af þýskum hernámsyfirvöldum. Niðurstaða Jaaks Valge , sem er viðurkenndur sérfræðingur í þessum efnum, er eftirfarandi: „Heildartala þeirra Gyðinga, sem urðu fórnarlömb þýska og sovéska hernámsins, er svipuð“. Jón Ólafsson finnur hjá sér þörf til að koma því á framfæri, að aðeins 400 Gyðingar hafi verið sendir í gúlagið. Það gefur vægast sagt villandi mynd af örlögum Gyðingasamfélagsins í Eistlandi. Því var einfaldlega útrýmt. Hálfsannleikur oftast er, óhrekjandi lygi.

2.
Nauðungarflutningar í gúlagið: Ég segi, réttilega, að sovésk hernámsyfirvöld hafi flutt hundruð þúsunda nauðungarflutningum í gúlagið. Af samhenginu má ráða, að ég er að tala um Eystrasaltslöndin þrjú (ekki bara Eistland). „Leiðrétting“ prófessorsins er því ómerkilegur útúrsnúningur. Reyndar má finna að því, að ég gerði nauðungarflutningunum ekki betri skil. Það var ekki bara, að forystulið þessara þjóða í atvinnulífi, menningu, listum o.s.frv. væri herleitt í útrýmingar- og þrælabúðir Stalíns, þaðan sem fáir áttu afturkvæmt; í staðinn voru fluttir inn (aðallega) Rússar með þeim afleiðingum, að Lettar og Eistar voru næstum því orðnir minnihluti í eigin höfuðborgum, loksins þegar Sovétríkin hrundu. M.ö.o. það átti að festa hernámið varanlega í sessi með kerfisbundnum þjóðernishreinsunum og „rússneskuvæða“ þessar þjóðir. Tungumál þeirra og menning var þar með í útrýmingarhættu.

3.
Hversu margir Eistlendingar urðu að lokum fórnarlömb nazista og sovétkommúnísta á hernámsárunum?

Prófessorinn segir, að einungis 30 þúsund Eistar hafi verið fluttir nauðungarflutningum í gúlagið. Þá lætur hann ógetið þeirra tugþúsunda, sem voru teknir af lífi án dóms og laga, urðu fórnarlömb fjöldamorða eða flúðu land. Helsti sérfræðingur Eista um þetta efni, áðurnefndur sagnfræðingur Jaak Valge, hefur komist að þeirri niðurstöðu, að „um þriðjungur eistnesku þjóðarinnar (um 400 þús. manns) hafi orðið fórnarlömb kommúnista og nazista á þessum árum, að meðtöldum þeim sem flúðu land“. Í ljósi þessa verður því naumast haldið fram með gildum rökum, að ég hafi ýkt tölu fórnarlambanna meðal Eystrasaltsþjóðanna þriggja.

Árið 2005 baðst Arnold Rüüter, þáverandi forseti Eistlands, formlega afsökunar frammi fyrir Gyðingasamfélaginu á því, að meðal þeirra, sem ofsóttu Gyðinga og sviptu þá lífi á styrjaldarárunum, voru nafngreindir eistneskir ríkisborgarar. Enginn hefur nokkru sinni beðið eistnesku þjóðina afsökunar á þeim fjöldamorðum, limlestingum, nauðungarflutningum og þjóðernisreinsunum, sem forsvarsmenn þýskra nazista og sovétkommúnista eru ábyrgir fyrir, og eistneska þjóðin mátti þola af þeirra völdum.
Þessi grimmdarverk flokkast nú undir viðurkennd hugtök í þjóðarrétti, sem tilraun til þjóðarmorðs.