Jónas Kristjánsson

Jónas Kristjánsson var einn hinna fáu útvöldu, sem setti sterkan svip á samtíð sína. Hann var óumdeilanlega frumkvöðull í íslenskri fjölmiðlun og vissulega umdeildur sem slíkur. Samstarf hans og Sveins Eyjólfssonar á Dagblaðinu vakti storma og stríð. Eftir á að hyggja táknaði það kaflaskipti í sögu íslenskrar fjölmiðlunar.

Stríðið sem geisaði á bak við tjöldin um yfirráð yfir DV er lærdómsríkur kafli í fjölmiðlasögunni. Sú saga snýst um það, hvernig áhrifarík öfl í viðskiptalífinu – í nánum tengslum við ráðandi flokk fjármagnseigenda – svífast einskis til að kaupa sér völd og áhrif og tryggja eigin hagsmuni. Jónas – með Svein að bakhjarli – bauð þessum öflum birginn.

Frjáls fjölmiðlun er súrefnisgjafi lýðræðisins. Það fyrsta sem spilltir valdhafar í þjónustu auðræðis gera, er að þagga niður í gagnrýnisröddum – mýla fjölmiðlana. Þetta er að gerast bæði í Bandaríkjum Trumps og Rússlandi Putins, í Austur-Evrópu og Tyrklandi. Þessarar tilhneigingar gætir um allan heim – líka hér á landi. Lýðræðið er á undanhaldi. Andstaða þess – auðræðið – er í sókn.

Jónas Kristjánsson var lýsandi dæmi um öflugan þjóðfélagsgagnrýnanda í krafti frjálsrar fjölmiðlunar. Hann var frumkvöðull og brautryðjandi. Það var hart að honum sótt, en hann lét aldrei beygja sig til hlýðni. Hann er og verður lýsandi fyrirmynd nýrrar kynslóðar fjölmiðlafólks, sem á að standa vaktina um virkni lýðræðisins á komandi árum. Munu arftakar hans hafa til að bera sama kjark og úthald og Jónas Kristjánsson sýndi alla tíð í lífi sínu og starfi? Við eigum honum skuld að gjalda. Það verður ekki heiglum hent að halda uppi merki hans.

Ég kveð hann með virðingu og votta aðstandendum hans samúð mína.