Pabbi, grein eftir Glúm Baldvinsson

Maðurinn er með óbilandi sjálfstraust. Líklega stafar það að stórum hluta af því að hann vissi frá fjögurra ára aldri hvað hann vildi í lífinu. Pólitík. Breyta heiminum.
Hann fann ástríðuna fyrir lífinu og uppfrá því var ekki aftur snúið.

Dæmi: Hann las Marx fyrir tólf ára aldur og gerðist kommúnisti af lífi og sál. Taldi síðar að Laxness hefði blekkt sig ungan til að trúa að það væri lausnin á samvistum manna í samfélagi.

Annað dæmi: Sextán ára rak hann kosningabaráttu mömmu sinnar sem Hannibal hafði att í prófkjör gegn bróður hennar, Friðfinni Ólafssyni, krata, í einhverju kjördæmi fyrir vestan. Gekk hann svo harkalega fram að hann skrifaði fjölda kosningablöðunga fyrir mömmu í viku hverri og bar nokkuð á níði á andstæðingnum sem móðir hans þó elskaði. Hún elskaði mann sinn þó öllu meir. Eitt sinn þegar Jón Baldvin sextán ára var að skila baráttumálgagni sínu og móður hennar til prentsmiðju á Ísafirði hitti hann frænda sinn Friðfinn sem var þar í sömu erindagjörðum. Þá hafði Friðfinnur uppi þessi orð: Ill var þín fyrsta ganga frændi. Töluðust þeir svo ekki við í áratug eða meira. Seinna urðu þeir mestu mátar og segir faðir minn hann fyndnasta, skemmtilegasta mann sem uppi hafi verið á Íslandi.

Það er eitt af því sem einkennir manninn. Það er vestfirskan hans. Menn eiga að vera skemmtilegir, sögumenna, gleðimenn og eiga ekki að gráta heldur vera karlmenn í Íslendingasögustíl. Svona Þorgeir Hávarsson.

Ætli hann sé ekki misskilinn af því hann er mjög skipulagður – í ræðu og riti. Hann tamdi sér það í skóla og sérstaklega sem kennari og skólastjóri. Þá hafði hann ritara sem hann diktaði fyrir. Sumsé, þar sem hann þurfti aldrei að vélrita sjálfur þá þjálfaðist hann í að tala í kjarnyrtum setningum með punktum og kommum þar sem við átti. Þess vegna elska blaðamenn hann. Þeir þurftu og þurfa aldrei að klippa hann. Hann matreiðir efnið ofaní þá eins og kennari. Fólki úti bæ hefur sumu hverju því þótt hann mikill með sig, besservisser, talað niður til sín. En það var ekki meiningin og hefur aldrei verið. Hann er bara þaulæfður í að koma hugsunum sínum skýrt frá sér. Og hugsanirnar eru líka skýrar vegna þess að hann þekkir efni sitt. Hann hefur lesið allt milli himins og jarðar um pólitík, hagfræði og heimspeki. Og fylgist með sérhverri þróun í heimsmálum. Hann getur lesið hundruðir blaðsíðna á örfáum tímum. Ég veit að hann hefur klárað marga doðranta á einni nóttu. Þess vegna elska blaðamenn hann eða eins og Gissur Sigurðsson sagði með söknuði við mig í glasi: Þegar Jón Baldvin var og hét. Það var dásamlegt. Ég þurfti bara að beina að honum míkrafóninum og þá söng Jón Baldvin. Þá söng hann.

Hann er mjög ánægður með sjálfan sig. Það er klárt. Ekki hroki því ég hef aldrei orðið vitni að því að hann sýni minni máttar hroka. Hann gerir hins vegar kröfur til þeirra sem eru í sama bransa og hann að þeir séu eins vel að sér og ástríðufullir og fullir þekkingar og hann. Oftast og hartnær alltaf bregðast þeir honum. Og þá lítur hann á þá sem litla menn. Hann bar virðingu fyrir nokkrum stjórnmálamönnum í samtímanum: Davíði Oddssyni, fyrir pólitískan styrk sinn, Vilmundi, fyrir gáfur sínar og Ólafi Ragnari fyrir skerpu sína og styrk í kappræðum.

Þegar hann var ungur utan pólitíkurinnar og skólastjóri fyrir vestan reifst hann og skammaðist við sjónvarpið. Eftir að hann var kjörinn formaður Alþýðuflokksins breyttist maðurinn í einum svipan í glaðan, einbeittan orkufullan og jafnvel hlýjan mann. Hann söng. Hann skein. Og þannig var það alla tíð á hans pólitíska ferli. Er hann óhræddur og lætur hann ekki bugast eins og Vestfirðingum sæmir. Næstum því. Eitt sinn sá ég hann næstum því láta undan. Það var þegar flokkurinn var að hruni kominn eftir að Jóhanna hafði klofið hann, Guðmundur Árni hafði verið flæmdur úr ráðherrastóli með skömm og flokkurinn mældist í um 3 prósentum nokkrum mánuðum fyrir kosningar 1995. Hann safnaði þó í sig kjark og hóf mestu og bestu kosningabaráttu sína um ævina. Hann reif einn og sér flokkinn upp í 11 prósent á þremur mánuðum. Það var eitt mesta pólitíska afrek hans og sýnir að maðurinn lætur ekki beygja sig eða leggja af velli. Hann þrýfst í mótlæti og er keppnismaður, baráttumaður af guðs náð.

Hvað Hannibal og hann varðar þá voru átökin á milli þeirra pólitísk en aðallega vegna þess að pabba fannst hann hafa komið illa fram við móður sína. Of kvensamur. Ég hefði ekki þolað það sjálfur hvernig Hannibal gekk fram. Faðir minn hefur ekki komið þannig fram við móður mína. Þvert á móti ber hann virðingu fyrir henni. Það er gagnkvæmt og þau eru bestu vinir. Við börnin höfum alla tíð leitað að þessu sambandi en finnum það ekki. Þegar systur mínar líta á menn þá reyna þær að eygja fyrirmyndina í honum. Sorglegt eður ei. Sannleikur.

Ég get sagt endalausar sögur af manninum. Við dýrkum hann líklega öll of mikið og það hefur verið, ja mér altént, óhollt. Ég hef reitt mig um of á að hann haldi uppi merkjunum. En ég get sagt að hann er hlýr maður og alltaf þegar ég hef átt í erfiðleikum í lífinu þá er það hann sem ég leita til. Hann er besti vinur minn og bregst mér aldrei.

Mistök: Hann sér eftir því að hafa komið Sjálfstæðisflokknum til valda. Hann telur sig líklega bera ábyrgð á því að hann er enn við völd 16 árum eftir að JBH hefði getað orðið forsætisráðherra í vinstri stjórn en valdi fremur að fara með Davíð. Hann sér ekki eftir þeirri Viðeyjarstjórn því undir henni varð hans goðsögn að lífi. Maðurinn sem breytti Íslandi í það efnahagsundur sem það er í dag. Hann hefði hins vegar viljað halda áfram með öðrum mönnum og halda hér uppi jafnaðar- velferðarstefnu þegar tekist hafði að rífa samfélagið úr höftum og kreppu. Honum gafst ekki færi á því. Hann vildi koma tilbaka eins og Gunnar Thoroddsen og taka síðasta dansinn. Ekki endilega fyrir sig heldur til að snúa þessu ógeðfellda mammonssamfélagi aftur á braut jafnaðarmennsku. Honum mun kannski enn gefast ráð og tími til þess því kallinn er betur á sig kominn heldur enn hann var fertugur – líkamlega og að andlegu atgervi. Hann veit meira í dag en í gær.

Ég get haldið endalaust áfram en læt það að endingu duga að segja að það eru ekki hæfileikarnir, gáfurnar og sjarminn, ritsnilldin og mælskan sem hafa gert manninn að því sem hann er heldur dugnaðurinn og eljan og ástríðan fyrir viðfangsefni sínu. Mig grunar að ég hafi það fyrrnefnda í miklum mæli en skorti það síðastnefnda.

Að lokum er ekki hægt að láta fullkomnunaráráttuna ónefnda. Allt sem hann tekur sér fyrir hendur verður að vera fullkomið. Þegar hann skrifar greinar og ræður þá liggur hann yfir þeim. Lýkur þeim. Gengur um gólf. Hugsar og betrumbætir þær þar til að þær verða gallalausar. Mér skilst að Winston Churchill hafi haft slíka áráttu einnig. Hann þótti frábær penni og skríbent. En hann gerði það ekki fyrirhafnarlaust. Hann lá yfir textanum. Sama með JBH. Og þetta gildir um allt sem hann tekur sér fyrir. Meira segja hluti sem hann kann lítil skil á eins og að mála hús. Ef hann byrjar að skrapa og mála þá hættir hann ekki fyrr en verkið er fullkomnað. Síðan horfir hann á afrekið fullur aðdáunar og fullnægju yfir viskí glasi. Verkið fullkomnað. Líkt og þegar hann skrifaði grein minningargrein um Gvend jaka. Honum þótti vænt um manninn og eins og alltaf vildi hann vanda til verksins. Þegar hann las greinina að endingu yfir þá féllu tár niður hvarma hans. Honum fannst skrif sín svo hjartnæm.

Ef ég væri hann færi ég yfir þennan texta hér tíu sinnum áður en ég skilaði honum til þín. Ég hins vegar skrifa og svo nenni ég ekki að renna yfir þetta aftur. Villur eða ekki villur.

Skrifað 2009