Sigurður E Guðmundsson; Minning

„Þú heldur áfram þegar ég er farinn“. Þetta sagði Aldís Pála, kona Sigurðar, við mann sinn skömmu áður en hún lést árið 2007. Hún var að vísa til magnum opus Sigurðar – kórónunnar á ævistarfi hans: „Öryggi þjóðar – frá vöggu til grafar -. Þetta er heitið á stórvirki, um uppruna og sögu velferðarþjónustu á Íslandi frá lokum 19du aldar til loka seinni heimstyrjaldar, sem Sigurður hefur unnið sleitulaust að s.l. áratug, allt til hinsta dags.

Sigurður stóð við þetta áheit konu sinnar. Skömmu eftir að hann lét af störfum sem framkvæmdarstjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins, eftir tæplega 30 ára starfsferil þar, bjó hann um sig á Þjóðarbókhlöðunni. Þar sat hann löngum stundum umkringdur stöflum af þingmálum, lagabálkum, skýrslum og greinagerðum um það, hvernig fátækt fólk var smám saman leyst úr fjötrum örbirgðar og öryggisleysis, fyrir tilverknað vaknandi verkalýðshreyfingar og hins pólitíska arms hennar, flokks íslenskra jafnaðarmanna.

Þetta var mikið þolinmæðisverk. En Sigurður var drifinn áfram af hugsjón, sem hann hafði heillast af á ungum aldri og átti hug hans allan til æviloka. Fyrri hluta þessarar sögu þekkjum við einna helst af bók Gylfa Gröndal Fólk í fjötrum, sem kom út árið 2003. En um seinni hluta tímabilsins má lesa í hinu mikla riti Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings Úr fjötrum – Saga Alþýðuflokksins, sem kom út árið 2016 á aldarafmæli Alþýðusambands og Alþýðuflokks.

Á síðum þessara bóka lesum við stjórmálasöguna; um það hvernig fátækt fólk reis upp og hristi af sér hlekki fortíðar. Hvernig því tókst, þrátt fyrir allt, að leggja grunninn að því velferðarríki sem við þekkjum í dag. Þetta er saga pólitískra átaka því að ekkert ávannst baráttulaust Þetta er líka sagan um það, hvernig sundurlyndisfjandinn dró máttinn úr hreyfingunni og tvístraði kröftunum.

En Sigurður vildi kafa dýpra. Hann leitar svara við spurningum eins og þessum: Hvers vegna er íslenska velferðarríkið ekki nema svipur hjá sjón borið saman við Norræna módelið, sem í upphafi átti að vera okkar fyrirmynd? Hvers vegna eru lífeyrisgreiðslur almannatrygginga skilgreindar sem ölmusur handa þurfalingum fremur en áunnin laun í krafti mannréttinda? Hvers vegna er Tryggingastofnun ríkisins á köflum eitthvert óvinsælasta rukkara-apparat landsins, sem treður jafnvel illsakir við skjólstæðinga sína, fremur en að rétta þeim skilningsríka hjálparhönd? Hvers vegna er velferðarríkið íslenska í kreppu?

Svörin við þessum og fleiri áþekkum spurningum eiga brýnt erindi inn í þjóðfélagsumræðu dagsins í dag. Spurningin er: Hver á að halda áfram þessu verki og leiða það til lykta, nú þegar Sigurður E. hefur verið kvaddur brott? Hver meðal yngri sagnfræðinga treystir sér til að taka upp merki hins fallna brautryðjanda? Verkefnið er brýnt. Það er mikið í húfi fyrir marga að því verði lokið sem fyrst. Baráttan mun halda áfram. En ef vegvísirinn er vandaður er síður hætta á, að þeir sem um veginn fara villist af leið.

Að leiðarlokum vil ég, fyrir hönd okkar íslenskra jafnaðarmanna, þakka Sigurði samfylgdina og fyrir allt hans fórnfúsa starf í þágu sameiginlegrar hugsjónar.