FYRIRHEITNA LANDIÐ

Það fer varla fram hjá neinum sem nennir að fylgjast með rökræðum forsetaframbjóðenda demókrata í Bandaríkjunum í prófkjörsferlinu að leiðarhnoðið, sem allt snýst um, er hið norræna samfélagsmódel. Þeir frambjóðendur, sem á annað borð hafa eitthvað til málanna að leggja, beina sjónum sínum þangað í leit að lausnum. Ameríka er ekki lengur land tækifæranna fyrir þorra almennings. Það eru Norðurlönd hins vegar afdráttarlaust.

Málefnanlega er ljóst hverjir hafa undirtökin. Það eru Bernie Sanders, hin aldurhnigni sósíaldemókrati frá Vermont, sem er sá sem helst tendrar hugsjónaglóð hjá ungu kynslóðinni. Og Elisabeth Warren sem þykist vera „kapítalisti“ en er skilgetið afsprengi New Deal, kona með lausnir á meinsemdum kapitalismans. En það er alger óþarfi að kalla það sósíalisma.  Sósíaldemókratí er rétta orðið.  Við köllum það jafnaðarstefnu. Í munni hagfræðinga, og annarra fræðimanna, heitir þetta Norræna módelið. Það er það sem málið snýst um. Þar er að finna lausnirnar á þeim þjóðfélagslegu meinsemdum sem hrjá þorra Bandaríkjamanna á lokaskeiði nýfrjálshyggjutímabilsins.

Danmörk er orðin fyrirmyndarríki. Noregur verðskuldar ekki síður athygli, ekki síst að því er varðar auðlindanýtingu og náttúruvernd. Svíþjóð var fyrir skömmu útnefnd samkeppnishæfasta þjóðfélag í heimi. Finnland hreppti fyrstu verðlaun fyrir „hátækni-infrastrúktúr“ í upplýsingatækni og almannasamgöngum. Silfurskeiðungurinn í Hvíta húsinu sem sér ofsjónum yfir að kínverski auðhringurinn Huawei hefur skotið Könum ref fyrir rass í 5. kynslóð upplýsingatækninnar (5G), leggur það nú til að Ameríkanar kaupi upp ráðandi hlut í Ericsson og Nokia, helstu hátæknifyrirtækjum Skandinavíu til að vega upp forskot Kínverja. Loks lagði hann til að Ameríkanar keyptu Grænland til að koma í veg fyrir að Kína nái fótfestu við nýtingu hinna ríkulu náttúruauðlinda hánorðursins.

Hvers vegna er það að þeir sem sækjast eftir forsetaembættinu í Bandaríkjunum líta fyrst og fremst til Skandinavíu í leit að lausnum á þeim félagslegu vandamálum sem hrjá Bandaríkjamenn? Það er vegna þess, að þær lausnir sem þar er að finna, hafa skilað miklum árangri í reynd. Stjörnuvitnið um það er ensk-ameríska vikuritið Economist. Fyrir fáeinum árum komust sérfræðingar þess að þeirri niðurstöðu í sérstakri úttekt, að „Norræna módelið væri árangursríkasta efnahags-samfélagsmódelið á plánetunni á tímum alþjóðavæðingarinnar. Þessi samfélagsgerð nær að sameina hvortveggja, hagkvæmni og jöfnuð. Þar er að finna bæði samkeppnishæfustu þjóðfélög heims og þau sem helst hafa hamlað gegn vaxandi ójöfnuði.“

SVARIÐ VIÐ NÝFRJÁLSHYGGJUNNI

Sögulega séð varð Norræna módelið til sem viðbrögð við tilvistarkreppu hins stjórnlausa fjármálakapitalisma sem leiddi til heimskreppunnar á fjórða áratug síðustu aldar. Jafnaðarmenn á Norðurlöndum horfðu annars vegar á hrun hins hamslausa kapítalisma í vestri sem brotlenti í kreppunni; hins vegar fylgdust þeir með tilraun Stalíns í Sovétríkjunum við að iðnvæða frumstætt landbúnaðarríki með aðferðum lögregluríkisins. Annars vegar hafði framleiðsluvél kapitalismans brætt úr sér þannig að það þurfti atbeina ríkisins til að koma henni í gang aftur; hins vegar var allsherjar þjóðnýting framleiðslutækjanna undir stjórn ríkis, sem afnam lýðræði, mannréttindi og réttarríkið.

Norrænir jafnaðarmenn höfnuðu báðum leiðum. Svíar sögðust ætla að fara „þriðju leiðina“.  Þeir viðurkenndu nytsemi samkeppni á mörkuðum, þar sem markaðskerfið átti við, til þess að tryggja hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta og fullnægja eftirspurn almennings eftir neysluvörum. En hið lýðræðislega ríkisvald setti mörkuðunum strangar samkeppnisreglur til þess að fyrirbyggja öfgafulla fylgikvilla óbeislaðs markaðskerfi: Einokun, ráðandi hlutdeild á mörkuðum, samþjöppun auðs á fáar hendur og reglubundnar kreppur, sem enda jafnan í hruni, án atbeina ríkisvaldsins. M.ö.o. markaðskerfið var ekki afnumið, þar sem það átti við, heldur laut það samfélagslegri stjórn. Og veigamikil samfélagssvið eins og menntun, heilsugæsla, orkuframleiðsla og dreifing og almannasamgöngur voru rekin sem samfélagsþjónusta þar sem hagnaðarsjónarmið áttu ekki við.

Aðferðirnar eru kunnuglegar. Almannatryggingar (sjúkra-, slysa-, elli-, og atvinnuleysistryggingar), gjaldfrjáls aðgangur að heilsugæslu og menntun.  Allt þetta var kostað af skattkerfi sem var stighækkandi eftir efni og aðstæðum. Það hefur t.d. brugðist í Bandaríkjunum.  Hinir ofurríku og fjölþjóðaauðhringir greiða ýmist enga skatta eða miklu lægra hlutfall af tekjum sínum en almenningur. Forstjóri Amazon greiðir t.d. 0.00052% af tekjum sínum í heildarskatt. Samkvæmt Norræna módelinu rekur ríkisvaldið líka virka stefnu á vinnumarkaðnum til að koma í veg fyrir atvinnuleysi, skapa störf og þjálfa þá sem verða fyrir tímabundnu atvinnuleysi, til annarra starfa.

Veigamikill þáttur kerfisins snýst um að tryggja með samfélagslegum aðgerðum húsnæði handa öllum á viðráðanlegum kjörum. Þetta hefur t.d. algerlega brugðist á tímabili nýfrjálshyggjunnar hvort heldur er í Reykjavík eða San Fransisco. Þetta er orðið að alþjóðlegu vandamáli.  Lausnirnar eru kunnuglegar og gamalreyndar.  Það sem skortir er pólitískur vilji til íhlutunar þegar markaðsöflin bregðast. Megintilgangurinn með íhlutun hins lýðræðislega ríkisvalds er að tryggja jafnari tekju- og eignaskiptingu en ella væri niðurstaða markaðarins – og þar með aukinn félagslegan hreyfanleika í stað rígskorðaðrar stéttaskiptingar.  Allt snýst þetta um mannréttindi, ekki ölmusur.

NORRÆNA MÓDELIÐ

Niðurstaðan er þjóðfélag þar sem ríkir meiri jöfnuður í tekju og eignaskiptingu en ella væri og þekkist annars staðar. Þetta þýðir að frelsi einstaklingsins er ekki forréttindi fárra heldur eru landamæri frelsisins útvíkkuð í nafni mannréttinda. Félagslegur hreyfanleiki – getan til að bæta hag sinn með dugnaði og fyrirhyggju – er í reynd mun meiri á Norðurlöndum en annars staðar. Bandaríki norður-Ameríku eru ekki lengur „land tækifæranna“. Sérstök könnun á félagslegum hreyfanleika í háþróuðum þjóðfélögum leiddi í ljós að Norðurlöndin fjögur skipuðu efstu sætin. Bandaríkin og Bretland voru í neðstu sætum.

Sérfræðingar vikuritsins Economist segja að „Norðurlöndin séu laus við þær plágur sem hrjá Bandaríkin. Það gildi einu hvaða mælikvarða við bregðum á heilsufar þjóðfélagsins – hvort heldur eru hagfræðilegir mælikvarðar eins og framleiðni og nýsköpun eða félagslegir kvarðar eins og jafnrétti og glæpatíðni: allar kannanir sýna að Norðurlöndin hafa skilað bestum árangri.“

Norræna módelið er eina efnahags-samfélagsmódelið sem varð til í hugmyndafræðilegum átökum liðinnar aldar sem hefur staðist dóm reynslunnar á tímabili hnattvæðingar í upphafi 21stu aldar. Sovétmódelið hefur verið huslað á öskuhaug sögunnar. Stjórnlaust markaðskerfi – samkvæmt forskrift nýfrjálshyggjunnar – hefur brotlent í tvígang á sama tímabili með skelfilegum afleiðingum fyrir þorra fólks – en verið forðað frá endalegu hruni með atbeina ríkisvaldsins í meiriháttar björgunarleiðangrum sem hafa verið kostaðir af almenningi.

ÁRANGUR GEGN ÁRÓÐRI

Tímabil nýfrjálshyggjunnar hófst á 8nda áratug seinustu aldar sem uppreisn gegn hinu sósíaldemókratíska velferðarríki. Sjálft velferðarríkið, með sínum háu og stighækkandi sköttum og öflugum ríkisgeira, er að mati nýfrjálshyggju trúboðsins ósjálfbært. Íhlutun ríkisins um starfsemi markaða er ævinlega af hinu illa; dregur úr vexti og leiðir til stöðnunar. Nýfrjálshyggjumenn hafa stöðugt haldið því fram að vegna skorts á frumkvæði og nýsköpun (e. dynamism) sé velferðarríkið dauðanum líkt. Offjölgun skriffinna á vegum ríkisins og stofnana þess endi að lokum í útrýmingu frelsis og alræðisríki (Hayek).

Nú vitum við betur. Staðreyndirnar tala fyrir sig sjálfar. Óteljandi skýrslur um hin samræmdu próf þjóðríkjanna á tímabili hnattvæðingar bera að sama brunni. Einu gildir hvaða mælikvarða við notum – niðurstaðan er hin sama: Norðurlöndin eru í sérflokki. Einu ríkin sem nálgast þau í árangri á sumum sviðum eru hin svokölluðu „Asíutígrisdýr“ (Japan, S-Kórea, Taiwan, Singapor o.fl). Öll eiga þessi lönd það sameiginlegt að ríkið er fyrirferðamikið og virt varðandi íhlutun í starfsemi markaðskerfisins á lykilsviðum.

Þetta á ekkert síður við hagræna mælikvarða en aðra. Hagvöxtur, rannsóknir og þróun, tækninýjungar, framleiðni, sköpun starfa (ekki síst í hátæknigreinum), menntunarstig, félagslegur hreyfanleiki, jafnræði kynja, lágmörkun fátæktar, heilsufar og langlífi, gæði innviða, aðgengi að óspilltri náttúru, – almenn lífsgæði. Minni ójöfnuður en alls staðar annars staðar. Ráðríkt lýðræði. Aðbúnaður að frumkvöðlum: Hvar er fljótlegast að stofna fyrirtæki? Í Bandaríkjunum? Nei, þau eru númer 38 á þeim lista. Danmörk er númer eitt.    

FYRIRHEITNA LANDIÐ

Bandaríski hagfræðingurinn Daron Acemoglu (af tyrkneskum uppruna), prófessor við Massachusetts Institute of Technology, lýsir þessu svona:

„Social-democracy“ (sem Norræna módelið er besta dæmið um) birtist í ýmsum myndum í Evrópu eftir stríð var umgjörðin utan um og orsökin fyrir því einstæða blómaskeiði. Þetta á líka við um Bandaríkin þar sem New Deal Roosevelts og áframhaldandi þjóðfélagsumbætur í framhaldi af því innleiddu nokkra meginþætti hins sósíaldemókratíska velferðakerfis t.d. kjarasamninga við stéttafélög, ellilífeyri og gjaldfrjálsan aðgang að skólum á vegum ríkis eða sveitafélaga.“

Og hann bætir við:

„Það sem við þurfum á að halda nú í Bandaríkjunum er ekki markaðstrúboð í anda nýfrjálshyggju né sveltandi sósialismi af Sovétgerðinni. Það sem við þurfum á að halda er social-democracy“ – jafnaðarstefna. Við þurfum öflugan atbeina ríkisins til þess að koma böndum á ofvaxið vald markaðsrisa. Launþegar á vinnumarkaði þurfa meiri rétt; almannaþjónustu og öryggisnet handa hinum verst settu verður að styrkja. Síðan en ekki síst þurfa Bandaríkin að móta stefnu á vegum stjórnvalda um starfsemi auðhringa til þess að tryggja að afrakstur efnahagsstefnunnar þjóni hagsmunum allrar þjóðarinnar.

Lokaorð hagfræðingsins eru þessi: „Það á ekki að afnema markaðina, það á að koma böndum á þá. Norræna módelið var ekki um að útrýma markaðskerfinu heldur að hemja það undir félagslegri stjórn. Það var ekki um að trufla samkeppni á mörkuðum; þvert á móti var það um að setja leikreglur sem tryggðu samkeppni undir félagslegu eftirliti.“

Það er einmitt þetta sem hefur brugðist og er undirrót þeirrar uppdráttarsýki sem hrjáir bæði Bandaríkin og Evrópu á öld ójafnaðar undir merkjum nýfrjálshyggju.

Eða eins og Tage Erlander – forsætisráðherra Svíþjóðar í aldarfjórðung og e.t.v. öflugasti umbótamaður liðinnar aldar – hafði að viðkvæði: „Markaðurinn er þarfur þjónn en óþolandi húsbóndi.“

(Höfundur var formaður Alþýðuflokksins, flokks íslenskra jafnaðarmanna 1984-1996. Nýjustu bækur hans eru: The Nordic Model vs The NeoLiberal Challenge (Lambert Academic publishing) – sjá www.morebooks.de; og Tæpitungulaust; lífsskoðun jafnaðarmanns (HB útgáfan 2019))