FYRIRMYNDARRÍKIÐ

Kosturinn við fjandans veirufaraldurinn (ef það má komast svo kaldranalega að orði) er sá, að þá gefst næði til að lesa nýjasta stórvirki franska hagfræðingsins, Tómasar Piketty: Capital et Ideologie upp á 1093 bls. Á maður ekki alltaf að líta á björtu hliðarnar?

Það er nánast útgöngubann svo það er ekkert betra við tímann að gera. Ég er kominn fram á bls. 486 , þar sem Piketty fjallar um fyrirmyndarríkið Svíþjóð og hina sósíaldemókratísku gullöld í Evrópu (og Ameríku eftir New Deal) fyrstu þrjá áratugina eftir Seinna stríð. Hann lýsir því býsna vel, hvernig sænski jafnaðarmannaflokkurinn og verkalýðshreyfingin byggðu upp annars konar þjóðfélag – valkost við annars vegar ameríska óðakapítalismann ,sem hrundi og hratt af stað heimskreppunni;  og hins vegar valdbeitingarsósíalismann  í Sovétinu, sem hrundi  fyrir eigið getuleysi  til að fullægja frumþörfum fólks, eftir 70 ára tilraunastarfsemi.

En það sem er nýstárlegt hjá Piketty í þessari bók er, að hann gagnrýnir hið evrópska sósíaldemókratí samtímans harðlega fyrir að hafa brugðist þeirri skydu sinni að gefa fólki raunhæfan valkost við hinum ameríska uppvakningi óðakapítalismans  undir merkjum nýfrjálshyggju, sem riðið hefur yfir heimsbyggðina, eins og hver annar smitfaraldur, á áratugunum eftir Reagan og Thatcher. Um það  mun ég fjalla um í annarri grein.

Samkomulag við saltan sjó

Fyrst þetta:  Piketty fjallar rækilega um sænska vinnumarkaðsmódelið, sem margir lofsyngja en fáir skilja.  Það gefur mér tilefni til að rifja upp, að fyrir meira en hálfri öld  sat ég  heilan vetur á bókasafni Þjóðhagsstofnunar Svía  og las mér til um sænska módelið. Í hléum frá lestrinum sótti ég sérstakt námskeið um  sænska vinnumarkaðsmódelið, sem haldið var á ensku handa fáfróðum útlendingum, þ.á.m. handa stúdentum frá vanþróuðum ríkjum  (sjálfur ég þar með talinn). Þeir sem stóðu að námskeiðinu voru Þjóðhagsstofnunin sænska (National ökonomiska Institut) , Alþýðusambandið (LO) og Vinnuveitendasambandið  (SAF). Þetta námskeið nægði alveg til að rétta af hallann eftir gömlu frjálsyggjuhagfræðina, sem þá var enn kennd við Edinborgarháskóla , þrátt  fyrir að Keynes hafði kollvarpað henni   20 árum áður.

Hvað er svona merkilegt við sænska (norræna) vinnumarkaðsmódelið? Það sem vakti mesta athygli á alþjóðavísu var, að það hafði ríkt vinnufriður í Svíþjóð þá í aldarfjórðug, þrátt fyrir að allt logaði í verkföllum vítt og breitt um Evrópu, ekki síst á Bretlandseyjum, þar sem verkföll voru nánast daglegt brauð.   Hver er skýringin? Í sem skemmstu máli þetta:

Árið 1938  gerðu verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur (þ.m.t.bændur)  með atbeina ríkisvaldsins með sér allsherjar samkomulag –  eins konar stjórnarskrá um leikreglur um réttláta skiptingu þjóðartekna milli fjármagns og vinnu: fjármagnseigenda og vinnusala. Samkomulagið er kennt við Saltsjöbaden – eyju í sænska skerjagarðinum.

 Aðilar voru sammála um , að vinnumarkaðurinn – framleiðsluvél  þjóðfélagsins –  sem allir áttu líf sitt undir að skilaði öllum ásættanlegri niðurstöðu –væri mikilvægari en svo, að markaðsöflin ein réðu þar lögum og lofum. Það væri ójafn leikur.  Valdið til að ráða og reka er í höndum atvinnurekenda.  Ákvörðunarvaldið um fjárfestingar (atvinnusköpun) er líka í þeirra höndum.  Atvinnuleysi sviftir verkamanninn og fjölskyldu hans lífsbjörginni. Aðilar urðu sammála um, að  sameiginlega  bæru allir ábyrgð á að tryggja fulla atvinnu og  “réttláta” skiptingu þjóðarteknanna. 

 Ef vinnusalar misstu vinnuna, bæri samfélagið ábyrgð á að tryggja þeim og fjölskyldum þeirra lágmarksafkomu. Og meira en það. Þeir ættu að bjóða upp á starfsþjálfun til undirbúnings nýjum störfum. Skólakerfið skyldi virkjað í þessu skyni í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.

Solidaritet – samstaða

Hitt aðalatríðið er þetta: Skipulag verkalýðshreyfingarinnar  byggir á vinnustaðnum sem grunneiningu. Þar þurfa allir að standa saman.Tökum sem dæmi byggingingariðnaðinn.   Þar “leggja margir hönd á plóg”. Ófaglærðir verkamenn, vélstjórar, múrarar, járnabindingamenn, trésmiðir, málarar, skrifstofufólk, sölumenn  o.s. frv.  Allt þetta fólk er í einu og sama stéttarfélaginu: Landssambandi byggingariðnaðarins.  Þetta þýðir, að allir starfsmenn sama fyrirtækis  á sama vinnustaðnum eru í sameiginlegu stéttarfélagi. Samningar um kaup og kjör fara fram á landsvísu. Allir aðilar (Þjóðhagsstofnun, Hagdeildir LO og SAF) leggja fram nauðsynlegar upplýsingar um stöðu þjóðarbús, afkomu viðkomandi atvinnugreinar, hagnað fyrirtækja,  verðbólgu og raunvöxt, framleiðni o.s. frv. Megináherslan er á “transparency” – aðgengi allra að réttum upplýsingum.

Kostir þessa skipulags eru margir. Allir vinnusalar (launtakar) hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta. Það heitir á skandinavísku “solidaritet” . Það er ekkert “höfrungahlaup” . Engin innbyrðis samkeppni, sem sundrar þeim, sem saman eiga að standa. Það er ekki samið fyrst fyrir ófaglærða (eða hina lægstlaunuðu), og síðan tekur við kapphlaup allra sérhópa um að toppa það – eins og hér á landi.  Annað: Þetta skipulag  felur í sér innbyggðan hvata til að halda uppi lægstu launum og til að halda aftur af óhæfilegum launamun.  Aftur “solidaritet” í verki.

Dæmi: Starfshópar með sterka markaðsstöðu (t.d. tölvutæknar) geta ekki sprengt upp skalann. Það er gott fyrir sprotafyrirtæki, enda sýnir reynslan, að þeim vegnar vel. Ef fyrirtæki er vel rekið,  heldur það eftir stærri parti af hagnaðinum, sem styrkir  samkeppnisstöðu þess (og þar með atvinnugreinarinnar). Þrátt fyrir allt tal um háa skatta  hafa sænsk fyrirtæki reynst vera vel samkeppnisfær á alþjóðamörkuðum, ekki síst í nýsköpun. Reynslan af þessari íhlutun  í starfsemi (vinnu)markaðarins   hefur því reynst vera góð fyrir alla aðila. Fyrir þjóðfélagið í heild stuðlar þetta að  vinnufriði, stöðugleika og félagslegri samheldni.

Hrópandinn í eyðimörkinni

Þegar ég kom heim frá Svíþjóð vorið 1964 , fékk ég fyrir tilviljun vikublaðið Frjálsa þjóð upp í hendurnar.  Það hafði áður verið  málgagn Þjóðvarnarflokksins, en var, þegar hér var komið sögu, orðið munaðarlaust.   Næstu árin skrifaði ég hverja greinina á fætur annarri  um nauðsyn þess að verkalýðshreyfingin tæki upp samstöðuskipulag að norrænni fyrirmynd og efldi tengsl sín við sameinaðan verkalýðsflokk  jafnaðarmanna, sem gætti hagsmuna vinnandi fólks í landsstjórninni.

 Þetta vakti reyndar athygli Björns Jónssonar, formanns verkalýðsfélagsins Einingar á Akureyri og síðar forseta ASÍ, þar sem hann var arftaki Hannibals. Björn sendi mig norður til að halda námskeið á Akureyri um norræna módelið fyrir stjórnir stéttarfélaga í Norðurlandskjördæmi eystra. Það var reyndar ógleymanleg lífsreynsla, því að nemendurnir reyndust vera svo vel lærðir í skóla lífsins, að ég lærði meira af þeim en þeir af mér.

Þegar ég var að vafra á netinu til að tékka á heimildum í þessa grein, rakst ég á grein eftir sjálfan mig í Frjálsri þjóð undir fyrirsögninni: “Framtíðarverkefni íslenskrar verkalýðshreyfingar”. Greinin er meira en hálfrar aldar gömul, enda skrifuð í tilefni af 50 ára afmæli Alþýðusambandsins (og Alþýðuflokksins) árið 1966.   

Þar segir meðal annars:

“Hundrað og sextíu verkalýðsfélög, flest þeirra örsmá og varla til nema að nafninu, eru ekki heppilegar grundvallareiningar Alþýðusambandsins. Þau eru of mörg og smá og of lítils megandi”.   

Og svo þetta:

“Á hálfrar aldar afmæli Alþýðusamandsins eru heildarsamtök íslenskra launþega fjárhagslega á vonarvöl. Þau hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að hafa í þjónustu sinni þá starfskrafta sem þarf til þess að veita aðilidarfélögunum lífsnauðsynlega þjónustu.  Á þeirra vegum eru engar rannsóknir framkvæmdar á íslensku þjóðfélagi út frá sjónarmiðum og hagsmunum verkamanna og launþega. Engin útgáfustarfsemi. Enginn verkalýðsskóli. Engin námskeið. Engin skipulögð fræðslustarfsemi af neinu tagi”.

Loks segir þar:

Og samt. Samt er verkalýðshreyfingin sterkasta aflið í íslensku þjóðfélagi, þegar á reynir……Samt bindum við trú okkar og vonir við íslenzka verkalýðshreyfingu vegna þess, að hvað svo sem kann að hafa farið aflaga í starfi hennar og þróun undanfarin ár, er hún SAMT sterkasta umbótaaflið í íslensku nútímaþjóðfélagi.  En það þarf að virkja það eins og Þjórsá, ef afl þess á að fá notið sín…… Sá aflgjafi þjóðfélagslegra umbóta í stórum stíl, sem verkalýðshreyfingin ræður yfir,  verður að sönnu aldei nýttur að gagni, fyrr en hinn illvígi og úrelti pólitíski sundrungarfjandi hefur verið sendur út á sextugt djúp; og upp er risinn öflugur verkalýðsflokkur, sem sameinar innan sinna vébanda yfirgnæfandi meirihluta íslenskra launþega”.

Þetta var skrifað fyrir meira en hálfri öld. Hvað hefur breyst? Höfundurinn var formaður Alþýðuflokksins – flokks íslenskra jafnaðarmanna (1984-96) Nýjasta bók hans nefnist : “Tæpitungulaust  – lifsskoðun jafnaðarmanns,”, (HB AV 2019)