UM ALASKAARÐINN OG ÍSLENSKA ARFINN

Þegar ég spurði þau tíðindi, að arðurinn af þjóðarauðlind Íslendinga væri orðinn að skattfrjálsu erfðafé og eyðslueyri afkomenda tveggja ólígarka á Akureyri, var ég í miðjum klíðum að lesa bók, sem í ljósi þessa þjóðarhneykslis, gæti reynst Íslendingum þörf lexía. Bókin heitir: „Exporting the Alaska Model“, eftir bandaríska prófessora, Widerquist og Howard.

Hvers konar þjóðfélag er það, þar sem arðinum af þjóðarauðlindinni er stolið um hábjartan dag í pólitísku skjóli stjórnvalda, sem að nafninu til a.m.k. eiga að gæta þjóðarauðsins og þar með almannahagsmuna? Það er alla vega meira í ætt við Saudi-Arabíu og Namibíu en Noreg – já, og reyndar Alaska. Ég ætla að byrja á því, ykkur til upplýsingar.

Árið 1956 – fyir 64 árum – staðfestir fylkisþingið í Alaska stjórnarskrárbreytingu, sem kvað á um sameiginlegt eignarhald íbúa fylkisins á öllu landi utan skilgreindra bújarða og á öllum náttúruauðlindum.

Árið 1960 fundust mestu olíuauðlindir, sem til eru í Norður-Ameríku á landi í almannaeign, þar sem heitir „Alaska North Slope“.

Árið 1976 ákvað ríkisstjórnin að verja hluta af árlegum tekjum af olíuvinnslu til að stofna fjárfestingasjóð undir nafninu „Alaska Permanent Fund“ (APF).

Árið 1982  ákvað ríkisstjórnin, að hluti af árlegum tekjum sjóðsins skyldi renna í sjóð undir nafninu „Permanent Fund Dividend“ (PFD). Þessi sjóður gengur í daglegu tali undir nafninu „Alaska arðurinn“ (Alaska Dividend).

Samkvæmt reglum sjóðsins fær sérhver íbúi Alaska – karlar, konur og börn – árlegar arðgreiðslur fyrir eignarhlut sinn í olíuauðlindum Alaska lögum samkvæmt. Upphæðin er breytileg frá ári til árs, sveiflast að mestu eftir heimsmarkaðsverði á olíu. Á seinni árum hefur arðgreiðslan numið milli 1000 og 1500 dollurum á mann, eða samtals fyrir fimm manna fjölskyldu frá 5000 til 7500 dollurum. Þegar best lét nam þessi arðgreiðsla 3269 dollurum á mann eða samtals 16.345 dollurum á fimm manna fjölskyldu. Það er á núverandi gengi ÍSK 2.343.382.65-

Alaska módelið

„The Alaska Permanent Fund“ (ATF) er þjóðarsjóður (Sovereign Wealth Fund), sem samkvæmt skilgreiningu tilheyrir íbúum viðkomandi samfélags og er varið til fjárfestinga, sem gefa af sér vexti og arð. Árið 1982 ákvað fylkisstjórnin, að hluti af þessum arði skyldi greiddur út árlega öllum íbúum fylkisins. Sú pólitíska ákvörðun á sér stoð í lögum fylkissþingsins.

Margar þjóðir hafa stofnað til sambærilegra „þjóðarsjóða“. En fylkisstjórn Alaska er eini aðilinn í heiminum, sem greiðir reglulega peningagreiðslur úr sjóðnum til allra íbúa fylkisins. Með þessum hætti hafa stjórnvöld fylkisins valið þann kost að nýta auðlindapólitík í þágu framfarasinnaðrar félagsmálastefnu. Lykilhugmyndin að baki þjóðarsjóðnum á að tryggja, að íbúar fylkisins njóti áfram arðs  af auðlind sinni,  líka eftir að auðlindin sjálf er þrotin. Hin árlega arðgreiðsla er partur af hagstjórninni með því að örva eftirspurn, studda kaupmætti, án þess að skapa nokkurt skriffinnskubákn. Allt kemur þetta að góðu haldi til að bregðast við áföllum, eins og t.d. faraldrinum, sem nú herjar á jarðarbúa.

Enn sem komið er á Alaska módelið engan sinn líka. Það samanstendur af þremur þáttum:  (1) Tekna er aflað með auðlindagjaldi (2) Auðlindagjaldið rennur í þjóðarsjóð, sem er ávaxtaður með fjárfestingum (3) Hluta af tekjum sjóðsins er síðan varið til greiðslu í peningum til allra íbúa fylkisins.

Ríkisstjórnir hafa hingað til úthlutað þessum gæðum til einkaaðila, ýmist frítt eða fyrir málamyndagjald, eins og t.d. á Íslandi. Réttlætingin fyrir því á að vera, að þetta skapi atvinnu og komi þannig öðrum til góða. En það gengur ekki upp. Íbúar fátækrahverfanna í Jóhannesarborg eru engu bættari þótt einkaaðilar græði á demantanámum S-Afríku. Íbúar Jakútíu fá ekkert í sinn hlut, þótt rússnesku ólígarkarnir græði á tá og fingri á gull- og demantanámum landsins. Ekki frekar en íbúar Colorado fá nokkuð í sinn hlut fyrir gullnámurnar í  Denver.

Leigugjald en ekki skattur

Höfundar „Alaska módelsins“ leggja áherslu á, að auðlindagjöld fyrir nýtingarréttinn á takmörkuðum auðlindum eru ekki skattar. Auðlindagjöld geta hins vegar komið í staðinn fyrir eða lækkað skatta. Þar að auki hafa auðlindagjöld þann kost að geta komið í veg fyrir ofnýtingu og rányrkju á auðlindum. Ef gjaldtöku fyrir nýtingu auðlinda (þá erum við að tala um land, vatn, orku, skóga o.fl.) er skynsamlega beitt, getur það verið þáttur í framsýnni verndun náttúruauðlinda og umhverfis. Það getur gefið fólki hvatningu til að forðast neyslu afurða, sem byggja á rányrkju takmarkaðra auðlinda. Um þetta eiga því talsmenn velferðarríkisins og umhverfisverndarsinnar að geta sameinast.

Það er sérlega ámælisvert, að mati höfunda bókarinnar, að ríkisstjórnir skuli gefa einstaklingum og fyrirtækjasamsteypum nýtingarrétt á auðlindum, þega fyrirtækin selja síðan afurðirnar, sem fást við nýtingu auðlindarinnar, með ómældum hagnaði. Það þarf að útrýma þeim misskilningi, að aðlindagjöld séu skattar. Auðlindagjöld eru gjaldtaka fyrir nýtingu auðlinda, rétt eins og leiga er gjaldtaka fyrir afnot af húsnæði. Sá sem borgar húsaleigu er ekki þar með laus við skatta. Sá sem fær einkarétt á nýtingu auðlindar, útilokar þar með aðra. Þetta eru því forréttindi. Og mikil fémæti. Það er beinlinis glæpsamlegt, að stjórnvöld úthluti slíkum forréttindum til að öðlast pólitíska vild og haldi síðan verndarhendi yfir vildarvinum sínum. Þeir sem það gera, heita því með réttu þjófsnautar.

Það er góðs viti, að útfærslan á Alaskaarðinum, sem Alaskabúar nú hafa reynslu af í tæplega 40 ár, hefur reynst vel í framkvæmd og skilað tilætluðum árangri. Af þessu geta þjóðir, sem búa yfir ríkulegum auðlindum, mikið lært, að sögn höfunda. Og taki nú hver til sín.

Auðlindastefna

Alþýðuflokkurinn var á sínum tíma eini íslenski stjórnmálaflokkurinn, sem hafði mótað sér heildstæða auðlindastefnu. Allar auðlindir innan íslenskrar lögsögu – ekki bara í hafinu og á hafsbotni – heldur líka land utan eignarhalds bújarða, vatn, orkulindir, o.fl. skyldu vera að lögum sameign þjóðarinnar. Við, jafnaðarmenn, settum það að skilyrði fyrir samþykkt aflamarkskerfisins, að nytjastofnar innan lögsögunnar yrðu að lögum lýstir sameign þjóðarinnar. Við settum það að skilyrði fyrir samþykkt framsalsréttar til að auka arðsemi greinarinnar, að „tímabundinn nýtingarréttur skyldi aldrei mynda lögvarinn eignarétt né bótakröfu á hendur ríkinu, þótt veiðiheimildir yrðu afturkallaðar“.  Án þessara lagaákvæða, sem sett voru að okkar frumkvæði, væri baráttan fyrir sameign þjóðarinnar á auðlindum fyrir löngu töpuð.

Á þessum tíma (árið 1991) gátum við ekki krafist þess, að auðlindarrentan rynni í ríkissjóð af þeirri einföldu ástæðu, að sjávarútvegurinn var á þeim tíma sokkinn í skuldir, þannig að auðlindarrenta sem andlag leigugjalds fyrir veiðiheimildir hafði ekki myndast fyrr enn mörgum árum seinna (um og upp úr seinustu aldamótum). En á s.l. áratug hefur þessi auðlindarrenta numið hundruðum milljarða króna, eins og sýnt hefur verið fram á með ómótmælanlegum rökum.

Við getum kallað það „Íslandsarð“. Eins og sýnt hefur verið fram á í þessari grein, hefur sambærilegur „Alaskaarður“ á s.l. áratugum runnið til íbúa fylkisins, ýmist í formi þjóðarsjóðs eða í formi beingreiðslna til íbúa fylkisins. Eins og nýjasta Samherjahneykslið sýnir hefur Íslandsarðurinn runnið til  fáeinna fjölskyldna – en ekki til eigandans, þjóðarinnar. Og þótt Íslandsarðurinn hafi margfaldað verðmæti hlutabréfaeignar forréttindaaðalsins skal hann samt sem áður vera að stórum hluta skattfrjáls, í nafni laga um þjóðareign, sem samt sem áður hafa aldrei verið virt í framkvæmd. Hvílíkt sjúsk! Stjórnsýsla af þessu tagi er greinilega að rússneskri fyrirmynd. Núverandi aðstoðarforsætisráðherra Kanada, Chrystia Freeland, hefur skrifað um það heila bók undir heitinu: „Þjófnaður aldarinnar“.  

Það er komið að ögurstundu. Það eru að verða seinustu forvöð að grípa í taumana og stöðva þessa ósvinnu. Verði það ekki gert, er það staðfesting þess, að hinn ofurríki forréttindaaðall hefur nú þegar náð slíkum heljartökum á íslensku þjóðfélagi, að ekki verði aftur snúið. Ólígarkarnir (rússneska yfir auðlindaþjófa) ráða þegar lögum og lofum yfir heilu kjördæmunum, þannig að stjórmálamenn þora ekki lengur að rísa gegn ofurvaldi þeirra. Er það tilviljun að stofnandi og burðarás Vinstri Grænna og núverandi formaður Samfylkingar skila báðir auðu í þessu stærsta máli þjóðarinnar – báðir frá Norðurlandskjördæmi eystra? Það er vitað, að ólígarkarnir gera þegar út bæði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkinn. Nú verður einfaldlega að láta á það reyna, hvort stjórnarandstaðan er á þeirra valdi líka.

Hér duga engin vettlingatök lengur. Stjórnarandstaðan ætti þegar í stað að koma sér saman um aðgerðaáætlun, sem byggir á eftirfarandi í meginatriðum:

  1. Afturkalla allar fiskveiðiheimildir í lok þessa fiskveiðiárs. Þá reynir á lagaákvæði um, að afturköllun tímabundinna veiðiheimilda myndar aldrei bótakröfu á ríkissjóð.
  2. Veiðiheimildir á öllum nytjastofnum í íslenskri lögsögu verði boðnar upp. Þegar í stað verði gerð vönduð greining á reynslu Færeyinga, að uppboðsmörkuðum. Ríkið mundi skilgreina lágmarksverð veiðiheimilda.
  3. Allar tekjur af sölu veiðiheimilda renni í þjóðarsjóð (sbr. Alaska).
  4. Endurheimt auðlindarentunnar.

Stjórnarandstaðan þarf þegar í stað að ráða í þjónustu sína færustu lögfræðinga/endurskoðendur, innlenda og/eða erlenda, til að leita ráða um, hvernig megi   endurheimta megnið af auðlindarrentu upp á hundruð milljarða á s.l. áratug með lögformlegum hætti í krafti þess, að lögvarinn eignaréttur þjóðarinnar á auðlindinni hefur ekki verið virtur í reynd. Til greina kemur „windfall-gains tax“ (ofurgróðaskattur) skv. fordæmi Malasíu 1997 eða útfærsla á stóreignaskatti, sem beitt var eftir seinna stríð til að innheimta hluta stríðsgróðans í ríkissjóð.

Næstu kosningar eiga að vera þjóðaratkvæðagreiðsla um þessa aðgerðaáætlun.

Ef Alþingi Íslendinga tekur ekki í taumana í þessu máli og kemur lögum yfir þjóðararðsþjófnaðinn, staðfestir það, að völdin í íslensku þjóðfélagi hafa færst frá löggjafarvaldinu til forréttindaaðals, sem ræður orðið lögum og lofum í landinu. Þá er bara eitt úrræði eftir: Að þjóðin endurheimti þau völd, sem hún hefur verið rænd, reki heim þetta dáðlausa þing og velji sér nýja menn til forystu – menn sem þora og standa við orð sín um vernd almannahagsmuna.

(Greinarhöfundur er höfundur bókarinnar Tæpitungulaust: Lífsskoðun jafnaðarmanns (HB Av 2019) þar sem ítarlegar er fjallað um auðlindastefnu jafnaðarmanna).

Mynd eftir Helga Sigurðsson birtist í Morgunblaðinu 29. maí 2020. Birt með leyfi höfundar.

Kjarninn, 25. maí 2020