Lára Hafliðadóttir, frá Ögri. Minning

Sögusviðið er við Djúp vestur um miðbik seinustu aldar. Það var voraldarveröld, árla sumars, allt iðandi af lífi. Mínir grönnu unglingsfingur höfðu þénað sem ljósmóðurlíkn við sauðburðinn og fengið hlýlegt kurr og blauta snoppu á vangann í þakklætisskyni.

Við vorum nýkomnir heim í Ögur eftir að hafa legið úti í Ögurhólmum. Andarunganrir voru komnir á stjá, svo að við máttum hirða dúninn úr hreiðrunum, milli þess sem við svolgruðum í okkur úr hráum kríueggjum, hver í kapp við annan. Í staðinn  áttum við yfir höfðum okkar grimmilega hefnd kríunnar, sem er mesti kvenvargur norðurhvelsins.

„Nonni minn – nennirðu ekki að skreppa fyrir mig út í haga og beisla hann Smára.  Ég þarf að bregða mér bæjarleið“. Ég, ellefu ára hlaupastrákur, vildi allt fyrir Láru frænku gera – hina tvítugu blómarós. Undirskilið var að hún ætlaði bara að skreppa til að hitta vinkonu sína, hana Rögnu á Laugarbóli.

En ég þóttist vita betur. Við höfðum orðið varir mannaferða – símamenn höfðu slegið upp tjöldum í Strandseljavíkinni. Einn þeirra hafði vakið athygli kvenþjóðarinnar fyrir sakir fríðleika – hann var sunnlenskrar ættar og suðrænn að yfirbragði. Þetta var hann Sveinn Brynjólfsson – og það fór ekki fram hjá Láru frænku. Á næsta Ögurballi fór það ekki fram hjá neinum, að ástin hafði náð að blómstra.

Nokkrum árum og þremur börnum síðar reið áfallið yfir. Veirufaraldur þess tíma, lömunarveikin, réðst til atlögu við Láru. Um skeið var hún milli heims og helju. En henni var ekki fisjað saman, henni Láru. Að lokum hafði hún betur í þessari viðureign upp á líf eða dauða við hinn ósýnilega óvin. Börnin, Kolbrún og Svanhvít og hann Brynjólfur Már, voru tekin í fóstur um skeið hjá afa og ömmu í móður- og föðurætt.

Árið 1958, þegar Lára hafði endurheimt sinn andlega styrk, réðist hún til starfa í Félagsmálaráðuneytinu, þar sem hún ávann sér traust og virðingu á 40 ára starfsferli. Þegar bæjarfulltrúinn á Ísafirði og síðar formaður Alþýðuflokksins – fyrrum hlaupastrákur í Ögri – þurfti á traustum upplýsingum að halda um málefni sveitarfélaga, þá var hringt í Láru frænku. Og það stóð ekki á svörunum.

Að Láru genginni hafa öll Ögursystkinin – Halldór, Guðríður, Ragnhildur, Erla og Ása – safnast til feðra sinna. Þar með er veröld bernsku minnar, sem ég deildi með þeim sjö sæl sumur – orðin veröld sem var.

Ég minnist hennar með söknuði og trega.

Jón Baldvin