“Endurreist sjálfstæði Eystrasaltsþjóða var upphafið að endalokum Sovétríkjanna”

segir Jón Baldvin Hannibalsson, fv. utanríkisráðaherra Íslands í viðtali við ríkissjónvarpið í Litáen

„Ég verð aldrei svo gamall, að ég geti gleymt þeirri lífsreynslu að vera með ykkur í Vilníus þessa örlagaríku daga og nætur í janúar 1991, þegar Rauði herinn hafði fengið fyrirmæli um að brjóta sjálfstæðisbaráttu ykkar á bak aftur með valdi. Þarna varð ég vitni að því, hvernig vopnlaus þjóð gat með viljastyrk og æðruleysi knúið ofbeldið til að láta undan síga á seinustu stundu. Það var ekki fyrr en síðar, sem við skildum til fulls,  að við vorum þarna vitni að sögulegum tímamótum. Þegar lögregluríkið heykist á því að beita valdi af ótta við blóðbaðið, eru dagar þess taldir“ – segir Jón Baldvin, sem var eini erlendi stjórnmálamaðurinn, sem brást við kalli Landsbergis um að sýna samstöðu í verki með nærveru sinni.

Sp. Í nýútkominni bók þinni á litáisku, í tilefni af 30 ára afmæli okkar endurheimta sjálfstæðis, fjallar þú m.a. um hlut Íslands við að afla nýfengnu frelsi okkar viðurkenningar alþjóðasamfélagsins; þú fjallar um getu smáþjóða til að gæta hagsmuna sinna í alþjóðasamfélaginu; um tilvistarvanda Evrópusambandsis; og um norræna samfélagsmódelið sem valkost við nýfrjálshyggjuna. En þú fjallar líka heilmikið um Rússland. Þurfa Eystrasaltsþjóðirnar enn að óttast ágengni Rússa?

SV. Á tímabili Kalda stríðsins var NATO öryggis- og varnarbandalag lýðræðisrikjanna beggja vegna Atlantshafs. Það bjó yfir þeim fælingarmætti, sem dugði til að tryggja öryggi, án þess að hleypa af einu skoti. Þar kom, að Sovétríkin þraut erindið og þau leystust upp í frumparta sína – blessunarlega, að mestu friðsamlega. Þið eruð nú fullgildir aðilar að þessu árangursríka varnarbandalagi. Berið það saman við stöðu ykkar við upphaf Seinni heimsstyrjaldar, þegar þið stóðuð ein og varnarlaus frammi fyrir grimmilegu ofbeldi, bæði þýsku Nazistanna og Rauða hersins. Hér er engu saman að jafna.

En ekkert varir að eilífu. Hinn sameiginlegi óvinur á hálfrar aldar skeiði  kalda stríðsins, er ekki lengur til. Rússland dreymir ennþá um að endurreisa nýlenduveldið. En því tímabili er lokið. Bandaríkin eru risaveldi með víðfeðmt herstöðvanet vítt og breitt um hnöttinn. Kína er rísandi risaveldi með hnattræn áhrif. Hvert verður hlutverk  Evrópu að loknu nýlenduveldisskeiðinu  í þessu nýja landslagi heimsstjórnmála? Undir engum kringumstæðum er það ásættanlegt, að Evrópa verði undirdánugur verktaki, sem lætur sér sæma að vinna skítverk í þágu vanhugsaðrar og misheppnaðrar utanríkisstefnu Bandaríkjanna, eins og t.d. í Afganistan, Írak, Palestínu og víðar. Né heldur getur Evrópa verið þekkt fyrir að leggja lag sitt við gerspillta einræðisherra og arðræningja í Arabaheiminum og víðar. Þjóðarhagsmunir Evrópuríkja á „post-colonial“ skeiði fara ekki alltaf saman við viðskiptahagsmuni eða valdstreituþörf ameríska risaveldisins.

Ef og þegar að því kemur, að Bandaríkin dragi sig til baka frá Evrópu, þá er kominn tími til að „Evrópa taki örlög sín í eigin hendur“, eins og mamma Merkel komst að orði í framhaldi af hótunum Trumps um, að sá tími væri upprunninn. Hefur Evrópusambandið ekki alla burði til að tryggja öryggi og sjálfstæði aðildarríkja, ef til þess kemur? Vissulega hefur Evrópusambandið það. En nýtur Evrópusambandið pólitískrar forystu, sem hefur vilja og burði til að axla þá ábyrgð? Því miður er það ekki svo þessa stundina. En á það mun reyna fyrr en varir. Öryggi Eystrasaltsþjóða frammi fyrir rússneskri ágengni mun ráðast af því, hvort Evrópusambandið rís undir væntingum um mótun og framkvæmd sameiginlegrar varnar- og öryggisstefnu. Þetta er afleiðingin af því, að leiðtogar Vesturveldanna, fyrir 30 árum, létu sér úr greipum ganga tækifærið við fall Sovétríkjanna til að veita lýðræðisöflunum í Rússlandi massívan stuðning til að láta lýðræðið og réttarríkið skjóta rótum í rússneskum jarðvegi.

Þá (1991-92) átti að nota tækifærið og veita Rússlandi aðra „Marshalláætlun“ til að byggja þar upp stofnanir lýðræðis og réttarríkis  á rústum kommúnismans. Hefði það verið gert, væri Rússland ekki í dag hættulegt nágrönnum sínum. Skammsýnin sem þessu réði mun reynast okkur dýrkeypt. Rússnesku valdastéttina dreymir nú fortíðardrauma um endurreisn nýlenduveldisins – rússneskt áhrifasvæði í nærumhverfinu.  En Rússland er ekki það sama og Sovétríkin voru. Evrópa hefur alla burði til að fást við þennan sambúðarvanda,sem nú snýst aðallega um framtíð Ukrainu. Það sem skortir er pólitísk forysta. Hverjir eru helstu sérfræðingarnir í að fást við Rússa fyrir hönd NATO og Evrópusambandsins? Það eruð þið. Þið sitjið nú við borðið, þar sem stefnan er mótuð og ákvarðanir teknar.

Sp. Hvað með Belarus? Er Hvíta Rússland dæmt til að vera rússneskt leppríki, eða getur það fetað í slóð okkar, Eystrasaltsþjóða, í átt til lýðræðis?

SV. Staðan í Hvíta-Rússlandi er engan veginn sambærileg við stöðu ykkar Eystrasaltsþjóða, þegar þið leituðuð útgöngu úr þjóðafangelsi Sovétríkjanna.Hvíta Rússland er a.m.k. að nafninu til fullvalda ríki. Það er undir Hvítrússum sjálfum komið,  hvort þeir vilja stefna í átt til lýðræðis eða sætta sig við hlutskpti sitt sem rússneskt leppríki. Nágrannaríkin –  og alþjóðasamfélagið – hefur lítið um það að að segja á þessu stigi málsins. Það sem þið getið gert, er að styðja lýðræðisöflin og að veita flóttafólki mannúðaraðstoð.

Þið voruð hernumdar þjóðir og innlimaðar með ofbeldi í Sovétsamveldið. Leið ykkar í áttina að endurheimtu sjálfstæði var bæði friðsamleg og lýðræðisleg.Þið frelsuðuð ykkur sjálf. Það voru engin utanaðkomandi öfl, sem afhentu ykkur frelsið á silfurdiski. Leiðtogar Vesturveldanna voru meira að segja tregir í taumi við að samþykkja útgöngu ykkar úr Sovétveldinu, af því að þeir héldu, að það mundi spilla fyrir samningum við Gorbachev um endalok Kalda stríðsins. Allt var það á misskilningi byggt, eins og reynslan sýndi síðar. Þið eruð nú aðildarríki að bæði NATO og Evrópusambandinu.  Þið eigið að vísa veginn með hliðsjón af eigin reynslu. Þið hafið gengið í gegnum þetta allt saman með góðum árangri. Þið eigið að beita ykkur fyrir stuðningi við ´lýðræðisöflin  innan Hvíta Rússlands.  Er það ekki það, sem þið eruð að gera?

Sp. Þið Íslendingar getið státað af elsta þjóðþingi í heimi. Ísland er almennt talið vera í fremstu röð lýðræðisríkja. Engu að síður varar þú víða við því, að lýðræðið sé á undanhaldi vegna sívaxandi misskiptingar auðs og tekna fyrir áhrif hins hnattvædda kapítalisma , sem lýtur ekki lengur lýðræðislegri stjórn. Eygirðu þessi hættumerki nú þegar á Íslandi?

SV. Það er rétt sem þú segir, að Íslendingar státa ef elsta þjóðþingi veraldar, sem var stofnað árið 930 eftir Krist. Það var mörgum öldum áður en hin norræna yfirstétt á Bretlandseyjum stofnaði til þings til að draga úr einræði konungsvaldsins. Það er haft eftir biskupnum í Bremen, Adam Bede,  í annálum snemma  á 11tu öld, að „íbúar þessarar fjarlægu eyju séu sérstakir að því leyti, að þeir þola engan konung yfir sér“.

Í samhengi miðaldasögu Evrópu var þetta einstök þjóðfélagstilraun. Tilraunin snerist um að skapa þjóðfélag frjálsra manna og kvenna, sem lutu sameiginlegum lögum en engu framkvæmdavaldi af neinu tagi.Það var engin  ríkisstjórn, ekkert embættismannakerfi, enginn her, engin lögregla og ekkert miðstjórnarvald af neinu tagi til að halda upp lögum og reglu með þessum óstýriláta lýð. Þetta er draumur stjórnleysingja og nýfrjálshyggjumanna  samtimans, ekki satt?

Þessi einstæða þjóðfélagstilraun entist í 330 ár.  Upphaflega lét þetta samfélag stjórnast af tveimur megin gildum: einstaklingshyggju og jöfnuði,  sem margir halda nú til dags, að séu andstæður. Þar kom, að auður og völd söfnuðust á fáar hendur héraðs- og ættbálkahöfðingja, sem þóttust vera hafnir yfir lögin. Það endaði með borgarastyrjöld á 13du öld. Að lokum skarst Noregskonungur í leikinn. Það tók okkur meira en 6 aldir að endurheimta sjálfstæðið.

Þú spyrð mig um veikleika lýðræðisins á okkar dögum.  Þeir eru sömu ættar og hér áður fyrr – nefnilega sívaxandi ójöfnuður. Tilraunin með lýðræðið í Bandaríkjunum hefur nú staðið yfir í 245 ár. Bandaríkin eru nú það ríki meðal þróaðra þjóða,  þar sem misskipting auðs og valda er hvað mest, og stéttskipting meiri en í hinum gömlu lénsveldum Evrópu.  Fjölmargir lýðræðissinnar í Bandaríkjunum bera um það vitni á degi hverjum, að lýðræðið eigi þar mjög í vök að verjast. Um daginn birtu 100 prófessorar í félsgvísindum við bandaríska háskóla ávarp til þjóðarinnar, þar sem þeir vöruðu við því, að óheyrilegur og sívaxandi ójöfnuður væri að grafa undan undirstöðum bandarísks lýðræðis.

Þa ð er sama sagan, hvert sem litið er á öld nýfrjálshyggjunnar síðastliðna áratugi. Þjóðríkin, þar sem lýðræðið hefur helst náð að skjóta rótum, eru stöðugt að glata völdum og áhrifum fyrir atbeina hnattvæðingar fjármagnsins, í eigu og á forræði fárra. Þessi tilfærsla auðs og valds til fjölþjóðlegrar elítu fjármagnseigenda , án samfélagslegrar og lýðræðislegrar ábyrgðar, er m.a.s. farin að ógna sjálfu lífríkinu. Það verður að koma þessum öflum undir samfélagslega stjórn, ef lýðræðið á að lifa af.

Sp. Við Litáar teljumst vera í hópi þeirra aðildarþjóða ESB, þar sem ójöfnuður er hvað mestur. Margir úr röðum hinna ríku eygja hér ekkert vandamál – þeir telja einfaldlega, að fátæktin sé hinum fátæku að kenna. Hvernig er unnt að sannfæra aðra um, að ójöfnuður bitnar ekki bara á hinum snauðu, heldur á þjóðfélaginu í heild?

SV. Ég lærði mína hagfræði við Edinborgarháskóla hjá andlegum arftökum Adams Smith, höfundar „The Wealth of Nations“, sem er grundvallarrit kapitalismans. Samkvæmt kenningunni er það gróðasjónarmiðið (e. the profit motive), sem hvetur einstaklinginn til dáða. Gróðasjónarmiðið veitir öfluga hvatningu til að skapa auð, og gróði einstaklingsins á að vera hagnaður samfélagsins. Reynslan sýnir, að það er nokkuð til í þessu. Kapitalisminn hefur reynst gríðarlega öflug framleiðsluvél, sem ryður burt  hindrunum og skapar auð. M.a.s. sjálfur Karl Marx gat ekki leynt aðdáun sinni á þessum eiginleika kapitalisma. Sovétríkin fóru á hausinn, af því að Lenin og Stalín skildu ekki gangvirki efnahagslífsins.                                                                                                                

Allt er þetta gott og blessað, svo langt sem það nær. En einn helsti galli óhefts kapitalisma –  fyrir utan þessar 136 efnahagskreppur, sem heimurinn hefur þurft að fást við eftir Seinna stríð – er, að hann hefur innbyggða tilhneigingu til að safna öllum auðnum á hendur fárra. Það hefur reynslan líka kennt okkur. Um þetta má vitna til frægra ummæla Brandeis – forseta hæstaréttar Bandaríkjanna og eins af helstu  hugsuðum Roosevelt forseta  um New Deal –  en hann sagði: „Við getum látið auðinn safnast á hendur fárra – eða við getum búið við lýðræði. En við getum ekki haft hvort tveggja“. Og Tage Erlander, leiðtogi sænskra jafnaðarmanna og forsætisráðherra Svía í aldarfjórðung á öldinni sem leið, orðaði svipaða hugsun svona: „Markaðurinn er þarfur þjónn, en óþolandi húsbóndi“.

Kjarni hins norræna samfélagsmódels , sem kennt er við jafnaðarstefnu, (e. social democracy) er málamiðlun milli þessara tveggja öfga: markaðarins og ríkisins. Við höfnum hvoru tveggja, óbeisluðum kapitalisma (markaðskerfi) og allsráðandi ríkisvaldi (e. totalitarianism). Við virkjum  samkeppni á mörkuðum, þar sem það á við, innan ramma laga og reglna og undir ströngu eftirliti. Þetta hvetur til auðsköpunar og tryggir samkeppnishæfni.  Hins vegar viljum við bjóða upp á samfélagslega þjónustu – þar sem gróðasjónarmiðið fær ekki að ráða – á mikilvægum samfélagssviðum, einmitt í nafni lýðræðis og félagslegrar samheldni. Þetta á við um aðgengi að menntun og heilsugæslu, almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar,  og  grundvallarþjónustu, eins og vegna orku, vatns og almannasamgangna. Nægilegt framboð af húsnæði á viðráðanlegum kjörum, burtséð frá sveiflum húsnæðismarkaða – er hluti af þessari heildarmynd.

Á vinnumarkaðnum setjum við lagarammann fyrir samningum um kaup og kjör milli fulltrúa fjármagnsins ogþeirra, sem verkin vinna. Ríkið axlar ábyrgð á atvinnustefnu og sköpun starfa í samstarfi við samtök atvinnurekenda, verkalýðshreyfingar og –  nútíldags –  jafnvel akademíunnar,  t.d. við sköpun hátæknistarfa og aðlögun vinnumarkaðarins að örum tæknibreytingum.

Hvernig fjármögnum viðallt þetta? Með stighækkandi sköttum. Réttlátt skattkerfi byggir á þeirri grunnhugsun, að öll borgum við sama hlutfall af launum okkar til sameiginlegra þarfa. Á undanförnum áratugum, sem kenndir eru við nýfrjálshyggju,  hafa þjóðríkin verið neydd út í „samkeppni niður á við“ í skattamálum, með þeim afleiðingum, að fjármagnstekjur hinna ofurríku bera miklu lægri skatta en laun.Og fjölþjóðlegir auðhringar eru að mestu skattfrjálsir vegna þess að lagaramma, reglur og eftirlit um flæði fjármagns yfir landamæri, skortir að mestu. Frumkvæði Bidens, Bandaríkjaforseta fyrir skömmu um að koma á 15% lágmarkskatti á fjölþjóðafyrirtæki, og að skylda þau til að greiða skatta, þar sem tekna er aflað, er þýðingarmikið skref í umbótaátt.

En  hér er við öfluga andstæðinga að eiga. Þetta mun ekki nást í framkvæmd nema með öflugri samstöðu þjóðríkja. M.a.s. Evrópusambandið hefur innan sinna vébanda ríki, sem með skattfríðindum ræna önnur ríki réttmætum tekjustofnum. Nægir að nefna sem dæmi Lúxemburg, Holland, Írland, Belgíu, Kýpur og Möltu – o.fl. Hvorki Bandaríkin né Evrópusambandið hafa hreinan skjöld í þessum efnum. Sjálf bera þau ábyrgð á ríkjandi ófremdarástandi . Í því efni stoðar ekki að saka Kína um að grafa undan alþjóðlegu regluverki.  Í  þessu efni á að bjóða Kína til samstarfs, enda fara brýnir hagsmunir flestra þjóðríkja saman um að koma böndum á óbeislaðan kapitalisma af þessu tagi.

Sp. Í Litáen er mælanleg vaxandi gjá milli hefðbundinna, íhaldssamra viðhorfa og hinna frjálslyndari, einkum í borgum. Hinir fyrrnefndu eru yfirleitt fátækari og síður menntaðir en hinir frjálslyndu, sem búa að betri menntun og efnahag. Stjórnmálaátök milli þessara andstæðu viðhorfa fara harðnandi.  Hvaða ráð kannt þú að gefa af langri reynslu um það, hvernig eigi að draga úr ójöfnuði og sætta andstæð sjónarmið?

Sv. Ef ríkisstjórn ykkar leitaði ráða hjá mér, hvernig eigi að draga úr ójöfnuði og auka samheldni í þjóðfélaginu,  þá er stutta svarið einfalt. Lærið af norræna módelinu! Lengra svar, þar sem kafað er dýpra ofan í vandamálin, er að finna í nýlegri bók minni, þar sem þetta er eitt helsta viðfangsefnið: „The Nordic Model vs. the Neoliberal Challenge“ (Lambert Academic Publishing).

Sp. Sósialdemókratar og sósialistar hafa verið að tapa fylgi í kosningum í Evrópu á undanförnum árum. Litáen og Ísland eru þar engin undantekning. Hvers vegna eru sósíaldemókratar í Evrópu, viðast hvar í vörn, þrátt fyrir mikinn árangur fyrr á tíð? Hvar er lausnina að finna?

Sv. Meginástæðan er þessi: Flokkar sósíaldemókrata eru samkvæmt skilgreiningu hinn pólitíski armur verkalýðshreyfingarinnar. Pólitík snýst um völd. Umbótaafl sósíaldemókratiskra flokka er að finna í styrk verkalýðshreyfingarinnar í viðkomandi landi. Þjóðfélög okkar hafa tekið stakkaskiptum á undanförnum árum fyrir okkar eigin tilverknað (t.d. aðgengi að menntun og heilsugæslu) og fyrir áhrif tæknibyltingarinnar. Framleiðsluiðnaður  er farinn til Kína. Við störfum nú í þjónustu- og þekkingarþjóðfélagi, þar sem einstaklingsbundnar lausnir eru ráðandi og samheldni (solidaritet) vinnandi fólks fer dvínandi. Auður og völd fjármangseigenda hefur hins vegar farið vaxandi. Þeirra er valdið og mátturinn til að taka ákvarðanir um  fjárfestingar og framkvæmdir,  ráða og reka.  Arður og áhrif fjármagnseigenda fara hvort tveggja hraðvaxandi. Hlutur launa fer ört minnkandi, kaupmáttur stendur í stað eða rýrnar, og áunnin réttindi verkafólks eru viða fótum troðin. Hlutfall þeirra, sem eru meðlimir í stéttarfélögum, fer lækkandi.  

Þetta er það sem er að gerast. Fjármagnið er hnattvætt og lýtur ekki samfélagslegri stjórn. Vinnuaflið er að stærstum hluta staðbundið. Milljarðar af örsnauðu láglaunafólki í þróunarríkjum hafa bæst við vinnumarkað heimshagkerfisins. En hlutur launa í heimshagkerfinu hefur snarlækkað í samanburði við fjármagnstekjur, sem þar að auki sniðganga skatta í stórum stíl. Falið fjármagn( í skattaparadísum) verður æ stærri hluti heimshagkerfisins. Nákvæmar tölur eru eðli málsins samkvæmt vandfundnar, en áreiðanlegar heimildir gefa til kynna, að þetta falda fjármagn kunni að vera nú þegar þriðja stærsta hagkerfi heimsins.

Allt er þetta fjármagn utan við lög og rétt þjóðríkjanna og án þess að leggja fram  réttmætan skerf til uppbyggingar samfélagsins. Þetta er óbeislaður kapítalismi án samfélagslegrar ábyrgðar. Óbreytt ástand er ógnun við hvort tveggja: lífríkið og lýðræðið.

Fæstir jafnaðarmannaflokkanna í Evrópu sáu fyrir hrun fjarmálakerfisins og þar með skuldakreppuna 2008/09.  Né heldur brugðust þeir rétt við afleiðingunum. Þetta gróf undan traustinu á þeim og verkalýðshreyfingunni í mörgum löndum. Áhrif nýfrjálshyggjunnar voru ráðandi víðast hvar með hörmulegum afleiðingum fyrir hina verst settu í þjóðfélaginu.

Ef á reynir, sækja jafnaðarmannaflokkar vald sitt til öflugrar verkalýðshreyfingar. Sameiginlega geta þeir knúið fram þjóðfélagsumbætur í þágu fjöldans, eins og reynslan sýnir.Sameiginlega getur slík hreyfing boðið  fjármagnsöflunum birginn – beislað kapítalismann – í þágu almannahagsmuna. Takist það ekki , er hætt við, að stjórnmálin verði yfirborðskennd og innihaldslaus sýndarmennska. Þau fara þá að snúast um ímynd frekar en innihald:  um kynferði, kynhneigð, litarhátt eða þjóðerni, eða eitthvað allt annað. Það endar oftar en ekki í falsfréttum, hatursumræðu og að lokum í hreinum fasisma –  ákallinu eftir sterka manninum.

Við erum nú stödd í hraðfara tæknibyltinu og meðfylgjandi félagslegu umróti. Gervigreind og sjálfvirkni er smám saman að taka af manninum völdin og breyta eðli vinnunnar. Þessi þróun neyðir okkur til að endurskoða hugmyndaarfinn frá grunni. Hverjir eiga að eiga „róbótana“?  Hvernig eigum við að dreifa arði auðsköpunarinnar, ef ekki í formi launa fyrir vinnuframlag?  Við þurfum að byrja að endurskoða frá grunni viðteknar hugmyndir um eignarrétt og pólitískt vald í ríkum samfélögum, þar sem eignarhald á þekkingu og tækni mun skipta sköpum.

(Morta Vidunaité tók þetta viðtal við JBH f.h. LRT (litáiska RÚV) undir lok heimsóknar hans til Litáen í tilefni af 30 ára afmæli endurreists sjálfstæðis Litáen)

Sjá stiklur á sérblaði.

Viðtalið við JBH – stiklur

#  „Þjóðríkin eru stöðugt að tapa völdum og áhrifum  til þeirra sem eiga og ráða fjármagninu í hnattvæddu kerfi, sem lýtur hvorki lögum né reglum. Þessi tilfærsla auðs og valda til örfámennrar elítu er smám saman að grafa undan undirstöðum lýðræðisins. Það verður að koma böndum á þennan kapítalisma,  ef lýðræðið á að lifa af“.

# „Við getum búið við þjóðarauðinn í höndum örfámennrar forréttindastéttar, eða við getum við búið við lýðræði. En við getum ekki búið við hvort tveggja“.                                   (Brandeis, forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna og ráðgjafi Roosevelts  forseta í New Deal)

# „Jafnaðarmannaflokkar eru samkvæmt skilgreiningu hinn pólitíski armur verkalýðshreyfingarinnar. Þangað sækir hann vald sitt. Og  pólitík er um völd. Án atbeina öflugrar verkalýðshreyfingar eru jafnaðarmannaflokkar valdvana“.

# „Það er tími til kominn að endurskoða hugmyndaarfinn, þar með talin grunnhugtök eins og eignarrétt og áhrifavald í atvinnulífi í ríkum þjóðfélögum, þar sem forræði yfir þekkingu og tækni mun skipta sköpum. Hvernig getur það samræmst virku lýðræði?“