AÐGERÐIR GEGN SÍVAXANDI ÓJÖFNUÐI. Hagfræðingaseminar í Vilníus í leit að lausnum

Þann 21. júní s.l. bauð deildarforseti Hagfræðideildar Háskólans í Vilníus mér að vera málshefjandi á málþingi með nokkrum hagfræðingum  þjóðhagfræðideildarinnar um ofangreint efni. Meðal þátttakenda voru prófessorar, sem verið hafa ráðgjafar ríkisstjórna og aðrir, sem fjölmiðlar leita helst í smiðju til, í umsögnum um stefnumótun í efnahagsmálum. Deildarforsetinn, Aida Macerinskiene, stýrði fundi.

Ég hóf málþingið með því að kynna sjálfan mig, eins og aðrir þátttakendur höfðu áður gert. Ég sagði m.a.:

„Frá ungum aldri hefur mér verið hugleikið að leita svara við eftirfarandi spurningu:    Hvernig getum við útrýmt fátækt? Ég tel það eiga að vera meginviðfangsefni þjóðhagfræðinnar ( e. politial economy) að leita haldbærra svara við þessari spurningu.

 # Þess vegna sagði ég mig úr menntaskóla til að pæla í Marx.

 # Þess vegna leitaði ég, ungur að árum að svörum í smiðju Edinborgarháskóla, sem varðveitir hugmyndaarf Adams Smith, höfundar Auðlegðar þjóðanna. Ég komst brátt að því, að svörin voru ekki einhlít, jafnvel villandi. Helsti hugsuður samtímans, John Maynard Keynes, var þar meðhöndlaður sem villutrúarmaður, heretic. En hann hefur reynst vera hugsuðurinn, sem bjargaði kapitalismanum frá sjálfum sér, á liðinni öld.

 # Þess vegna leitaði ég í framhaldsnám til Stokkhólms til að leiðrétta kúrsinn. Þar er Mekka jafnaðarstefnunnar – lýðræðislegs sósíalisma – socialdemocracy. Námsefnið var vinnumarkaðshagfræði með sænska velferðarríkið  – norræna módelið – í kaupbæti. Þar höfðu ekki verið verkföll í aldarfjórðung, frá því að samið var um frið á vinnumarkaðnum í Saltsjöbaden 1938. Í mínu heimalandi voru átök á vinnumarkaði daglegt brauð og allsherjarverkföll engan veginn óþekkt. Af þessu mátti sitthvað læra.

 #  Þess vegna þáði ég með þökkum að verja meðgöngutíma á Fulbright- styrk við Harvard seinna á ævinni til að vinna að verkefni í „comparative economic systems“. Þá þegar komst ég að niðurstöðum, sem að mínu mati standa óhaggaðar enn í dag. Meðal þeirra eru eftirfarandi:

 # Óbeislaður kapitalismi endar ævinlega, skv. fenginni reynslu, með því að fyrirfara sér. Ríkið eitt hefur burði til að koma honum til bjargar. Síendurtekin reynsla sannar þetta.

 # Sovéttilraunin með alræði ríkisins var pólitískur og efnahagslegur vanskapnaður. Hagkerfið skilaði ekki vörunum. Kerfið varð endanlega gjaldþrota,. Og enginn hafði vilja né heldur burði til að bjarga því.

 # Norræna módelið –  þar sem fulltrúar vinnunnar réðu för fremur en eigendur fjármagnsins –  er málamiðlun milli þessara tveggja öfga. Markaðskerfið er virkjað, þar sem það á við, en undir stjórn og eftirliti ríkisins;  þar fyrir utan á samfélagsleg þjónusta, án gróðasjónarmiða, að vera ríkjandi – nánast 50:50. Allt var þetta samkvæmt mottói Tages Erlander, sem oft er vitnað til: „Markaðurinn er þarfur þjónn, en óþolandi húsbóndi“.

Þetta er eina þjóðfélagsmódelið, sem mótaðist í hugmyndafræðiátökum seinustu aldar og hefur staðist dóm reynslunnar til þessa dags.  

Til að forðast pólitíska nærsýni ber að geta þess, að Asíumódelið, þar sem markaðskerfi er vírkjað undir forræði ríkisins, hefur skilað miklum árangri. Kínverska tilraunin, kennd  við Deng Xiao Peng, flokkast reyndar undir efnahagslegt kraftaverk. Höfum það í huga í  umræðunum hér á eftir.

Ég set þessar fullyrðingar fram án fyrirvara sem umræðugrundvöll.

Skiptst á skoðunum

Fullyrðing mín um, að óbeislaður kapitalismi (með nokkurri einföldun kenndur við ameríska módelið) hefði innbyggða tilhneigingu til að fyrirfara sér, var nokkuð umdeild. Margir (þ.á.m.ég) minntu á, að þrátt fyrir alla gagnrýni, hefur kapitalisminn sýnt í verki, að hann er afkastamikil auðsköpunarvél, sem hefur breytt ásýnd jarðarinnar á tiltölulega skömmum tíma. Með því að virkja afrakstur vísinda og tækni  hefur hann umbylt lifnaðarháttum okkar. Meirihluti jarðarbúa hefur hins vegar upplifað áhrif kapitalismans sem evro-ameríska nýlendustefnu.

Tvær heimskreppur, og óteljandi mini-kreppur,  sem lauk ekki fyrr en með björgunarleiðangri ríkisins, sanna hins vegar, að markaðskerfið er ekki sjálf-leiðréttandi. Það er bara áróður. Reyndar er það líka kredda, að markaðurinn og ríkið séu ósættanlegar andstæður. Þvert á móti. Markaðurinn er gerður af mannavöldum. Hann er ekki náttúruafl. Hann stenst ekki til lengdar nema innan ramma laga og reglugerða, sem ríkið (pólitíkin) setur. Reyndar snýst pólitík um fátt annað meira en að setja markaðnum leikreglur.

 Í því samhengi voru allir þátttakendur sammála um, að innbyggð tilhneiging kapitalismans til að safna auði á fáar hendur væri einmitt nú á okkar dögum komin á hættulegt stig. Margir höfðu orð á því að ójöfnuður væri of mikill með hinum nýfrjálsu þjóðum Eystrasalts. Það væri hættulegt lýðræðinu. Í þessum punkti virtist vera samstaða um, að mikið mætti læra af norræna módelinu. Einn þátttakandi benti á,  að hugtakið „trade unions“ – m.ö.o. verkalýðsfélög – hefði fengið slíkt óorð á sig á Sovét-tímanum sem leppar ríkisvaldsins, að þau hefðu ekki síðan átt sér viðreisnar von. Það væri engin verkalýðshreyfing til í Eystrasaltslöndunum. Að vísu stéttarfélög sumra opinberra starfsmanna( t.d. lækna og kennara). Hvað er þá ráðandi um kaup og kjör? Svar: Fjármagnseigendur, eigendur fyrirtækjanna og atvinnurekendur, eru nánast einráðir um það. Ef þeir ráða pólitíkinni líka, er ekki að undra, að ójöfnuðrinn er mikill og fer hraðvaxandi.

Allir virtust hafa áhyggjur af því, að óbeislaður kapitalismi væri ógnun við lífríkið: hafið, vötnin, árnar, skógana, fjölbreytni dýrategunda – sjálft lífríkið. Ósjálfbærni um hreina orku veldur áhyggjum. Minningin um  Chernobyl er ekki gleymd.

Útúrdúr um Asíumódelið

Eg setti umræðuna um Asíumódelið í samhengi við samanburð á Gorbachev annars vegar og Deng Xiao Peng hins vegar.Báðír gerðu sér grein fyrir, að Sovétkerfið, sem þeir erfðu, væri efnahagslega gjaldþrota. Gorbachev boðaði glasnost (opnun) og perestrojku (kerfisbreytingu). En orðum hans fylgdu engar athafnir.  Hann va bara einn af þessum lögfræðingum, sem skilja ekki eðlisfræði efnahagslífsins. Það gerði Deng hins vegar af eðlisávísun.

 Tveimur árum eftir að Mao var fallinn frá og ekkjan og attaníossar hennar komin bak við lás og slá, gaf Deng út svohljóðandi reglugerð: „Þeim sem erja jörðina skal hér með frjálst að selja afurðir sínar á markaðnum gegn 10% skatti til ríkisins“ Undir Mao hafði verið hungursneið, sem kostaði tugi milljóna mannslífa. Eftir að nýja reglugerðin tók gildi blómstruðu sveitirnar, og Kína varð meiri háttar matarútflytjandi.  Næst var opnun Kína. Tilraunasvæði  með innflutt fjármagn og tækni. Aukið í áföngum. Tengt við alþjóðamarkaðinn. Og sjá: 20  árum síðar hafði 700 milljónum Kínverja verið lyft upp úr miðaldaörbirgð til 20. aldar lífskjara. Þetta er stærsta kraftaverk hagsögunnar, hvorki  meira né minna.

Kapitalismi ? Já, – en að frumkvæði ríksivaldsins undir stjórn og eftirliti ríkisins. Þetta eiga Asíumódelið og norræna módelið sameiginlegt.  Já –  en þá vantar lýðræðið. Kemur það seinna með aukinni velsæld? Það hefur gert það annars staðar, en það mun taka tíma. Höfum við nógan tíma? – þetta vakti fjörugar umræður, sem urðu undanfari að umræðum um norræna módelið.

Norræna módelið: Verðugur er verkamaðurinn launa sinna.

Ég innleiddi umræðuna með því að vekja athygli á pólitísku ætterni norræna módelsins. Pólitík snýst um völd. Í kapitalísku hagkerfi ráða fjármagnseigendur lögum og lofum. Þeireiga allt, fyrirtæki og fasteignir og framleiðslutækin.  Þeir ráða og reka. Ef engin er verkalýðshreyfingin eru þeir allsráðandi á vinnumarkaðnum. Þá tala menn um „frjálsan vinnumarkað“! Þetta er í reynd ójafn leikur. Og ef fjármangseigendur (og flokkar þeirra) ráða pólitíska valdinu líka, þá verður óbeislaður kapítalismi allsráðandi. Lýðræðið snýst brátt upp í auðræði. Þið þekkið það í Rússlandi. Það fer hrollur um marga ekta lýðræðissinna í Bandaríkjunum við tilhugsunina um, að Bandaríkin sé á sömu leið. Nýlega birtu 100 prófessorar ákall til bandarísku þjóðarinnar um að forða þeirri ógæfu í tæka tíð.

Þjóðfélagsverkfræði

Norræna módelið fór að taka á sig mynd á kreppuárunum (milli 1930-1940). Þegar sænsku kratarnir litu í  vestur, blasti við, að óbeislaður kapitalismi var hruninn – hann fyrirfór sér! Svíar litu í austur og sáu, að valdaránstilraun Leníns og Stalíns hafði endað í alræðiskerfi,  sem var sýnu harðneskjulegra  og blóðugra en lénsveldi keisarans.

Þeir ákváðu að fara þriðju leiðina. Einkaframtak og samkeppni á markaði, þar sem það á við til að skapa auð og fullnægja þörfum neytenda, en undir lýðræðislegri stjórn og eftirliti. En samfélagsleg þjónusta, án gróðasjónarmiða, skyldi gilda að öðru leyti. Þetta ætti við um menntun, félagslegar tryggingar,  heilsugæslu og grundvallarþjónustu eins og orku, vatn og almannasamgöngur. Auðlindir skyldu vera í almannaeigu, og arður af nýtingu þeirra skyldi renna til samfélagsins.

Munurinn sést best á Noregi og Nígeríu. Bæði eru rík að náttúruauðlindum.  En sá er munurinn, að Norðmenn eru rík þjóð, af því að arðurinn skilar sér til eigandans, þjóðarinnar. Nígeríumenn lepja hins vegar dauðann úr skel, af því að erlendir fjármagnseigendur hirða gróðann og skilja eftir sig sviðna jörð. Um það þarf ekki að hafa fleiri orð.

Og svo er það vinnumarkaðurinn. Þar skyldi samið um skiptingu arðsins milli fjármagns og vinnu, sem jafnrétthárra aðila. Þar með væri tryggður vinnufriður á grundvelli ásættanlegrar niðurstöðu um skiptingu arðs á milli fjármagns og vinnu. Virk vinnumarkaðsstefna þýðir, að ríkið  er beinn aðili að sköpun starfa til að halda uppi fullri atvinnu, t.d. með starfsþjálfun til að aðlagast tækninýjungum. Danir hafa skarað fram úr öllum öðrum á þessu sviði.

Niðurstaðan er þjóðfélag, þar sem ríkir meiri jöfnuður en væri, ef markaðsöflunum væri gefinn laus taumurinn. Yfirlýstur tilgangur var að sameina hagkvæmni (samkeppnishæfni) og jöfnuð (félagslegt réttlæti).Skv. ensk-ameríska vikuritinu Economist , sem enginn getur sakað um vinstri villu af neinu tagi, hefur þetta tekist í öllum meginatriðum.  Í sérstakri úttekt á norræna módelinu  árið 2013, eftir að ríki heims höfðu gert út stærsta björgunarleiðangur sögunnar  til að forða heimskapítalismanum frá hruni (2008) var niðurstaðan sú, að norræna módelið væri „súper model“, sem í reynd hefði staðið af sér áraun hnattvæðingarinnar.

Ágætiseinkunn

Samkvæmt The Economist á þetta ekki síður við um árangur á efnahgassviðinu en annað.

Hagvöxtur, framleiðni, rannsóknir og þróun, hagnýting tækninýjunga, sköpun hátæknistarfa, þátttaka á vinnumarkaðnum (ekki síst kvenna), almennt menntunarstig, jafnræði kynjanna, félagslegur hreyfanleiki (uppræting stéttskiptingar), útrýming fátæktar, gæði innviða, aðgengi að óspjallaðri náttúru – almenn lífsgæði. Meiri jöfnuður tekjuskiptingar en annars staðar á byggðu bóli. Og lýðræðið stendur djúpum rótum, þar sem félagslegur jöfnuður tryggir einstaklingsfrelsi í reynd. Hvar er fljótlegast að stofna fyrirtæki í heiminum? Í Bandaríkjunum? Nei, þau eru nr. 38 á þeim lista. Hverjir eru númer eitt? Svar: Danska velferðarríkið!

Enginn treysti sér til að véfengja þessar staðreyndir. Það er engin furða, að í huga Bernies Sanders er norræna módelið útópía – fyrirheitna landið.

Sjálfstortímingarhvötin

En er þá ekki allt eins og best verður á kosið í samtíð og framtíð? Heldur betur ekki. Hvers vegna? það er vegna þess að óbeislaður kapítalismi er rétt eina ferðina enn á fullri ferð að tortíma sjálfum sér, og í þetta skiptið bendir flest til þess, að hann muni draga sjálft lífríkið á plánetu jörð með sér í fallinu – ef ekki verður að gert í tæka tíð.

Hvað er til marks um þetta? Ég nefni nokkuðr dæmi um reginöfl, sem eru að verki við að tortíma hvoru tveggja, velferðarríkinu og lýðræðinu – og skal þó tekið fram, að listinn er engan veginn tæmandi. En hér kemur hann:

# Árið 1973 hrundi Bretton Woods kerfið – sem Keynes skildi eftir sig á teikniborðinu við stríðslokin 1945. Samkvæmt því varð dollarinn heimsgjaldmiðill, aðrir gjaldmiðlar fastbundnir við hann, og fjármagnsflutningar yfir landamæri bannaðir, nema með leyfum. Þetta þýddi, að völdin voru í höndum þjóðríkjanna – ekki fjármagnseigenda. Þetta var gullöld hins sósíaldemókratíska velferðarríkis. „You never had it so good“.

# Hrun Bretton Woods þýddi, að framvegis gat fjármagn flætt yfir landamæri, stjórnlaust og án eftirlits. Þar með misstu þjóðríkin nánast öll völd í hendur fjölþjóðlegra auðhringa fjármagnseigenda, með afleiðingum sem við sjáum ekki fyrir endann á enn í dag. Þar með hófst tímabil nýfrjálshyggju (markaðstrúboðsins) og hnattvæðingar fjármagnsins. Pólitíkin hélt hins vegar áfram að vera lokal.

# Þar með hófst samkeppni þjóðríkjanna um „skattlagningu niður-á- við“ til að laða að fjármagn í nafni samkeppnishæfni. Sköttum var aflétt af fjármagni og fjármagnstekjum, en hækkaðir á neyslu almennings og laun. Markaðsráðandi fjölþjóðlegir auðhringar borga enga skatta, nema til málamynda í skattaskjólum. Auðhringarnir ráða – þjóðríkin lúffa.

# Þetta er réttlætt með markaðstrúboði nýfrjálshyggjunnar. Skv. henni er hið (lýðræðislega) ríkisvald alltaf hluti af vandanum, aldrei lausninni. Markaðurinn er sagður sjálfleiðréttandi og íhlutun ríkisins ævinlega af hinu vonda. Forstjóraveldið á að skila hámarksarði á kauphöllinni ársfjórðungslega.  Afleiðingarnar: Forstjóralaun og hvatabónusar hundruðfaldast;  útlán banka beinast að kauphallarbraski og fasteignamörkuðum;  fasteignaverð helstu borga er fyrir löngu óviðráðanlegt öðrum en auðkýfingum. Langtímafjárfestingar í innviðum sitja á hakanum. Bóluhagkerfi af þessu tagi bíða þess eins að springa með hörmulegum afleiðingum fyrir þorra almennings.

# Raunhagkerfið – framleiðsla á vörum – fluttist frá þróuðum ríkjum til Kína, Indlands, Bangladesh .o.s.frv. Milljarðar láglaunafólks bættust við vinnumarkað heimsins: hlutur launa lækkaði, arður fjármagnseigenda hækkaði. Samningsstaða verkalýðshreyfinga í þróuðum ríkjum versnaði. Kaupmáttur launa lækkaði. Til er orðin ný undirstétt á hungurlaunum, þjóðfélagslega utangarðs og án (mann)réttinda og öryggis. Enskan hefur búið til nýtt hugtak fyrir þennan veruleika: „precariat“ – áður „proletariat“.

Verkalýðshreyfingin heyr varnarbaráttu fyrir þá sem halda vinnu. Völd hennar og áhrif fara þverrandi og þar með jafnaðarmannaflokka, sem eru skv. skilgreiningu hinn pólitíski armur verkalýðshreyfingarinnar.

# Bóluhagkerfið endar ævinlega á því, að sjúkt fjármálakerfi hefur dælt út lánum í gróðaskyni, sem skuldunautar fá ekki undir risið. Þá brestur traustið, og spilaborgin hrynur. Almenningur (ríkið) er krafinn um að greiða skuldirnar til a ð forða hruni.Við tekur „harmkvælastefna“ (e. austerity): niðurskurður í velferðarkerfinu og hækkun skatta á almenning. Þetta gerðist síðast undir nafninu „The Great Recession“.Algeru hruni var forðað með stærsta björgunarleiðangri á vegum ríkisins (skattgreiðenda) í sögunni. Þar með var hugmyndalegt gjaldþrot nýfrjálshyggjunnar (markaðstrúboðsins) næsti bær við hrun kommúnismans.

# Nú er svo komið, að þriðja stærsta hagkerfi heimsins, sem mælist í trilljónum dollara, á heimafesti í skattaskjólum. Fjölþjóðaauðhringarnir, sem eru allsráðandi yfir auðlindum jarðarinnar og heimskeðju vöruframleiðslunnar, sem og upplýsingakerfi hátækninnar, hafa sagt sig úr lögum við þjóðríkin. Auðhringarnir hafa tekið lögin í sínar eigin hendur í krafti allsráðandi fjármagnsvalds .

Þess vegna er allt í senn, lífríkið, lýðræðið – og velferðarríkið – í umsátursástandi. Við lifum nú á nýrri öld ÓJAFNAÐARINS, í miðjum klíðum tæknibyltingar, sem hótar að leysa mannshöndina af hólmi.

LAUSNIRNAR? Höfum við ekki séð framan í þetta áður? Jú, víst. Hvernig fórum við þá að?  Í Ameríku var það „NEW DEAL“. Nær okkur var það „NORRÆNA MÓDELIГ.Eftir stríð var það „EVRÓPSKA SÓSÍAL MÓDELIГ . Það var gullöld jafnaðarstefnunnar. Við vitum af reynslu, hvaðan hætturnar steðja að og í hverju lausnirnar eru fólgnar.

En það er ekki öll von úti enn. Í seinustu viku var eins og leiðtogar G-6 og G-20 ríkja heims rönkuðu ögn við sér. Þeir kváðu upp úr um það, að fjölþjóðlegir auðhringar skyldu hér eftir greiða skatta, þar sem tekjurnar verða til (í stað þess flytja höfuðstöðvar sínar að nafninu til, þangað sem skattareru lágir eða engir). Ef auðhringarnir þverskölluðust við, skyldi þeim samt gert að greiða lágmarksskatt (15%). Ef þeir standa við stóru orðin, er þetta fyrsta skrefið í þá átt að endurreisa völd þjóðríkjanna. Næsta skref væri að bindast samtökum um að loka öllum skattaparadísum. Þetta á að gera í samstarfi við Kína, sem hefur sömu hagsmuna að gæta. Þar með væru velferðarríkin leyst úr umsátursástandi auðhringanna. Þetta, ásamt verndun lífríkisins, er stærsta verkefni stjórnmálanna á okkar dögum.

(Höfundur var formaður Alþýðuflokksins – flokks íslenskra jafnaðarmanna – 1984-96)