ÁTTRÆÐISAFMÆLI: STEINGRÍMUR HERMANNSSON

Þegar ég lít yfir stjórnmálaferil Steingríms Hermannssonar sýnist mér að hann hafi náð hápunkti í forsætisráðherratíð hans fyrir vinstristjórninni 1988 sem sat út það kjörtímabil til 1991.Það voru helstu kostir Steingríms, bæði sem manns og stjórnmálamanns sem gerðu honum kleift að vinna það afrek að halda saman þriggja flokka vinstristjórn – og á tímabili fjögurra flokka stjórn – út kjörtímabilið með góðum árangri. Þeir voru skipulögð vinnubrögð, sanngirni í samskiptum við samherja og andstæðinga og einlægni í málflutningi gagnvart þjóðinni. Þessi vinstristjórn mun fá þann dóm í sögunni að vera eina vinstristjórnin á öldinni sem leið, sem reis undir nafni, fyrir utan “ríkisstjórn hinna vinnandi stétta”1934-37 í miðri heimskreppunni undir forsæti föður hans, Hermanns Jónassonar. Þar með sannaði Steingrímur að hann var enginn ættleri.

Stærstu mistökin á stjórnmálaferli Steingríms voru að mínu mati þau að falla í þá freistni fyrir örlagaríkar kosningar 1991 að leyfa lykilmönnum í flokki sínum að snúast af fullkomnu ábyrgðarleysi gegn EES-samningnum, sem efnislega var að mestu leyti fullsaminn í tíð ríkisstjórnar Steingríms.Þar með gerðu þeir Steingrímur og Ólafur Ragnar, fyrrverandi framsóknarmaður en þáverandi formaður Alþýðubandalagsins, mér ókleift að halda áfram vinstristjórnarsamstarfi eftir kosningar, eins og hugur minn hefði annars staðið til. Þessi mistök drógu langan slóða á eftir sér og breyttu gangi stjórnmálasögunnar frá því sem ella hefði orðið. Með þessum mistökum lögðu flokksformennirnir óvitandi í raun og veru grundvöllinn að löngum valdaferli Davíðs Oddssonar. Eftir á að hyggja þykir mér líklegt að báðir telji þeir nú að þetta hafi verið misráðið.

Lesa meira