ÁTTRÆÐISAFMÆLI: STEINGRÍMUR HERMANNSSON

Þegar ég lít yfir stjórnmálaferil Steingríms Hermannssonar sýnist mér að hann hafi náð hápunkti í forsætisráðherratíð hans fyrir vinstristjórninni 1988 sem sat út það kjörtímabil til 1991.Það voru helstu kostir Steingríms, bæði sem manns og stjórnmálamanns sem gerðu honum kleift að vinna það afrek að halda saman þriggja flokka vinstristjórn – og á tímabili fjögurra flokka stjórn – út kjörtímabilið með góðum árangri. Þeir voru skipulögð vinnubrögð, sanngirni í samskiptum við samherja og andstæðinga og einlægni í málflutningi gagnvart þjóðinni. Þessi vinstristjórn mun fá þann dóm í sögunni að vera eina vinstristjórnin á öldinni sem leið, sem reis undir nafni, fyrir utan “ríkisstjórn hinna vinnandi stétta”1934-37 í miðri heimskreppunni undir forsæti föður hans, Hermanns Jónassonar. Þar með sannaði Steingrímur að hann var enginn ættleri.

Stærstu mistökin á stjórnmálaferli Steingríms voru að mínu mati þau að falla í þá freistni fyrir örlagaríkar kosningar 1991 að leyfa lykilmönnum í flokki sínum að snúast af fullkomnu ábyrgðarleysi gegn EES-samningnum, sem efnislega var að mestu leyti fullsaminn í tíð ríkisstjórnar Steingríms.Þar með gerðu þeir Steingrímur og Ólafur Ragnar, fyrrverandi framsóknarmaður en þáverandi formaður Alþýðubandalagsins, mér ókleift að halda áfram vinstristjórnarsamstarfi eftir kosningar, eins og hugur minn hefði annars staðið til. Þessi mistök drógu langan slóða á eftir sér og breyttu gangi stjórnmálasögunnar frá því sem ella hefði orðið. Með þessum mistökum lögðu flokksformennirnir óvitandi í raun og veru grundvöllinn að löngum valdaferli Davíðs Oddssonar. Eftir á að hyggja þykir mér líklegt að báðir telji þeir nú að þetta hafi verið misráðið.

Fyrstu kynni mín af Steingrími Hermannssyni voru ekki góð. Ég kynntist honum fyrst sem keppinaut fyrir tvennar kosningar, 1974 og 1978, á Vestfjörðum. Mér duldist ekki fremur en öðrum, sem þurftu við hann að kljást, að Steingrímur hefði erft keppnishörku föður síns og að hann væri ekkert lamb að leika við. Hins vegar þóttu mér pólitískar hugmyndir hans helst til fátæklegar, eins og ég lýsi nánar í Tilhugalífi. Og sem málflytjandi þótti mér hann heldur bragðdaufur, svona miðað við minn vestfirska smekk. Það fór því ekkert sérstaklega vel á með okkur framanaf.

Eftir að Steingrímur hafði tekið við forystu Framsóknarflokksins af Ólafi Jóhannessyni, sem hann gegndi í tæpan hálfan annan áratug, urðum við óhjákvæmilega harðir andstæðingar. Sem ritstjóri Alþýðublaðisins og síðar formaður Alþýðuflokksins var ég óvægnasti gagnrýnandi Framsóknarflokksins og alls þess sem mér sýndist hann standa fyrir. Þetta var á framsóknaráratugnum. Það sem var m.a.merkilegt við þennan áratug var að hann stóð illu heilli í hálfan annan, frá 1971 til 1987. Á þessu tímabili var Framsóknarflokkurinn því sem næst óslitið við völd, framan af undir forystu Ólaf Jóhannessonar, en síðan undir forystu Steingríms. Það var á þessum tíma sem verðbólgan varð kerfislæg í stjórnarfarinu. Og stjórnmálamenn kunnu það helst til ráða að bregðast við með gengisfellingu, þegar allt var komið í óefni. Þjóðin var lokuð inni í vítahring óðaverðbólgu, sem undir lokin var við það að fara úr böndunum. Framsóknarflokkurinn leit á það sem sitt helsta hlutverk að gæta viðskiptahagsmuna SÍS í helmingaskiptum við íhaldið. Sameiginlega stóðu þessir flokkar vörð um úrelt landbúnaðarkerfi sem þjónaði hvorki hagsmunum bænda né neytenda í reynd. Á seinni hluta þessa tímabils gegndi Steingrímur flestum þeim ráðherraembættum sem máli skiptu – nema fjármálaráðuneytinu. Ábyrgð hans var því mikil.

Þetta heimasmíðaða ráðstjórnarkerfi var sýnilega komið í þrot fyrir kosningarnar 1987. Það var ekki hægt að lappa upp á það miklu lengur. Hin skammlífa ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar réð ekki við vandann. Þegar hún gafst upp snerum við Steingrímur Hermannsson, hinir fornu féndur, bökum saman. Vinstristjórnin 1988-91 undir forystu Steingríms og með aðild Alþýðuflokks og Alþýðubandalags reyndist vandanaum vaxin. Þessi ríkisstjórn skapaði þau pólitísku skilyrði sem þurfti til að ná þríþættu samkomulagi verkalýðshreyfingar, vinnuveitenda og ríkisvalds til þess að brjótast út úr vítahring verðbólgunnar með hinum frægu þjóðarsáttarsamningum. Steingrímur átti þar persónulega góðan hlut að málum. Það var þessi ríkisstjórn sem kom verðbólgunni niður fyrir tveggja stafa tölu í fyrsta sinn frá því á viðreisnarárunum.

Þessi ríkisstjórn kom fram margvíslegum hagstjórnarumbótum í frjálsræðisátt. Hún tók fyrstu skrefin í átt til einkavæðingar banka- og fjármálakerfis, losaði um höft og bætti skilyrði heilbrigðs atvinnulífs. Þess ber að minnast að það var í tíð þessarar ríkisstjórnar, sem EES samningurinn var að mestu efnislega fullfrágenginn, þótt sú kerfisbreyting í starfsumhverfi atvinnu- og viðskiptalífs, sem í samningum fólst, kæmi ekki fram fyrr en síðar. Vinstristjórn Steingríms Hermannssonar (1988-91) og fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar (1991-95) voru við völd á kerppuárum. Á þessum árum 1988-94 var við að fást dýpstu efnahagslægð lýðveldistímans og þá sem varði lengst. Skýringanna er að hluta til að leita í alþjóðlegri efnahagslægð sem bættist ofan á hrun íslenska flokksræðiskerfinsins, sem ekki var lengur á vetur setjandi. Báðar þessar ríkisstjórnir sýndu í verki að þær voru vandanum vaxnar. Þetta voru umbótastjórnir, sem breyttu þjóðfélaginu mjög til hins betra, hvor með sínum hætti.

Það var víst Churchill sem sagði að hann hefði engar áhyggjur af dómi sögunnar um sig, því að hann ætlaði að skrifa söguna sjálfur. Án þess að ég ætli að bera Steingrím saman við þetta mikilmenni breskrar sögu sakar ekki að geta þess að í öryggisskyni hefur Steingrímur sjálfur sagt sögu sína í þremur miklum bindum, það er að segja hann sagði söguna Degi B. Eggerssyni sem endursagði okkur. Þar með gerði Steingrímur skyldu sína gagnvart sögunni. Það er svo sagnfræðinganna að taka við og raða upp heildarmyndinni úr brotasilfri samtímans. Mér segir þó svo hugur um að dómur sögunnar um Steingrím verði honum vilhallari þegar fram líða stundir, vegna samanburðar við eftirmenn hans. Mannkostir Steingríms, sanngirni í garð samtstarfsmanna jafnft sem andstæðinga, einlægni í málflutningi og velvild gagnvart þeim sem höllum fæti standa, muni þá verða metin að verðleikum.

Sú var tíð að Framsóknarflokkurinn var stórveldi í íslenskum stjórnmálum. Nú er ljóst orðið að Steingrímur var sá seinasti af þeim formönnum Framsóknarflokksins sem héldu vð völdum og áhrifum flokksins á öldinni sem leið, jafnvel lengur en efni og rök stóðu til. Þessir tímar eru liðnir og koma aldrei aftur. Það þrautseiga fólk, sem enn í dag gegnir kalli Framsóknarflokksins, hefur því ríkulega ástæðu til að líta með söknuði til baka til stórveldistímabils Steingríms Hermannssonar.