VORIÐ Í PRAG – HRUN SOVÉTRÍKJANNA HAFA FRELSISHETJURNAR RISIÐ UNDIR VÆNTINGUM?

Í vestari helft Evrópu lauk seinni heimstyrjöldinni árið 1945. Það kostaði margar þjóðir Evrópu ómældar blóðfórnir að leggja óvætt þýska nazismans að velli. Flestar þjóðir Evrópu urðu fyrr eða síðar fórnarlömb þýska nazismans. Það er partur af harmleik þessara tíma að þjóðir Sovétríkjanna, sem færðu þungbærari fórnir en flestar aðrar í mannslífum og stríðseyðileggingu, voru dæmdar til þess á stund sigursins að þjást áfram undir ógnarstjórn Stalíns.

Í Vestur-Evrópu létu leiðtogar eftirstríðsáranna sér endalaus bræðravíg Evrópuþjóða öldum saman loksins að kenningu verða. Hugmyndin um það að takmarka getu þjóðríkjanna til að heyja styrjaldir með því að leggja auðlindir hergagnaiðnaðarins undir sameiginlega stjórn og gera þær þannig óafturkallanlega innbyrðis háðar hver annarri, er það besta sem gerst hefur í Evrópu frá ómunatíð. Fæðing Evrópuhugmyndarinnar hefur gefið gömlu Evrópu, eftir brotlendingu tveggja heimstyrjalda sem báðar áttu rætur að rekja til evrópskra stjórnmála, nýja lífsvon.

Í meira en hálfa öld hefur Vestur-Evrópa notið friðar og hagsældar sem er einstakt í sögu álfunnar. Þau mannlegu gildi sem einkenna vestræna siðmenningu umfram allt annað – einstaklingsfrelsi undir lögum og rétti, innan vébanda réttarríkisins – fékk að sýna kraftbirtingarmátt sinn í verki. Marshall aðstoðin sem er framsýnasta framlag bandarískra stjórnvalda til utanríkismála frá upphafi, hraðaði þessari þróun og auðveldaði árangurinn. Í því aðlþjóðlega umhverfi, sem heimurinn hrærist í á okkar dögum, er Evrópusambandið friðar-og sáttaafl, innan Evrópu jafnt sem utan.

Evrópusambandið hefur reynst vera öflugt jafnaðarafl. Með frjálsu flæði vöru, þjónustu, fjármagns og vinnandi fólks á innri markaðnum, varð ekki einungis til stærsta fríverslunarsvæði heimsins; með þessari opnun, og öflugum þróunarsjóðum því til viðbótar, hefur Evrópusambandið lagt sitt af mörkum til að lyfta lífskjörum hinna vanþróaðri þjóða Evrópu upp til jafns við hinar ríkustu. Þetta er afrek og ætti að vera öllum heiminum fyrirmynd. Sú staðreynd að allar hinar nýfrjálsu þjóðir Mið – og Austur –Evrópu höfðu ekki fyrr endurheimt sjálfstæði sitt en þær sóttu um aðild að Evrópusambandinu, er óhrekjanlegur vitnisburðu um hið mikla aðdráttarafl Evrópuhugmyndarinnar. Evrópusambandið hefur opnað nýjan kafla í sögu Evrópu, sem er rétt að byrja.

Frelsishetjur eða hryðjuverkamenn?

Í eystri helft Evrópu var ekki endir bundinn á seinni heimstyrjöldina í reynd fyrr en með falli Berlínarmúrsins árið 1989 og endanlega með upplausn Sovétríkjanna tveimur árum síðar. Í Austur-Evrópu hélt stríðið áfram í næstum hálfa öld. Þjóðir Mið- og Austur-Evrópu voru hernumdar. Sumar þessara þjóða eins ogt.d. Eystrasaltsþjóðirnar, voru formlega sviptar sjálfstæði sínu og innlimaðar í Sovétríkin gegn vilja sínum. Þjóðfélagskerfi sem var framandlegt, óréttlátt og óhagkvæmt var þröngvað upp á þessar þjóðir með valdi. Þessar þjóðir urðu fangnar þjóðir (e.captive nations) sem urðu að lúta boðum og banni nýlenduherranna í einu og öllu.

Stjórnarfari lögregluríkisins, sem hafði verið bægt frá í vesturhelmingi álfunnar, var þröngvað upp á þessar þjóðir og það varð alls ráðandi í daglegri tilveru fólks. Glæpirnir sem valdhafar lögregluríkisins frömdu gegn einstaklingum, þjóðernisminnihlutum og reyndar heilum þjóðum, hafa hvorki verið skráðir né viðurkenndir – hvað þá heldur að beðist hafi verið afsökunar á þeim. Sárin eftir misþyrmingar fortíðarinnar eru fjarri því gróin enn. Glæpamennirnir hafa aldrei þurft að standa skil gerða sinna. Margir þeirra hafa þvert á móti verið verðlaunaðir fyrir glæpi sína í þeim hráslagalega bófakapitalisma, sem sums staðar reis á rústum kommúnismans í þessum löndum.

Þar sem hinar föngnu þjóðir voru inniluktar í þjóðafangelsi sovétkerfisins var fórnalömbunum nokkur vorkunn að ætla, flestum hverjum, að þau væru eilíflega fordæmd; að í ljósi yfirþyrmandi hernaðaryfirburða nýlenduveldisins ættu þessar þjóðir aldrei afturkvæmt út í frelsið. Þær væru glataðar að eilífu.

Það er þess vegna lýsandi vitnisburður um óbugandi frelsisþrá mannsandans að samt voru allan tímann uppi einstaklingar, sem aldrei létu bugast. Þeim ber með réttu sæmdarheitið frelsishetjur, þótt sumir láti sér sæma að nota orðið hryðjuverkamenn um þá sem standa í sömu sporum á okkar tímum – að berjast fyrri frelsinu gegn ofureflinu: Ég nefni til sögunnar “skógarbræðurna” við Eystrasalt, í Úkraínu og víðar á fystu árunum eftir að stríðinu lauk; uppreisn verkamanna í Berlín og í öðrum borgum Austur–Þýskalands árið 1953; uppreinsina í Ungverjalandi árið 1956; pólsku andstöðuna sama ár; vorið í Prag árið 1968; “Samstöðuhreyfinguna” í Póllandi árið 1980; rússnesku andófsmennina frá Soltzenitzyn til Zakharovs; niðurrif Berlínarmúrsins í nóbember 1989 og sameiningu Þýskalands í framhaldi af því árið 1990. Og loks nefni ég hina friðsamlegu leið Eystrasaltþjóðanna til sjálfstæðis á árunum 1988-91 og fall hinna eitt sinn voldugu Ráðstjórnarríkja í framhaldi af því undir árslok 1991.

Þvílíkt gallerí af einstaklingum sem voru gæddir allt að því ofurmannlegu hugrekki til að standa einir og varnarlausir gegn kúgunaröflum sem virtust ósigrandi. Þetta ætti að minna okkur á að jafnvel hátæknivæddar hernaðarvélar, sem kunna að virðast ósigrandi við fyrstu sýn, geta reynst bæði ráðvilltar og úrræðalausar, ef þeim er beitt í þjónustu málstaðar sem er óréttlætanlegur. Dæmi um þetta á okkar tímum er innrás Bandaríkjamanna og attaníossa þeirra í Írak og hið hrottafengna ofbeldi sem Ísraelsher beitir varnarlaust fólk á hernumdu svæðunum í Palestínu.

Banamein Sovétríkjanna

Hvað var það sem að lokum losaði um þrælatök lögregluríkisins á hinum föngnu þjóðum Mið- og Austur-Evrópu? Var það óbrigðull stuðningur Vesturlanda við grundvallarregluna um sjálfsákvörðunarrétt þjóða? Varla, þegar við höfum í huga að uppreisnarmennirnir í Búdapest 1956 voru látnir mæta örlögum sínum einir og yfirgefnir. Voru það kannski hernaðaryfirburðir Bandaríkjanna, mældir í fjölda eldflauga og kjarnaodda, sem skutu Kremlverjum skelk í bringu? Það verður seint sannað, enda aldrei látið á það reyna. Voru það e.t.v. siðferðilegir yfirburðir hins vestræna lýðræðis, sem að lokum unnu hug og hjörtu jafnt hinna kúguðu sem kúgaranna sjálfra? Tæplega. Því verður seint haldið fram með rökum að Bandaríkin og bandamenn þeirra hafi haft einokun á siðferðinu á árum kalda stríðsins.

Hafa menn gleymt stríðsrekstri gömlu nýlenduveldanna gegn hinum undirokuðu í Vietnam, í Alsír, í Kongó og víðar? Hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í Mið- og Suður-Ameríku gegn lýðræðislega kjörnum ríkisstjórnum? Vitfirrtri tilraun Bandaríkjamanna til að “sprengja Vietnam aftur á steinöld” til að forða hrísgrjónabændum frá kommúnismanum? Þannig mætti lengi telja. Hvorugur aðilinn virðist hafa verið sérlega vandur að meðulum í kalda stríðinu, þegar grannt er skoðað.

Þetta eru mestan part venjulegar “eftiráskýringar”. Kommúnisminn fór sér einfaldlega sjálfur að voða (e.self-destructed).Það sem gerðist var að þetta ómennska valdbeitingarkerfi rotnaði smám saman siðferðilega innan frá. Kommúnisminn hrundi undan óbærilegum þunga síns eigin dáðlausa skriffinnskukerfis. Kerfi sem beinlínis byggir á því að lama andlegan sköpunarkraft fólks, framtak þess, sjálfsbjargarviðleitni og meðfædda ábyrgðartilfinningu gagnvart sér og sínum – hlýtur að lokum að glata sjálfum lífskraftinum. Það var það sem gerðist.

Jafnvel valdastéttin sjálf – nomenklatúran – missti að lokum lystina á valdbeitingu til varnar eigin hagsmunum og fór að leita að útgöngudyrum, áður en hið hátimbraða valdakerfi hryndi yfir hana. Þegar kúgunuaröflin hafa ekki lengur kjark til að kúga hafa þau glatað sjálfum tilverugrundvelli sínum. Frá og með þeim degi eru dagar valdstjórnarinnar taldir. Það var þetta sem gerðist.
Það er ekki hægt að reformera kommúnismann innan frá. Það verður að rífa illgresið upp með rótum og byrja ræktunarstarfið upp á nýtt. Þetta er það sem Mikhail Sergeyevich Gorbachev fékk að lokum að reyna á eigin skinni, seint og um síðir.

Grunnhugmynd kommúnismans – afnám arðráns manns á manni og frelsun hins stritandi fjölda frá kúgun og örbirgð – er vestræn hugmynd í húð og hár. Aðdráttarafl kommúnismans byggði á siðferðilegri fordæmingu, í nafni félagslegs réttlætis, á eymdarkjörum almennings við skilyrði óhefts kapitalisma á fyrsta skeiði iðnbyltingarinnar. Hinn mannlegi harmleikur sem af hlaust var í því fólginn að þessi vestræna hugmynd var fyrir sögulega slysni grædd inn í miðalda lénsveldi þar sem hún stökkbreyttist í illkynja, austræna harðstjórn.

Hversu oft verðum við ekki vitni að því í lífinu að jákvæðar og velmeinandi hugmyndir snúast með ófyrirséðum hætti upp í andhverfu sína? Bylting í nafni frelsisins verður að nýju kúgunarkerfi. Hinir ofsóttu Gyðingar gömlu Evrópu gerast sjálfir böðlar saklausra fórnarlamba kynþáttakúgunar og ofbeldis. Fyrirheit kapitalismans um auðsköpun til að leysa alla undan áþján örbirgðarinnar, sem snýst upp í auðsöfnun hinna fáu, í krafti einokunar á kostnað fjöldans. Við segjum að byltingin éti börnin sín. Stundum verður ekki betur séð en að börnin afvegaleiði byltinguna. Og reyni síðan að fela hugsjónabrigð sína á bak við silkislæður hræsninnar.

Hafa draumarnir rætzt?

Nú – tuttugu árum eftir að sjálfstæðishreyfingar hinna föngnu þjóða létu til skarar skríða gegn ofureflinu og höfðu sigur – er kominn tími til að spyrja: Hafa börn byltingarinnar staðið undir væntingum? Er vonin enn á lífi? Hafa draumar ræst?

Þau okkar, sem hafa þegar lifað langa ævi, vita af reynslu að þeir, sem dreymir villta drauma, vakna oftast upp með andfælum. Lífið er bara svoleiðis. Tuttugu ár er langur tími í ævi einstaklings, en í lífi þjóðar er það eins og hvert annað tíst í spörfugli. Samt sem áður leyfist okkur, þegar hér er komið sögu að spyrja spurninga eins og þessara: Hefur lýðræðið fest rætur? Eru almannasamtök – verkalýðsfélög, neytendasamtök, umhverfisverndarsamtök – virk og virt? Það er oft nokkuð góður mælikvarði á pólitískt heilsufar þjóða. Eru dómstólarnir sjálfstæðir og varðir fyrir spillingaráhrifum auðjöfra og pólitíkusa í þjónustu þeirra? Eru fjölmiðlarnir frjálsir að því að birta “all the news that are fit to print”?
Hvernig meðhöndla hin nýfrjálsu þjóðfélög Mið- og Austur-Evrópu hina ungu, þá gömlu, þá veiku og varnarlausu? Svarið við þeirri spurningu færir okkur að lokum sannleikann um gæði mannlegs samfélags.

Auðvitað er ekki hægt að birta eina mynd sem lýsir með réttu veruleikanum í þessum fjölmörgu og ólíku þjóðfélögum. Og það er ekki hægt að rissa upp þessa mynd í svarthvítu. Í flestum þessara þjóðfélaga var í upphafi ákveðið að velja hagfræðimódel, þar sem höfuðáhersla er lögð á markaðslausnir og þar sem ríkisvaldinu er ætlað mjög takmarkað hlutverk. Reyndar var fárra annarra kosta völ. Það þarf ekki margar eða flóknar stofnanir á vegum lýðræðisins til að dreifa því sem ekki er til. Fyrst er að skapa auðinn – svo skulum við velta því fyrir okkur hvernig honum er skipt.

Ég gagnrýni ekki þetta val. Það hefur víðast hvar skilað árangri, sem ekki ber að vanmeta: Ör hagvöxtur, m.a. fyrir atbeina erlendrar fjárfestingar, innleiðing nýrrar tækni og nýrra starfa, nútímavæðing í stað tæknilegrar úreldingar og stöðnunar. Ný orka hefur verið leyst úr læðingi. Þar sem áður ríkti drungi og doði, ólgar nú kraftur og áræði. Unga kynslóðin, hinir menntuðu og hinir áræðnu, þeir njóta ávaxtanna. En hvað með hina? Hvað með eldri kynslóðina, sem færði fórnirnar? Hvað með landsbyggðina, sem hefur dregist aftur úr? Hvað með læknana, heilbrigðisstéttirnar og kennarana, sem eiga að búa næstu kynslóð undur hlutverk sitt í gerbreyttu þjóðfélagi?

Er allt eins og vera ber í hinu nýfrjálsa ríki? Eru hinir nýríku krafðir um þá skatta sem þörf er á til að tryggja að allir hafi jöfn tækifæri til skólagöngu og til að þroska hæfileika sína? Ég gef mér það að til lengri tíma litið vilji menn ekki sætta sig við að vera láglaunasvæði,sem laðar að tímabudnið erlent fjármagn út á lágan framleiðslukostnað. Ég gef mér það að framtíðarmarkmiðið sé að jafna lífskjaramuninn milli Austur- og Vestur-Evrópu. Að tryggja það að framleiðni á grundvelli menntunar og tæknikunnáttu jafnist á við það sem best þekkist í heiminum. Og standi þar með undir lífsgæðum og lífskjörum sem eru a.m.k. sambærileg við Vestur-Evrópu.

Til þess að ná því markmiði er ekki nóg að halda sig við eftirlíkingu amerísks kapitalisma. Markaðskerfið er vissulega nauðsynlegt tæki til auðsköpunar – til að nýta framleiðsluþættina á sem hagkvæmastan hátt. En markaðurinn skilar þá og því aðeins þessu hlutverki sínu ef hann er undir eftirliti og stjórn lýðræðislegs ríkisvalds. Sagan bæði fyrr og síðar kennir okkur að þótt markaðurinn sé þarfur þjónn getur hann líka reynst harður húsbóndi, ef honum er lotið í blindni.

Markaðshagkerfið eitt og sér er ekki aðeins sveiflukennt (eins og við erum minnt á þessi misserin) . Markaðskerfið hefur líka innbyggða tilhneigingu til að safna bróðurparti þjóðarauðsins á fáar hendur og grafa þannig djúpa gjá milli vellríkrar yfirstéttar og hins snauða fjölda. Efnahagslegur ójöfnuður – þar sem fáeinir ólígarkar tróna efst á píramídanum og þar sem fámenn, óörugg og hrjáð millistétt hreiðrar um sig á miðjunni en breiður fjöldi með takmarkaða menntun, lokast inni réttindalítill, í fátæktargildru – er eins og tímasprengja sem getur sprungið hvenær sem er og þar með kollvarpað grunninum að félagslegri samheldni þjóðfélagsins. Ég læt hverjum og einum ykkar eftir að líta í spegil og sjá hvort þið kannist við þann þjóðfélagsveruleika sem hér er lýst.

Það var einmitt þjóðfélagsástand af þessu tagi sem reyndist vera gróðrarstía kommúnismans fyrr á tíð.Það voru jafnaðarmannaflokkarnir og verkalýðshreyfingin í Vestur-Evrópu sem í krafti lifandi lýðræðis, breyttu óbeisluðum kapítalisma iðnbyltingarinnar í það velferðarríki, sem víðast hvar hefur náð að skjóta rótum í Vestur-Evrópu innan vébanda Evrópusambandsins.
Í Vestur-Evrópu snýst pólitíkin að mestu um það að verja velferðarríkið fyrir óvinum þess. Þið, sem hér eruð samankomin, munið sjálf svara því á næstu árum, hvorum megin víglínunnar þið munið taka ykkur stöðu í þeim átökum.

Evrópuhugsjónin

Þegar við berum saman hlutskipti smáþjóða í Evrópu á okkar dögum annars vegar og á tímabilinu milli stríða hins vegar blasir við að Evrópuhugsjónin (e. The European idea) er það sem gerir gæfumuninn. Á millistríðsárum seinustu aldar voru smáþjóðir hvað eftir annað hjálparlaus fórnarlömb árásargjarnra þjóðríkja sem stefndu að yfirráðum yfir öðrum; og réttlættu ofbeldishneigð sína með hugmyndafræði, sem ýmist byggði á meintum þjóðernisyfirburðum eða úreltum og vanhugsuðum hagfræðikenningum. Evrópuhugmyndin – sú hugmynd að einstök þjóðríki framselji hluta af fullveldi sínu til samþjóðlegra stofnana, bæði til þess að útiloka hernaðarátök og til þess að endurreisa stöðu Evrópu í margskiptum heimi – markar því upphafið að nýjum kafla í Evrópusögunni.

Með því að skapa sameiginlegt efnahagssvæði, stutt virkri byggðastefnu, hefur Evrópusambandið fært hinum fátækari þjóðum Evrópu upp í hendurnar tækifæri til að ná þeim sem fremst standa að því er varðar þróunarstig og lífskjör með undraskjótum hætti. Með þessu móti hefur Evrópusambandið lagt sitt af mörkum til að útrýma fátækt og vanþróun og um leið sett öðrum þjóðum fordæmi til eftirbreytni. Um leið hefur Evrópusambandið lóssað fleiri þjóðir frá einræði og harðstjórn í átt til lýðræðis og réttarríkis en nokkur aðili annar í sögunni. Og það án þess að hleypa af einu skoti. Þetta ætti að vera valdhöfum í Bandaríkjunum til áminningar og eftirbreytni í samskiptum þeirra við grannríkin í Mið- og Suður- Ameríku í framtíðinni. Og ísamskiptum þeirra við afganginn af veröldinni sömuleiðis.

Þessi jákvæða þróun hefur gefið gömlu Evrópu nýja framtíðarvon. Sameinuð Evrópa hefur nú alla burði til þess að verða á ný sjálfstæður aðili á vettvangi alþjóðamála, í stað þess að hafa verið á tímabili kalda stríðsins fylgisspakur undirverktaki ameríska heimsveldisins. Því tímabili fer senn að ljúka. Evrópa – sem hefur lagt að baki nýlendudrottnunarskeið sitt – getur orðið sjálfstætt friðarafl í heiminum. Þetta er það sem sjálf Evrópuhugmyndin snýst um: Að leita lausna á alþjóðlegum ágreiningsmálum með samningum á grundvelli alþjóðalaga og réttar. Þeir einir, sem hafna ofbeldi sem möguleika í innbyrðis samskiptum, eru teknir trúanlegir sem friðflytjendur gagnvart öðrum. Það er almennt til bóta að menn breyti eins og þeir boða.