HÁSKÓLINN Á BIFRÖST – MÁLÞING Í IÐNÓ: ER HÆGT AÐ LÆRA TIL FORSÆTISRÁÐHERRA?

Það stendur hvergi skrifað, svo ég viti – hvorki í dönsku stjórnarskránni né í stjórnsýslulögum – að forsætisráðherrann þurfi að hafa hæfnisvottorð upp á vasann. Embætti forsætisráðherra er m. ö. o. eitt af örfáum djobbum, sem eftir eru á vinnumarkaðnum, þar sem ekki er krafist prófskírteinis.

Þú þarft sumsé ekki að hafa bréf upp á það. Enda er djobbið undanþegið auglýsingaskyldu. Það eru engin eyðublöð til að fylla út og engin dómnefnd til að meta hæfni umsækjenda. Þjóðin er ekki einu sinni spurð álits. Það eru formenn samstarfsflokka í ríkisstjórn, sem semja sín í milli um það, hver hreppir hnossið.

Skoðum þetta aðeins nánar: Ef við rennum augum yfir nöfn þeirra 26 mið- og ofaldra karlmanna, sem gegnt hafa starfinu frá og með heimastjórn 1904 og til dagsins í dag, þá sýnist manni fljótt á litið, að það sé ekki hægt að læra til forsætisráðherra. Hvað á ég við? Ég á við, að flestir þeirra – 16 af 26 – voru bara lögfræðingar. Hverjir voru hinir? Þrír voru verkfræðingar, tveir guðfræðingar (og bankastjórar, um leið og þjónuðu því bæði guði og mammoni, með brosi á vör).

Þá eru eftir, hagfræðingur, sagnfræðingur og búfræðingur, einn af hverju tagi. Og svo, eftir atvikum, tvö eða þrjú “drop-outs”. Merkilegt má það heita, þar sem íslensk pólitík hefur í hundrað ár verið linnulaust rifrildi um efnahagsvandamálið, að aðeins einn þessara þjóðarskútuskipstjóra skuli hafa verið með réttindi, þ.e. próf í hagfræði. Er þetta ekki enn einn vitnisburðurinn um ofurtrú þjóðarinnar á brjóstvitið?

Þetta þýðir, að fyrir utan Hannes Hafstein, sem las danskan jus í hjáverkum með því að vera á evrópsku menningarfylliríi í Köbenhavn, okkar gömlu höfuðborg, voru hinir flestir heimalningar, sem eyddu mótunarskeiði sínu hérna á Melunum; og lásu ljósrit af dönsku réttarfari, án þess þó að vera endilega læsir á dönsku. Ég veit þetta, vegna þess að ég var þrjá daga í lagadeild. Það var af því að viðreisnarstjórnin hafði fellt gengi íslensku krónunnar um 138 prósent, sem hafði m.a. þær afleiðingar, að ég hélt, að ég hefði ekki efni á að mennta mig í útlöndum; – og yrði í staðinn að fara bara í lagadeild.

Færiband framans.

Eftir á að hyggja verður að bæta því við, að það er ekki nóg að vera bara lögfræðingur. Þú verður, að öðru jöfnu, að vera lögfræðingur í tilteknum flokki: Sjálfstæðisframsóknarflokknum. Þessi flokkur hefur farið með forsætisráðherra- embættið í 75 af 81 ári, frá því að embættið var stofnað. Svo er æskilegt að hafa verið inspector scolae í MR, formaður Orators og annað hvort formaður Heimdallar eða SUS, nema hvort tveggja sé. Það skoðast sem meiri háttar bónus að hafa haft sumardjobb á Mogganum við að skrifa Staksteina, nafnlaust.

Þegar ég ákvað, nítján ára gamall, að læra til forsætisráðherra í Edinborg, hafði ég auðvitað ekki, fyrir bernsku sakir, áttað mig á þessum hindrunum á framabrautinni. Þegar námsráðgjafinn við þennan ævaforna og íhaldsama háskóla spurði, hvað ég vildi læra, svaraði ég af barnslegu sakleysi: Hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði. Á ensku heitir þetta philosphy, economics and politics, skammstafað PEP.

Þetta þótti gott farteski fyrir breska forsætisráðherra forðum daga. Er þetta ekki einmitt sama formúlan og Háskólinn á Bifröst býður nú forsætisráðherraefnum framtíðarinnar? Hvað um það, námsráðgjafinn minn í Edinborg forðum daga horfði bara góðlátlega á þetta exemplar úr vanþróaða heiminum og sagði: Við getum svo sem kennt þér hagfræði og heimspeki – helst í öfugri röð; en stjórmálafræði – er það ekki eitthvert amerískt kjaftafag? Við bjóðum ekki upp á slíkt og þvílíkt hér!

Þegar ég kom í fyrsta tíma í hagsögu hjá írskum stjórnleysingja, sem naut þess að segja okkur sannleikann um arðrán Englendinga á Írum, þá spurði hann viðstadda, hverjir hefðu áður lært einhverja sögu. Sumir höfðu lært um Hellas og Róm; sumir um breska heimsveldið; einhverjir höfðu lesið um iðnbyltinguna; og stelpur úr nýja heiminum þóttust hafa lesið um amerísku byltinguna. Strákar frá Chile, Patagóníu og Karíbahafinu höfðu lært um Simon Bolivar.

Afríkumennirnir höfðu lært nýlendusöguna um góðgerðarstarfsemi Evrópubúa í Afríku, sem fólst bæði í járnbrautarlagningu og kristniboði; með byssuna í annarri hendinni en bíblíuna í hinni. Þegar röðin kom að mér, var enskan mér ekki tamari á tungu en svo, að ég þýddi hugsun mína orðrétt af hinu ástkæra ylhýra: Ég hef lært Íslandssögu og almenna mannkynssögu. Það var ekki að sökum að spyrja: Viðstaddir tóku bakföll af hæðnishlátri; og Írinn spratt upp í allri sinni smæð og benti mér með glæsilegri sveiflu að setjast í kennarastólinn, um leið og hann sagði: Hversu lengi höfum við ekki beðið eftir slíkum manni!

Svo gekk ég auðvitað í Labour and Socialist Club, þar sem félagarnir voru flestir að læra til forsætisráðherra, enda ættaðir úr vanþróaða heiminum. Þarna var bara einn innfæddur Skoti og sá hafði ekki meiri metnað en svo, að hann var að læra til kaupfélagsstjóra. Hvaðan vorum við? Við vorum hvaðanæva að úr nýlenduveldi Breta: Frá Indlandi og Pakístan, Ghana, Nígeríu, Ródesíu, Uganda, Keníu,Tanganyiku, Suður-Afríku, Singapore og Malasíu; og líka frá sólskinseyjum Karíbahafsins, Jamaíku og Puerto Rico. Við vorum auðvitað allir að læra hagfræði, heimspeki og pólitík. En úr því að háskólinn kenndi ekki pólitík, þá lærðum við hana bara af sjálfum okkur.

Dúxar eða fúxar?

Löngu seinna, þegar ég var kominn heim og farinn að kenna við gagnfræðaskóla og skrifa í Frjálsa þjóð, af því að það var engin þörf fyrir hagfræðinga af þessu tagi í stofnunum rétttrúnaðarins, þá sat ég ráðstefnu um inntak og árangur íslenska skólakerfisins, sem var haldin í bændahöllinni á Melunum. Ráðstefnunni stýrði bekkjarbróðir minn, Andri Ísaksson, sálfræðingur og þáverandi ráðgjafi Gylfa Þ. Gíslasonar, menntamálaráðherra. Andri hafði lært það í Frakklandi, að menntun væri drifkraftur hagvaxtar og framfara.

Meðal framsögumanna var aldurhniginn rektor menntaskólans í Reykjavík, Einar Magnússon. Hans framlag var í því fólgið að lesa upp nöfn allra þeirra, sem höfðu verið dúxar og semidúxar MR frá heimastjórn til dags dato, og gera grein fyrir því, hvað hefði orðið um þetta fólk. Niðurstaðan var sú, að flestir þessara dúxa og semidúxa höfðu orðið embættismenn í kansellíi ríkisins: Deildarstjórar, skrifstofustjórar – jafnvel ráðuneytisstjórar, þegar best lét.

Enginn þeirra hafði, samkvæmt rannsókn rektors, hætt á að stofna fyrirtæki eða yfirleitt vogað einhverju í lífinu. En hvað hafði orðið um fúxana? spurði einhver. – Þeir fóru annaðhvort í business eða pólítík, var svarið. Ætli þeir hafi getað fengið nokkuð annað betra að gera, spurði rektor sjálfan sig. Í þeim hópi var m.a. Ólafur Thors, sem var semifúx í sínum bekk (hann var ævinlega þakklátur biskupnum yfir Íslandi fyrir að hafa tekið af sér ómakið að vera fúx). En Ólafur Thors er enn þann dag í dag allavega skemmtilegasti forsætisráðherra Íslands, að hinum lítt löstuðum.

Við búum í lýðræðisþjóðfélagi. Lýðræði er sem kunnugt er, versta stjórnarfar, sem hugsast getur, fyrir utan allt hitt, sem reynt hefur verið. Lýðræði þýðir, að draumurinn um hinn menntaða einvalda – the philosopher king – er bara það: Draumur um hið eftirsóknarverða og óraunhæfa. Too good to be true. Sumir trúa því, að villta vestrið sé nútildags forysturíki lýðræðis í heiminum. Alla vega trúa Ameríkanar því sjálfir.

Helsta trúarsetning amerísks lýðræðis er sú, að hver sem er geti orðið forseti. Eftir að Bush junior var tilnefndur til forseta af hæstaréttardómara, sem var tilnefndur af pabba hans, liggur við að við trúum þessu líka. Nefnilega að hver sem er geti verið forseti Bandaríkjanna. Alla vega er þýðingarlaust að tala um það í þessu samhengi, að það sé hægt að læra til forseta. Læra hvað með leyfi? Good guys versus bad guys; og svo er bara spurningin, hvorum er lausari höndin til byssunnar til að útkljá málin.

Ég endurtek spurninguna: Er hægt að læra til forsætisráðherra? Hvaða kröfur gerir lýðræðið til leiðtogans? Hvort viltu hafa hann gáfaðan eða geðþekkan? Vitran eða klókan? Lærðan eða líflegan? Kláran eða kræfan? Skýran í hugsun eða skáldlegan? Stefnufastan eða sveigjanlegan? Þolinmóðan og þrautseigan – mann sem kiknar ekki undan álagi? Sannleikselskandi eða spunameistara? Dúx eða fúx? Karl eða konu? Ungan eða gamlan? Áræðinn eða lífsreyndan? –

Sumir líkja lýðræðinu við pólitíska kjörbúð, þar sem vöruúrvalið er mikið, en gengi frambjóðenda ræðst meira af markaðssetningu og umbúðum en innihaldinu.
Vorum við ekki að lesa það í blöðunum um daginn, að Indverjar hefðu skipað forseta lýðveldisins á bekk með Mandela, Martin Luther King og Móður Theresu – þessum síðari daga heilögum? Ég bara spyr: Treystir sér einhver til að toppa þetta?

Úlitið versus innrætið.

Það eru til endalausar sögur af forsætisráðherrum. Þegar breska þjóðin hafði hafnað stríðsleiðtoganum, Winston Churchill, (vitandi sem var, að hann hafði verið versti fjármálaráðherra ríkisins upp úr fyrra stríði) og valið Clement Attlee, lítillátan félagsráðgjafa úr slömmunum í East-End, sem þar með varð faðir breska velferðarríkisins, þá gat Churchill ekki stillt sig um að lýsa eftirmanni sínum si svona: “Up to Downing Street 10 came an empty limosine and out stepped Mr. Attlee”.

Sagan endurtók sig í annarri uppfærslu í Hofburg í Vín, þegar Davíð Oddsson, mætti til síns fyrsta forsætisráðherrafundar í litla EFTA klúbbnum, sællar minningar. Þar kom í veislunni, að ráðuneytisstjóranum í forsætisráðuneytinu, Guðmundi Benediktssyni, leiddist þófið og vildi halda heim. Hinn ungi forsætisráðherra, Davíð, og aðstoðarmaður hans, Hreinn Loftsson, seinna kenndur við Baugsgullið, báru virðingu fyrir ellinni og leiddu ráðuneytisstjórann niður 188 tröppur keisarahallarinnar, þar sem ráðherralimmurnar og öryggisverðirnir biðu.

Þar sem þeir félagar stauluðust niður tröppurnar, nær sligaðir af þunga ráðuneytisstjórans, brugðust öryggisverðir hratt við: Þeir sáu strax í hendi sér, hver var forsætisráðherrann og hverjir voru liðléttingar og aðstoðarmenn. Þeir hlupu upp og hrundu Davíð og Hreini frá og leiddu Guðmund Benediktsson, hinn virðulega öldung með tjúguskegg, til sætis í limmunni: Hann leit svo sannarlega út, eins og forsætisráðherrar eiga að gera, að þeirra mati. Svo gerðu þeir honeur, og þar með stormaði öll heila hersingin á braut með sírenuvæli og undir lögregluvernd. – Eftir sátu pólitískir unglingar með sárt ennið; enda áttu þeir langt í land að ná pondus forsætisráðherra, í útliti alla vega, að mati öryggisvarða. Og þeir ættu að þekkja sitt heimafólk, ekki satt?

En hvernig verða menn forsætisráðherrar? Úr því að starfið er ekki auglýst, er ekki hægt að sækja um það. Hvað þá? Þú vinnur þig upp í flokknum. Skrifað stendur: Vertu trúr yfir litlu, og þér mun verða trúað fyrir miklu. En það er ekki nóg að vera einn af þeim í flokkseigendafélaginu. Lýðræðið gerir meiri kröfur. Þú verður að skírskota til fólks, laða að fylgi, lifa við skoðanakannanir og lifa af prófkjör og kosningar. Þá hjálpar að hafa verið frá ungum aldri í íþróttafélagi, helst handbolta eða fótbolta eða öðrum hópíþróttum. Prófkjör eru dýr.

Frambjóðandinn verður að lifa lífi sínu fyrir opnum tjöldum almenningsálitsins og undir kastljósi fjölmiðlanna. Þá skiptir kannski að lokum minna máli, hvað þú lærðir frekar en hver þú ert. Hefurðu vit á verkinu? Veistu, hvert þú vilt halda? Kanntu að varast vegleysur? Vill fólk leggja í hann með þér? Hvort ertu maður, sem vilt halda kyrru fyrir, fremur en að sækja á brattann? Eða ertu í eðli þínu umbótamaður, brautryðjandi, sem rýfur hefðir vanans og vekur menn jafnvel til dáða? Þori ég að segja það: Ertu hagvanur hversdagsmaður eða innblásinn hugsjónamaður? Er þetta eitthvað, sem hægt er að læra?

Verkfræðingar eða vonarstjörnur?

Sannleikurinn er sá, að lýðræðið hefur getið af sér marga leiðtoga, sem eru langt umfram það, sem vænta mátti af lögmáli meðalmennskunnar. Hér á það við, að margir eru kallaðir, en fáir eru útvaldir. Stundum reynir á, og þá verður að víkja miðlungsmennskunni til hliðar. Roosevelt var dæmi um það. Það þurfti heila heimskreppu – til að sannfæra Bandaríkjamenn um, að maður í hjólastól hefði þann kraft og þá bjartsýni til að bera, sem þurfti til að leiða þá út úr lífsháskanum. Og svo heila heimstyrjöld til að sanna, að þar var réttur maður á réttum stað á réttum tíma.

Ghandi var svo ekta í andófi sínu án ofbeldis, að honum tókst jafnvel að þagga niður í ofbeldisseggjum trúarofstækisins – um skeið, þótt þeim tækist að lokum að ná fram hefndum með því að myrða mannvininn og friðarpostulann. Og Mandela – sem járnfrúin Thatcher og kúrekinn Reagan kölluðu kommúnískan hryðjuverkamann, terrorista, allt þar til járnrimlarnir lokuðust að baki honum á Robbins Island – var seinasta von hvíta mannsins: Holdgervingur fyrirgefningarinnar. Er það ekki hin æðsta dyggð?

Deng Xiaoping, hugsuðurinn að baki kínverska kraftaverkinu, maðurinn sem hafði lifað af tortímingu Maos og horfði upp á ráðleysi Gorbachevs – ákvað að byrja smátt. Með tilskipun um, að bændur mættu selja afurðir sínar á markaði borganna, mínus tíund til ríkisins; og að útlendingar mættu gera tilraun með fjárfestingar og nýja tækni á sérstökum þróunarsvæðum. Því að það skipti ekki máli, hvort kötturinn væri hvítur eða svartur, ef hann veiddi mýsnar. Stefna hans hefur nú lyft fleira fólki úr örbirgð til bjargálna á skemmri tíma en áður hefur gerst í mannkynssögunni. Hvaða menntun hafði hann? Hann var afsprengi elstu siðmenningar í heimi; vann um stund við færiböndin hjá Renault í Frakklandi og varð seinna viðgerðarmaður á dráttarvélar, eftir að hann féll í ónáð í menningarbyltingunni. Svo var hann reyndar líka formaður Bridgesambandsins og sagður lunkinn í spilum.

Allt vekur þetta upp spurningu um, hvað forsætisráðherrar eiga að hafa fyrir stafni. Eiga þeir að vera sérfræðingar, eða generalistar – renaissancemenn? Eiga þeir að vera eins og Jimmy Carter, sem var bráðgreindur og kjarnorkuverkfræðingur að mennt, en drekkti sér í smáatriðum samviskuseminnar? Eða eins og Reagan, sem var annars flokks leikari í þriðja flokks kvikmyndum, en lék áreynslulaust rullu hins bjartsýna hómópata? Eiga þeir að vera eins og Hillary, sem reiknaði vonina um almannatryggingar handa Ameríkönum norður og niður og svipti þar með Bill, eiginmann sinn, vonarsæti í sögunni? Eða eiga þeir að vera eins og Obama, hið innblásna vitni vonarinnar, um að ameríski draumurinn hafi, þrátt fyrir allt, ekki snúist upp í martröð?

Ég veit það svo sem ekki. En hitt veit ég, að ekki er allt sem sýnist. Á mínum yngri árum eyddi ég ári í forysturíki jafnaðarstefnunnar í heiminum, Svíaríki. Þar var þá landsfaðir, Tage Erlander, sem var forsætisráðherra Svía í meira en aldarfjórðung. Mér kom hann þá fyrir sjónir sem gamall maður og þreyttur. Mér fannst því fara fjarri, að hann gæti kveikt einhverja hugsjónaglóð með fólki, eða fengið fólk til fylgilags, til að rísa yfir lágkúru eiginhagsmuna og leggja eitthvað á sig til að lyfta mannfélaginu upp úr músarholu þröngsýninnar. Að vísu gerði ég mér grein fyrir því, að ég var staddur í þjóðfélagi, sem hafði rutt brautina fyrir hinu norræna velferðarríki. En ég áttaði mig ekki á því þá, að þessi aldurhnigni og góðlátlegi karl er sennilega, þegar upp er staðið, einhver merkilegasti umbótamaður liðinnar aldar.

Umbótamaðurinn iðjusami.

Hann var ekki einn af þeim, sem var settur upp af valdakerfi til þess að gæta forréttinda og halda í horfi hinu óbreytta ástandi. Hann var umbótamaðurinn sem breytti þjóðfélaginu. Umbótamaðurinn var árisull. Áður en vinnudagur hófst, stefndi hann til sín öllum þeim, sem eitthvað höfðu til málanna að leggja, og spurði í þaula um það sem máli skipti. Til dæmis: Er það nóg að tryggja öllum jafnrétti til náms, konum jafnt sem körlum, ef venjur og hefðir þjóðfélagsins útiloka svo hina menntuðu konu frá þátttöku á vinnumarkaðnum til jafns við karla? Eigum við ekki að breyta þessu? Hvernig gerum við það?

Í dagbókum sínum lýsir hann því, hvernig vandinn var greindur, hvernig lausnir voru boðaðar, hvernig efnt var til umræðu til að breyta hugarfari hinnar karllægu verkalýðshreyfingar og hvernig sveitafélög um gervalla Svíðþjóð voru fengin til að líta á það sem þjóðfélagslega skyldu sína að sjá fyrir dagvistun barna í nafni jafnréttis kynja á nýrri öld. Ætli það hafi ekki tekið Tage tvö kjörtímabil að koma þessu til leiðar? Enginn kenndi þetta við byltingu. En þetta var svo byltingarkennd breyting að enn í dag eru fá þjóðfélög, þótt þau séu tæknilega og efnahagslega háþróuð, sem hafa komið því í verk enn í dag, sem Tage og hans menn gerðu fyrir meira en sextíu árum.

Sú hugmynd að virkja megi lýðræðið til að tryggja öllum jöfn tækifæri til þess að nýta hæfileika sína, án tillits til efnahags, þjóðfélagsstöðu, litarháttar, trúarbragða etc., flokkast ekki lengur undir byltingarkennda róttækni. Sumir lát eins og þetta sé núorðið sjálfgefið í okkar parti heimsins, sem það ekki er. Samt sem áður er það nú svo að þetta hefði aldrei orðið að veruleika, ef ekki hefði verið fyrir vit og strit umbótamanna af kalíber Tage Erlanders og samstarfsmanna hans.

Erlander mun hafa verið eðlisfræðingur og heimspekingur að mennt. Verra gat það svo sem verið. En hugmyndir sínar sótti hann í þá mannréttindahreyfingu fátæks fólks á 19. og 20. öld sem kennd er við jafnaðarstefnu – Social democracy. En það er alveg áreiðanlega merkilegasta þjóðfélagstilraun, sem gerð var á öldinni sem leið.

Svo er það að lokum sígild spurning, hvort leiðtoginn móti söguna eða hvort sagan framkalli þá leiðtoga, sem þjóðfélagið þarfnast á hverjum tíma. Er hægt að læra til forsætisráðherra? Ég held varla. En stundum lýsir þjóðfélagið eftir þeim leiðtoga, sem kall tímans krefst. Og spyr þá ekki að prófgráðum. Var það ekki ameríski háðfuglinn, Mark Twain, sem sagði: “I won´t let formal schooling interfere with my education”.