Ef hann hefði ekki haft þennan ólæknandi veikleika fyrir sögunni. Söguveiran lýsir sér í óaflátanlegri bókhneigð, þaulsætni á bókasöfnum og inniveru til óbóta. Þetta er þess vegna ókarlmannlegt sport með eindæmum, og hentar því best líkamlegum væsklum eða fólki með skerta fótavist. Það kom mér því þægilega á óvart, að þessi hermannlegi útivistargarpur væri samt sem áður þungt haldinn af söguveirunni. En það er hann og sennilega á háu stigi, og vonandi ólæknandi.
Ég kynntist honum fyrst sem slíkum, þegar hann var að skrifa um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða. Svo hafði ég gaman af, þegar hann sagði söguna af Ofur-Kára. Ég fylgdist með úr fjarska, þegar hann sagði af okkur hetjusögur úr landhelgisstríðum. Síðan hefur hann sagt okkur sögur af einum bragvísum Bessastaðabónda; hann hefur afhjúpað paranoju potintáta valdsins (hlerunarmálið) og býr sig nú undir að segja sögu hins fágaða heimsmanns af ætt Thoroddsena, sem villtist inn í innsta hring Sjálfstæðisflokksins og reyndist vera þar misskilinn snillingur í vafasömum félagsskap.
Guðni er smám saman að taka á sig mynd hins virta sagnfræðings: Hann er heiðarlegur í umgengni við “fórnalömb” sín, vandaður í úrvinnslu heimilda, forvitinn um það, sem vekur fólk til dáða, næmur á smáatriðin, sem eru krydd í tilveruna, og fundvís á hið fáránlega og spaugilega í mannlegri tilveru .Þessi heimanmundur ætti að duga honum til að skemmta okkur vel með nýjum sögum langt fram eftir öldinni.