GUÐNI JÓHANNESSON, FERTUGUR

Þegar maður þarf að forvitnast um unglinga (fólk undir fertugu) nú til dags, spyr maður venjulega um pabba og mömmu. Nú orðið er ég jafnvel farinn að spyrja um afa og ömmu. Þegar ég hafði fyrst veður af Guðna, kom hann mér kunnuglega fyrir sjónir, því að ekki einasta mundi ég eftir pabba hans og mömmu, heldur þóttist ég líka þekkja stóra bróður hans, Patrek, handboltakempu. Ég þykist reyndar viss um, að Guðni hefði sjálfur reynst liðtækur í alls kyns mannraunum, utan vallar og innan.

Ef hann hefði ekki haft þennan ólæknandi veikleika fyrir sögunni. Söguveiran lýsir sér í óaflátanlegri bókhneigð, þaulsætni á bókasöfnum og inniveru til óbóta. Þetta er þess vegna ókarlmannlegt sport með eindæmum, og hentar því best líkamlegum væsklum eða fólki með skerta fótavist. Það kom mér því þægilega á óvart, að þessi hermannlegi útivistargarpur væri samt sem áður þungt haldinn af söguveirunni. En það er hann og sennilega á háu stigi, og vonandi ólæknandi.

Ég kynntist honum fyrst sem slíkum, þegar hann var að skrifa um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða. Svo hafði ég gaman af, þegar hann sagði söguna af Ofur-Kára. Ég fylgdist með úr fjarska, þegar hann sagði af okkur hetjusögur úr landhelgisstríðum. Síðan hefur hann sagt okkur sögur af einum bragvísum Bessastaðabónda; hann hefur afhjúpað paranoju potintáta valdsins (hlerunarmálið) og býr sig nú undir að segja sögu hins fágaða heimsmanns af ætt Thoroddsena, sem villtist inn í innsta hring Sjálfstæðisflokksins og reyndist vera þar misskilinn snillingur í vafasömum félagsskap.

Guðni er smám saman að taka á sig mynd hins virta sagnfræðings: Hann er heiðarlegur í umgengni við “fórnalömb” sín, vandaður í úrvinnslu heimilda, forvitinn um það, sem vekur fólk til dáða, næmur á smáatriðin, sem eru krydd í tilveruna, og fundvís á hið fáránlega og spaugilega í mannlegri tilveru .Þessi heimanmundur ætti að duga honum til að skemmta okkur vel með nýjum sögum langt fram eftir öldinni.