FRÁ PRAG TIL VILNU – PUNKTAR ÚR UMRÆÐUM

Af hverju er ekkert lýðræði í Rússlandi?
Með byltingu er átt við það að nýr valdahópur ryður þeim gamla úr vegi, þannig að það verða skýr skil milli þess sem var og þess sem verður. Þetta gerðist ekki í Rússlandi 1991. Kannski er ástæðan sú að breytingin varð að mestu leyti friðsamleg. Gömlu valdaklíkunni – nomenklatúrunni – var ekki rutt úr vegi með vopnavaldi. Í raun og veru var sovétkommúnisminn bara einkavæddur; hann skipti um kennitölu ef svo má segja.

Gömlu sovétforstjórarnir urðu að ofurríkum ólígörkum, sem sölsuðu undir sig auðlindum þjóðarinnar. Og hverjir sitja í Kreml? Gamla KGB- klíkan er komin aftur og ræður nú lögum og lofum. Hún beitir sömu aðferðum og áður, enda kann hún ekkert annað: Hún starfar með leynd, hún stjórnar allri upplýsingamiðlun (censor) , hún beitir valdinu til að kúga einstaklinga til hlýðni (fjármálastofnanir, dómstólar). Og hún ræður fjölmiðlunum. Vissulega efnir hún til kosinga – en það gerði Stalín líka.Er þetta lýðræði? Nei, þetta er sú tegund valdstjórnar (e.authoritarianism) sem byggir á rússneskum hefðum, frá keisaranum til KGB. Eftir upplausnarástandið á tímum Gorbachevs og Yeltsins láta þessir menn stjórnast af sterkri löngun til að endurreisa völd og áhrif rússneska nýlenduveldisins. Olíubúmið hefur gert þeim kleift að fjármagna fyrirtækið. Vígvöllurinn, þar sem úrslitin munu ráðast, heitir Úkraína…

(Dr.Vytautas Radzvilas, heimspekiprófessor við Vytautas Magnus háskólann í Vilníus)

Kapítalistar í kratagervi…

Þetta sem Radzvilas segir að hafi gerst í Rússlandi er ekki einsdæmi.Við sjáum að eitthvað svipað hefur gerst hér í Litháen, ekki satt? Gamla elítan hefur skipt um nafn. Hún þarf að vísu að deila völdunum með fleirum. Og ástandið er ekki eins ógnvænlegt enda voru þið ekki heimsveldi með leyniþjónustu í líkingu við KGB… En er það samt sem áður ekki satt að gamli kommúnistaflokkurinn breytti bara um nafn? Þeir kalla sig núna sósialdemókrata… En eru þeir það? Þetta eru harðsvíruðustu kapítalistar sem fyrirfinnast. Þeir maka krókinn og eru harðir stuðningsmenn Bandaríkjanna. Þeir hafa sýnt mikla aðlögunarhæfni. Hvernig skyldi þeim líða á fundum Alþjóðasambands jafnaðarmanna?

(Dr. Francoise Thom frá Frakklandi).

Securitate er enn við völd…

Ceauscescu er að vísu dauður en böðlar hans í leynilögreglunni eru enn á sínum stað. Þegar þeir láta af störfum hjá hinu opinbera, fá þeir sína ríkispensjón. Fórnarlömbin liggja hins vegar óbætt hjá garði í sínum nafnlausu fjöldagröfum. Ríkið hefur ekki efni á að greiða afkomendum þeirra skaðabætur. Þegar setja átti upp opinbera rannsóknarnefnd til að rannsaka pólitísk morð á meintum andstæðingum kommúnistastjórnarinnar var valinn formaður fyrir nefndinni, sem var þekktur og afkastamikill böðull á vegum leyniþjónustunnar…Kommúnisminn í Rúmeníu var í sannleika sagt glæpafélag og það er enn við völd… Munurinn er bara sá að nú eru kommúnistarnir gengnir í NATO og Evrópusambandið.

(Dr. Marius Oprea frá Rúmeníu)

Á sáttmáli gleymskunnar að gilda…?

Eftir að ógnarstjórn Francos á Spáni var öll (1975) og Spánverjar byrjuðu að feta sig fyrstu skrefin í átt til lýðræðis, var gert eins konar þögult samkomulag um það sem kallað hefur verið “Pacto del olvido” – Sáttmáli gleymskunnar. Það átti að gleyma fortíðinni og hugsa bara til framtíðar. Látum hina dauðu grafa hina dauðu, ekki ýfa upp sárin. Galllinn við þetta er sá að þeir sem frömdu þessa glæpi sátu áfram við völd. Þeir réðu lögum og lofum í kerfinu. Og nú er sáttmáli gleymskunnar að bresta á Spáni. Fólk er farið að heimta að sannleikurinn sé sagður og að fórnalömbin fái uppreisn æru. Þetta er eins og í Suður-Afríku…

(Jonathan Steel, Manchester Guardian, Bretlandi)

Hvað með Palestínumenn…?

Við erum spurð hvers vegna Eystrasaltsþjóðirnar, smáþjóðir sem voru hernumdar og börðust einar og óstuddar fyrir frelsi gegn ofurefli hernámsveldisins – hvers vegna við styðjum ekki örvæntingarfulla baráttu Palestínumanna gegn hernámi Ísraels, sem er eitt mesta herveldi heimsins? Ætli skýringarnar séu ekki aðallega þessar: Fyrst er það hin sögulega sekt. Leiðtogar Eystrasaltsríkjanna eru viðkvæmir fyrir ásökunum um að við útrýmingu gyðinga í þessum löndum á stríðsárunum hafi þýsku nazistarnir í einhverjum tilvikum notað heimamenn í sinni þjónustu til óhæfuverka… Og svo er það leitin að öryggi undir vernd Bandaríkjamanna. Við erum enn dauðhrædd við Rússa, við vitum nákvæmlega hvað fyrir þeim vakir: Að endurreisa heimsveldið.Evrópusambandið skilur ekki Rússa og við treystum því varlega að Evrópusambandið sé tilbúið að sýna hörku ef með þarf… Þess vegna lítum við til Bandaríkjanna og NATO. Við vitum að það er ekki vel séð í Bandaríkjunum að gagnrýna Ísrael.

(Dr. Antanas Kulakauskas, prófessor frá Litháen)

Hvaðan koma allar þessar frelsishetjur…?

Hvaðan koma allar þessar frelsishetjur? Merkilegt hvað maður sér hérna mörg ný andlit. Hvar var allt þetta fólk þegar við vorum að hlaða götuvígin og safna liði til að verja Seimas í janúar 1991, þegar sovésku skriðdrekarnir fóru ógnandi um götur og torg…?

(Ramunas Bogdanas, aðstoðarmaður Landsbergis 1990-1991)