ÍSLAND Í AFRÍKU

Þótt þær fjárhæðir, sem hinir ríku Íslendingar láta af hendi rakna til þróunaraðstoðar við fátækar þjóðir á fjárlögum ár hvert séu svo smáar, að þær mælist varla í alþjóðlegum samanburði, hafa Íslendingar samt sem áður leitast við að leggja eitthvað af mörkum til þróunarhjálpar á undanförnum áratugum.

Einkum hafa Íslendingar látið til sín taka í Afríku (t.d. í Namibíu, Malawi og Mosambique, Uganda og víðar), en einnig í Mið-Ameríku (t.d. í Nikarakva og El Salvador). Við höfum helst reynt að beita okkur á sviðum þar sem við búum yfir umtalsverðri reynslu og sérþekkingu: Í sjávarútvegi og við nýtingu jarðvarma
til hitaveitu eða orkuframleiðslu.

Til þess að stýra þessari þróunaraðstoð rekum við stofnun sem heitir Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ, en á ensku ICEIDA) og heyrir undir utanríkisráðuneytið. Þróunarsamvinnustofnun hefur sérhæft starfslið í sinni þjónustu og starfstöðvar í nokkrum löndum. Hvað er þetta fólk að gera? Er þeim takmörkuðu fjármunum, sem eru til ráðstöfunar, vel varið? Hefur þróunaraðstoð Íslendinga á undanförnum áratugum skilað sýnilegum og mælanlegum árangri? Eða er þessi þróunaraðstoð ekki einasta gagnslaus heldur beinlínis skaðleg eins og hægriöfgamennirnir halda fram?

Nýlega áttum við Bryndís þess kost að kynna okkur af eigin reynslu starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Malawi í sunnanverðri Afríku. Á næsta ári verða tuttugu ár liðin frá því að þróunarsamvinna hófst á milli ÞSSÍ og stjórnvalda í Malawi. Það væri reyndar kjörið tilefni til úttektar á því, hverju hefur verið til kostað og hvaða árangri það hefur skilað. Reyndar lýsum við hér með eftir því að almenningi á Íslandi verði miðlað meiri upplýsingum um þetta starf almennt, svo að um það geti vaknað málefnalegar umræður. Til þess að þróunaraðstoð af þessu tagi geti skilað árangri til frambúðar þarf hún að njóta skilnings og velvildar skattgreiðenda í stuðningslandinu, ekki síður en þeirra sem verið að reyna að rétta hjálparhönd í viðtökulandinu.

Berfætlingar á skólabekk

Eftir að hafa náð góðum árangri í Namibíu við sjómannafræðslu, fiskileit og fiskveiðar og að einhverju leyti við markaðssetningu sjávarafurða (sem nú skilar Namibíumönnum næstmestu útflutningstekjum á eftir demöntum), var ákveðið að efna til samstarfs af sama tagi við Malawi. Þetta var gert að höfðu samráði við aðrar Norðurlandaþjóðir sem reyna að skipta með sér verkum í þróunaraðstoð á þessum slóðum.

Malawi er land á stærð við Ísland, en íbúafjöldinn er sagður á bilinu tíu – fjórtán milljónir. Nákvæmari mannfjöldatala er ekki til af þeirri einföldu ástæðu að manntal hefur ekki farið fram, þótt það sé nú yfirstandandi. Ein helsta matarkista Malawibúa er Lake Malawi, gríðarstórt vatn sem telst vera um þriðjungur af stærð landsins. Þótt Malawi sé landlukt eru ærin rök fyrir því að aðstoða þá við að nýta auðlindir vatnsins betur en hingað til.

Sú aðstoð snýst því um leit að og mælingu á fiskistofnum, rannsóknir á lífríki vatnsins, leit að nýjum fiskimiðum á meira dýpi en með ströndum fram og tilraunir með ný veiðarfæri. Heimamenn hafa stundað veiðar á vatninu frá örófi alda í sjálfsþurftarbúskap.Hvort tveggja, skipakostur og veiðarfæri, geta vart verið frumstæðari: Eintrjáningur með lítið kastnet, enda aflinn eftir því. Ef það tækist að koma Malawimönnum upp á sama tæknistig við veiðar, vinnslu og markaðssetningu sjávarafurða og Namibíumönnum, væri það stórt skref fram á við í efnahagsaþróun landsmanna.

Annað svið sem Íslendingar hafa látið til sín taka á, er bygging grunnskóla og námskeiðahald til fræðslu fullorðinna, til þess að útrýma ólæsi. Íslendingar hafa byggt eða endurreist um tuttugu grunnskóla í því héraði við vatnið þar sem ÞSSÍ er starfandi. Rekstur skólanna er hins vegar í höndum skólayfirvalda heimamanna. Heimsókn okkar í nokkra þessara skóla verður okkur ógleymanleg. Sjálfar byggingarnar voru hreinar og aðlaðandi. En þegar komið var inn í sjálfa skólastofuna lá við að okkur féllust hendur. Kennarinn – oftast nær kona – stóð frammi fyrir 90-120 berfætlingum í bekkjardeild. Þarna var ekkert rafmagn, engar símalínur og þ.a.l. engar tölvur. Það var m.a.s. skortur á bréfsefni og skriffærum.

Ljós í mykri

Á þessum tíma árs er hávetur í trópisku Afríku og mykrið skellur á um sexleytið síðdegis. Og þvílíkt svartamyrkur þótt stjörnuskari á himni lýsi upp svartnættið þegar himinn er heiðskýr. Þá er ekkert ljós til að lesa við. En íslenskir aðilar (Fjölbrautarskóli Suðurnesja) eru að gera tilraun með sólarorkupanel sem dugir til ljósa fyrir bókasafnið. Þar geta afrískir bókaormar lesið fram á nótt í bókum sem eru að stórum hluta gjöf frá börnunum í Mýrarhúsaskóla, sem að sögn söfnuðu fyrir bókagjöf.

Fyrir tveimur áratugum stóð í opinberum skýrslum að einungis 4% kvenna í Malawi væru læsar og skrifandi. Þetta skólastarf, sem ÞSSÍ hefur gert mögulegt, mun áreiðanlega breyta því. En er stjórnvöldum í Malawí treystandi til að byggja upp framhaldsskólakerfi á þessum grunni? Það er satt að segja fátt sem bendir til þess. Í Blantyre, sem er önnur helsta borg landsins, fyrir utan höfuðborgina Lilongwe, er að sögn ágætur læknaskóli á breskum standard. Nærri því allir sem þaðan hafa útskrifast á undanförnum árum, eru sestir að í Evrópu eða Bandaríkjunum. Enn eitt dæmi um að auðurinn – þ.m.t. mannauðurinn – streymir frá fátæku þjóðunum til hinna ríku. Menntað fólk, sem er samkeppnisfært á heimsvísu, lætur ekki bjóða sér þau sultarlaun, sem í boði eru í þróunarlöndum.

Íslendingar hafa líka byggt sveitarsjúkrahús, sem er í samstarfi við héraðssjúkrahús þessa landshluta. Þar var fylgt sömu stefnu um það að afhenda sjúkrahúsið heimamönnum til rekstrar, þótt íslenskir læknar sinni þar ráðgjafar- og eftirlitshlutverki. Vandamálin sem við er að fást varðandi heilsugæslu og umönnun sjúkra í landi hinna snauðu eru hrollvekjandi. Ásóknin er yfirþyrmandi. Það eru ekki þrir sjúklingar um hvert herbergi heldur um hvert rúmstæði. Í sjúkrahúsinu er hvorki eldhús né mötuneyti, svo að ættingjar sjúklinga elda fyrir þá hver í sínu horni. Af þessu hlýst óviðráðanlegur óþrifnaður, svo að öðru hverju þarf að afeitra sjúkrahúsið af kakkalökkum og annarri óværu.

Að bjarga því sem bjargað verður

Hvernig á að gefa blóð ef annar hver maður er grunaður um að vera eyðnismitaður? Hvernig er hægt að bjarga mannslífum án aðgangs að blóðbanka? Hvernig er hægt að halda sjúkrahúsi hreinu án þvottahúss? Hvernig er hægt að bjarga malaríusjúklingum án lyfja? Á sama tíma og velmenntaðir læknar frá Malawí setjast að í London og Chicago, reyna læknatæknar (með ca. tveggja ára nám að baki) og lífsreyndar konur að bjarga því sem bjargað verður.
En í landi vannæringar og jafnvel hungurs, malaríu og eyðni, blaktir mannlífið á veiku skari.

Barnadauðinn er skelfilegur og lífslíkurnar tæpar. Afleiðingarnar blasa við í allri sinni eymd á göngum sjúkrahússins. Hvað getur einn læknir gert á meðan ekki er ráðist að rótum vandans? Ræturnar liggja djúpt í hinu hefðbundna ættbálkasamfélagi Afríkumanna og verður ekki breytt skyndilega með neinum töfralausnum. Hefðbundinn hugsunarháttur er á þá leið að það þurfi að hlaða niður fjölda barna af því að þau deyja svo mörg við fæðingu eða á barnsaldri.

Það þarf að eiga mörg börn, því að þau eru ókeypis vinnuafl og þau sem lifa af eiga að sjá fyrir foreldrunum í ellinni. Fólkið treystir því einfaldlega ekki að einungis tvö börn dugi til að tryggja afkomu fjölskyldunnar. Það er ekki langt síðan að þetta var ríkjandi hugsunarháttur okkar Íslendinga líka. Hugsunarháttur af þessu tagi breytist ekki fyrr en með iðnþróun og borgarvæðingu, sem tekur sinn tíma.

En eitt er víst: Leiðin út úr vítahring örbirgðarinnar er vörðuð skólagöngu, menntun og réttum upplýsingum um orsakir sjúkdóma og vannæringar. Það þarf að fjárfesta í fólki. Til þess duga ekki markaðslausnir einar sér. Reynsla allra þeirra þjóða sem brotist hafa út úr vítahring örbirgðarinnar til bjargálna á seinustu þrjú hundruð árum eða svo er sú, að ríkisvaldið hafi veigamiklu hlutverki að gegna. En það getur því aðeins gerst að ríkisvaldið búi við stöðugt aðhald af upplýstu lýðræði. Fræðsla um getnaðarvarnir er t.d. lífsnauðsyn, því að hún dregur úr barnafjöldanum og hjálpar móðurinni með léttari framfærslubyrði og ókeypis aðgangi að skólum að koma börnum sínum til mennta. Ekki geta þau öll farið úr landi?

Að ráðast að rótum vandans

ÞSSÍ er líka að reyna að ráðast að rótum vandans. Það snýst um vatnsbóla- og hreinlætisverkefni stofnunarinnar við Apavatn (Monkey Bay).Verkefnið snýst um að grafa fyrir grunnum og byggja vatnsból í a.m.k. 150 þorpum og bora fyrir vatni á allt að þrjátíu stöðum uppi í fjöllum þar sem lengra er niður á grunnvatnið. Þar að auki á að koma upp stöðluðum salernum með hreinlætisaðstöðu á jafnmörgum stöðum. Öllu þessu á að koma í verk fyrir upphaf regntímans í desember n.k. þegar allt fer á kaf í vatnselg.

Af hverju er þetta svona mikilvægt? Það er vegna þess að mörg mannanna mein í þorpum Afríku eiga rætur að rekja til þess að fólkið á ekki lengur aðgang að hreinu vatni. Í stað þess að vera lífsins lind er óhreint yfirborðsvatn oft þvert á móti gróðrastía smitsjúkdóma. Moskítóan sem breiðir út malaríuna þrífst í kyrrstæðu og göróttu vatni, sem og tse-tse flugan, sem gerir mörg ræktarlegustu héruð Afríku óbyggileg mönnum vegna sjúkdómsfaraldra sem hún breiðir út. Kóleran, sem gýs upp með fárra ára millibili og strádrepur fólk eins og flugur þrífst í þessu sama umhverfi.

En hvers vegna gera stjórnvöld í Malawi ekkert í málinu? Ein skýringin er sú að sjálfsþurftarbúskapur þorpsbúa leyfir engu umfram lífsnauðsynjar til þess að borga skatta. Sem minnir okkur á að skattar eru það verð sem við borgum fyrir að búa í siðmenntuðu samfélagi. U.þ.b. 60% af fjárlögum ríkisins í Malawi er að sögn gjafafé. En Íslendingar hafa hingað til fylgt skynsamlegri aðferðarfræði í sinni þróunarhjálp. Við leggjum ekki fram fé inn í fjárlög viðtökuríkisins og freistum því ekki þjófanna sem þar kunna að liggja á fleti fyrir. Þvert á móti. Við krefjumst þess að stjórnvöld í Malawi leggi fram fjármuni, þótt í litlum mæli sé, í okkar samstarfsverkefni, þannig að þau telji sig líka bera einhverja ábyrgð á framkvæmdinni.

Varðandi vatnsbólin er þess krafist að heimamenn leggi fram mannskap við að grafa fyrir brunnum og steypa upp vatnsból, enda verða þeir sjálfir að bera ábyrgð á viðhaldi mannvirkisins í framtíðinni. Það er gerður samstarfssamningur við hvert þorp um vatnsbólaverkefnið. Og eitt enn: Til þess að fá vatnsból í þorpið, verða þorpsbúar fyrst að hafa sjálfir komið sér upp hinu staðlaða salerni með hreinlætisaðstöðu í þorpinu. Frárennslisvatnið frá brunninum er síðan nýtt til að rækta bananatré. Andvirði banananna stendur undir rekstri og viðhaldi mannvirkisins.

Það er því ekkert gefið nema því aðeins að viðtakendur sýni einhvern lit á eigin framtaki á móti. Þetta er rétt stefna. Það ber að halda fast við hana, hvað svo sem líður tískusveiflum í hugmyndum um að viðtakendur þróunarhjálpar eigi sjálfir að taka við fénu og bera ábyrgð á framkvæmdinni. Það hefur ekki gefist vel. Tilgangur þróunarhjálpar er að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft, en ekki að venja menn við að verða til frambúðar háðir ölmusugjöfum.