Í MINNINGU BRYNJU

Þegar Flauelsbyltingin hafði fleytt Vachlav Havel upp í forsetaembætti þáverandi Tékkóslóvakíu, þurfti hann að festa hið nýfrjálsa lýðveldi í sessi með því að heimsækja heiminn. Leikregur valdsins kváðu á um að fyrsti áfangastaður hins nýkjörna forseta skyldi vera Washington D. C. – svört borg á bökkum Potomac árinnar í Virginíu. Þar stóð skrifað að höfuðborg heimsins ríkti milli Hvíta hússins og Capitol Hill. Havel hlýddi leikreglunum og fór þangað sem fyrir var mælt að hann skyldi fara.

En hann hafði ekki verið “dissident” áratugum saman fyrir ekki neitt. Hann var leikskáld, gagnrýnandi og andófsmaður gegn pólitískum alzheimer sovésku leppanna sem ríktu á bökkum Moldár í skjóli Rauða hersins. Hann hafði verið tekinn úr umferð og sýningar á verkum hans voru bannaðar. Sjáflur hafði hann séð fæst af verkum sínum á sviði. Það rifjaðist upp fyrir honum að íslenskur leikstjóri hafði beitt sér fyrir þýðingu á verkum hans og uppfærslu á þeim í íslenska Þjóðleikhúsinu. Þessi leikstjóri var Brynja Ben. Í viðurkenningarskyni – eða var það bara fyrir forvitnisakir – gerði Havel lykkju á leið sína á leiðnni til Washington. Hann fór fyrst til Reykjavíkur. Þar fékk hann að sjá í fyrsta sinn uppfærslu á “Uppbyggingunni”, tvíræðri ádeilu á hugsjón sem snýst upp í andhverfu sína; draumi sem endar í martröð. Þetta verk hafði þá verið bannað í rúma tvo áratugi í heimalandinu. Að mati undirritaðs er þessi pólitíska ádeila besta sviðsverk höfundarins. Auðvitað gat hann ekki staðist freistinguna að sjá uppfærslu Brynju í eigin persónu. Flutningur verksins á íslensku virtist ekki hamla skilningi skáldsins á eigin höfundarverki.

Þetta var eftirminnileg stund fyrir okkur öll sem upplifðum hana. Þarna sat andófsmaðurinn, sem valdið hafði sent í svartholið. Nú var hann orðinn fulltrúi valdsins og horfði sem slíkur á höfundarverk andófsmannsins. Andófsmaðurinn sem var orðinn að forseta hafði með í för heila hersingu af attaníossum valdsins: Ráðherrar, erlendir sendiherrar, lífverðir og aðrir áhangendur. Havel á aðra hönd sat íslenski leisktjórinn sem hafði fært upp höfundarverk hans samkvæmt sinni eigin lífsreynslu og skilningi. Hinum megin sat bandaríski sendiherrann við hirð forsetans í Prag, Shirley Temple; barnastjarna úr Hollywood og beibígörl hins ameríska draums, sem hafði keypt sendiherraembættið sér til afþreyingar. Ég velti því fyrir mér þar sem ég sat fyrir aftan þau á næsta bekk hvort leikskáldið kynni að meta tvíræðnina eða hvort forsetinn, fulltrúi valdsins, þættist hvorki sjá né heyra.

Þessi eftirminnilega uppákoma í Þjóðleikhúsinu lýsir vel karakter Brynju Ben. Hún var dágóð leikkona en miklu betri leikstjóri. Sem leikstjóri naut hún þess að hún var víðlesin og hugmyndarík en um leið fæddur stjórnandi. Þessir eiginleikar hennar náðu yfirhöndinni oftar en einu sinni á leikhúsferli hennar. Dæmi um þetta var Inuk. Ég veit ekkert hvernig það varð til. Hitt þykist ég vita að margir góðir menn lögðu þar hönd að verki, þeirra á meðal Sveinn Einarsson, leikhússtjóri og Haraldur Ólafsson, mannfræðingur. Drifkrafturinn að ævintýrinu og leikstjóri sýningarinnar var Brynja Ben. Með þetta verk fór hún sigurför vítt og breitt um heiminn.

Löngu seinna, eftir að Stefán Baldursson, þáverandi Þjóðleikhússtjóri, hafði forheimskað sig á því að reka Brynju í blóma lífs og á hátindi skapandi ferils frá Þjóðleikhúsinu, var Brynja svo sem ekki lengi að erfa óverðskuldaða lítilsvirðingu. Hún lagði út í annað ævintýri. Það heitir “Ferðir Guðríðar”.

Árið 2000 efndu ríkisstjórnir Norðurlanda til samstarfs við Smithsonian safnið í Washington D.C. um að minnast þúsund ára afmælis landafunda norrænna manna í Ameríku. Það var mikið í þetta lagt. Opinberir aðilar á Norðurlöndum styrktu sýningu á vegum Smithsonian safnsins sem hét: Vikings – the North Atlantic Saga. Þessi sýning fór vítt og breitt um helstu borgir Norður-Ameríku næstu árin. Þessu til viðbótar var boðið upp á opinbera styrki til að framleiða kvikmyndir eða standa fyrir menningarviðburðum vítt og breitt um borgir Bandaríkjanna og Kanada. Sjálft stóð íslenska ríkið fyrir meira en tvö hundruð menningarviðburðum í að minnsta kosti sjötíu borgum í Bandaríkjunum og Kanada. Vandinn við þetta var sá að boðskapurinn var á tvist og bast því að menningaryfirvöld Norðurlandaþjóða voru engan veginn á einu máli um hin meintu sögulega afrek hinna norrænu manna í nýja heiminum. Var Leifur maður íslenskur eða bara norskur útlagi? Hver var hlutur Dana og Svía – eða Finna – í þessari sögu? Menn höfðu greinilega ekki unnið heimavinnuna sína.

Brynja Ben leysti málið. Hún samdi leikritið “Ferðir Guðríðar”, sem er einleiksþáttur um víðförulustu konu heims á miðöldum, Guðríði Þorbjarnardóttur. Guðríður átti ættir að rekja til Noregs en var keltnesk í móðurætt og fædd á Íslandi. Hún var þátttakandi í íslenska landnáminu á Grænlandi. Tvívegis fór hún í rannsóknarleiðangra til meginlands Norður-Ameríku, fyrst með bróður Leifs og síðar með eiginmanni sínum, Þorfinni Karlsefni. Snorri Þorfinnsson, sonur þeirra Guðríðar og Karlsefnis er fyrsti Evrópumaðurinn sem fæddur er á meginlandi Ameríku, hálfu árþúsundi áður en aðra Evrópumenn, Spánverja, Ítali og Breta rak á þær fjörur.

Brynja samdi leikritið og leikstýrði því. Hún hafði upp á og leikstýrði leikkonum sem gátu flutt verkið á íslensku, ensku, Norðurlandamálum. frönsku og spænsku. Þetta var Inuk í öðru veldi og fór sigurför um nýja heiminn, Norðurlönd og víðar um veröldina.

Þetta sýndi enn einu sinni að Brynju var ekki fysjað saman. Þótt ríkið ræki hana úr þjónustu sinni, þurfti það að leita á hennar náðir þegar mikið lá við á landafundaárinu. Og hún var ekki að erfa smámuni, hún Brynja.

Ég er hér að lýsa miklum karakter, persónu sem var fyllilega jafnoki hinna bestu og lét sig ekki muna um að láta að sér kveða, svo að eftir væri tekið bæði heima og erlendis. Sjálfur fylgdist ég með þessu öllu bara úr fjarlægð. En allt frá því að ég naut þeirra forréttinda að fá að vera bekkjarbróðir Brynju í Skeggjabekk í Laugarnesskólanum upp úr miðri seinustu öld vissi ég að eitthvað mikið stóð til. Og arfleifðin blívur. Með höfundarverki sínu og óviðjafnanlegum stjörnuleik í Mr. Skallagrímsson hefur sonur Brynju og Erlings, Benedikt, sýnt, að þar er ekki tjaldað til einnar nætur.
Við Bryndís kveðjum Brynju skólasystur okkar með ást, söknuði og djúpri virðingu.