Á HÆTTU SVÆÐI?

“Við eigum ekki að ræða Evrópusambandsaðild á forsendum tímabundins efnahagsvanda” (leiðari í Mbl. 10.05.08)
Hvaðan kemur ritstjóra Morgunblaðsins tyftunarvald til þess að banna almenningi á Íslandi, sem er þungt haldinn kvíða um atvinnu sína, afkomu og eignir, að ræða allar hugsanlegar lausnir á þeim vanda? Og þá ekki síst aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru í stað krónu. Það er nefnilega spurning um lífskjör almennings í framtíðinni.

Evrópusambandsaðild og upptaka evru er nefnilega lífskjaramál. Það snýst um að losna við tíðar, ófyrirsjáanlegar og óútreiknanlegar sveiflur á gengi gjaldmiðilsins – og þar með á lífskjörunum. Þetta snýst um verðstöðugleika. Það snýst um lægra verðlag á lífsnauðsynjum. Það snýst um lægri vexti og þar með viðráðanlegri greiðslubyrði af lánum.

Ritstjórinn segir að fólk eigi bara að eyða minnu og spara meira. Gjaldmiðill sem heldur ekki verðgildi sínu, hvetur ekki til sparnaðar. Hann ýtir undir eyðslu. Í verðbólguþjóðfélagi er geymdur eyrir glataður. Þetta skýrir m.a. hvers vegna lífsstíll Íslendinga er allt öðru vísi en Svisslendinga. Það er helst til seint að vanda um við Íslendinga fyrir eyðslusemi og óforsjálni þegar þeir eru sokknir í skuldir. Sá sem vill fá Íslendinga til að hegða sér eins og Svisslendinga ætti a.m.k. að sýna þeim þá hugulsemi að fá þeim í hendur nothæfan gjaldmiðil.

Hagstjórnarmistökin.

Ég man ekki eftir því að jafnmargir hafi orðið fyrir jafnmiklum lífskjaraskelli á jafnskömmum tíma og nú. Man ég þó, rétt eins og ritstjórinn, flestar efnahagskollsteypur sem Íslendingar hafa gengið í gegnum upp úr miðri seinustu öld. Matarreikningurinn snarhækkar. Greiðslubyrði af lánum þyngist frá mánuði til mánaðar. Og bensínverð bílaþjóðarinnar, sem býr ekki við nothæfar almannasamgöngur, rýkur upp úr öllu valdi. Verðbólgan er komin á skrið. Kaupmátturinn mun fara rýrnandi á næstu mánuðum. Og það sem verra er: Almenningur eygir enga útgönguleið. Og stjórnvöld virðast standa ráðþrota frammi fyrir vandanum.

Hvers vegna er svona illa fyrir okkur komið? Meginskýringin er sú að við fórum illa að ráði okkar í uppsveiflunni frá 2002 til 2007. Það var í lagi að ráðast í stórvirkjun handa nýrri álbræðslu fyrir austan. Hagkerfið réði nokkurn veginn við það. En það var ekki í lagi að opna í framhaldinu allar gáttir fyrir ódýrt erlent lánsfé með milligöngu bankakerfisins. Það leiddi til fasteignabólunnar sem nú er sprungin. Seðlabankinn auðveldaði þetta meira að segja með rýmkun bindiskyldu í stað þess að taka í taumana.
Hækkun stýrivaxta dugði fyrirsjáanlega ekki til að stöðva þetta. En hún hafði þveröfug áhrif. Himinháir vextir hækkuðu gengi krónunnar, örvuðu eyðslu og innflutning og juku viðskiptahalla og skuldasöfnun. Aðgerðir Seðlanbankans juku, með öðrum orðum, á óstöðugleikann. Og vaxtamunurinn milli krónunnar og annarra gjaldmiðla gerði Ísland skyndilega (og í fyrsta sinn í sögunni) að skotmarki (eða fórnarlambi) hrægamma gjaldmiðlabrasksins.

Á hættusvæði

Við erum óafvitandi komin í gíslingu óábyrgustu afla hins alþjóðlega fjármálakerfis. Við erum varnarlaus á hættusvæði. Þetta er afleiðingin af sjö ára tilraun okkar með sjálfstæða peningamálastjórn sem byggir á krónunni. Þetta hefði einfaldlega ekki gerst ef við hefðum verið hluti af evrusvæðinu og haft seðlabanka Evrópu að bakhjarli.

Lausnirnar? Þær snúast um það að koma okkur í skjól af hættusvæðinu, áður en verra hlýst af. Bakvirkir samningar við aðra seðlabanka og gjaldeyrislán á afarkjörum. – Þetta eru neyðarúrræði. Ástandinu má líkja við skip sem siglt hefur verið í strand. Það er ævinlega rándýrt að þurfa að leita til alþjóðlegra björgunarfyrirtækja til að ná skipinu aftur á flot. Vonandi tekst okkur það. Úr því sem komið er tjóar lítt að erfa skaðann. Hann er orðinn hlutur. En í guðanna bænum: Reynum að læra af óförum okkar.

Það er laukrétt sem Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og Seðlabankastjóri segir í fínum greinum í þessu blaði: Frekari frestur vinnur gegn Íslendingum. Og nota bene: Lærum af reynslu Svía og Finna. Báðar þessar þjóðir fóru í gegnum hrikalega kollsteypu – sem var afleiðing gjaldmiðils- og bankakreppu – á árunum um og upp úr 1990. Báðar þessar þjóðir létu sér tímabundinn efnahagsvanda að kenningu verða. Þær forðuðu sér af hættusvæðinu og gengu í Evrópusambandið.