Elsku barn: Að finna til í stormum sinnar tíðar

Borgarleikhúsið frumflytur ELSKU BARN sanna sögu eftirDennis Kelly

Leikstjóri: Jón Páll Eyjólfsson
Leikmynd og búningar: Ilmur Stefánsdóttir
Lýsing: Þórður Orri Pétursson
Tónlist og hljóðmynd: Hallur Ingólfsson

Leikendur:
Unnur Ösp Stefánsdóttir
Halldóra Geirmundsdóttir
Benedikt Erlingsson
Valur Freyr Einarsson
Hallgrímur Ólafsson
Nína Dögg Filippusdóttir


Frá Borgarleikhúsinu

Það var hálfgerður hrollur í mér, þegar ég sneri heim á leið að lokinni frumsýningunni. Það var ekki bara veðrið, sem vakti mér þennan hroll, heldur var það upplifun kvöldsins. Elsku barn er ágengt, miskunnarlaust og hreinskiptið verk. Það snertir mann inn í kviku og kemur róti á tilfinningarnar. Auk þess er það snilldarlega skrifað, samtölin bæði raunveruleg og sannfærandi – óþægilega sannfærandi – (þó að flæðið sé mjög þægilegt!) Það fjallar um sannleikann í samskiptum fólks, og hvernig má afvegaleiða sannleikann sjálfum sér til framdráttar.

Það segir frá ungri konu, Donnu,sem verður fyrir þeirri ógæfu að tvö börn hennar deyja vöggudauða. Dauði seinna barnsins vekur upp grunsemdir, sem verða til þess að hún er dregin fyrir dóm og síðan sett á bak við lás og slá.. Málinu er áfrýjað til hæstaréttar og eftir fjórtán mánaða dvöl í fangelsinu er Donnu sleppt lausri og hún reynir að byrja nýtt líf.

Inn í þessa sögu blandast líf móður stúlkunnar, metnaðarfullrar framakonu, sem hugsar fyrst og fremst um eigin hag og hvernig hugsanlega megi hagnýta sér neyð annarra – í þessu tilfelli dótturinnar – til að hagræða sannleikanum og koma sjálfri sér á framfæri á pólitískum vettvangi.

Í leikritinu er fjallað á mjög svo hreinskilinn hátt um samband móður og dóttur. Það er augljóst, að Donna elskar móður sína, en sú ást er ekki endurgoldin. Móðirn er of upptekin af sjálfri sér og sínu framapoti. Hún hvorki sér né heyrir ákall barna sinna, Donnu og bróðurins, hún skilur ekki þörf þeirra á leiðsögn og vernd í válegum heimi.

Fyrir mér er það augljóst, að móðirin ber mikla ábyrgð á óförum barna sinna. Hún er hin dæmigerða nútímakona, sem er stöðugt undir þrýstingi frá samfélaginu um að fara út á vinnumarkaðinn, vera virk í þjóðfélaginu, eins og það heitir, og fórna þar með mörgu af því sem mestu máli skiptir í lífinu. Hún fórnar börnum sínum (og barnabörnum) á altari frægðarinnar.

Í þessu leikriti komumst við ekki að neinni niðurstöðu. Við fáum engin svör við því, hvort Donna er sek eða saklaus. Myrti hún börnin sín, eða dóu þau vöggudauða? Við verðum eiginlega að spyrja okkur sjálf. Auðvitað óskum við þess, að Donna sé saklaus – eins og hún segir sjálf.

En hins vegar kemur til greina, eftir allt sem á undan er gengið, að Donna hafi – af ótta við framtíðina, hlýnun jarðar, bráðnun jökla, eldgos og jarðskjálfta, sem skilja eftir sviðna jörð – allt fyrir heimsku og græðgi mannanna – kosið að gefa börnum sínum frelsi frá þessum gerspillta heimi og kæft þau í vöggu sinni. Mér finnst það ekkert fjarstæðukennt, því að Donna er áhrifagjörn og tilfinningarík mannvera, sem finnur til í stormum sinnar tíðar.

Og svo að ég haldi áfram að tala um Donnu, þá verð ég að segja, að Unnur Ösp slær loksins í gegn (að mínu viti) í hlutverki þessarar umkomulausu stúlku. Hún er svo sannfærandi , svo einlæg og heiðarleg, að unun er á að horfa. Hún gefur sig algerlega á vald hlutverkinu og upplifir Donnu frá innstu hjartans rótum. Eða þannig upplifði ég það.

Halldóra Geirharðsdóttir klikkar auðvitað aldrei, en í hlutverki Lynn, móður Donnu, er hún aldeilis óborganleg. Halldóra dregur upp skýra mynd af þessari greindu, metnaðarfullu og glæsilegu móður. Halldóru tekst að gera hana mjög fráhrindandi, en samt aðlaðandi á pörtum. Hún er mennsk, en það er bara mjög djúpt á því. Hún er sú manngerð, sem gæti hugsanlega lagast með árunum, lært af reynslunni.

Það er erfitt fyrir Nínu Dögg að þurfa að gera sér mat úr tveimur litlum hlutverkum. (Fyrst datt mér auðvitað í hug, að slúðurdálkablaðakonan hefði fallið fyrir falsspámanninum, en svo sá ég, að það hefði auðvitað aldrei komið til greina). Engu að síður sópar alltaf að Nínu Dögg, því að hún hefur til að bera reisn og þokka, sem er ekki öllum gefinn.

Það vill til, að Benedikt Erlingsson hefur skýra framsögn og góðan talanda, því að hann leikur vísindamanninn, sem talar sig inn á réttarkerfið og er næstum þvi búinn að eyðileggja líf fjölda kvenna. Benedikt fér lett með að tala sig inn á okkur líka með sannfæringakrafti og mátulegum eldmóði.

Mér fannst Jim (Valur Freyr Einarsson) alveg dæmigerður aðstoðarmaður og hjálparhella stjórnmálaforingja – alveg eins og þeir gerast bestir. Tryggur og trúr, mátulega hæverskur, alltaf brosandi og jákvæður, hvað sem á gengur. Þau bættu hvort annað svo sannarlega upp, hann og Lynn.

Hallgrímur Ólafsson lætur lítið yfir sér, en hann er ómótstæðilegur í hlutverki fyrrum eiginmanns Donnu. Heiðarlegur og einlægur alveg eins og hún. Það var í eina skiptið, sem ég grét á sýningunni, þegar ég heyrði hann svara áleitnum spurningum höfundarins. Mikið átti hann bágt, blessaður drengurinn. Alveg ekta.

Það hvarflaði að mér í upphafi sýningar, að það hefði kannski farið betur á því að flytja þetta leikrit í útvarpi. Persónur voru aldrei fleiri en tvær á sviðinu í einu, flestir sátu og töluðu út í salinn, til höfundar, sem birtist á myndbandi aftast í salnum. Textinn er auk þess svo samansaumaður, að maður má ekki missa af einu orði, svo stútfullur af tilvísunum og tvíeggja merkingum, að maður verður að einbeita sér að fullu, svo að ekkert fari úrskeiðis.

En þá hefðum við líka misst af umgerðinni, sem er mjög einföld en spennandi. Ilmur Stefánsdóttir hefur vakið athygli fyrir nýstárlegar hugmyndir, sem hún hefur flutt með sér inn í leikhúsið. Að þessu sinni býr hún til einfaldan ramma utan um spegil, sem gerir áhorfendur að þátttakendum í leikverkinu. Við erum alltaf í mynd og minnt á það, að við erum í leikhúsi að höfundi viðstöddum og erum í rauninni að hlusta á samtöl, viðtöl eða yfirheyrslur, sem áttu sér stað í raunveruleikanum. Tónlist Halls Ingólfssonar gefur sýningunni dramatískan undirtón.

Jón Páll Eyjólfsson er greinilega efnilegur leikstjóri.. Honum virðast takast að fá það besta út úr hverjum og einum, án þess að hver skyggi á annan. Og þá hefur ekki lítið áunnist. Það er gleðiefni, að hæfileikafólk er að snúa sér æ meir að leikstjórn, því að það er sama hversu góður leikari maður er, ef heildarmyndin klikkar, þá er til einskis unnið.