Kandíland: Nakinn sannleikur – Kattliðugir og mjúkir líkamar

Íslenska hreyfiþróunarsamsteypan sýnir í Kassanum KANDÍLAND

Höfundur: Íslenska hreyfiþróunarsamsteypan
Leikstjórn: Víkingur Kristjánsson
Dramatúrg: Ásgerður G. Gunnarsdótir
Flytjendur: Katrín Gunnarsdóttir, Melkorka Sigríður, Ragnheiður Bjarnarson, Steinn Ólafur Gunnarsson og Vigdís Eva Guðmundsdóttir
Sviðsmynd: Eirún Sigurðardóttir
Hljóðmynd: Gísli Galdur Þorgeirsson

Tónlist: Queen
Texti: William Shakespeare í þýðingu Helga Hálfdánarsonar
Framleiðandi: Arna Ýr Sævarsdóttir
Aðstoð við gerð sýningar: Hannes Óli Ágústsso


Kandíland

Af hverju í ósköpunum þetta fráhrindandi nafn “hreyfiþróunarsamsteypan? Satt að segja varð mér fyrst hugsað til hreyfihamlaðra, síðan til þróunarsamvinnustofnunar, og loks til steypustöðvarinnar BM Vallár. (Kannski eilífri fjarveru minni af landinu um að kenna). En að þetta væri samheiti yfir lifandi mannverur, sem eftir margra ára samstarf, væru orðnar eins og steyptar í sama mótið, hópur listafólks sem hefði þróað með sér sérstakt tjáningarform, sem er bæði frumlegt og ferskt, kom skemmtilega á óvart.

Það var ekki fyrr en ég var komin langleiðina heim eftir sýninguna, að það rann upp fyrir mér, hvílík vinna hlýtur að liggja að baki svona óhefðbundinni leið til að tjá hug sinn.. Þetta nýjasta verk samsteypunnar – eða öllu heldur gjörningur – krefst mikillar yfirlegu og endalausra pælinga. Bara það að voga sér að rífa meistarann sjálfan á hol, henda á haugana orðskrúði, mælgi, útúrdúrum og hliðarplottum sýnir mikla dirfsku og sjálfstraust. Og hvað þá að bera síðan á borð beinin ber – til þess að við megum sjá með eigin augum, hvað það var sem rak Shakespeare áfram í ritum sínum um stríðandi klíkur og ættarsamfélög miðalda, og hvað það var sem allt snerist um – þá sem nú – valdagræðgi.

Sýningin tekur rúma klukkustund og það verður að segjast eins og er, að hinn samsteypti hópur hélt áhorfendum föngnum frá upphafi til loka. Honum tókst, með því að fara sparlega með orð (sem Shakespeare eru svo mikilvæg), en svo til eingöngu með hreyfingum líkama sinna, að koma til skila þessari einu hugmynd, sem verkið byggist á – valdaþörf manneskjunnar, þessum drifkrafti, sem öllu ræður, spillir og sundrar, og sem að lokum er ekki neitt og um ekki neitt. Verkið heitir Kandíland, dæmigert. Kandísykur er góður á bragðið, en bráðnar á tungunni og leysist upp á samri stundu. Þannig er líka valdið, varir stutt og skilur ekkert eftir nema óbragð í munninum.

Ég mundi ekki skilgreina verkið sem dans, þó að flestir þátttakendur séu lærðir sem slíkir. Í mínum huga var þetta meira í ætt við tilraun með líkamann. Hversu langt getur maður gengið í hinu afbrigðilega án þess að ofbjóða, hvernig getur maður tjáð sig með líkamanum án orða? Hvað sagði ekki maðurinn um daginn? Hann sagðist hlusta með augunum. Það er einmitt það sem við gerðum, við hlustuðum með augunum, því að hreyfingarnar töluðu sínu máli.

Mér varð hugsað til gjörningalistamanna fyrri ára, eins og t.d. Þeirra bræðra Sigurðar og Kristjáns Guðmundssona, Hreins Friðfinnssonar og fleiri nýlistarmanna. Þessi sýning samsteypunnar er í fullkomnu samhengi við gjörninga þeirra. Eini munurinn er sá, að verk þeirra voru statisk, föst í ramma og hreyfa sig hvergi. En þetta verk samsteypunnar er dýnamiskt, sprottið upp úr gjörningum byltingarmannanna, en hreyfanlegt, fullt af lífi og meiningum. Og erum við þá komin aftur í hring, eins og í Kandílandi? Byrjum aftur þar sem við endum? Gjörningur lifir bara í núinu, á ekkert líf utan sviðs.

Hópurinn er steyptur í sama mót, það leynist engum. Hvert og eitt hefur yfir að ráða kattliðugum, mjúkum og sveigjanlegum líkama, sem tjáir sig skýrt, svo allir megi skilja. Talandi líkamar, talandi sama tungumálið, með sömu hugsun í kollinum. Þetta komst allt til skila. Samþjappað, einfalt og glæsilegt.

Mér fundust dansatriðin við tónlist Queen góð, án þess að vera beint glæsileg. Enginn danshöfundur er nefndur í prógramminu og skyldi maður því ætla, að leikendur sjálfir hafi samið allar hreyfingar – nema það sé leikstjórinn, Víkingur Kristjánsson. Víkingur er að sækja í sig veðrið. Að vísu mjög aðlaðandi leikari, en líka liðtækur leikstjóri, sem hefur sannast á undanförnum misserum. Ekki veitir af, því að við eigum allt of marga frábæra leikara, sem fá ekki tækifæri vegna skorts á leikstjórum.