Lér konungur: Samtíma ádeila eða skrípalæti og skrúðmælgi

Þjóðleikhúsið frumsýnir: Lé konung eftir William Shakespeare í þýðingu Þórarins Eldjárns
Leikstjóri: Benedict Andrew
Leikmynd: Börkur Jónsson
Búningar: Helga I. Stefánsdóttir
Tónlist: Hildur Ingveldardóttir Guðnadóttir
Hljóðmynd: B.J. Nilsen
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Dramatúrg: Matthew Whittet
Aðstoðarleikstjóri: Friðrik Friðriksson


Arnar Jónsson fer með hlutverk Lés konungs. Frá Þjóðleikhúsinu

Í forvitnilegu viðtalii Friðriku Benónýsdóttur í vikunni sem leið við Arnar Jónsson (Fréttablaðið, 24. des,), vitnar hann í pólska heimspekinginn Jan Kott, en sá maður öðlaðist heimsfrægð um miðja seinustu öld með bók sinni: Shakespeare Our Contemporary. Jan Kott var fæddur í Varsjá árið 1914 og upplifði á eigin skinni gyðingahatur og ýkta þjóðernishyggju, sem endaði í vitfirringu nazismans og síðar Stalíns. Hann nam lögfræði við háskólann í Varsjá, en sem barn síns tíma gat hann aldrei slitið hugann frá upplifun unglingsáranna, og sú reynsla setti mark sitt á allt sem hann lét frá sér fara til æviloka.

Jan Kott var til dæmis þeirrar skoðunar, að einræðisherrar vorra tíma ættu sér allir fyrirmyndir í þekktustu persónum Shakespeares. Hamlet, Óþelló, Macbeth, Jagó og sjálfur Lér væru endurbornir í Stalín og Hitler – helsjúkir menn, sem létust stjórnast af gæðgi og sjálfelsku – og lifðu í stöðugum ótta við að missa valdið í hendur annarra. Kalda stríð var í hámarki á þessum tíma og hugmyndir Kotts féllu eins og sprengjur inn í leikhúspælingar Evrópu. Þær hleyptu nýju og fersku lífi í uppfærslur og umræður um þetta höfuðskáld enskumælandi þjóða. Peter Brook reið á vaðið með sýningu á Lé konungi í Royal Shakespeare Company árið 1962.

Það kemur fram í viðtali Friðriku, að Arnar hefur tileinkað sér skoðanir Kotts og lagt grunninn að túlkun sinni í anda hans. Hann gengur svo langt að segja á einum stað, að það megi “finna ófá dæmi” um valdamenn af þessari tegund “í okkar eigin umhverfi”. Maður líttu þér nær. Hann talar um skrípaleik, sem snýst upp í harmleik .Mér finnst við þurfa að líta til þessa, þegar við fjöllum um leik Arnars. Þetta er grundvallaratriði varðandi skilaboð leikritsins.

Annað vil ég líka nefna í upphafi sem eina af grunnforsendum atbuurðarásarinnar – en það er undarlegt samband föður við börn sín. Lér konungur á þrjár dætur, en þær eru honum sem ókunnar manneskjur. Hann veit ekkert um þeirra innri mann, hvers konar karakter þær hafa að geyma á baki við fallegt bros.. Hann hefur greinilega aldrei talað við þær, aldrei hlustað eða lagt sig fram um að kynnast þessum afkomendum sínum, erfingjum krúnunnar. Yngsta dóttirin er að vísu dekurbarn föður síns – eins og títt er um yngstu börn – en engu að síður er hún honum ókunn líka – hún kann ekki að ljúga eða smjaðra fyrir honum og því afneitar hann henni. Eflaust hefur Lér frá upphafi litið á dætur sínar sem peð í valdatafli og fjárfestingu til framtíðar. Hann hefur látið aðra um uppeldi þeirra. Og þar liggja mistök hans – upphaf ógæfunnar.

Það vakti hins vegar athygli og áleitnar spurningar áhorfenda, að konungur smellti löngum og ástríðufullum kossi á varir dætra sinna að skilnaði (þ.e.a.s. Nema Kordelíu). Hvað er verið að gefa í skyn, því að í handritinu er ekkert minnst á koss? Og hver átti að hafa kennt dætrum konungs klæki atvinnuhórunnar heima í höllinni? Var verið að gefa í skyn, að konungur hefði girnst líkama dætra sinna og þar með glatað trúnaðarsambandi við þær strax í æsku? Var það skýringin á fjarlægðinni á milli föður og dætra? Var þar kannski kominn lykillinn að hruni konungsveldisins?

Allavega er kóngsi ekki fyrr búinn að sleppa höndum af valdinu og afhenda tveimur elstu dætrunum lyklavöldin að ríkinu, að þær snúa við honum bakinu og vísa á dyr. Hann á hvergi höfði að halla. Í örvæntingu og eftirsjá leitar hann nú yngstu dótturinnar, sem hann þorir samt ekki að mæta augliti til auglitis.Að lokum sturlast hann af sorg og skömm.

Tvisvar verður gamall maður barn.

Yfirstéttarkonur á Miðöldum áttu ekki margra kosta völ í lífinu – annaðhvort voru þær settar á stall sem eins konar kynlaus stofustáss, ósnertanlegar og óumbreytanlegar – eða hurfu á bak við þykka veggi klaustursins og áttu aldrei afturkvæmt. Það er því skemmtileg nútímaleg tilbreyting að, að Goneríl (Margrét Vilhjálmsdóttir), og Regan (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) – tvær eldri dætur Lés – spýta óvænt lífi í lögulega kroppa sína (með leyfi leikstjóra, væntanlega) og fara á kostum sem slyngar, metnaðargjarnar, graðar og gráðugar konur, sem heimta völd og peninga, hvað sem það kostar. Þær hafa til að bera alla þá kosti, sem prýða mega unga menn!( Hvað var ekki sagt um útrásarvíkingana okkar?) Hlutverkunum er snúið við, nú er komið að okkur, stelpur! Bæði Margrét og Vigdís eru flottar í gervum nornanna – fullkomnir djöflar í konumynd. Höfðu verið gefnar til fjár, en höfðu litla löngun til að liggja með eiginmönnum sínum. Enda báðar illa giftar, önnur góðlátlegri rolu (Ólafur Darri Ólafsson), en hin gerspilltu úrþvætti (Baldur Trausti Hreinsson). Báðir reyndu að gera sér mat úr litlum hlutverkum og tókst það, þó að mér finnist Ólafur Darri alltof góður biti fyrir svona fáfengilega persónu. En hvað um það, dömurnar báðar voru sem sagt enn á veiðum. Þær léku af sannfærandi ástríðu, veltu sér upp öllu því sem texti Shakespeare gefur í skyn, en segir ekki berum orðum. Gáfu hlutverkunum dýpt og óræði, sem vekur í senn áhuga og spennu.

Kordelía sjálf (Álfrún Örnólfsdóttir) er máluð fölari og færri litum af höfundarins hálfu. Hún hefur bara einn streng að strjúka og það gerir henni erfitt fyrir.Gerir hana að hálfgerðri vælukjóu. Álfrún hefur svo sannarlega verið að sækja í sig veðrið að undanförnu, gullfalleg stelpa með sprúðlandi talent (eins og hún á kyn til), en virðist vera að festast í einhæfum góðu stelpu hlutverkum, svo sem eins og Kordelíu, sem endurtekur í sífellu. Jú, jú, boðberi hins góða – sönn og hreinskiptin – en skyldi ekki leynast breyskt eðli ættarinnar undir sakleysislegu yfirborðinu?

Fyrir þá sem ekki höfðu kynnt sér Lé konung á ensku eða þá í nýrri þýðingu Þórarins Eldjárn, varð skyndileg innkoma jarlsins af Glostri (Eggert Þorleifsson) og sona hans tveggja, skilgetins (Atli Rafn Sigurðarson) og óskilgetins (Stefán Hallur Stefánsson), alger ráðgáta. Hvernig áttu unglingarnir í hópnum að átta sig á því, að það væru tvö plott í gangi, tvær sögur? Það var ekki fyrr en í hléinu, sem tókst að skýra fyrir þeim samhengið. Og ég hugsa, að þetta hafi flækst fyrir fleirum en unglingum. Lér konungur er ekki skyldulesning í framhaldsskólum hér, eins og hann er auðvitað í landi skáldsins. Þar þekkir hvert mannsbarn, sem á annað borð hefur notið boðlegrar skólagöngu, öll helstu verk Shakespeares og eiga að skilja mismunandi plott, undirhyggju, griðrof og svik, sem mynda söguþráðinn.

Auk þess var Eggert Þorleifsson augljóslega ekki rétti maðurinn í hlutverk jarlsins af Glostri, og mér finnst það sóun á stórkostlegum hæfileikum Eggerts að leggja það á hann að leika veiklundað, trúgjarnt góðmenni, sem hefur ekkert annað til málanna að leggja en að ásaka sjálfan sig í alltof löngu máli. Gangan langa, upp og niður, hring eftir hring, á auðu sviðinu í upphafi seinasta þáttar dró allan kraft úr sýningunni, sem vannst ekki að fullu upp aftur fyrr en í blálokin með innkomu konungsins. Þrátt fyrir að maður horfði með skelfingu inn í tómar augntóftir jarlsins, þá tókst honum hvorki að vekja samúð né spennu. Okkur var sama um hann, hvernig sem á því stóð.

Hins vegar hafði maður samúð með þeim syni, skilgetnum þó, sem í lokin stendur aleinn á berstrípuðu sviðinu og talar til okkar sem hugsanlegur bjargvættur þjóðar – lífsreyndur með gott hjartalag og heiðarlegan ásetning. Fæddur foringi. Atli Rafn sýnir á sér margar hliðar í flókinni persónusköpun, en ótrúlegastur er hann, þegar hann rífur utan af sér spjarirnar og umbreytist í Tomma klikk – aumkunarverðan umrenning, sem hvergi á sér athvarf, grindhorað og fatalaust fatlafól. Breytingin er eins og sjónhverfing, jaðrar við að vera gjörningur per se. Mikið teater, glæsilegt.

Óskilgetni sonurinn, Játmundur fær makleg málagjöld, enda fæddur af hóru, sem gleymdi að kenna honum góða siði – eða kenndi honum góða siði til breiða yfir hið sanna eðli sitt. Stefán Hallur hefur haft mörg tækifæri í vetur, og hann bætir svo sem engu við að þessu sinni. Glæsilegur að vanda og nær vel að túlka fláttskap og undirlægjuhátt hins óæðri sonar.

Það er svipaða sögu að segja af þeim Eggerti Þorleifssyni og Pálma Gestssyni – þeir eru báðir brillian gamanleikarar, og Pálma er maður búinn að fylgjast með á skjánum í marga áratugi. Það er alltaf erfitt fyrir svona menn (ég man bara eftir örlögum Bessa) að fara yfir í dramatík og ætla að sannfæra áhorfendur um trúverðugleik í tragedíu. Það gengur mjög sjaldan. Það er líklega þess vegna sem ég sætti mig ekki fullkomlega við Pálma í hlutverki hins göfuga jarls af Kent. Ég veit vel að Pálmi er göfugmenni (enda að vestan) og leggur sig allan fram, einlægur, hógvær og umhyggjusamur við konung sinn – en engu að síður bara Pálmi (held jafnvel, að hann hafi verið í gallabuxunum sínum á sviðinu).

Og þá á ég eftir að nefna fíflið sjálft (Ólafía Hrönn Jónsdóttir). Einn unglingurinn meðal gesta minna á frumsýningu sagði í lok sýningar, “Fíflið hvarf eftir hlé, amma, og þá var ekkert gaman lengur”. Og þetta var að vissu leyti alveg rétt. Að loknu hléi klæddi Ólafía Hrönn sig úr trúðabúningnum og tók að sér hlutverk hjúkrunarkonunnar – eða öllu heldur hlutverk sjúkraliðans. Hún sagði ekki orð lengur, heldur lét sér nægja að leiða sjúka og aldraða um sviðið og sá um að hlynna að þeim í bágindum sínum. Kannski var fíflinu um megn að horfa upp á konung sinn gefast upp og gráta eins og barn. Fíflagangurinn átti ekki við lengur, hvað þá að halda áfram að segja kónginum sannleikann. En Ólafía fór algerlega á kostum, meðan hún lét svo lítið að tala til okkar af sviðinu. Hún heillar gesti með hispurslausri framkomu og skýrum talanda. En hún talar ekki bara með munninum, heldur með öllum líkamanum, þessum stóra alltumvefjandi líkama. Hún var reyndar líka með hvern gjörninginn á fætur öðrum, og þegar hún að lokum barði trumbur og hélt takti, meira að segja líka, þá ætlaði allt að springa. Ólafía er engum lík.

Mér er það enn minnisstætt, þegar ég hitti Arnar Jónsson í fyrsta sinn. Við vorum bæði að hefja nám við Leiklistarskóla Þjóðleikhússins, og hann var strákurinn að norðan. Ég sá það strax í upphafi, að Arnar mundi ekki læra neitt í þessum skóla. Hann kunni allt. Ekki af því að hann væri sannfærður um það sjálfur, heldur af því að hann var fæddur leikari og var með þetta allt á hreinu – góða fýsík, frábæra raddbeitingu og óaðfinnanlega sviðstækni. Hvað var hægt að kenna svona manni? Jú, tukta hann til, rífa hann niður. En það tókst aldrei. Strax á öðru ári var hann kominn á fjalirnar með aðalhlutverk í Gísl, eftir Brendan Behan.

Og þar sem ég var að horfa á Arnar þetta kvöld, sitjandi á þriðja bekk, í návígi við leikarana, þá fannst mér eins og þetta hefði allt gerst í gær. Drengurinn hafði ekkert breyst, krafturinn var sá sami, tæknin enn glæsilegri, minnið óbrigðult, röddin voldug og björt eins og forðum daga. Það sem kannski á skorti í léttleika og ungæðingshætti var bætt upp með dýrmætri reynslu liðinna ára – sársauka, söknuð, sorg, kvalir, vonbrigði – allt það óvænta og óumbeðna, sem endanlega gerir okkur einhvers virði. Arnar var að uppskera, svo sem til var sáð. Allt kvöldið var hann að gefa – miðla öðrum af því sem hann hefur sjálfur lært af lífinu.Það var eins og hann talaði frá eigin hjarta, gamall maður, saddur lífdaga.

Börkur Jónsson er höfundur leikmyndarinnar og Halldór Örn Jónsson annaðist lýsingu. Þeirra samvinna fellur eins og flís við rass. Þeir fara ótroðnar slóðir. Blöðrurnar lofuðu góðu og gáfu okkur bjartsýnar hugmyndir um framhaldið. Mér fannst rigningin líka skemmtilegur effekt, þótt þessi gróðrarskúr væri náttúrlega ekkert til samjöfnuðar við ofviðrið, sem Shakespeare sá fyrir á ögurstundu í lífi gamals manns.

Mér fannst líka verulega smart að rífa burt allt glysið og láta skína í bera veggi hússins á glæru ljósi. Þá vorum við að komast til botns í verkinu og umhverfið spilaði fullkomlega undir. Hins vegar gat ég ekki sætt mig við vegavinnuskúrinn, sem Börkur hafði látið reisa í þessu nöturlega tómi. Þar gekk hann einum of langt í raunveruleik sínum, að mínu viti. Kassinn var svo hræðilega ljótur og fráhrindandi.Mér varð svo mikið um, að ég missti hæfileikann til að einbeita mér að textanum um stund.

Búningar Helgu voru tímalausir, eins og leikstíllinn krafðist. Sumir kallanna voru óttalega ræfilslegir í krumpuðum gallabuxum, enda áttu þeir svo sem ekkert að virðast glæsilegri en þeir voru af guði gjörðir. Stelpurnar voru hins vegar mátulega glyðrulegar í leðri og blúndudúllum, eins og útrásarkonum hæfir. Tónlist Hildar Ingveldardóttur Guðnadóttur vakti mikla athygli. Hildur sat í stúkunni og töfraði fram undurfagra tóna, sem fylltu upp í tómarúmið og dró úr harðneskjunni í sviðsmyndinni.

Þýðing Þórarins Eldjárn hljómar eins og tónlist af himnum ofan. Mikið skelfing er maðurinn gott skáld. En svo má spyrja, er virkilega þörf á því að þýða Shakespeare á nútímamál? Eru klassikerarnir – Shakespeare sjálfur og Helgi Hálfdánarson orðnir úreltir? Ná þeir ekki lengur eyrum okkar nútímamanna nema fyrir atbeina seinni tíma þýðinga? Ég bar þetta undir unglingana, barnabörnin mín, sem ég bauð með mér á sýninguna, og þeirra svör voru afdráttarlaus.Já, það þarf að þýða hann. Einn gekk svo langt að spyrja, hvort það mætti ekki rokka Lé kallinn í Laugardalshöllinni! Bara hugmynd!